Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

01. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ræða félagsmálaráðherra við opnun sambýlis við Hólmasund

Ágætu íbúar og gestir

Enn á ný fögnum við áfanga í uppbyggingu búsetuþjónustu við fólk með fötlun í Reykjavík.

Það er mér mikið gleðiefni hve mikill gangur er uppbyggingu úrræða á þessu ári fyrir fólk sem býr við fötlun. Opnuð hafa verið sambýli við Blikaás í Hafnarfirði, Barðastaði og Sólheima í Reykjavík og nú opnum við þetta sambýli við Hólmasund. Alls breytast því búsetuhagir 24 einstaklinga með þessum aðgerðum.

Jafnframt þessu hefur fyrsta sambýlið af fimm sem ætlað hefur verið fyrir íbúa af fyrrum Kópavogshæli verið tekið í notkun við Svöluhraun í Hafnarfirði og munu öll fimm sambýlin í þessu átaki vera komin í notkun á miðju næsta ári. Alls munu því 20 einstaklingar sem búið hafa við óviðunandi búsetuskilyrði fá nýja búsetu.

Einnig má geta þess að nú er hafin vinna við breytingar á skammtímavistinni við Holtaveg í Reykjavík þar sem gert er ráð fyrir að 10 einstaklingar geti dvalið í lengri og skemmri tíma.

Á næsta ári munum við halda áfram að krafti með uppbyggingu búsetu og vinnuúrræða á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurlandi. Gert er ráð fyrir að um og yfir 20 einstaklingar hafi fengið tilboð um búsetuúrræði í lok þess árs. Á þessum svæðum er þörfin mest og er því eðlilegt að það sé í forgangi að veita þjónustu á því svæði. Við þessa uppbyggingu mun ganga verulega á þá biðlista sem eru eftir búsetu og vinnu og hæfingu við hæfi.

Á næstunni mun verða gert nákvæmt stöðumat á fjölda og þörfum þeirra sem nú bíða eftir búsetu og vinnu hjá svæðisskrifstofunum. Einnig verður reynt að meta þarfir þeirra sem bíða eftir stuðningsúrræðum af ýmsu tagi. Með því að gera slíkt mat reglulega er stefnt að því að unnt sé að bregðast við þjónustuþörfum þeirra sem sækjast eftir þjónustu á skilvirkari og betri hátt. Það er von mín að með þeirri vinnu sem við erum nú með í gangi í uppbyggingu búsetuþjónustu og annarrar þjónustu til lengri tíma sé stuðlað að meira öryggi og aukinni vellíðan þeirra sem eiga að nota þjónustuna. Þetta vinnulag gerir þeim kleift sem næst notandanum standa og starfa að vinna með markvissari hætti að því að veita honum góða þjónustu.

Við stöndum þó alltaf frammi fyrir áskorunum þegar málefni fatlaðra eru til umfjöllunar. Það liggur í eðli stöðunnar að þegar einni þörf er mætt þá vakna aðrar. Þó svo oft sé á brattann að sækja þá er afar dýrmætt að við sækjum fram með jákvæðum huga og séum alltaf tilbúin til að takast á við ný verkefni með þá hugsun að leiðarljósi. Við verðum að geta glaðst yfir því að á hverju ári erum við að ná mörgum stórum áföngum í þjónustu við fólk við fötlun. Ég geri mér grein fyrir því að nokkuð er í land að þjónustan sé fullnægjandi fyrir alla. Ég er þó þeirrar skoðunar að þessa árs og vonandi þeirra næstu verði minnst sem góðum árum þar sem verkin voru látin tala.

En góð þjónusta við fólk sem er fatlað byggist ekki eingöngu á því að úrræði séu til staðar. Samfélagið, fólkið í landinu, þarf að búa yfir skilningi á þörfum þessa fólks og vera tilbúið til þess að veita stuðning þegar á þarf að halda. En á síðustu tímum er margt sem glepur sýn og þá er stutt í fordóma og neikvæðni sem veikir þær grundvallarstoðir sem samfélagið byggir á. Við þurfum því að reyna að hafa áhrif á gildismat fólks með enn afgerandi hætti en gert er í dag. Gildismat er margslungið fyrirbæri því oft heyrum við á hátíðarstundum að öll eigum við að njóta þeirra réttinda sem samfélagið hefur tryggt okkur, en í reynd birtist gildismat fólks með öðrum hætti. Hér má t.d. nefna það þegar nágrannar mótmæla því kröftuglega þegar fatlaðir flytja í götuna en um leið fullyrða þeir að þeir hafi ekkert á móti fötluðu fólki. Við verðum að opna þessa umræðu og fá til liðs við okkur alla þá sem hagsmuna eiga að gæta og reyndar samfélagið allt þannig að við getum enn frekar styrkt stoðir þeirra hugmynda sem við viljum að þetta samfélag okkar byggi á.

Ég þakka öllum þeim sem að byggingu þessa sambýlis komu, m.a. verktökum og starfsmönnum Svæðisskrifstofu Reykjavíkur fyrir þeirra framlag.

Ég vil einnig þakka Hússjóði Öryrkjabandalagsins sérstaklega fyrir góða og árangursríka samvinnu við byggingu þessa sambýlis. Þetta samstarf er prýðilegur vitnisburður um það hvernig slíkt samstarf getur best verið á milli hins opinbera og hagsmunasamtaka.

Ég vil óska þeim sem hér eiga að búa innilega til hamingju með daginn og megi búseta þeirra verða þeim til blessunar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum