Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. september 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Landsfundur Sambands íslenskra sveitarfélaga

Góðir landsfundarfulltrúar.

Það er vel til fundið hjá sveitarstjórnarmönnum að hafa þema þessa landsfundar - búseta - lífsgæði - lýðræði. Öll hafa þessi atriði bein áhrif á líf einstaklinganna og fjölskyldnanna í landinu.

Fólk velur sér búsetu á ýmsum forsendum, atvinna, umhverfi, nágrenni og lífsgæði vega þar þungt. Sveitarfélögin geta haft mikil áhrif á það hvar fólk kýs sér búsetu og elur aldur sinn. Verkefni sín leysa sveitarfélögin með nokkuð mismunandi hætti enda er ástæða til að minna á sjálfsstjórn þeirra og sjálfstæði til ákvarðanatöku. Þó eru ákveðnar grundvallarskyldur sem þau verða að leysa af hendi og þeim hafa verið settar af löggjafanum.

Sveitarfélögin eru verulegur þáttur í því sem við í daglegu lífi köllum "hið opinbera" eða um 27% og fer hlutur þeirra vaxandi. Starfsmenn sveitarfélaganna eru yfir 15.000.

Sveitarfélögin hafa tekið við ýmsum málefnum frá ríkinu, grunnskólanum og reynslusveitarfélagaverkefnum. Ljóst er að þau geta sinnt þeim jafnvel eða betur en ríkið en í sumum tilfellum verða þau talsvert dýrari hjá sveitarfélögunum þar sem þau greiða a.m.k. ófaglærðum hærra kaup. Það getur tafið þá þróun að færa verkefni til sveitarfélaga. Ég legg áherslu á það að við þurfum að gera hreinni skil milli ríkis og sveitarfélaga hvað verkaskiptingu varðar. Framkvæmd og fjárhagsleg ábyrgð verða að fara saman.

Vinna stendur yfir milli ríkis og sveitarfélaga sem miðar að því að skipta upp verkefnum. Því miður hefur ekki náðst niðurstaða ennþá, en vonandi næst hún innan skamms.

Sameining sveitarfélaga
Margir telja stækkun sveitarfélaga forsendu þess að verkefni séu flutt frá ríki. Þetta er ekki einhlítt. Ég bendi á prýðilega reynslu á Norðurlandi vestra þar sem öll sveitarfélögin mynduðu byggðasamlag sem tók við málefnum fatlaðra. Þar ríkir almenn ánægja allra hlutaðeigandi með þá skipan.

Ég tel frjálsa sameiningu sveitarfélaga miklu farsælli en þvingaða sem raunar er að mínu mati neyðarkostur.

Síðan ég kom í félagsmálaráðuneytið hefur sveitarfélögunum fækkað um 67 og það er ekki svo lítið. Sveitarfélögunum hefur fækkað meira en um helming frá því sem þau voru flest.

Uppástungur hafa komið fram um að sveitarfélögunum þyrfti enn að fækka um meira en helming eða jafnvel tvo þriðju í 50 eða 30. Þar tel ég of langt gengið.
Sveitarfélag þarf að vera þannig sett landfræðilega að það geti myndað félagslega heild, samgöngur þurfa að vera það greiðar innan sveitarfélagsins að íbúar allir geti tekið sameiginlega þátt í félags- og menningarlífi og öðlast samkennd.

Það er ekki einungis að sveitarfélögunum hafi fækkað um 67 síðan ég kom í félagsmálaráðuneytið. Sveitarstjórnarmönnum hefur fækkað um 300-330. Það er að mínu mati galli og það stefnir ekki í átt að auknu lýðræði. Færri koma að ákvarðanatöku og sveitarstjórnin verður fjarlægari einhverjum hluta íbúanna. Nefnd undir forystu Magnúsar Stefánssonar alþingismanns er að ljúka störfum við að endurskoða Jöfnunarsjóðskafla tekjustofnalaganna.

Tillögur nefndarinnar miða mjög að því að herða á sameiningu sveitarfélaga þar sem dregið er úr fjárstreymi til smærri sveitarfélaga og gefinn kostur á auknum framlögum til sameiningar.

Félagsleg húsnæðismál
Mjög veigamikill þáttur í lífsgæðum fjölskyldnanna eru húsnæðisaðstæður þeirra. Þetta á sérstaklega við á Íslandi þar sem þörf er á vönduðu húsnæði.
Sveitarfélögin hafa þar veigamiklu hlutverki að gegna. Samkvæmt lögunum um félagsþjónustu ber þeim að aðstoða þá í húsnæðismálum sem ekki geta af eigin rammleik komið sér í viðunandi húsnæði. Yfirleitt reyna sveitarfélögin að sinna þessu hlutverki.

Árið 1998 voru um 10.000 félagslegar íbúðir í landinu, þ.e. 6.600 félagslegar eignaríbúðir og um 3.400 leigu- og kaupleiguíbúðir.

Frá stofnun Íbúðalánasjóðs 1999 eða á síðustu þremur og hálfu ári hafa um 6.800 fjölskyldur til viðbótar fengið félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Um 5.600 íbúðir með viðbótarláni hafa verið byggðar eða keyptar og um 1.200 leiguíbúðir fyrir tekjulága.

Með lagabreytingu síðastliðið vor, var sveitarfélögum heimilað að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti á félagslegum eignaríbúðum og hafa allmörg sveitarfélög gert það nú þegar formlega. Þau verða áfram að leysa til sín félagslegar eignaríbúðir óski seljandi þess. Þessi aðgerð var mjög til hagsbóta fyrir seljendur á þeim svæðum þar sem söluverð eigna er hærra en reikningsverð í félagslega eignaríbúðarkerfinu, en á þeim svæðum þar sem fasteignaverð er lágt tapar fólk heldur engum réttindum sem það hafði öðlast lögum samkvæmt.

Viðbótarlánin eru veitt fólki undir skilgreindum tekju- og eignarmörkum. Húsbréfalán er veitt fyrir 65 eða 70% kaupverðs ef um fyrstu íbúð er að ræða og stendur eignin að veði fyrir húsbréfunum. Síðan veitir Íbúðalánasjóður peningalán fyrir 25 eða 20% kaupverðsins þannig að lánað er 90% kaupverðs.

Viðbótarlánið er veitt að beiðni viðkomandi sveitarfélags sem leggur fram í varasjóð 5% af upphæð hvers viðbótarláns og stendur varasjóður að veði fyrir viðbótarlánunum. Þeir sem hafa fengið viðbótarlán eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og sveitarfélögin leyst sinn hluta vel af hendi.

Það er mikil fjarstæða að halda því fram að félagsleg aðstoð í húsnæðismálum hafi minnkað þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa, hún hefur stóraukist eða úr 10.000 í 17.000 íbúðir á þremur og hálfu ári.

Leiguhúsnæði skortir
Tvímælalaust er verulegur skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á landsbyggðinni. Það er samkomulag um að lána til 400 leiguíbúða árlega með 3,5% niðurgreiddum vöxtum. Þessar íbúðir eru ætlaðar fólki innan skilgreindra tekju- og eignamarka. Þetta eru t.d. leiguíbúðir sveitarfélaga, námsmannasamtaka, Öryrkjabandalags, Þroskahjálpar og félaga aldraðra.

Þar að auki er komið í gang að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins og með þátttöku Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða. Áformað er að byggja 600 leiguíbúðir á næstu fjórum árum, 150 íbúðir á ári. Lánin verða með niðurgreiddum vöxtum 4,5%. Búseti mun byggja og reka 300 af þessum íbúðum og hefur þegar hafist handa. Þannig munu bætast við a.m.k. 2200 leiguíbúðir á næstu fjórum árum.

Verði eftirspurn meiri eftir lánum til leiguíbúða en 550 á ári munu þau lán bera markaðsvexti. Sveitarfélögin verða að leggja til lóðir á góðum kjörum.

Staðreyndir um leiguverð
Mikil umræða stendur um leiguverð á höfuðborgarsvæðinu. Í ljós kemur að það er mjög misjafnt. Heildarfjöldi leiguíbúða í Reykjavík er áætlaður um 8.900 íbúðir og er það um 20% íbúða borgarinnar, 6.000 íbúðir eru á almennum markaði en 2.900 íbúðir eru félagslegar leiguíbúðir í eigu Félagsbústaða hf. og námsmanna- og annarra félagasamtaka.
Heildarfjöldi húsaleigubótaþega í Reykjavík var í maí sl. samkvæmt upplýsingum Félagsþjónustunnar 2.806 og lætur því nærri að tæpur þriðjungur leigjenda fái húsaleigubætur, þar af voru 1.768 á almennum markaði eða 63%, en þeir sem leigðu í félagslegu húsnæði voru 1.038 eða 37% bótaþega.

Samkvæmt þinglýstum leigusamningum voru tveggja herbergja íbúðir 1.284 og meðalleiga þar 35 þúsund krónur. Þriggja herbergja íbúðir voru 700 og meðalleiga þeirra 45 þúsund krónur. Margir hafa rengt þessar tölur en þær koma beint frá Félagsþjónustunni í Reykjavík.

Vafalaust þekkist miklu hærri leiga enda safnast biðlistar hjá Félagsbústöðum og námsmönnum af því að leiga þar er miklu lægri en á almennum markaði og tekjulágir sitja fyrir þeim íbúðum.

Húsaleigubætur verða í ár um 900 milljónir og voru þær gerðar skattfrjálsar um síðustu áramót. Einkennilegt er að allir sem eiga rétt á húsaleigubótum skuli ekki sækja eftir þeim. Það er líka sérkennilegt hve margir virðast vilja spenna upp leiguverð, líka leigjendur.

Varasjóður húsnæðismála
Þrátt fyrir skort á leiguhúsnæði einkum á höfuðborgarsvæðinu eru sveitarfélög víða um land að glíma við öðruvísi vanda. Þau hafa sum þurft að leysa til sín margar félagslegar eignaríbúðir og geta ekki rekið þær nema með halla. Þannig eru nokkur sveitarfélög í verulegum vanda.

Með lagabreytingu í fyrravor sem undirbúin var í samráði við sveitarfélögin var myndaður farvegur til að leysa þennan vanda á árunum 2002-2006.

Myndaður er Varasjóður húsnæðismála úr Varasjóði viðbótarlána, Tryggingasjóði vegna byggingagalla, árlegu framlagi ríkisins og árlegu framlagi sveitarfélaganna. Varasjóðurinn er í eigu sveitarfélaganna og tilnefna þau meirihluta ráðgjafarnefndar sjóðsins.

Hlutverk sjóðsins er tvíþætt, í fyrsta lagi að veita sveitarfélögum rekstrarframlag vegna félagslegra leiguíbúða þar sem eðlileg leiga stendur ekki undir rekstri og í öðru lagi að veita sveitarfélögum framlög vegna sölu félagslegra eignar- eða leiguíbúða þar sem mögulegt söluverð nægir ekki til að greiða upp áhvílandi lán.
Þess er vænst að 2006 verði vandi sveitarfélaga vegna félagslega kerfisins að mestu leystur.

Þá hefur sveitarfélögunum verið heimilað að láta upphafleg lán á innlausnaríbúðum á 1% eða 2,4% vöxtum standa út upphaflegan lánstíma, síðan eiga þau kost á lánum á markaðsvöxtum þannig að heildarlánstími í eigu sveitarfélags geti orðið 50 ár.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs voru 1. júlí síðastliðinn 375 milljarðar eða tæpur helmingur af skuldum heimilanna. Vanskil eru í sögulegu lágmarki eða 0,52% af útistandandi skuldum við Íbúðalánasjóð.

Fjármál sveitarfélaga
Ég tel að fjármál sveitarfélaga séu í betra lagi nú en á undanförnum árum. Reiknað er með að rekstur málaflokkanna taki í ár ekki nema 79% af tekjum þeirra en mörg undanfarin ár hefur þetta hlutfall verið yfir 80%.

Sveitarfélögin hafa yfirleitt sýnt ábyrgð og fyrirhyggju. Nokkur mjög skuldsett sveitarfélög hafa selt ríkinu eignir og eru þannig með hjálp ríkisins komin í prýðilega rekstrarhæft ástand. Þar má nefna sveitarfélögin á Vestfjörðum, Skagafjörð o.fl.

Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga hefur unnið gagnlegt starf. Þau sveitarfélög sem hún hefur haft afskipti af hafa brugðist vel við og langflest gert fullnægjandi grein fyrir áformum sínum. Reikningsskilanefnd er einnig að vinna gott starf við að samræma bókhald sveitarfélaga.

Ég tel að aukið efnahagslegt samráð ríkis og sveitarfélaga sé þjóðarnauðsyn og unnið er að því að koma því í fastara form. Einnig er komið samkomulag um það hvernig kostnaðarmeta á lagafrumvörp og reglugerðir.

Málefni fatlaðra
Í félagsmálaráðuneytinu er unnið að stefnumótun til framtíðar í málefnum fatlaðra. Áformað er að kanna hvort sveitarfélögin hafi áhuga á að taka við málefnum fatlaðra án verulegs kostnaðarauka frá því sem verða mundi hjá ríkinu.

Útgjöld til málaflokksins hafa nær tvöfaldast frá 1990 og mikil uppbygging hefur átt sér stað. Frá 1997 hafa 118 ný rými verið tekin í notkun á sambýlum og 26 einstaklingar til viðbótar fá á þessu ári pláss á sambýlum. Samningur hefur verið gerður um útskrift 20 einstaklinga af Kópavogshæli á fjögur ný sambýli og að auki eru 20 ný búsetuúrræði fyrirhuguð á næsta ári. Ný skammtímavistun í Reykjavík kemur til með að þjónusta 10 - 15 börn og hæfingarstöðvar bæta við 44 hálfsdagsplássum. Þá er í undirbúningi skammtímavistun/ sambýli fyrir fötluð langveik börn.

Ráðuneytisstjórinn í félagsmálaráðuneytinu Berglind Ásgeirsdóttir er farin í tveggja ára leyfi. Hún er nýráðin aðstoðarframkvæmdastjóri OECD í París. Þetta er hæsta staða sem Íslendingur hefur gegnt á alþjóðavettvangi og er það mikil viðurkenning fyrir Berglindi persónulega, félagsmálaráðuneytið og íslenska stjórnsýslu.

Að endingu þakka ég sveitarstjórnarmönnum fyrir góða samvinnu og býð nýja sveitarstjórnarmenn velkomna til starfa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum