Hoppa yfir valmynd
30. mars 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar fagnað í Reykjavík

Ásmundur Einar Daðason - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra skrifar:

Áætlað er að um 60 milljónir hermanna hafi tekið þátt í fyrri heimsstyrjöldinni sem geisaði á árunum 1914-1918. Fórnarlömbin þegar yfir lauk voru níu milljónir hermanna og sex milljónir óbreyttra borgara. Á síðustu mánuðum stríðsins geisaði Spánarveikin. Talið er að hún hafi valdið dauða á milli 50 til 100 milljóna manna. Íslendingar fóru ekki varhluta af þessum hamförum. Afkomendur Íslendinga í Kanada voru í herjum bandamanna. Aðdrættir á nauðsynjavöru urðu stórum erfiðari og Spánarveikin tók sinn toll á Íslandi eins og í öðrum ríkjum.

Félagslegt ranglæti leiðir til árekstra

Stríðsátökum lauk á friðardaginn 11. nóvember 1918. Formlegur endi var bundinn á styrjöldina með friðarsamningunum sem kenndur er við Versali í Frakklandi. Að beiðni samtaka launfólks í nokkrum ríkjum samþykkti friðarráðstefnan í París árið 1919 að stofna nefnd til að fjalla almennt um vinnurétt. Nefndin hafði sérstöðu vegna þess að í henni áttu ekki aðeins sæti fulltrúar ríkisstjórna heldur einnig talsmenn atvinnurekenda og launafólks. Að loknu tíu vikna starfi afgreiddi vinnumálanefndin skjal sem byggt var á breskum drögum, sem 11. apríl 1919, varð að XIII. kafla Versalasáttmálans sem var undirritaður 28. júní sama ár. Í kaflanum er kveðið á um það að komið skuli á fót sérstakri stofnun er hafi það hlutverk að reyna að ráða bót á þeim félagslegu vandamálum sem öll ríki eigi við að stríða og aðeins verði sigruð með sameiginlegu félagslegu átaki þjóðanna. Sérstaklega er tekið fram að varanlegur friður verði ekki tryggður nema félagslegu réttlæti sé fyrst komið á innan þjóðfélaganna. Óréttlæti veldur árekstrum sem leiðir til styrjalda þjóða í milli. Í því skyni að koma á félagslegu réttlæti viði stofnunin að sér upplýsingum um atvinnumál og ástand í félagsmálum, ákveði lágmarkskröfur og samræmi þær í hverju landi. Þessi kafli Versalasamningsins er kjarninn í stofnskrá Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (International Labour Organization – ILO). Síðan er liðin ein öld.

Frá stofnun íslenska lýðveldisins hefur erlent samstarf stjórnvalda á sviði félags- og vinnumála vaxið mikið að umfangi. Þar vegur þyngst þátttaka í samstarfi  Norðurlandanna og samvinna við aðildarríki Evrópuráðsins sem hófst á sjötta áratug síðustu aldar. Aðild að alþjóðlegu félagsmálasamstarfi hófst áratug fyrr eða árið 1945 þegar umsókn Íslands að Alþjóðavinnumálastofnuninni var samþykkt á Alþjóðavinnumálaþinginu sem haldið var í París. Í öllum fastastofnunum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar eiga sæti fulltrúar atvinnurekenda, launafólks og ríkisstjórna. Samstarf þessara þriggja aðila er einstætt fyrir stofnun á vegum Sameinuðu þjóðanna og eitt af grundvallaratriðum í starfseminni.

Mikið áunnist

Á aldarafmæli Alþjóðavinnumálastofnunarinnar verður starf hennar og árangur metinn. Farið verður yfir hinar tæplega 190 samþykktir og rúmlega 200 tilmæli sem Alþjóðavinnumálaþingið hefur afgreitt á aldarlöngum starfsferli og kannað hvort og hver áhrifin hafa orðið. Ekki fer á milli mála að sumt hefur gengið miður en margt hefur áunnist. Langflest ríki hafa ákvæði í lögum sem tryggja réttinn til að stofna félög til að berjast fyrir sameiginlegum hagsmunum. Sama gildir um réttinn til að semja um kaup og kjör. Bylting hefur orðið varðandi skilning á því að starfsmenn verði ekki fyrir heilsutjóni við vinnu sína og að starfsumhverfið sé öruggt. Mikill árangur hefur náðst í því að jafna kjör karla og kvenna þótt víða sé enn pottur brotinn á því sviði. Hugarfarsbreyting hefur átt sér stað að því er varðar vinnu barna. Fjöldi fullgildinga aðildarríkjanna á samþykkt Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um afnám barnavinnu í sinni verstu mynd er til vitnis um þetta. Þörf fyrir lágmarks almannatryggingar er viðurkennd.

Til að undirbúa aldarafmælið var því beint til ríkisstjórna aðildarríkjanna að efna til umræðna um eftirfarandi þætti sem gætu orðið innlegg í stefnumótun fyrir starfsemi Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í nánustu framtíð: Þróun atvinnulífsins og samfélagsins, atvinnusköpun - einnig í þágu þeirra sem standa höllum fæti á vinnumarkaði, breytingar á skipulagi vinnunnar vegna nýrrar tækni og samskipti atvinnurekenda og launafólks o.fl. Ríkisstjórnir Norðurlandanna, í samvinnu við Skrifstofu norrænu ráðherranefndarinnar, Alþjóðavinnumálastofnunina og samtök aðila vinnumarkaðarins, stofnuðu til samstarfsverkefnis af þessu tilefni. Haustið 2017 hófst rannsóknarverkefni sem beinist að breytingum á skipulagi vinnunnar og áhrifum þeirra á norræna vinnumarkaðslíkanið. Enn fremur er sjónum beint að því með hvaða hætti hægt væri að hafa áhrif á framvinduna þannig að sá samfélagslegi árangur sem Norðurlöndin hafa náð á svið félags- og vinnumála glatist ekki. Frá árinu 2016 hafa árlega verið haldnar ráðstefnur um framtíð vinnunnar sem fylgt hafa formennsku í norrænu ráðherranefndinni þar sem tekin hafa verið fyrir afmörkuð verkefni á framangreindum málefnasviðum. Fyrsta ráðstefnan var haldin í Finnlandi árið 2016, önnur í Noregi árið 2017 og sú þriðja í Svíþjóð vorið 2018. Lokaráðstefnan verður haldin í Hörpu 4. og 5. apríl 2019.

Sérstök áhersla á stöðu kynjanna á vinnumarkaði

Á ráðstefnunni í Reykjavík verða kynntar niðurstöður nefndar á vegum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem í eiga sæti þjóðarleiðtogar og sérfræðingar á sviði félags- og vinnumála sem hafa unnið úr skýrslum frá ráðstefnum sem haldnar hafa verið í aðildarríkjum ILO í tilefni aldarafmælisins. Kynnt verður áfangaskýrsla úr rannsókn Norrænu ráðherranefndarinnar um framtíð vinnunnumála  og breytingar á vinnumarkaði (Future of Work) sem unnin er af rannsóknarstofnuninni Fafo í Noregi. Sérstök áhersla verður einnig lögð á umræður um stöðu kynjanna á vinnumarkaðnum. Forstjóri Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, Guy Ryder, flytur erindi á ráðstefnunni og enn fremur hefur nokkrum alþjóðasamtökum verið boðið að senda fulltrúa til að taka þátt. Þeim sem vilja kynna sér nánar viðfangsefni ráðstefnunnar er bent á netsíðuna: ilo2019.is

Greinin birtist í Morgunblaðinu 30. mars 2019

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum