Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

17. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Öflugar konur í íslenskum landbúnaði

Heiðruðu konur

Fyrst af öllu vil ég óska ykkur til hamingju með Alþjóðadag kvenna í landbúnaði. Það er vel til fundið hjá ykkur að velja 15. október til þess að bera saman bækur ykkar. Það hefur lengi brunnið við að þátttaka kvenna í félagsmálum landbúnaðarins hefur verið alltof lítil. Að einhverju leyti er þetta arfur frá gamalli tíð þegar verkaskipting kynjanna var skýr. Konan annaðist heimili, matseld og barnauppeldi en karlinn var að afla tekna og annaðist útréttingar. Bóndinn annaðist sölu framleiðslunnar, konan innkaup að einhverju leyti.

    "Bóndinn situr á bæjarstétt
    bindur hann reipi hnýtir hann hnúta
    Heyið er upp í sæti sett
    konan ætlar að kaupa fyrir það klúta."
segir í gömlum húsgangi.

Konur hafa of lengi unað þessu fyrirkomulagi en það er þó sem betur fer að breytast. Hlutverk kynjanna hafa líka breytst í daglegu lífi. Konur sinna rekstri bús engu síður en karlar og karlar taka aukinn þátt í umönnun barna, matargerð og heimilishaldi. Ég hygg að konur hafi aldrei fyrr tekið hlutfallslega jafn mikinn þátt í búrekstri.

Í þeim þrengingum sem gegnið hafa yfir landbúnaðinn hefur bændafólk orðið að leita vinnu utan heimilis í auknum mæli enda gefa minni kúabú og sauðfjárbú ekki tekjur til að framfleyta fjölskyldu. Það er mikið áhyggjuefni að árið 2000 voru meðaltekjur sauðfjárbænda einungis 825 þúsund krónur og samkvæmt þeim mælikvarða að þeir sem hafi minna en hálfar meðaltekjur í þjóðfélaginu séu fátækir þá er nærri helmingur sauðfjárbænda undir fátæktarmörkum. Þetta er að vísu afstæður mælikvarði. Meðaltekjur á Íslandi eru þriðjungi hærri en meðaltekjur í Evrópusambandinu.
Það er einnig alvörumál að 8% bændakrakka segjast ekki fara í framhaldsnám af efnahagsástæðum.
Það að sauðfjárbúskapur skuli vera orðinn aukabúgrein kallar á aukna þátttöku kvenna í félagsmálum stéttarinnar því oft er það konan sem annast búreksturinn fyrst og fremst.

Ég hef sem ráðherra jafnréttismála undanfarin ár haft tækifæri til að skipta mér af jafnréttismálum sérstaklega.
Árið 1996 var Ísland valið til rannsóknar af sérfræðinganefnd SÞ um afnám mismununar gagnvart konum. Ég mætti ásamt ráðuneytisstjóra Berglindi Ásgeirsdóttur og Elsu Þorkelsdóttur, framkvæmdastjóra Jafnréttisráðs í yfirheyrslu hjá nefndinni í New York og mælti fyrir ítarlegri skýrslu.
Niðurstaða nefndarinnar var sú að jafnréttismál væru í góðu lagi á Íslandi nema hvað varðaði kynbundinn launamun og réttleysi sveitakvenna.
Ég tók þessar aðfinnslur alvarlega og við höfum reynt að bæta úr eftir því sem okkur hefur verið mögulegt.
Við gerð jafnréttisáætlana hefur þetta verið haft í huga og einnig við nýja jafnréttislöggjöf.

Stærsta skrefið var þó tekið með fæðingarorlofslögunum sem eru brautryðjandaverk á heimsvísu. Við vitum ekki um neina hliðstæða löggjöf í öðrum löndum. Þessi löggjöf mun óhjákvæmilega stuðla að því að eyða kynbundnum launamun þar sem karlinn mun engu síður en konan hverfa tímabundið úr vinnu vegna barneigna.
Ég setti einnig í lögin sérákvæði um bændakonur á þá leið að þó tekjur af búi væru litlar ætti bóndakona rétt á ákveðinni lágmarksgreiðslu í fæðingarorlofi á sama hátt og konur í námi. Annars eru greiðslur í fæðingarorlofi 80% af tekjum undanfarna mánuði. Hvort foreldri á óframseljanlegan rétt til þriggja mánaða fæðingarorlofs og að auki eru þrír mánuðir sem foreldrar geta skipt að vild.

Á grundvelli jafnréttisáætlunar settum við á stað tilraunaverkefni jafnréttisfulltrúa á Norðurlandi vestra. Til starfsins valdist Bjarnheiður Jóhannsdóttir sem hér er í dag. Bjarnheiður hefur unnið geysigott starf og að tilraunatímabilinu loknu var ákveðið að útvíkka starfsemina um land allt og ráða þrjá atvinnu- og jafnréttisráðgjafa í samvinnu við Byggðastofnun. Helga Björg Ragnarsdóttir sem hér er í dag verður að störfum á Norðausturlandi.
Bjarnheiður lét Háskólann á Akureyri gera stórmerkilega könnun á aðstæðum kvenna í landbúnaði á Norðurlandi vestra árið 1998.

Rannsóknin leiddi í ljós að konurnar unnu mikið við búskap og 53% þeirra stunduðu launavinnu utan bús, mest í opinberri þjónustu eða 37% kvennanna.
Í flestum tilfellum var karlinn skráður fyrir búinu eða 62,3% konan ekki nema í 9% tilfella og bæði eða fjölskylda í öðrum tilfellum. Þarna er ein skýringin á dræmri þátttöku kvenna í félagsstarfi. Einungis skráður eigandi má skuldbinda búið. Einungis 1% kvenna sinnti trúnaðarstörfum fyrir bændur, 2% sátu í nefnd og einungis 10% sögðust mæta á fundi stéttarinnar. Þetta var staðan á Norðurlandi vestra 1998. Reikna má með að hún hafi skánað síðan. Þá má bæta við að of margar höfðu aðeins grunnskólamenntun. Fjarnám sem nú er orðið veruleiki er áreiðanlega mjög mikilvægt ekki síst sveitakonum.

Atvinnu- og jafnréttisráðgjafar þeir sem starfa í Norðvestur- og Norðausturkjördæmum á vegum félagsmálaráðuneytis og Byggðastofnunar, þær Bjarnheiður og Helga Björg hafa stofnað til samstarfs við Skotland, Svíþjóð og Finnland um átaksverkefnið "Rural Business Women", eða "Athafnakonur í dreifbýli". Samstarfsaðilarnir eru um þessar mundir að sækja í sjóði Evrópusambandsins um fjármögnun verkefnisins.

Verkefnið snýst um að styðja konur sem nýtt geta náttúruauðlindir, svo sem jurtir, rekavið og jarðefni ýmiss konar, ásamt auðvitað náttúrunni sjálfri og ósnortinni, með umhverfisvænni ferðaþjónustu og hliðarafurðum í landbúnaði, bein, horn, ull o.s.frv., til að gera nýtinguna að arðbærum atvinnurekstri. Verður það gert með námskeiðum fyrir konur á starfssvæði ráðgjafanna, ráðgjöf sérfræðinga til handa konum og þeirra fyrirtækjum, námsferðum innanlands og erlendis, ásamt námsstefnum og fundum sem ætlað er að byggja upp þekkingu kvenna á nýtingu þessara auðlinda og á þeim möguleikum sem felast í markaðssetningu þeirra.

Verkefnið er til þriggja ára og mun félagsmálaráðuneytið leggja fjármagn til þess í gegnum Vinnumálastofnun, ásamt vinnuframlagi atvinnu- og jafnréttisráðgjafanna, sem ráðuneytið stendur að ásamt Byggðastofnun. Umsóknin hefur þegar hlotið jákvæða umfjöllun hjá Evrópusambandinu sem þáttur í jaðarbyggðaáætlun þess, þótt ekki sé komin staðfesting á því að það verði styrkt, enda hafa innlendir aðilar í hverju landi lýst yfir áhuga á að styðja þetta verkefni.

Í þessu verkefni verður í heildina um 15 milljónum íslenskra króna varið í uppbyggingu á framangreindri atvinnustarfsemi kvenna, sem verður kærkomin viðbót við þann stuðning sem stendur bændum til boða á vegum Bændasamtakanna og annarra er sinna atvinnuráðgjöf.

Úr Styrktarsjóði félagsmálaráðuneytisins til atvinnumála kvenna hefur síðan 1995 verið varið 160 milljónum og úr Lánatryggingasjóði kvenna hafa farið 100 milljónir. Þá eru ótaldir styrkir Atvinnuleysis- tryggingasjóðs til menntasmiðja og átaksverkefna víða um land. Ég hef þá trú að þessir fjármunir nýtist vel.

Að endingu vona ég að þessi fundur stuðli að aukinni þátttöku kvenna í félagsstarfi landbúnaðarins. Landbúnaðurinn þarf á því að halda að bændur standi saman og sem flestir sem hann stunda leggi sitt að mörkum til sameiginlegra átaka í þágu stéttar okkar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum