Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

09. september 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Upphaf félagsþjónustu á Íslandi - ávarp við afhjúpun minnisvarða

Heiðraða samkoma

Mér er ánægjuefni að fá að vera hér í dag og taka með ykkur þátt í því að minnast upphafs félagsþjónustu á Íslandi eftir því sem ritaðar heimildir finnast. Það hefur verið kröftug sómakerling sem las svo yfir Arnóri syni sínum, sem síðar var kallaður kerlingarnef, að hann lét segjast og flutti þá snildarræðu sem varðveittst hefur.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og mikil þróun hefur átt sér stað. Snemma á Þjóðveldisöld sköpuðust reglur um aðstoð við þann sem missti bæ sinn í eldi, það var upphaf brunatrygginga á Íslandi. Þegar tíund var upp tekin, seint á 11. öld, átti fjórðungur hennar að renna til fátækra. Þegar hreppaskipun var tekin upp á Íslandi tóku hreppar við hluta af aðstoðarskyldu. Lágmarkstala bænda í hreppi var að þar byggju 20 búendur sem þingfararkaupi ættu að gegna, þ.e. borguðu eignaskatta. Lágmarksíbúatala sveitarfélags hefur þá verið a.m.k. 200 manns.

Í okkar fornu lögbók Grágás eru nákvæm fyrirmæli um framfærsluskyldu ættingja og vandamanna. En ef ekki má – þ.e. ættingi eða venslamaður ekki getur, þá tekur samfélagið við. Fjölskyldan hafði mjög ríkar skyldur eins og heitið fjölskylda ber með sér. Fjölskylda merkir 2 eða fleiri sem hafa gagnkvæmar skyldur hver við annan, tilheyra hver öðrum.

Þegar kristni þróaðist í landinu hófu menn að gefa jarðir fyrir sálu sinni til fátækraframfæris. Kristfjárjarðirnar svokölluðu eru þannig til komnar. Þær hafa í seinni tíð verið seldar ábúendum. Uppúr 1960 voru tvær kristfjárjarðir í Húnavatnssýslu seldar. Alþingi verður að heimila slíkar sölur með lögum. Þá var Halldóra B. Björnsson frá Draghálsi starfsmaður Alþingis og orti:

      "Í Húnavatnssýslunni Viðreisnin góðbændur gisti
      þeir græddu sumir, hjá öðrum taprekstur var.
      Nú vilja þeir efnaðri kaupa jarðir af Kristi
      þeir kunna ekki við að hafa hann sveitfastan þar".
Sjálfur flutti ég á síðasta þingi frumvarp um sölu kristfjárjarðanna Droplaugarstaða og Arnheiðarstaða í Múlasýslu en með því fororði að sveitarfélögin verðu andvirðinu til félagslegra þarfa í samræmi við upphaflegan tilgang þegar þær voru gefnar.

Nú er svo komið að Íslendingar eru í fremstu röð meðal þjóða heims hvað varðar félagslegt öryggi. Við búum við skynsamlegt almannatryggingakerfi sem myndar öryggisnet fyrir þá sem eru hjálparþurfi. Bætur eru sumsstaðar hærri að jafnaði t.d. í Svíþjóð en þar er sjötti hver maður á vinnualdri ekki í starfi heldur á bótum, það er of langt gengið. Við höfum tekjutengingar sem miða að lífskjarajöfnun.

Við höfum gott atvinnuleysisbótakerfi, heilsugæslu, spítala í fremstu röð, menntun án tillits til efnahags, gott húsnæðiskerfi 90% þjóðarinnar býr í eigin húsnæði og svona mætti lengi telja. Við sinnum málefnum fatlaðra betur en flestar þjóðir. Árlega verjum við til þess nær 5 þúsund milljónum. Hér í kjördæminu eru 63 fatlaðir einstaklingar sem njóta þjónustu Byggðasamlags. Þeim er boðið uppá 300 úrræði, búsetu, skammtímavistun, liðveislu, frekari liðveislu, iðju og hæfingu.

Ég vil að endingu þakka átthagafélaginu Geisla fyrir þetta framtak og þá sérstaklega Ara Sigurðssyni. Félagsmálaráðuneytinu var sérstök ánægja að taka þátt í þessu verkefni með ykkur. Megi þessi varði minna okkur á að okkur ber skylda til að hlynna að okkar minnstu bræðrum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum