Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

9. maí 2019 Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir dómsmálaráðherra

Ávarp dómsmálaráðherra á ráðstefnu um réttarstöðu í Háskólanum í Reykjavík 9. maí 2019

Góðir gestir,

Það eru ekki nema um tvö ár síðan fjöldi kvenna kvaddi sér hljóðs í amstri dagsins og greindi frá kynferðisofbeldi og kynferðislegu áreiti sem þær höfðu orðið fyrir á lífsleiðinni. Sögurnar skiptu hundruðum, létu engan ósnortinn og vörpuðu ljósi á raunveruleika sem hafði að mörgu leiti verið hulinn fram til þessa. Raunveruleika þar sem ofbeldi þreifst í skugganum, leiðin út virtist óskýr og torfarin og áheyrn yfirvalda eða samborgara langt undan. Þegar hulunni var loks svipt af þessari sviðsmynd var samtakamátturinn áþreifanlegur; breytinga var þörf. Umræðan tók á sig ýmsar myndir, græddi gömul sár og opnaði augu margra, en reyndist umfram allt sterkt hreyfiafl innan réttarvörslukerfisins. Það skiptir nefnilega sköpum að þeir sem telja á sér brotið og vilja leita réttar síns eigi greiða leið til lögreglunnar og beri traust til þess að farið verið með mál þeirra af nærgætni og öryggi þar til niðurstaða fæst.

Það hefur því orðið mikil vitundarvakning í samfélaginu þegar kemur að kynferðisbrotum og mikilvægi þess að ráðast að rót vandans, taka vel utan um þolendur og tryggja skjóta meðferð mála innan réttarvörslukerfisins. Kærum til lögreglunnar vegna kynferðisbrota hefur fjölgað að undanförnu og má leiða líkum að því að það skýrist af auknu trausti til lögreglu og vaxandi sjálfstrausti þolenda til að leita réttar síns.

Lögreglan hefur þegar haft frumkvæði að því að leita leiða til að aðstoða brotaþola betur, t.d. hefur lögreglan á Norðurlandi unnið að tilraunaverkefni með Sjúkrahúsinu á Akureyri og fleirum þess efnis að kalla til sálfræðinga á lögreglustöðina eftir skýrslutöku í alvarlegum kynferðisbrotamálum til að veita þolanda stuðning og leiðbeina honum um næstu skref, sér að kostnaðarlausu. Þá gerðu þau einnig breytingu á því hvernig þolendum kynferðisbrota er kynnt niðurstaðan ef um niðurfellingu máls er að ræða en áður hafði þolanda aðeins verið sent bréf með niðurstöðunni. Nú er þolendum kynnt niðurstaðan munnlega og gefst því kostur á samtali við lögreglu sem mörgum reynist mikilvægt. Þetta hefur reynst vel og er til skoðunar hvort önnur lögregluembætti taki upp sama verklag.

Þegar Sjálfstæðisflokkur, Vinstri hreyfingin grænt framboð og Framsóknarflokkurinn hófu ríkisstjórnarsamstarf sitt var kveðið á um það strax í stjórnarsáttmála að gera þyrfti miklar úrbætur á meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu, styrkja innviði þess, styrkja stöðu brotaþola og samhæfa þjónustu við brotaþola á landsvísu. Rýna þyrfti lagaumhverfi kynferðisbrota með það að markmiði að styrkja stöðu kærenda brotanna og fullgilda þyrfti Istanbúl-samninginn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum og heimilisofbeldi. Samningurinn var einmitt fullgiltur á síðasta ári en þetta er fyrsti bindandi samningurinn sem tekur heildstætt á baráttunni gegn ofbeldi gegn konum.

Í byrjun árs í fyrra kynnti dómsmálaráðherra svo fullgerða aðgerðaráætlun um meðferð kynferðisbrota í réttarvörslukerfinu. Aðgerðirnar snerta mismunandi þætti réttarvörslukerfisins, auk aðgerða er varða brotaþola, sakborninga, forvarnir og fræðslu. Áætlunin var unnin af starfshópi sem Ólöf Nordal heitin, þáverandi dómsmálaráðherra, setti á laggirnar - en það er gaman að segja frá því að ég tók þátt í þeirri vinnu á sínum tíma sem aðstoðarmaður ráðherrans og þykir því ánægjulegt að sjá hve vel málið hefur verið unnið áfram, klárað og komið í framkvæmd. Ég mun fylgja þessari vinnu vel eftir en áætlunin er fullfjármögnuð í fjármálaáætlun.

Á grundvelli þessarar áætlunar hefur þegar verið gripið til þess að efla málsmeðferð kynferðisbrota hjá lögreglunni. Yfir 200 m.kr. viðbótarfjármagni var veitt til þess að bæta við stöðugildum hjá lögreglu, alls fimmtán nýjum stöðugildum um land allt, með það að markmiði að öll embættin væru í stakk búin til að sinna rannsókn og meðferð kynferðisbrota. Lagðar voru rúmlega 40 m.kr. til viðbótar til uppfærslu á verklagsreglum og rannsóknarbúnaði hjá lögreglu. Þá var embætti héraðssaksóknara einnig styrkt um tvö ný stöðugildi til að efla meðferð kynferðisbrota hjá embættinu. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu og embætti ríkissaksóknara var einnig styrkt með tilliti til endurmenntunar lögreglu og ákærenda sem þarf að efla á þessu sviði. Þetta hefur þegar skilað sér í styttri málsmeðferðartíma og vandaðri rannsókn brota.

Á næstu þremur árum verður styrkari stoðum einnig rennt undir skilvirkt og öruggt gagnaflæði milli lögreglu og ákæruvalds ásamt miðlun gagna milli ákæruvalds og dómstóla og milli lögmanna og réttargæslumanna sem koma að málum. Þegar er hafin könnun á því hvernig koma megi upp vefsvæði fyrir brotaþola, sakborninga og málsvara þeirra þar sem má fylgjast auðveldlega með gangi máls í kerfinu.

Þá var í byrjun árs opnuð þjónustumiðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, að fyrirmynd þjónustumiðstöðvarinnar Bjarkarhlíðar sem staðsett er í Reykjavík. Þjónustumiðstöðvunum er ætlað að samhæfa, á einum stað, þjónustu og úrræði fyrir fullorðna þolendur ofbeldis; þolendur kynferðisofbeldis, ofbeldis í nánum samböndum eða í mansalsmálum og/ eða vændi. Þjónustan er öllum aðgengileg en meginmarkmiðið er að brotaþolar fái á einum stað þá þjónustu sem þeir þurfa í kjölfar þess að hafa orðið fyrir ofbeldi. Þessi úrræði hafa reynst þolendum ofbeldisbrota vel og greitt leið þeirra að réttarkerfinu og þeirri þjónustu sem þeir þurfa á að halda. Fjölgun þolendamiðstöðva undirstrikar þann vilja stjórnvalda til að leggja sitt að mörkum til að þolendum kynferðisbrota sé veitt nauðsynleg og sjálfsögð aðstoð.

Í kjölfar þess að aðgerðaáætlun um bætta meðferð kynferðisbrota var kynnt skipaði forsætisráðherra stýrihóp, sem hefur það hlutverk að vinna að heildstæðum umbótum að því er varðar kynferðislegt ofbeldi, en hann stendur einmitt að þessari ráðstefnu í samstarfi við Háskólann í Reykjavík. Í hópnum sitja fulltrúar sex ráðuneyta, þar á meðal Svala Ísfeld Ólafsdóttir, sérfræðingur dómsmálaráðuneytisins, en hún hefur einnig það hlutverk að fylgja eftir samræmingu málsmeðferðar kynferðisbrota á landsvísu á grundvelli aðgerðaráætlunarinnar, ásamt því að hefja endurskoðun á ákvæðum almennra hegningarlaga um kynferðisbrot og önnur ofbeldisbrot í samræmi við áætlunina.

Stýrihópurinn, undir stjórn Höllu Gunnarsdóttur, hefur unnið mikilvægt starf og ég vonast til að saman takist okkur að ná enn betri árangri í baráttunni gegn ofbeldi. Hópurinn hefur til að mynda fengið Hildi Fjólu Antonsdóttur réttarfélagsfræðing til að skoða réttarstöðu brotaþola á Íslandi og bera hana saman við réttarstöðu þessa hóps á hinum Norðurlöndunum á réttarfélagsfræðilegum og réttarpólitískum grunni. Niðurstöðurnar verða kynntar hér á eftir og reynast eflaust gott innlegg inn í þá vinnu sem framundan er. 

Góðir gestir.

Nú ríður á að missa ekki þann skriðþunga sem verið hefur í þessum málaflokki heldur byggja á honum, halda áfram að tala saman til að dýpka þekkingu okkar og sýna samhug í verki. Ofbeldi má aldrei mæta af léttuð.

Takk fyrir.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum