Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. maí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Morgunverðarfundur á degi fjölskyldunnar 15. maí 2002

Heiðraða samkoma.

Það er áhugavert að fjalla á þessum morgunverðarfundi, á degi fjölskyldunnar, um feður og föðurhlutverkið. Ekki orkar tvímælis að föðurhlutverkið hefur tekið stórfelldum breytingum á síðustu áratugum. Í dag eru allt aðrar kröfur gerðar til föðurins og aðrar skyldur sem honum ber að uppfylla. Fjölskyldugerð hefur einnig breyttst verulega með fjölgun hjónaskilnaða og fjölbreyttara sambúðarformi.

Stóraukin þátttaka kvenna á vinnumarkaði utan heimilis útheimtir miklu meiri þátttöku karla í heimilisstörfum og umönnun barna. Sveigjanlegur vinnutími verður algengari í framtíðinni og okkur ber að reyna að auðvelda fólki að samræma atvinnu- og fjölskyldulíf.

Flest viðfangsefni okkar í félagsmálaráðuneytinu koma með einhverjum hætti að málefnum fjölskyldunnar og ég tel að okkur hafi tekist að færa margt til betri vegar á undanförnum árum. Vinnulöggjöfin stuðlar að bættum samskiptaháttum við gerð kjarasamninga. Vinnumarkaðsaðgerðir auðvelda fólki að fá vinnu en það að hafa atvinnu er eitt af skilyrðum fyrir farsælu fjölskyldulífi. Allir þurfa þak yfir höfuðið og stóraukin félagsleg aðstoð í húsnæðismálum hefur orðið til þess að árlega komast miklu fleiri tekjulágar fjölskyldur í eigið húsnæði en áður var eða um 2000 fjölskyldur árlega í stað milli þrjú og fjögur hundruð að jafnaði á árunum 1990 1998.
Þá stórfjölgar leiguíbúðum eða um a.m.k. 550 á ári með niðurgreiddum vöxtum og húsaleigubætur eru orðnar skattfrjálsar en þær nema um 800 milljónum á ári. Vaxtabæturnar eru yfir 4 milljarðar árlega en þær greiðast fólki undir skilgreindum tekjumörkum. Heildarlöggjöf um barnavernd tekur gildi 1. júní næstkomandi og hún á að styrkja stöðu barna verulega.

Ný jafnréttislög voru sett sem eru til verulegra bóta og stjórnvöld starfa eftir Jafnréttisáætlun. Ég skilaði Alþingi í vor skýrslu um framkvæmd Jafnréttisáætlunar og á henni sést að okkur miðar verulega í rétta átt. Lögin um fæðingar- og foreldraorlof eru nýmæli á heimsvísu. Þegar þau verða komin að fullu til framkvæmda, en það verður um næstu áramót, þá er jafn réttur karla og kvenna og sami réttur á öllum vinnumarkaði. Lögin kveða á um þriggja mánaða óframseljanlegan rétt hvors foreldris til fæðingarorlofs og síðan hafa þau þrjá mánuði sem þau geta skipt með sér eins og þau vilja. Orlofið er hægt að taka með hlutastarfi, en verður að taka það á fyrstu 18 mánuðum í ævi barnsins. Foreldrar geta tekið orlofið saman eða sitt í hvoru lagi. Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af raunlaunum undanfarna mánuði og er ekkert hámark á greiðslum. Námsmenn og heimavinnandi fá fæðingarstyrk í orlofinu. Veikindi móður á meðgöngu eða slæmar vinnuaðstæður geta gefið rétt til viðbótarorlof
s. Ef um er að ræða dauðsfall foreldris erfist rétturinn. Hafi annað foreldri ekki forræði þarf það heimild frá foreldrinu sem hefur forræðið.

Nú er komin nokkur reynsla af fæðingarorlofinu og er hún mjög góð.
80 90% feðra taka sér orlof en skipta því gjarnan, eru heima fyrst eftir fæðingu, vinna svo um hríð og taka síðan orlof, ekki er vitað hvort þeir taka allan sinn rétt þegar þeir eru búnir að fá þrjá óframseljanlega mánuði.

Talsverður hópur feðra notar eitthvað af sameiginlega réttinum en þó er meirihluti sameiginlega réttarins notaður af mæðrum.
Ekkert glatast af starfstengdum réttindum í fæðingarorlofi heldur aukast þau eins og mætt hefði verið í vinnuna.

Það er bjargföst trú mín að þessi löggjöf verði til þess að draga úr kynbundnum launamun sem því miður er ennþá til staðar á Íslandi.
Vinnuveitandi verður að gera ráð fyrir að karl sem hann ræður til vinnu hverfi í fæðingarorlof ekki síður en kona sem hann ræður. Raunar eru jafnvel meiri líkur á að karl fari í orlof þar sem barneignaskeið þeirra er lengra en kvenna. Það er fleira sem vinnst en launajöfnuður. Faðir og barn ættu að tengjast nánari böndum strax á fyrstu mánuðum þar sem gera verður ráð fyrir að hann annist það.

Í sjálfu sér er það þjóðfélagslega mikilvægt að styrkja samband föður og barns. Faðir er ekki lengur fyrst og fremst fyrirvinna heldur á hann að vera virkur þátttakandi í umönnun, uppeldi og heimilisstörfum, sem ætti að leiða til nánari tilfinningatengsla innan fjölskyldunnar.

Þá höfum við einnig lögfest foreldraorlof. Hvort foreldri á rétt á 13 vikna launalausu leyfi til að vera með barni sínu á fyrstu átta árum í lífi þess eða samtals misseri á barn. Þetta getur komið sér vel þegar starfsdagar kennara dynja yfir eða veikindi barna eru á döfinni. Raunar er ekki lengur heimilt að segja fólki upp störfum vegna þess að það sé að sinna fjölskylduábyrgð sem það ber. Til dæmis umönnun sjúkra fjölskyldumeðlima.
Foreldraorlofið á líka að styrkja fjölskyldubönd, gefa feðrum og mæðrum aukin tækifæri til að umgangast börnin.

Sem betur fer held ég að flestir feður séu sér meðvitandi um skyldur sínar. Orðið fjölskylda er lýsandi. Fjölskylda eru tveir eða fleiri einstaklingar sem hafa skyldur hver við annan og tilheyra hver öðrum. Þá tilfinningu er mikilvægt að glæða.

Morgunverðarfundurinn er settur.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum