Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. október 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Nýtt sambýli fyrir fatlaða að Svöluhrauni

Ágætu gestir

Það er mér sérstök gleði að vera hér með ykkur í dag þar sem við fögnum opnun fyrsta sambýlisins í öðrum áfanga útskriftar íbúa frá Kópavogsbraut 5 í sambýli.

Það er ekki hægt að segja annað en að hér sé enn á ný brotið blað í sögu þeirra sem búa við fötlun á Íslandi. Þessi áfangi er merkilegur fyrir þær sakir að þeir sem hingað flytja hafa á lífsleiðinni upplifað þjónustu sem einkenndi fyrri tíma þar sem áherslur og hugmyndafræði voru með allt öðrum hætti en við þekkjum og telst eftirsóknarvert í dag. Þeir íbúar sem hér munu búa fluttu margir hverjir á Kópavogshæli á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar og hafa því dvalið lengstan tíma ævi sinnar í stofnanaumhverfi.

Í þá daga var talið að veita ætti þessu fólki þjónustu á sólarhringsstofnunum, það væri besta lausnin bæði fyrir það sjálft og ekki síður það samfélag sem það hafði búið í. Á þeim tíma voru stiginn mikil framfaraspor þar sem aðstæður sumra þeirra sem komu til dvalar á fyrrum Kópavogshæli höfðu verið með þeim hætti að ekki þætti neinum boðlegt í dag. Kópavogshæli þótti þá betri kostur fyrir þennan hóp en það hafði áður kynnst. Þar var boðið upp á húsaskjól og lágmarksumönnun. Stjórnendur og starfsfólk höfðu háar hugmyndir um framtíð þeirrar þjónustu sem boðið skyldi upp á. Sumar þessara hugmynda náðu fram að ganga, aðrar lutu í lægra haldi fyrir gömlum viðhorfum.

Hugmyndafræði þjónustunnar tók þó örum breytingum á áttunda áratugnum. Þar kom, að þjónusta sem einu sinni hafði þótt framsækin á Kópavogshæli þótti það ekki lengur og farið var að líta á þarfir þeirra sem þar bjuggu á þann hátt að íbúarnir fengju þeim betur mætt í öðru umhverfi. Þar væri hægt að bjóða þeim upp á betri möguleika til þess að njóta lífsins á sínum forsendum.

Það var því um miðjan síðasta áratug að hafist var handa við að bjóða íbúum á Kópavogshæli upp á búsetu á sambýlum í almennum íbúðarhverfum. Nokkur styrr stóð um þessa ráðagerð þar sem margir litu svo á að eðlilegast væri að bjóða þeim sem voru á biðlista Svæðisskrifstofanna upp á búsetu áður en ráðist yrði í það verkefni að hefja útskrift af Kópavogshæli. Skrefin sem tekin eru hér í dag gefa vísbendingu um að við séum á réttri leið, því á sama tíma og við gleðjumst yfir þessum áfanga, þá gleðjumst við einnig yfir þeim áföngum sem náðst hafa að undanförnu og munu nást á næstunni í uppbyggingu búsetuúrræða fyrir þá sem hafa verið á biðlistum svæðisskrifstofanna í Reykjavík og Reykjanesi.

Þetta heimili er fyrsta í röð fimm heimila í þessum öðrum áfanga útskrifta íbúa sem búið hafa í húsi 15 á lóð Landspítalans í Kópavogi. Gert er ráð fyrir því að í þessum áfanga fái 20 einstaklingar boð um búsetu á sambýlum á höfuðborgarsvæðinu. Tvö þessara heimila hafa þegar verið keypt, þ.e. þetta sem við hér stöndum í og annað við Skagasel í Reykjavík sem verður tekið í notkun á næstu vikum. Búið er að leggja drög að kaupum á tveimur húsum til viðbótar sem væntanlega verða tekin í notkun næsta vor og loks er gert ráð fyrir því að fimmta húsið verði keypt fyrir mitt næsta ár.
Það er því ljóst að allar áætlanir um þennan áfanga virðast ætla að standast með sóma.

Það má segja að þeir sem hér hafa komið að við verkstjórn og framkvæmd á þessum áfanga hafa staðið sig með mikilli prýði og ég held að á engan sé hallað þó að Sigríði Kristjánsdóttur framkvæmdastjóra Svæðisskrifstofu Reykjaness sé sérstaklega þakkað fyrir hennar framlag. Framkvæmd þessa áfanga hefur hvílt á herðum starfsmanna Svæðisskrifstofu Reykjaness og fá þeir sérstakar þakkir fyrir sitt framlag. Einnig vil ég þakka starfsfólki Landspítalans í Kópavogi og öðrum sem að hafa komið fyrir þeirra atbeina. Ef þessir aðilar hefðu ekki náð góðri og öflugri samvinnu þá stæðum við ekki hér í dag.

Það er von mín að þeir sem hér eiga að búa fái nú tækifæri til þess að öðlast eitthvað af þeim lífsgæðum sem þeir hafa verið án á undanförnum árum og áratugum.

Megi blessun fylgja þeim íbúum sem hér eiga að búa og því starfsfólki sem hér á eftir að starfa.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum