Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

13. september 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt sambýli fyrir fatlaða

Ágæta samkoma

Í dag fögnum við opnun þessa glæsilega sambýlis hér að Sólheimum 21b. Það er ekki nema rétt rúmur mánuður síðan við opnuðum annað sambýli í Grafarvogi og framundan eru enn fleiri ánægjustundir þar sem tekin verða í notkun ný úrræði fyrir fólk sem býr við fötlun hér á höfuðborgarsvæðinu. Því má segja að með öruggum og skilvirkum hætti séum við enn nær þeim markmiðum sem félagsmálaráðuneytið setti sér fyrir rúmu ári sem voru að minnka biðlista fatlaðra eftir búsetu þannig, að 4 – 5 ár liðnum sé búið að leysa úr brýnasta búsetuvandanum og við taki eðlileg endurnýjun húsnæðis fyrir fatlaða til framtíðar.


Sambýlið að SólheimumAð undanförnu hef ég líka lagt áherslu á það að allt vinnulag við úrvinnslu og meðferð umsókna um búsetu verði bætt þannig að í framtíðinni geti notendur fengið enn greinarbetri upplýsingar um framvindu þeirra umsókna sem lagðar hafa verið inn til svæðisskrifstofanna. Þessar aðgerðir hafa það að markmiði að létta á því álagi sem fylgir því fyrir notendur og aðstandendur þeirra að bíða eftir úrræðum sem henta. Á næstunni mun ég einnig kynna langtímaáætlun um uppbyggingu og nýsköpun í þjónustu við fólk sem býr við fötlun þar sem áhersla er lögð á metnaðarfullt faglegt starf og frekari uppbyggingu í málaflokknum

Það er því von mín að smátt og smátt náum við að skapa meiri bjartsýni og aukna trú á framtíðina sem er nauðsynleg til þess að allir þeir sem að þessum málum koma hvort sem um er að ræða notendur eða veitendur þjónustunnar nái þeim árangri sem að er stefnt. Ég heiti því á okkur öll sem hér erum og aðra sem að starfinu koma að standa saman að einhug og djörfung þar sem markið er sett til aukinna lífsgæða fyrir þá sem þurfa á þjónustu að halda.

Sambýlið að SólheimumÞað heimili sem hér er verið að taka í notkun er fyrir þá sem dvalið hafa á sambýlinu við Holtaveg. Það var mat manna að það heimili væri orðið heldur lítið til þess að mæta þörfum þeirra sem þar bjuggu. Það var því brugðið á það ráð að ráðast í byggingu þessa glæsilega húsnæðis þar sem rík áhersla hefur verið lögð á góða umgjörð um þá sem hér eiga að búa. Húsnæðið við Holtaveg mun samt sem áður gegna mikilvægu hlutverki í þjónustukeðju Svæðisskrifstofu Reykjavíkur þar sem nú er gert ráð fyrir að það muni þjóna sem skammtímavistun fyrir börn og unglinga og styrkja verulega við þá þjónustu sem þegar er veitt á því sviði í Reykjavík. Í þeirri ráðstöfun endurspeglast vilji ráðuneytisins að gera fötluðum börnum og unglingum enn frekar kleift að búa í foreldrahúsum svo lengi sem þess er kostur. Þessi skammtímavist mun verða tekin í notkun í lok þessa árs.



Það er von mín að þið ykkar sem eiga að búa hér að Sólheimum 21b eigið framundan þroskandi og gæfuríka búsetu.

Ég óska ykkur innilega til hamingju með þennan áfanga.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum