Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á ársfundi Starfsgreinasambands Íslands

Góðir ársfundarfulltrúar.

Fyrst af öllu vil ég þakka ykkur í verkalýðshreyfingunni fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fyrir framgöngu ykkar síðastliðið vor í baráttunni við verðbólguna. Þar sýndi íslensk verkalýðshreyfing mikla framsýni og ábyrgð. Sannaðist þá hve geysilega þýðingarmikið er að verkalýðshreyfing sé öflug og meðvituð um þjóðarhag. Án atbeina ykkar hefði sá einstæði árangur ekki náðst í verðlagsmálum sem raunin varð.

Uppskeran lét ekki á sér standa, verðbólga er nú um eða innan við 2%. Viðskiptahallinn sem um árabil hefur verið helsta ógn við efnahagslífið er horfinn. Viðskiptajöfnuður er orðinn jákvæður, niðursveiflunni er lokið og nýtt hagvaxtarskeið virðist framundan.

Stýrivextir Seðlabankans hafa lækkað um 4,6% úr 11,4% í 6,8% sem er hlutfallsleg lækkun upp á 40%. Vextir þurfa enn að lækka og munu væntanlega gera það.

Sumir hagfræðingar fylgja þeirri háskalegu villukenningu að til þess að óhætt sé að lækka vexti þurfi að vera hóflegt atvinnuleysi eða 3-4%. Sem betur fer fengu þeir ekki að ráða, þótt atvinnuleysi hafi aukist lítið eitt frá því þegar það var minnst er það þó í september ekki nema 2,2% af áætluðum mannafla á vinnumarkaði.

Þetta er ekki há tala í Evrópusamhengi og langtímaatvinnuleysi er mjög lítið. Hafa ber það í huga að alltaf eru nokkur hundruð laus störf hjá svæðisvinnumiðlunum og það sem af er þessu ári hefur Vinnumálastofnun gefið út um 3500 atvinnuleyfi vegna fólks sem hefur ríkisfang utan Evrópska efnahagssvæðisins. Ég tel ástæðu til að draga úr útgáfu nýrra leyfa á meðan við glöggvum okkur á hver þróunin verður í vetur.

Hvað varðar EES borgara í vinnu hér vitum við ekki hve þeir eru margir en þumalfingursreglan er að gera ráð fyrir að þeir séu álíka margir og verkafólk utan EES.
Við óttumst nýtt vandamál sérstaklega varðandi EES borgara frá Suður-Evrópu. Ég hef heyrt sögusagnir um Portúgali sem vinna hér á miklu lægra kaupi en íslenskir kjarasamningar kveða á um.
Við eigum að hafa vald á að fylgjast með að þeir sem þurfa leyfi til að flytja inn verkafólk borgi því samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Verði þeir atvinnurekendur uppvísir að því að svíkja um kaup sem þeir hafa lofað í ráðningarsamningi fá þeir ekki atvinnuleyfi aftur.

Verra er að fást við þá sem ekki þurfa að sækja til okkar, þá sem ráða fólk af Efnahagssvæðinu. Þeir geta svindlað á erlendu verkafólki án þess að við höfum hugmynd um. Ég heiti á verkalýðsfélögin í Starfsgreinasambandinu að gefa gaum að þessari hættu og láta okkur vita ef minnsti grunur er um misferli.
Ég vil beita tiltæku afli ráðuneytis og Vinnumálastofnunar í samstarfi við stéttarfélögin að stöðva þennan ósóma. Ef við í félagi sýnum ekki árverkni og festu í þessu efni verður íslenskt vinnuafl útundan á vinnumarkaði fyrr en varir. Gagnlegt er að hafa í huga að meðalárstekjur Íslendinga eru þriðjungi hærri en meðal árstekjur í Evrópusambandinu.
Hvað varðar erlent vinnuafl á Íslandi þá er raunin sú að 40% setjast hér að til frambúðar. Við þurfum að leggja meiri rækt við að samlagast þessu fólki og aðlaga það íslenskum veruleika.

Við komum á fót Fjölmenningarsetri á Ísafirði, það þjónar landinu öllu. Ég vil gera atvinnurekendum sem fá leyfi til að ráða útlendinga að skyldu að útvega þeim netföng og aðgang að tölvu svo þeir geti komist í samband við Fjölmenningarsetrið og notið þjónustu þess.

Í kjölfar síðustu kjarasamninga settum við í félagi á laggirnar nýja starfsmenntasjóði fyrir ófaglært verkafólk en sjóðirnir eru fjármagnaðir með framlagi úr Atvinnuleysistryggingasjóði. Starfsemi þessara sjóða er nú með dyggri aðkomu ykkar, að fá á sig mynd og mér finnst ánægjulegt að sjá hversu vel þeim hefur tekist til. Framboð á starfsmenntun hefur stóraukist og t.d. er aðkoma sjóðanna við íslenskukennslu útlendinga til fyrirmyndar.
Þessu til viðbótar kemur síðan Starfsmenntasjóður félagsmálaráðuneytisins sem hefur nú um 60 milljónir til ráðstöfunar á ári hverju. Starfsmenntun af hvaða tagi sem er, er nauðsynleg í nútímasamfélagi og ekki síður hjá verkafólki en öðrum starfsstéttum.
Vöxtur og viðgangur símenntunarmiðstöðvanna hringinn í kringum landið, sem verkalýðshreyfingin kemur að, hefur lagt þarna þungt lóð á vogarskálarnar og starfsemi þeirra á margan hátt skipt sköpum við að ná til fólksins í landinu með menntunartilboð og hvatningu. Það er á margan hátt aðdáunarvert og til eftirbreytni að fylgjast með starfi margra fræðslustofnana, fyrirtækja og hagsmunasamtaka á þessum vettvangi og hvernig þau vinna verk sín.

Síðasta sjómannadag var undirritað í félagsmálaráðuneytinu samkomulag LÍÚ og Sjómannasambands Íslands um starfsmenntun sjómanna. Það má með nokkru sanni segja að þar með hafi hringnum næstum verið lokað og flestum starfsstéttum standi nú til boða fjárstyrkir til starfsmenntunar þó vitaskuld séu þeir með mismunandi skilyrðum og forsendum.

Um næstu áramót taka gildi ný lög um atvinnuréttindi útlendinga. Um er að ræða heildarendurskoðun núgildandi laga sem unnin var af nefnd sem í áttu sæti fulltrúar frá félagsmálaráðuneyti, Vinnumálastofnun, Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og dómsmálaráðuneyti.

Við endurskoðun laganna um atvinnuréttindi útlendinga voru ekki gerðar grundvallarbreytingar á því fyrirkomulagi sem verið hefur við veitingu atvinnuleyfa. Eftir sem áður heyrir veiting dvalar- og atvinnuleyfa undir tvær stofnanir, Útlendingaeftirlitið og Vinnumálastofnun. Meginskilyrði fyrir veitingu atvinnuleyfis samkvæmt lögunum eru þau sömu og samkvæmt núgildandi lögum, þ.e. að ekki fáist íslenskir kunnáttumenn innanlands eða að atvinnuvegi landsins skorti vinnuafl. Eins og verið hefur er tímabundið atvinnuleyfi veitt atvinnurekanda en eftir þrjú ár er heimilt að veita útlendingi óbundið atvinnuleyfi.

Meðal nýmæla í lögunum má nefna nýjan flokk atvinnuleyfa vegna sérhæfðra starfsmanna fyrirtækja sem ekki hafa starfstöð hér á landi. Kveðið er á um skyldu atvinnurekanda til að sjúkratryggja erlendan starfsmann sinn þannig að hann njóti verndar til jafns við ákvæði almannatryggingalaga. Heimilt verður að veita tímabundið atvinnuleyfi vegna nánustu aðstandenda útlendings sem fengið hefur búsetuleyfi og er skilgreint hverjir teljast nánustu aðstandendur í því sambandi. Í lögunum er nýtt ákvæði þar sem ítarlega er greint frá hvaða háttsemi er refsiverð, hver refsiramminn er og hverjar saknæmiskröfur eru.

Að lokum má nefna að kveðið er á um sérstaka samstarfsnefnd sem kalla skal saman vegna almennra álitamála varðandi útgáfu atvinnuleyfa og þegar beiðnir berast til Vinnumálastofnunar um atvinnuleyfi fyrir hópa útlendinga. Nefndin skal skipuð fulltrúum Vinnumálastofnunar, Útlendingaeftirlits, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins og formaður skipaður af félagsmálaráðherra án tilnefningar.
Á þessu þingi ætla ég að leggja fram frumvarp að nýrri heildarlöggjöf um Vinnueftirlitið, þ.e. aðbúnað og hollustuhætti á vinnustöðum.

Sérstök skrifstofa sem fer með jafnréttis- og vinnumál hefur verið sett upp í félagsmálaráðuneytinu. Gylfi Kristinssson er skrifstofustjóri hennar.

Ég sé ástæðu til að minna á lög um foreldra- og fæðingarorlof sem taka að fullu gildi um næstu áramót. Þá njóta bæði kynin fulls jafnréttis og sömu reglur gilda á öllum vinnumarkaði og er það eftir því sem við best vitum einsdæmi í veröldinni. Móðir og faðir hafa hvort um sig rétt til þriggja mánaða óframseljanlegs fæðingarorlofs og að auki fá þau þrjá mánuði sem þau geta skipt með sér að vild.

Fæðingarorlofssjóður greiðir 80% af launum undanfarinna mánaða. Fæðingarorlof geta foreldrar tekið saman eða hvort í sínu lagi, skipt orlofinu og unnið hlutastarf en orlofið verður að taka á fyrstu 18 mánuðum í ævi barnsins. Sé um tvíbura að ræða eða veikindi á meðgöngu er sveigjanleiki og aukinn réttur.

Foreldraorlofið er þannig að hvort foreldri á rétt á að hverfa úr vinnu til að vera samvistum við barn sitt 13 vikur, samtals misseri á fyrstu 8 árum í ævi barns. Þetta foreldraorlof er launalaust en þó dýrmæt réttindi.
Þá vil ég nefna að héðan af er óheimilt að segja fólki upp störfum þó það þurfi að sinna fjölskylduábyrgð. Þó foreldri eða starfsmaður mæti ekki í vinnu vegna þess að hún eða hann þurfi að sinna sjúku barni, maka, foreldri eð öðrum nákomnum má ekki reka viðkomandi úr vinnu vegna þess háttar fjarvista, það þarf meira til.

Ég sé á dagskránni að þið ætlið að ræða húsnæðismál. Það gefur mér tilefni til að nefna nokkrar staðreyndir um þann málaflokk.

Á undanförnum árum hafa verið miklir fólksflutningar innanlands og frá útlöndum. Þetta kallar á mikil viðskipti með húsnæði og nýbyggingar.
Fjörtíu prósent Íslendinga hafa fluttst búferlum á síðustu fjórum árum. Lánafyrirgreiðsla Íbúðalánasjóðs gengur hratt og vel fyrir sig og sú breyting sem gerð var á skipulagi húsnæðismála hefur sannanlega tekist með ágætum.

Árið 1998 voru 10.000 félagslegar íbúðir í landinu, þ.e. 6.600 félagslegar eignaríbúðir og um 3.400 leigu- og kaupleiguíbúðir.
Frá stofnun Íbúðalánasjóðs 1999 eða á síðustu þremur og hálfu ári hafa um 6.800 fjölskyldur til viðbótar fengið félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Um 5.600 íbúðir með vibótarláni hafa verið byggðar eða keyptar og um 1.200 leiguíbúðir fyrir tekjulága. Frá 1. janúar 1999 eða á tæpum fjórum árum hafa útlán á félagslegum grunni, þ.e.a.s. viðbótarlán og leiguíbúðarlán tvöfaldast úr 50 milljörðum í yfir 100 milljarða.

Með lagabreytingu síðastliðið vor, var sveitarfélögum heimilað að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti á félagslegum eignaríbúðum og hafa allmörg sveitarfélög gert það nú þegar formlega. Þau verða áfram að leysa til sín félagslegar eignaríbúðir óski seljandi þess. Þessi aðgerð var mjög til hagsbóta fyrir seljendur á þeim svæðum þar sem söluverð eigna er hærra en reikningsverð í félagslega eignaríbúðarkerfinu. Á þeim svæðum þar sem fasteignaverð er lágt tapar fólk heldur engum réttindum sem það hafði öðlast lögum samkvæmt.

Viðbótarlánin eru veitt fólki undir skilgreindum tekju- og eignarmörkum. Húsbréfalán er veitt fyrir 65 eða 70% kaupverðs ef um fyrstu íbúð er að ræða og stendur eignin að veði fyrir húsbréfunum. Síðan veitir Íbúðalánasjóður peningalán fyrir 25 eða 20% kaupverðsins þannig að lánað er 90% kaupverðs.
Viðbótarlánið er veitt að beiðni viðkomandi sveitarfélags sem leggur fram í varasjóð 5% af upphæð hvers viðbótarláns og stendur varasjóður að veði fyrir viðbótarlánunum. Þeir sem hafa fengið viðbótarlán eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og sveitarfélögin leyst sinn hluta vel af hendi.

Það er mikil fjarstæða að halda því fram að félagsleg aðstoð í húsnæðismálum hafi minnkað þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa, hún hefur stóraukist eða úr 10.000 í 17.000 íbúðir á þremur og hálfu ári.

Tvímælalaust er verulegur skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á landsbyggðinni. Það er samkomulag um að lána til 400 leiguíbúða árlega með 3,5% niðurgreiddum vöxtum. Þessar íbúðir eru ætlaðar fólki innan skilgreindra tekju- og eignamarka. Þetta eru t.d. leiguíbúðir sveitarfélaga, námsmannasamtaka, Öryrkjabandalags, Þroskahjálpar og félaga aldraðra.

Þar að auki er komið í gang að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins og með þátttöku Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða. Áformað er að byggja 600 leiguíbúðir á næstu fjórum árum, 150 íbúðir á ári. Lánin verða með niðurgreiddum vöxtum 4,5%. Búseti mun byggja og reka 300 af þessum íbúðum og hefur þegar hafist handa.

Íbúðalánasjóður lánar í ár út á 200 leiguíbúðir á markaðsvöxtum. Þannig munu bætast við 2.400-3.000 leiguíbúðir á næstu fjórum árum.
Verði eftirspurn meiri eftir lánum til leiguíbúða en 550 á ári munu þau lán bera markaðsvexti. Sveitarfélögin verða að leggja til lóðir á góðum kjörum.
Húsaleigubætur verða í ár um 900 milljónir og voru þær gerðar skattfrjálsar um síðustu áramót. Einkennilegt er að allir sem eiga rétt á húsaleigubótum skuli ekki sækja eftir þeim en fjöldi leigjenda gerir það ekki. Það er líka sérkennilegt hve margir virðast vilja spenna upp leiguverð, líka leigjendur.

Þegar Íbúðalánasjóður var myndaður með sameiningu Húsbréfadeildar Byggingasjóðs ríkisins og Byggingasjóðs verkamanna voru í Húsbréfadeild 6 milljarðar, Byggingasjóði ríkisins 16 milljarðar en Byggingasjóður verkamanna var neikvæður um 16 milljarða. Sextán milljarðar voru horfnir vegna neikvæðra vaxta. Það gengur ekki. Íbúðalánasjóður er fjármagnaður með sölu húsnæðisbréfa. Lífeyrissjóðir kaupa bréfin og ræður því ávöxtunarkrafa lífeyrirssjóðanna vöxtum á húsnæðislánum.

Þrátt fyrir skort á leiguhúsnæði einkum á höfuðborgarsvæðinu eru sveitarfélög víða um land að glíma við öðruvísi vanda. Þau hafa sum þurft að leysa til sín margar félagslegar eignaríbúðir og geta ekki rekið þær nema með halla. Þannig eru nokkur sveitarfélög í verulegum vanda.
Með lagabreytingu í fyrravor sem undirbúin var í samráði við sveitarfélögin var myndaður farvegur til að leysa þennan vanda á árunum 2002-2006.
Myndaður er Varasjóður húsnæðismála úr Varasjóði viðbótarlána, Tryggingasjóði vegna byggingagalla, árlegu framlagi ríkisins og árlegu framlagi sveitarfélaganna. Varasjóðurinn er í eigu sveitarfélaganna og tilnefna þau meirihluta ráðgjafarnefndar sjóðsins.

Hlutverk sjóðsins er tvíþætt, í fyrsta lagi að veita sveitarfélögum rekstrarframlag vegna félagslegra leiguíbúða þar sem eðlileg leiga stendur ekki undir rekstri og í öðru lagi að veita sveitarfélögum framlög vegna sölu félagslegra eignar- eða leiguíbúða þar sem mögulegt söluverð nægir ekki til að greiða upp áhvílandi lán.
Þess er vænst að 2006 verði vandi sveitarfélaga vegna félagslega kerfisins að mestu leystur.
Þá hefur sveitarfélögunum verið heimilað að láta upphafleg lán á innlausnaríbúðum á 1% eða 2,4% vöxtum standa út upphaflegan lánstíma, síðan eiga þau kost á lánum á markaðsvöxtum þannig að heildarlánstími í eigu sveitarfélags geti orðið 50 ár.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs voru 1. júlí síðastliðinn 375 milljarðar eða tæpur helmingur af skuldum heimilanna. Vanskil eru í sögulegu lágmarki eða 0,52% af útistandandi skuldum við Íbúðalánasjóð.

Ég vil svo að endingu óska ykkur árangursríks ársfundar og farsældar í ykkar mikilvægu störfum.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum