Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

07. nóvember 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Fjármálaráðstefna sveitarfélaganna 2002

Góðir sveitarstjórnarmenn.

Þegar við komum saman til fjármálaráðstefnu á þessu hausti er að mörgu leyti betra útlit en oftast áður hvað varðar efnahagsmál. Með sameinuðu þjóðarátaki tókst að koma böndum á verðbólguna og á þar verkalýðshreyfingin heiður skilinn, vextir eru á öruggri niðurleið, hagvöxtur í vændum. Tekist hefur að verja kaupmáttaraukninguna og viðskiptahallinn sem um árabil hefur verið helsta ögrunin við efnahagskerfi okkar er horfinn. Viðskiptajöfnuður er orðinn hagstæður, ríkisfjármál í góðu lagi. Þetta tókst okkur vegna þess að við höfum yfirráð yfir hagkerfi okkar sjálf og höfum okkar eigin mynt. Þetta hefði ekki verið mögulegt hefðum við verið aðilar að Evrópusambandinu. Lífskjör þar eru hvergi jafngóð og hér, nema í Lúxemborg.

Því miður varð fjárhagsleg útkoma sveitarfélaganna á síðasta ári ekki í samræmi við þær fjárhagsáætlanir sem gerðar höfðu verið. Samkvæmt fjárhagsáætlunum 2001 var gert ráð fyrir hallarekstri upp á rúman milljarð og hefði það verið verulega betri útkoma en á árum þar á undan.

Þegar uppgjör ársins 2001 liggja fyrir blasir við verulega lakari útkoma. Það er áhyggjuefni að fjárhagsáætlunum sé ekki betur treystandi. Rekstur málaflokka sem hlutfall af skatttekjum var þó á nokkuð betra róli en árin á undan eða 82,7%. Það eru eignfærðar fjárfestingar sem fyrst og fremst fara fram úr áætlun. Vonandi eru fjárhagsáætlanir sveitarfélaga fyrir 2002 traustari, en þar er gert ráð fyrir 830 milljóna afgangi og að rekstur málaflokka verði 76,9% af skatttekjum. Þessar miklu fjárfestingar eru fyrst og fremst á vegum sveitarfélaganna hér á höfuðborgarsvæðinu.

Hins vegar er það er mjög ánægjulegt að mörg sveitarfélög sem undanfarið hafa verið í miklum skuldakröggum eru búin að vinna sig út úr þeim og eru komin í prýðilega rekstrarhæft ástand. Þar munar mestu um sveitarfélögin á Vestfjörðum. Ríkið keypti af þeim hlut þeirra í Orkubúinu og þau gátu með andvirðinu losnað við skuldabaggana og komist úr fjárþröng sem búin var að þjaka þau sum um árabil.

Nokkur umræða hefur spunnist um framtíð Orkubúsins en 7. nóvember 2000 var eftirfarandi staðfest f.h. félagsmála-, fjármála- og iðnaðarráðuneyta. "Orkubúið starfi sem sjálfstæð eining. Gjaldskrá OV verði aðlöguð gjaldskrá Rarik í áföngum. Engum starfsmanni OV verði sagt upp störfum vegna breytingar á félagsformi og kaupa ríkisins á eignarhluta einstakra sveitarfélaga. Að stjórn OV skipi sem mest heimamenn. Kauptilboð ríkisins standi óbreytt fram að gildistöku nýrra orkulaga gagnvart þeim sveitarfélögum sem ekki vilja selja hlut sinn í upphafi. Komi til sameiningar OV við annað eða önnur orkufyrirtæki eftir gildistöku nýrra raforkulaga mun ríkisvaldið eftir því sem í þess valdi stendur beita sér fyrir því að hluti starfsemi hins sameinaða fyrirtækis fari fram á Vestfjörðum". Tilvitnun lýkur. Allt tal um að flytja starfsemi Orkubúsins í aðra landshluta á því ekki rétt á sér.

Þegar við ræðum fjárhagsstöðu sveitarfélaga ber að hafa það í huga að 2002 fullnýta ekki 46 sveitarfélög hámarksheimild til innheimtu útsvars þ.á m. öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu nema Hafnarfjörður og Bessastaðahreppur. Þau 46 sveitarfélög sem ekki fullnýta heimildir hafa því borð fyrir báru.

Þess má geta í alþjóðlegum samanburði að hlutfall skatttekna opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga, af landsframleiðslu er hér á landi með því lægsta sem þekkist í OECD ríkjunum eða 34,8% árið 2001. Einungis 5 ríki voru með lægra hlutfall en Ísland. Það eru Bandaríkin, Japan, Ástralía, Írland og Sviss.

Fjármál sveitarfélaga eru undir eftirliti þriggja manna eftirlitsnefndar sem skipuð var á grundvelli sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Af því 31 sveitarfélagi sem nefndin taldi ástæðu til að gefa betur gaum, í kjölfar árlegrar athugunar sinnar, eru þrjú sveitarfélög áfram til sérstakrar skoðunar.

Að undanförnu hefur verið mikil opinber umræða um fjárhagsstöðu eins þeirra, Raufarhafnarhrepps og tel ég rétt að greina frá afskiptum ráðuneytisins.

Eftir sölu á eign Raufarhafnarhrepps á hlutafé í Jökli hf. í maí 1999 átti sveitarfélagið umtalsverða fjármuni til ráðstöfunar og var einungis hluti þeirra nýttur til framkvæmda í sveitarfélaginu. Til að ávaxta fjármunina keypti sveitarstjórn innlend og erlend hlutabréf á árunum 1999 og 2000.

Ráðuneytið hafði fyrst afskipti af ráðstöfun fjármuna Raufarhafnarhrepps eftir að erindi barst frá fulltrúum minnihluta sveitarstjórnar, dags. 15. október 2000, varðandi lögmæti þess að sveitarstjórn ákvað hinn 9. október 2000 að veita fyrirtækinu Netveri ehf. 10 milljón króna skilyrt lán, en umrætt fyrirtæki var í eigu þáverandi sveitarstjóra Raufarhafnarhrepps.

Með bréfi, dags. 16. október 2000, óskaði ráðuneytið skýringa sveitarstjórnar á málinu. Í svari sveitarstjóra, dags. 18. október 2000, kom fram að umrædd lánveiting hefði verið afturkölluð.

Þrátt fyrir að því máli sem beint var til ráðuneytisins hafi í raun lokið örfáum dögum eftir að erindi barst ráðuneytinu fylgdist ráðuneytið áfram með fjármálum sveitarfélagsins og í febrúar 2001 sendi ráðuneytið sveitarstjórn bréf þar sem óskað var skýringa á hlutafjárkaupum í þremur fyrirtækjum, samtals að fjárhæð 10 milljónir króna. Jafnframt óskaði ráðuneytið upplýsinga um ráðstöfun fjármuna sem sveitarfélagið eignaðist við sölu á hlutafé í Jökli og bárust umbeðnar upplýsingar í mars 2001. Kom þar meðal annars fram að sveitarfélagið hafði á árinu 2000 tapað umtalsverðum fjármunum vegna kaupa á innlendum og erlendum verðbréfum.

Með bréfi, dags. 4. apríl 2001, áréttaði ráðuneytið mikilvægi þess að sveitarstjórnir gæti ábyrgðar í fjárstjórn sinni, hvort sem um er að ræða ákvarðanir um fjárfestingar eða ávöxtun fjármuna á borð við þá sem Raufarhafnarhreppur eignaðist við sölu á eignarhluta sínum í Jökli hf.

Samkvæmt 78. gr. stjórnarskrárinnar ráða sveitarfélög sjálf málefnum sínum eftir því sem lög ákveða. Í þessu felst að ríkisvaldinu er ekki heimilt að grípa inn í stjórnun sveitarfélags nema til þess sé lagaheimild. Í sveitarstjórnarlögum er ekki að finna ákvæði sem takmarka heimildir sveitarstjórna til að velja leiðir til ávöxtunar fjármuna sveitarfélagsins. Eftir ítarlega athugun varð það niðurstaða ráðuneytisins varðandi Raufarhafnarhrepp að ekki væri unnt að ganga lengra en að minna kjörna sveitarstjórnarmenn á skyldur þeirra til að gæta hagsmuna íbúa sveitarfélagsins og sneiða eftir megni hjá áhættusömum fjárfestingum.

Ráðuneytið væntir þess að mál Raufarhafnarhrepps verði sveitarstjórnarmönnum og öllum þeim sem fara með opinbert fé víti til varnaðar. Málefni Raufarhafnarhrepps eru nú til skoðunar hjá eftirlitsnefnd um fjármál sveitarfélaga og mun ráðuneytið leita leiða til að aðstoða nýkjörna sveitarstjórn við að komast út úr þeim fjárhagsvanda sem sveitarfélagið glímir nú við.

Núverandi sveitarstjórn hefur fullan vilja til að taka á málum með ábyrgum hætti. Ég hef í hyggju að skoða, í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, hvort tilefni sé til lagabreytinga þannig að kveðið verði skýrt á um hvaða heimildir sveitarstjórnir hafi við meðferð fjármuna.

Félagslega íbúðakerfið hefur verið mörgum sveitarfélögum þungur baggi vegna íbúða sem þau hafa orðið að innleysa. Í kjölfar lagasetningar sl. vor er þess vænst að á næstu 5 árum leysist þessi vandi sveitarfélaganna að mestu leyti. Myndaður hefur verið varasjóður húsnæðismála og er hann vistaður á Sauðárkróki og framkvæmdastjóri ráðinn Sigurður Árnason.

Varasjóðurinn er myndaður úr varasjóði viðbótarlána, tryggingasjóði vegna byggingagalla, en þeir eru báðir stöndugir, með um 900 milljóna eigið fé og nær engin útgjöld hingað til. Varasjóður húsnæðismála tekur við verkefnum þessara sjóða en fær auk þess árlegt ríkisframlag. Varasjóðurinn veitir framlag til sveitarfélaga vegna rekstrar leiguíbúða þar sem markaðsleiga stendur ekki undir rekstri þeirra. Í öðru lagi aðstoðar sjóðurinn sveitarfélög sem vilja selja innlausnaríbúðir en markaðsverð nægir ekki til að greiða áhvílandi lán.

Þá er áformað að Íbúðalánasjóður leggi varasjóðnum 20 milljónir árlega gegn jafnháu framlagi viðkomandi sveitarfélags til þess að afskrifa lán á íbúðum sem ekki borgar sig að endurbæta. Er þetta talið duga til að gera rekstur félagslegra leiguíbúða sveitarfélaganna sjálfbæran með markaðsleigu á hverjum stað. Þetta miðast auðvitað við fyrirsjáanlega íbúaþróun. Ég tel þessa niðurstöðu ákaflega mikilvæga fyrir sveitarfélögin sem hafa átt við vanda að glíma vegna innlausnaríbúða.

Sveitarfélög sem breyta innlausnaríbúð í leiguíbúð geta yfirtekið áhvílandi lán á upphaflegum vöxtum 1% eða 2,4% og látið það standa út upphaflegan lánstíma, síðan eiga þau kost á láni á markaðsvöxtum þannig að heildarlánstími íbúðar í eigu sveitarfélags verði 50 ár.

Á undanförnum árum hafa verið miklir fólksflutningar innanlands og frá útlöndum. Þetta kallar á mikil viðskipti með húsnæði og nýbyggingar. 40% Íslendinga hafa flust búferlum á síðustu fjórum árum. Sem betur fer hefur heldur dregið úr fólksstreyminu til höfuðborgarsvæðisins það sem af er árinu. Brottfluttir umfram aðflutta voru langflestir í Reykjavík, síðan koma Vestmannaeyjar, Húsavík og Seltjarnarnes.

Árið 1998 voru 10.000 félagslegar íbúðir í landinu, þ.e. 6.600 félagslegar eignaríbúðir og um 3.400 leigu- og kaupleiguíbúðir. Frá stofnun Íbúðalánasjóðs 1999 eða á síðustu tæpum fjórum árum hafa um 7.000 fjölskyldur til viðbótar fengið félagslega aðstoð í húsnæðismálum. Um 5.800 íbúðir með viðbótarláni hafa verið byggðar eða keyptar og um 1.200 leiguíbúðir fyrir tekjulága. Frá 1. janúar 1999 eða á tæpum fjórum árum hafa útlán á félagslegum grunni, þ.e.a.s. viðbótarlán og leiguíbúðarlán tvöfaldast úr 50 milljörðum í yfir 100 milljarða.

Með lagabreytingu síðastliðið vor, var sveitarfélögum heimilað að aflétta kaupskyldu og forkaupsrétti á félagslegum eignaríbúðum og hafa allmörg sveitarfélög gert það nú þegar formlega. Þau verða áfram að leysa til sín félagslegar eignaríbúðir óski seljandi þess. Þessi aðgerð var mjög til hagsbóta fyrir seljendur á þeim svæðum þar sem söluverð eigna er hærra en reikningsverð í félagslega eignaríbúðarkerfinu. Hér á höfuðborgarsvæðinu er hagnaður sennilega á þriðju milljón á hverja íbúð að meðaltali. Á þeim svæðum þar sem fasteignaverð er lágt tapar fólk engum réttindum sem það hafði öðlast lögum samkvæmt.

Viðbótarlánin eru veitt fólki undir skilgreindum tekju- og eignarmörkum og ástæða er til að fylgjast vel með að það sé haldið. Húsbréfalán er veitt fyrir 65 eða 70% kaupverðs ef um fyrstu íbúð er að ræða og stendur eignin að veði fyrir húsbréfunum. Síðan veitir Íbúðalánasjóður peningalán fyrir 25 eða 20% kaupverðsins þannig að lánað er 90% kaupverðs.

Viðbótarlánið er veitt að beiðni viðkomandi sveitarfélags sem leggur fram í varasjóð 5% af upphæð hvers viðbótarláns og stendur varasjóður að veði fyrir viðbótarlánunum. Þeir sem hafa fengið viðbótarlán eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum. Þetta fyrirkomulag hefur gefist vel og sveitarfélögin leyst sinn hluta vel af hendi. Handhafar viðbótarlána eiga kost á samtímagreiddum vaxtabótum.

Það er mikil fjarstæða að halda því fram að félagsleg aðstoð í húsnæðismálum hafi minnkað þegar Íbúðalánasjóður tók til starfa, hún hefur stóraukist eða úr 10.000 í 17.000 íbúðir á þremur og hálfu ári.

Tvímælalaust er verulegur skortur á leiguhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu og sums staðar á landsbyggðinni. Það er samkomulag um að lána til 400 leiguíbúða árlega með 3,5% niðurgreiddum vöxtum. Þessar íbúðir eru ætlaðar fólki innan skilgreindra tekju- og eignamarka. Þetta eru t.d. leiguíbúðir sveitarfélaga, námsmannasamtaka, Öryrkjabandalags, Þroskahjálpar og félaga aldraðra.

Þar að auki er komið í gang að frumkvæði félagsmálaráðuneytisins og með þátttöku Íbúðalánasjóðs og lífeyrissjóðanna sérstakt átak til fjölgunar leiguíbúða. Áformað er að byggja 600 leiguíbúðir á næstu fjórum árum, 150 íbúðir á ári. Lánin verða með niðurgreiddum vöxtum 4,5%. Búseti mun byggja og reka 300 af þessum íbúðum og hefur þegar hafist handa. 38 félög sem hyggjast reka leiguíbúðir hafa lagt inn samþykktir sínar hjá félagsmálaráðuneytinu til staðfestingar.

Íbúðalánasjóður lánar í ár út á 200 leiguíbúðir á markaðsvöxtum. Þannig munu bætast við 2.400 – 3.000 leiguíbúðir á næstu fjórum árum. Verði eftirspurn meiri eftir lánum til leiguíbúða en 550 á ári munu þau lán bera markaðsvexti. Sveitarfélögum er ætlað að leggja til lóðir á góðum kjörum.

Húsaleigubætur verða í ár um 900 milljónir og voru þær gerðar skattfrjálsar um síðustu áramót. Um þriðjungur leigjenda nýtur húsaleigubóta enda greiðast þær ekki þeim sem leigja hjá fjölskyldu sinni eða eru yfir tekjumörkum.

Þegar Íbúðalánasjóður var myndaður með sameiningu húsbréfadeildar Byggingasjóðs ríkisins og Byggingasjóðs verkamanna voru í húsbréfadeild 6 milljarðar, Byggingasjóði ríkisins 16 milljarðar en Byggingasjóður verkamanna var neikvæður um 16 milljarða. 16 milljarðar voru horfnir vegna neikvæðra vaxta. Það gengur ekki. Íbúðalánasjóður er fjármagnaður með sölu húsnæðisbréfa. Lífeyrissjóðir kaupa bréfin og ræður því ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna vöxtum á húsnæðislánum.

Heildarútlán Íbúðalánasjóðs voru 1. júlí síðastliðinn 375 milljarðar eða tæpur helmingur af skuldum heimilanna. Vanskil eru í sögulegu lágmarki eða 0,52% af útistandandi skuldum við Íbúðalánasjóð.

Ennþá er ekki fengin endanleg niðurstaða í nokkur fjárhagsleg samskiptamál ríkis og sveitarfélaga, svo sem um hreinni verkaskiptingu o.fl. Sú vinna er komin vel á veg og treysti ég því að samkomulag verði innan skamms sem báðir aðilar geti vel við unað.

Frumvörp um auknar heimildir Íbúðalánasjóðs til afskrifta þegar veð eru glötuð, ný heildarlöggjöf um húsnæðissamvinnufélög, ábyrgðarsjóð launa og vatnsveitur sveitarfélaga verða lögð fyrir Alþingi á næstunni. Einnig er frumvarp í smíðum um Jöfnunarsjóðskafla tekjustofnalaganna. Hermann Sæmundsson, ráðuneytisstjóri mun gera grein fyrir því í fyrramálið en meginefni er að minnka stuðning við rík sveitarfélög og hvetja sveitarfélög til sameininga.

Ég vil að endingu þakka sveitarstjórnarmönnum fyrir einstaklega gott samstarf nú sem áður og vona að þessi fjármálaráðstefna verði gagnleg fyrir okkur öll og umbjóðendur okkar.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum