Hoppa yfir valmynd
19. maí 2022 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra við útskrift hjá Hringsjá

Ágætu útskriftarnemendur úr Hringsjá, starfsfólk, skólastjóri og aðrir velunnarar

Hjartans þakkir fyrir að gefa mér tækifæri á að fá að deila þessari mikilvægu stund með ykkur!

Innilega til hamingju með daginn ykkar í dag. Sú menntun sem þið hafið hlotið hér í Hringsjá mun nýtast ykkur vel í framtíðinni – í hverju því sem þið viljið og munið taka ykkur fyrir hendur.

Í dag er málaflokkur menntunar hjá þrem ráðuneytum og fullorðinsfræðslan fluttist frá mennta- og barnamálaráðuneytinu yfir til félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins ekki síst til að tengja málaflokkinn betur við vinnumarkaðinn.

Menntun og aðgangur að námi er eitt öflugasta tækið til jöfnuðar.

Með þátttöku í námi af öllu tagi, aukast líkur á því að fólk fái nýjar hugmyndir, tileinki sér nýja færni og geti þannig nýtt sér tækifærin sem við verðum að tryggja að séu til staðar. Og Hringsjá er eitt af þessum mikilvægu möguleikum til náms.

 

Ef við lítum nokkra áratugi aftur í tímann þá sjáum við að margt hefur breyst. Það er ekki svo langt síðan að reglan var sú að fólk menntaði sig á einu sviði og svo vann það bara á því sviði allan sinn starfsaldur - ef þú varðst kennari þá varstu bara kennari allan starfsferilinn. Og ef fólk varð fyrir slysi, veiktist eða missti vinnuna vegna óviðráðanlegra orsaka þá var ekkert sem greip það formlega og aðstoðaði það við að komast aftur til vinnu.

Í dag er þetta yfirleitt ekki þannig – fólk skiptir örar um starf og á jafnvel góð starfsár á nokkrum sviðum.  Þar fyrir utan þá hefur starfsumhverfið tekið ótrúlega miklum breytingum – ekki síst tæknilega. Og sem betur fer þá eigum við líka – í dag – ýmis úrræði sem ætlað er að styðja fólk til að vera í virkni, í námi og á vinnumarkaði.

Verkefni okkar er alltaf það að reyna að skapa viðeigandi umgjörð í menntakerfinu og á vinnumarkaði.  Í mínu ráðuneyti er fyrirhugað að endurskoða lög um framhaldsfræðslu til að tryggja að framhaldsfræðslukerfið sé í stakk búið til að takast á við þá samfélagsþróun sem er í gangi meðal annars vegna lofslagsbreytinga og tæknivæðingar á vinnumarkaði.

Þessi vinna, sem er að fara af stað núna í vor, verður unnin í breiðu samráði við alla þá sem málið varðar – líka notendur framhaldsfræðslukerfisins – sem við þurfum að hlusta betur á.

Við ætlum að vinna að umbótum á kerfinu því fjórða iðnbyltingin er mætt og íslenskt samfélag hefur þegar tekið breytingum og mun taka miklum breytingum á næstu árum og áratugum – samhliða tæknibreytingum og þróun í atvinnulífinu.

Við þurfum að bjóða upp á viðeigandi og spennandi námstækifæri sem efla grunnleikni og lykilhæfni einstaklingsins og sem nýtist til áframhaldandi náms, til starfsþróunar eða hvers þess sem einstaklingurinn sækist eftir.

Nám þarf að vera áhugavert, aðgengilegt, sveigjanlegt og einstaklingsmiðað og það á að valdefla einstaklinginn.

Og það er valdeflandi að ljúka áfanga eins og þeim sem þið eruð að gera í dag.

---

Um leið og við förum í endurskoðun á umgjörð framhaldsfræðslunnar þá þurfum við líka að hrista upp í vinnumarkaðinum.

Við verðum að vinna að því að vinnumarkaðurinn rúmi okkur öll. Í dag er það ekki svo – *Hér legg ég til að þú segir frá atvinnuauglýsingunum sem kalla eftir framúrskarandi samskiptafærni.

Ég skynja samt vilja til breytinga og nýja strauma á vinnumarkaði. Þessir straumar snúast um raunverulegan vilja til að tryggja hér aðgengilegri vinnumarkað fyrir öll sem hér búa, fyrir fatlað fólk, fyrir innflytjendur, fyrir fólk sem hefur veikst eða ekki náð að fóta sig í lífinu. Ég vil búa í samfélagi þar sem við eigum öll raunhæfa möguleika til að uppgötva og nýta hæfileika sína í námi og á vinnumarkaði og ef svo ber undir snúa aftur til vinnu eftir veikindi á eigin forsendum. Mér finnst samstaða vera að myndast meðal stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og hagsmunasamtaka og að gera byltingu í þessum efnum.

Fyrir mitt leyti get ég sagt að ég mun leggja allan þunga á að tryggja að hér verði til sveigjanlegri, heilbrigðari og traustari vinnumarkaður sem á til fjölbreytt störf fyrir okkur öll. 

 

En það er ekki nóg að hafa sveigjanlegan vinnumarkað – við þurfum líka að tryggja það að við grípum fólk fyrr – þegar eitthvað gerist sem getur orðið til þess að fólk detti af vinnumarkaði.  Hér getum við gert svo margt.

 

*Í því sambandi langar mig að segja ykkur sögu. Snemma á þessu ári fékk ég bréf frá konu sem lýsti stöðu sinni þannig:

Ég er með sjúkdóm sem hefur þróast þannig að ég á erfitt með gang og kom oft fyrir að ég gat ekki stundað vinnu vegna veikinda. Þegar covid skall á bauð vinnustaðurinn upp á fjarvinnu að heiman og það breytti miklu fyrir mig. Síðastliðinn tvö ár þá hef ég ekki misst dag úr vinnu þar sem það að geta unnið að heiman hefur breytt öllu fyrir mig. Ef fjarvinna hefði ekki verið í boði þá tel ég líklegt að ég væri komin í hlutastarf eða alveg hætt að vinna og komin á örorku. Ég sé núna fram á að vinna fram að starfslokum.

Þetta er aðeins eitt dæmi en það eru einmitt svona dæmi og vilji okkar til að mæta breyttum aðstæðum á einstaklingsgrundvelli sem er það sem til þarf. Það verða ekki ein, tvær eða þrjár leiðir sem við þurfum að huga að heldur fjölmargar til að mæta fólki á þeim stað sem það er.

Við verðum að vera óhrædd við ólíkar hugmyndum að lausnum og auðvitað gagnrýnu hugarfari í að skoða árangur af nýjum aðferðum.

 

Allar rannsóknir sýna líka að aukinn fjölbreytileiki skilar sér í betra starfsumhverfi og aukinni starfsánægju á vinnustöðum.

Fjölbreytileiki er styrkur og ég mun ávallt standa fyrir því að efla hann í mínum verkum. Öll getum við eitthvað en ekkert okkar getur allt!

 

---

Ágætu útskriftarnemendur, í dag er spennandi dagur, í dag er ykkar dagur – þið eruð sannarlega sigurvegarar og framtíðin bíður ykkar! Það þarf kjark og þor að gera það sem þið hafið gert – og það er dýrmætt fyrir okkur sem samfélag að eiga náms- og starfsendurhæfingu eins og Hringsjá.

 

Ég óska ykkur innilega til hamingju með árangur ykkar og daginn í dag -  og er þess fullviss að þið munuð finna ykkar vettvang þar sem þið getið nýtt hæfileika ykkar og áhuga hvort sem það verður í áframhaldandi námi, í atvinnulífinu eða bara í ykkar persónulegu mikilvægu lífshlutverkum.

Njótið dagsins og aftur til hamingju.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum