Hoppa yfir valmynd
29. mars 2023 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og vinnumarkaðsráðherra við opnun nýsköpunar- og þróunarverkefnisins Hátinds 60+

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra

(ávarpið var tekið upp og spilað við opnunina)

Ágætu fundargestir,

Ísland er ung þjóð í alþjóðlegum samanburði en hlutfall 67 ára og eldri af mannfjöldanum er í dag um 13%. Við eigum hins vegar von á verulegri fjölgun í þessum aldurshópi á næstu áratugum og því er spáð að hlutfallið verði komið í 20% af mannfjölda árið 2050.

Það er því mikilvægt, nú sem aldrei fyrr, að vinna ötullega að því að tryggja eldra fólki þjónustu við hæfi og auka þannig lífsgæði þeirra og hamingju á efri árum.

Fjallabyggð er eitt þeirra sveitarfélaga sem er með hæsta hlutfall eldra fólks og það er því einstaklega ánægjulegt að sjá það frumkvæði sem þið  hafið sýnt með metnaðarfullu samstarfi milli allra þeirra sem koma að þjónustu við aldraða.

Til þess að eldra fólk eigi raunverulegt val um að búa heima sem lengst þarf að vera öflug heimaþjónusta þar sem sveigjanleiki og öryggi eru í fyrirrúmi. Dreifð ábyrgð á heimaþjónustu felur í sér tilhneigingu til að tekist sé á um hvaða aðili skuli sinna tilteknum verkefnum, oft með þeim afleiðingum að ekki tekst, með fullnægjandi hætti, að veita rétta þjónustu af réttum aðila á réttum tíma.

Slíkir árekstrar eru hreinlega óþarfir og þá má svo sannarlega leysa og að því vil ég vinna á landsvísu í samstarfi viðheilbrigðisráðherra, fjármálaráðherra, Samband íslenskra sveitarfélaga og Landssamband eldri borgara.

Verkefnið Gott að eldast snýst m.a. um þetta, þ.e.a.s. að samþætta heilbrigðis- og félagsþjónustu hjá eldra fólki.  Í síðustu viku mælti ég fyrir tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun verkefnisins sem nær frá árunum 2024 til 2028. Þingsályktunin er unnin af verkefnahópi sem við heilbrigðisráðherra skipuðum sameiginlega.

Það var ákaflega ánægjulegt að finna jákvæðar og góðar undirtektir á Alþingi við tillögunni.

Meginþungi aðgerða liggur í þróunarverkefnum þar sem samþætting, nýsköpun og prófanir munu nýtast til frekari ákvarðanatöku varðandi framtíðarskipulag þjónustu við eldra fólk. Þar að auki verður ráðist í aðgerðir sem hverfast um sveigjanleika í þjónustu, heilbrigða öldrun með alhliða heilsueflingu og betri aðgang að ráðgjöf og upplýsingum.

Sýnt hefur verið fram á að samþætt þjónusta getur bætt líðan og heilsu eldra fólks, seinkað spítalainnlögnum, fækkað endurinnlögnum og fyrirbyggt eða seinkað flutningi á hjúkrunar­heimili. Slíkur árangur næst með aukinni samfellu í þjónustu við fólk, með einfaldari boð­leið­um, teymisvinnu og auknu flæði verkefna og þekkingar milli starfshópa.

Þá er ánægjulegt að segja frá því að samkvæmt kostnaðar og ábatagreiningu KPMG á verkefninu að þá er eldra fólk sá hópur sem sveitarfélög ættu að keppast um að halda í sveitarfélögum, enda ekki bara skemmtilegt, reynslumikið og áhugavert fólk heldur einnig sá hópur sem leggur meira til sveitarfélagsins en sem nemur kostnaði við þjónustuna sem það nýtur. Eldra fólk er því sannarlega virði en ekki byrði, og það á svo margvíslegan hátt.

Góðir fundargestir, það er ánægjulegt að sjá það frumkvæði og metnað sem samstarfsaðilar Hátinds hafa lagt í verkefnið með það að markmiði að koma til móts við óskir eldra fólks og gera því kleift að búa heima eins lengi og kostur er. Ég mun vinna að sama markmiði í nútíð og framtíð fyrir okkur öll og er bjartsýnn á þann árangur sem við getum náð.

Að lokum óska ég ykkur hjartanlega til hamingju með þessa formlegu opnun verkefnisins og óska ykkur áframhaldandi velgengni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum