Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Opnun sambýlis fyrir fötluð ungmenni að Barðastöðum

Ágæta samkoma:

Á þessari stundu er okkur gleði efst í huga. Hér í dag er verið að taka í notkun eitt þriggja heimila sem munu verða tekin í notkun á árinu 2002 í Reykjavík. Þessu til viðbótar er gert ráð fyrir því að farið verði af stað með starfsemi skammtímavistunar fyrir lok þessa árs. Með þeirri uppbyggingu sem liggur fyrir á þessu ári munu 18 - 20 einstaklingar sem búa við fötlun í Reykjavík fá ný tækifæri og áskoranir í lífinu í nánustu framtíð. Með starfrækslu nýrrar skammtímavistunar hér í Reykjavík munu 20 – 25 börn fá tilboð um skammtímavist á næstu mánuðum. Hér munu því 40 til 45 fjölskyldur njóta þessara úrræða.

Sambýlið að BarðastöðumÁ Reykjanesi var í vor tekið í notkun eitt sérhæft sambýli þar sem 6 einstaklingar hafa fengið búsetu. Þannig að á höfuðborgarsvæðinu eru um 25 - 27 einstaklingar að fá tilboð um búsetu á þessu ári. Einnig ber að nefna það sú áætlun sem gerð var vegna flutnings íbúa af Landsspítalanum í Kópavogi virðist ætla að standast, þannig að nú í október flytja fyrstu 4 íbúarnir af 20 í nýtt sambýli í Reykjavík, annar hópur mun síðan flytjast í nóvember næstkomandi í nýtt sambýli á Reykjanesi. Þessir flutningar standa yfir fram yfir mitt næsta ár og er þá gert ráð fyrir að allir þeir sem búa í blokkinni á lóð Landsspítalans í Kópavogi verði fluttir.

Við gætum verið að tala um 15 – 20 ný búsetuúrræði á næsta ári. Að auki myndi aðstaða til hæfingar gjörbreytast með því að fara að stað með hæfingastöð í Kópavogi (u.þ.b. 40 hálfsdagspláss). Auk þess er stefnt að aukningu um 4 pláss í hæfingu í Hafnarfirði. Þessar aðgerðir gætu líka haft í för með sér einhverja rýmkun í dagvistarúrræðum í Reykjavík vegna þess að einhverjir Reyknesingar sem nú hafa fengið tilboð í Reykjavík myndu hugsanlega dagþjónustu nær heimabyggð.

Sambýlið að BarðastöðumÞá vil ég geta þess að við erum nú í samstarfi við heilbrigðisyfirvöld um að vinna að stofnun sambýlis fyrir fötluð/langveik börn í Reykjavík. Sambýlið verður að öllum líkindum byggt í samstarfi við Hússjóð Öryrkjabandalagsins.

Með þessu yrði ráðuneytið í góðum takti við þær áætlanir sem nefndar hafa verið til fækkunnar á biðlistum.

Þeir sem njóta þjónustu svæðisskrifstofanna tveggja á höfuðborgarsvæðinu auk Styrktarfélags vangefinna eru nú um 530 börn og rúmlega 600 fullorðnir.

Í Reykjavík og á Reykjanesi eru þó enn um 20 einstaklingar eldri en 18 ára í þeim þremur þyngstu þjónustuflokkum sem engrar þjónustu njóta frá svæðisskrifstofunum og er það forgangsverkefni að sinna þeim.

Við höfum legið undir ásökunum um að standa ekki við áætlanir um að vinna á biðlistunum, það er ósanngjarnt, á þessu ári og á því næsta munum við ná meiri árangri um aukið framboð úrræða en nokkru sinni fyrr.

Áherslur ráðuneytisins í búsetumálum er því skýrar þ.e. að bjóða þeim sem eru á biðlista húsnæði við hæfi, svo og bjóða þeim sem búa ekki við eins góðar aðstæður eins til dæmis íbúar Landsspítalans upp á betra húsnæði. Loks má einnig geta þess að verulegt átak hefur nú verið gert í viðhaldi og endurnýjun á húsnæði í eigu framkvæmdasjóðs þótt enn megi bæta þar um betur.

Ég hef lagt á það ríka áherslu að málefni fatlaðra hafi forgang í starfsemi ráðuneytisins þannig að hægt verði að bæta og styrkja lífsaðstæður þeirra sem hafa verið á biðlistum eftir þjónustuúræðum. Í ráðuneytinu er nú verið að leggja drög að langtímaáætlun í búsetu og vinnumálum. Gert er ráð fyrir því að þessi áætlun verði brotin upp í áfanga sem hver um sig hefur skilgreint markmið. Hér er því verið að leggja upp með framtíðarsýn, þar sem áhersla verður á samþættingu þjónustuúrræða og gæðahugsun í hvívetna. Gert er ráð fyrir að þessi þróun gerist í eins góðri samvinnu við notendur þjónustunnar eins og hægt er þannig að þróun og styrking þjónustunnar verði sem farsælust.

Fjölmörg önnur verkefni sem lúta að því að því að styrkja og bæta þjónustuna munu líta dagsins ljós á næstu mánuðum sem munu að öllum líkindum varða brautina fram á við í málefnum fatlaðra á Íslandi.
Ég óska þeim íbúum sem hér munu búa og aðstandendum þeirra innilega til hamingju með daginn og óska þeim velfarnaðar í framtíðinni. Hér í dag er stigið eitt skref á langri vegferð þar sem hvert skref styrkir okkur í því að gera enn betur í frekari uppbyggingu í þessum málaflokki.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum