Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

11. apríl 2003 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp á fulltrúaráðsfundi

Góðir fulltrúaráðsmenn.

Mikið er tíminn fljótur að líða. Mér finnst örstutt síðan ég mætti í fyrsta sinn sem félagsmálaráðherra á fund með fulltrúaráðinu, þó munu það vera orðin átta ár.

Það var talið saman í ráðuneytinu fyrir nokkru hversu mörg frumvörp ég hefði flutt sem félagsmálaráðherra. Þau eru um 100 og langflest þeirra hafa orðið að lögum. Meirihluti þessarar löggjafar varðar sveitarfélögin í landinu með einum eða öðrum hætti.

Sum frumvörp hafa siglt í gegnum Alþingi án verulegra átaka, hitt er þó miklu oftar sem mikil andstaða hefur komið fram og stundum geysihörð. Ég nefni í því skyni sveitarstjórnarlög, húsnæðislöggjöfina og vinnulöggjöfina sem ég tel að hafi öll verið mikil framfaramál.

Nú gerði ég það vitlausasta sem nokkur stjórnmálamaður getur gert það er að fara að tala um verk sem hann er búinn að vinna, það er einskis metið og ekki til framdráttar. Það sem gildir eru þær væntingar sem frambjóðandi getur vakið í brjóstum kjósenda um þau afrek sem hann muni vinna á næsta kjörtímabili.

Nú er tími mikilla væntinga og frambjóðendur eru ósparir á fyrirheit. Ég hef áhyggjur vegna þeirrar miklu skattalækkunarumræðu sem markar kosningabaráttuna sem aldrei fyrr. Gangi það eftir sem greiðugast er lofað verður ekki auðsótt fyrir sveitarfélög að sækja aukna fjármuni í ríkissjóð og einnig rís krafa íbúanna á sveitarfélögin að lækka skatta hjá sér.

Þann tíma sem ég hef verið í ráðuneytinu hefur alltaf ríkt gott samstarf á milli mín og stjórnar sambands íslenskra sveitarfélaga. Við höfum alltaf náð lendingu sem báðir hafa sæmilega við unað og fyrir það er ég þakklátur og einnig gott samstarf við undirbúning löggjafar. Fyrir síðustu jól náðist farsælt samkomulag eftir mikið þóf um fjármálaleg samskipti ríkis- og sveitarfélaga.

Í samræmi við samkomulag aðila, dags. 4. desember sl., hefur Alþingi afgreitt frumvörp til laga um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, og lögum um húsaleigubætur nr. 138/1997, með síðari breytingum.

Með þessum lögum voru m.a. lögfest eftirtalin atriði:

  • Þátttaka ríkis í greiðslu húsaleigubóta aukin
  • Aukið framlag í Jöfnunarsjóð til ráðstöfunar í jöfnun tekjutaps sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti
  • Breytingar á úthlutunarreglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í samræmi við niðurstöður nefndar um endurskoðun hans.
  • Húsaleigubætur til þeirra er flytja tímabundið í annað sveitarfélag
  • Breyting á skilafresti umsókna um húsaleigubætur

Nauðsynlegar reglugerðarbreytingar í kjölfar setningar laganna hafa nú þegar verið gerðar, þ.m.t. reglugerð um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga.

Lög um breytingar á lögum um húsnæðissamvinnufélög voru einnig samþykkt á síðasta þingi en þær fela í sér að afnám innlausnarskyldu, að endursala búseturéttar verði gefin frjáls, ákvæði um númeraröð felld brott og að um einn sameiginlega viðhaldsjóð verði að ræða í hverju húsnæðissamvinnufélagi.

Varasjóður húsnæðismála er tekinn til starfa.
Á síðasta fundi ráðgjafarnefndar var afgreidd tillaga um greiðslu rekstrarframlaga til sveitarfélaga til að mæta rekstrarhalla félagslegra íbúða. Tillaga er gerð um, að öll heimild sjóðsins til greiðslu rekstrarframlaga verði nýtt eða 70,0 millj. kr.

Varasjóður húsnæðismála veitir einnig framlög til sveitarfélaga vegna sölu íbúða. Frá upphafi starfsemi sjóðsins og fram til síðustu áramóta hefur hann samþykkt kauptilboð í félagslegar íbúðir sem áætlað er að leiði til u.þ.b. 49 millj. kr. framlags úr sjóðnum samkvæmt ákvæðum um útreikning framlaga. Þar af hefur sjóðurinn afgreitt allar innkomnar umsóknir sem sendar hafa verið í kjölfar endanlegrar sölu og uppgjörs við Íbúðalánasjóð um 33 millj. kr. framlög. Enn hafa því sjóðnum ekki borist endanlegar umsóknir um framlög vegna sölu þeirra íbúða þar sem kauptilboð hefur verið samþykkt af sjóðnum sem nemur 15 millj. kr.

Fyrir fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs hefur ráðgjafarnefnd samþykkt kauptilboð sem áætlað er að leiði til 21 millj. kr. framlags úr sjóðnum, þar af hefur hún afgreitt umsókn um 3 millj. kr. framlag.

Árlegar ráðstöfunartekjur varasjóðs húsnæðismála til úthlutunar framlaga vegna sölu íbúða nema 70 millj. kr.

Í ráðgjafarnefnd hefur verið afgreidd tillaga að 20% lækkun gjalds sveitarfélaga í varasjóð vegna viðbótarlána eða úr 5% í 4% af höfuðstól viðbótarláns.

Um síðustu áramót nam höfuðstóll varasjóðs viðbótarlánanna um 650 millj. kr. Miðað við heimildir Íbúðalánasjóðs til veitingar viðbótarlána á yfirstandandi ári má búast við gjald sveitarfélaga nemi u.þ.b. 250 millj. kr. á árinu. Þannig er gert ráð fyrir að óbreyttu að heildarfjármunir sjóðsins nemi tæplega 1,0 milljarði kr. í árslok.

Ekki tókst að afgreiða frumvarp sem lagt hafði verið fram um breytingu á lögum um vatnsveitur sveitarfélaga. Í frumvarpinu voru lagðar til breytingar er miðuðu einkum að því að taka tillit til aukinnar fjölbreytni í rekstrarformi vatnsveitna og auka sveigjanleika í stjórn og rekstri þeirra. Jafnframt var stefnt að því að einfalda gjaldtökuheimildir vatnsveitna og sníða ýmsa agnúa af gildandi lögum. Loks var í frumvarpinu komið til móts við óskir vatnsveitna með því að árétta og gera skýrari ýmis ákvæði sem ætlað er var að hindra eftir megni sóun neysluvatns. Vinstri grænum tókst að stöðva þetta frumvarp í annað sinn.

Lög um breytingu á sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 voru samþykkt fyrir þinglok.

Á undanförnum árum hafa orðið ýmsar breytingar í rekstrarumhverfi sveitarfélaga sem meðal annars hafa leitt í ljós að reglur VI. kafla gildandi sveitarstjórnarlaga, sem fjallar um fjármál sveitarfélaga, eru ekki í öllum tilvikum nægilega ítarlegar. Þetta á meðal annars við um þátttöku sveitarstjórna á hlutabréfamarkaði, en þess eru dæmi að við ávöxtun fjármuna sveitarfélags hafi þess ekki verið nægilega gætt að dreifa áhættu og hefur þetta í einstaka tilvikum leitt til þess að umtalsverðir fjármunir hafi tapast. Einnig hafa sveitarstjórnir á undanförnum árum leitað nýrra leiða við fjármögnun framkvæmda og má þar nefna svo nefndar einkaframkvæmdir, þar sem sveitarfélag semur við utanaðkomandi aðila um að eiga og reka mannvirki, svo sem húsnæði grunnskóla. Hefur þetta m.a. skapað álitamál um samanburð á skuldastöðu sveitarfélaga. Þá hafa nokkur sveitarfélög nýlega kynnt áform um að stofna sérstakt fasteignafélag, í samvinnu við fjármálastofnanir. Tilgangur þessa félags er að eiga og reka fasteignir þeirra aðila sem að félaginu standa. Þetta þýðir að viðkomandi sveitarfélög fá greiddar háar fjárhæðir í söluandvirði fyrir þær fasteignir sem þau afhenda félaginu en á móti er gerður leigusamningur þar sem sveitarfélögin skuldbinda sig til að greiða húsaleigu til langs tíma. Af reynslu annarra þjóða má draga þann lærdóm að ef ekki er sýnd fyllsta aðgæsla við meðferð þeirra fjármuna sem sveitarfélögin fá í sinn hlut við þessar aðstæður getur það haft alvarlegar afleiðingar fyrir fjárhag viðkomandi sveitarfélaga þegar til lengri tíma er litið.

Við gerð frumvarpsins hefur verið leitað leiða til þess að finna lausnir á þeim margvíslegu vandamálum sem að framan hafa verið rakin og hefur þar einkum verið litið til reynslu annars staðar á Norðurlöndum. Fjárhagsstaða og starfsumhverfi sveitarfélaga hér á landi og fjárhagsleg samskipti þeirra við ríkissjóð eru þó ekki að öllu leyti sambærileg við það sem gerist í öðrum löndum. Jafnframt þótti sérstök ástæða til að gæta sjónarmiða um sjálfsforræði sveitarfélaga, sbr. 78. gr. stjórnarskrárinnar og 1. mgr. 1. gr. sveitarstjórnarlaga. Þær leiðir sem lagðar eru til í lögunum miða því ekki að því að banna sveitarstjórnum að velja tilteknar leiðir við fjármálastjórn sveitarfélags heldur er lögð áhersla á að sveitarstjórn verður ávallt að gæta ábyrgðar við meðferð fjármuna sveitarfélagsins og tryggja örugga ávöxtun þeirra. Jafnframt er kveðið á um að sveitarstjórn verði ekki aðeins að afla álits sérfróðs aðila áður en ráðist er í meiri háttar framkvæmdir á vegum sveitarfélagsins heldur gildi sú regla einnig um ýmsar aðrar ákvarðanir sem geta haft áhrif á fjárhag sveitarfélagsins á komandi árum og áratugum.

Okkur hefur suma greint nokkuð á um vinnulag við sameiningu sveitarfélaga og ég sé á þeim drögum að ályktun um það efni að þið væntið mikils af nýrri ríkisstjórn. Ekki öfunda ég þann ráðherra sem sameinar með valdboði hvað þá heldur þá íbúa sveitarfélaga sem eru neyddir til sameiningar sem er þeim andstæð.
Ég minni þó á að þegar ég kom í ráðuneytið voru sveitarfélögin 174. Kosið var í 105 sveitarfélögum í fyrravor og fleiri frjálsar sameiningar eru á döfinni.

Samstarfsnefnd um sameiningu Búðahrepps og Stöðvarhrepps hefur ákveðið að leggja til að íbúar þessara sveitarfélaga greiði atkvæði um sameiningu þeirra í eitt sveitarfélag. Hafa sveitarstjórnir beggja sveitarfélaga fallist á að atkvæðagreiðslan fari fram laugardaginn 10. maí nk., samhliða kosningum til Alþingis.

Einnig hefur verið ákveðið að skipta samstarfsnefnd um sameiningu 5 sveitarfélaga í A-Húnavatnssýslu þeirra Áshrepps, Svínavantshrepps, Sveinsstaðahrepps, Bólstaðarhlíðarhrepps og Torfalækjarhrepps. Gert er ráð fyrir að kosið verði um sameininguna vorið 2004 ef samstaða verður í nefndinni.

Í þessari kosningabaráttu hafa Samfylking og Vinstri grænir gert skort á leiguíbúðum að umræðuefni og langan biðlista hjá Félagsbústöðum h.f. Ekki er að undra þótt biðlisti sé hjá Félagsbústöðum enda er leiga þar talsvert sanngjarnari en á almennum markaði. Hitt er hlálegt þegar fyrrverandi borgarstjóri í Reykjavík er að kenna breyttu húsnæðiskerfi um þessa biðlista.

Íbúðalánasjóður hefur heimildir til að lána út á 400 leiguíbúðir árlega til sveitarfélaga, öryrkjafélaga og námsmannafélaga með 3.5% vöxtum. Þessar lánsheimildir hafa aldrei verið fullnýttar og þar stendur augljóslega langmest uppá Reykjavíkurborg þannig að fyrrverandi borgarstjóri kastar grjóti út glerhúsi.

2001 voru áætlaðar 1000 milljónir til leiguíbúða sveitarfélaga einungis var sótt um 800 milljónir. 2002 voru ónotaðar 200 milljónir, 2003 voru áætlaðar 4000 milljónir en einungis sótt um 2800 milljónir þannig að sveitarfélögin notuðu ekki tiltækar 3200 milljónir eða ónotuð lán fyrir 320 leiguíbúðum sveitarfélaga.

Hvað varðar sérstakt átak félagsmáráðuneytis lífeyrissjóða og Íbúðalánasjóðs um byggingu 600 leiguíbúða á fjórum árum með 4.5% vöxtum verða allar heimildir fullnýttar. Á hitt ber einnig að minna að síðan Íbúðalánasjóður tók til starfa hafa yfir 6000 tekjulágar fjölskyldur komist í eigið húsnæði með 90% lánum og það er miklu meiri félagsleg aðstoð í húsnæðismálum en nokkru sinni fyrr.

Í vinnslu í ráðuneytinu er breyting á reglugerð um lánaflokka Íbúðalánasjóðs nr. 458/1999, með síðari breytingum. Gengur breytingin út á það að afnema heimild leigusala til að selja leigjanda afnotarétt. Þannig verði félögum og félagasamtökum óheimilt að selja leigjanda afnotarétt í almennum leiguíbúðum og þeim leiguíbúðum sem falla undir sérstaka átakið til fjölgunar leiguíbúðum. En gjaldið hefur getað numið allt að 30% af samþykktum byggingarkostnaði eða kaupverði íbúðar samkvæmt viðmiðunum Íbúðalánasjóðs en takmarkast við eigið framlag leigusala.

Ástæða þessara breytinga eru tilfelli sem upp hafa komið þar sem leigusali hefur t.d. sett kaupin sem skilyrði fyrir leigurétti. Einnig hefur komið upp tilfelli þar sem seldur hefur verið of stór hlutur af byggingarkostnaðinum svo sem einnig þann hluta byggingarkostnaðar sem umfram er samþykktan byggingarkostnað Íbúðalánasjóðs. Einnig er ókosturinn við þessa leið að kaupendur afnotaréttar hafa verið uggandi um hag sinn ef áhvílandi leiguíbúðalán færu í vanskil og íbúðirnar enduðu á nauðungarsölu. En afnotaréttur þessi stendur á eftir kröfu Íbúðalánasjóðs í veðröð viðkomandi íbúðar.

Samningar um kaup á afnotarétti sem þegar hafa verið gerðir halda þó gildi sínu. Um þá samninga gilda þó einnig viðbótarákvæði sem sett verða til að skýra rétt leigjanda. Má þar nefna ákvæði um að hafi leigjandi keypt afnotarétt skal hann jafnframt njóta lægri leigugreiðslna í samræmi við lækkaðan fjármagnskostnað á viðkomandi íbúð og ákvæði um tímafresti vegna endurgreiðslu á afnotaréttinum til leigjenda segi leigjandi upp leigusamningi.

Rétt er að taka það fram að breytingar þessar hafa engin áhrif á félagslegar leiguíbúðir sveitarfélaga og félagasamtaka.

Skipuð hefur verið nefnd til að meta framkvæmd laga og reglugerða um viðbótarlán og endurskoða ákvæði gildandi laga og reglugerða þar að lútandi. Um er að ræða lög um húsnæðismál, reglugerð um viðbótarlán og reglugerð um varasjóð húsnæðismála. Tilefni skipunar þessarar nefndar var ósk Sambands íslenskra sveitarfélaga um að slík nefnd yrði sett og hún fengi það verkefni að fara yfir framkvæmd gildandi laga og reglugerða á þessu sviði og snúa að sveitarfélögunum. Í nefndinni eru: Ingi Valur Jóhannsson, félagsmálaráðuneyti, sem jafnframt er formaður hennar, Garðar Jónsson, félagsmálaráðuneyti, Stefán Jóhann Stefánsson, félagsmálaráði Reykjavíkurborgar og Gunnlaugur Júlíusson, Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Óskar Páll Óskarsson félagsmálaráðuneyti, mun starfa með nefndinni. Nefndin hefur þegar haldið fjóra fundi en gert er ráð fyrir að nefndin skili tillögum og ljúki störfum fyrir 1. júní nk.

Samkvæmt félagsþjónustulögunum ber sveitarfélagi að sjá þeim íbúum fyrir húsnæði sem ekki geta það af eigin rammleik. Einnig hafa þau en ekki ríkið skyldur til að veita fátækum fjárhagsaðstoð svo þeir þurfi ekki að líða skort.

Félagsmálaráðuneytið hefur í samvinnu við Samtök félagsmálastjóra og Samband íslenskra sveitarfélaga samið leiðbeiningar um reglur sveitarfélaganna um fjárhagsaðstoð, sbr. 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 með síðari breytingum.

Í 21. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga er kveðið á um að sveitarstjórn setji sér reglur um fjárhagsaðstoð að fengum tillögum félagsmálanefndar. Þessar reglur skulu sendar félagsmálaráðuneyti. Sveitarfélag ber ábyrgð á félagsþjónustu innan sinna marka sbr. 4. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga og skal það með skipulagðri félagsþjónustu tryggja framgang markmiðanna sem sett eru fram í 1. gr laganna. Félagsmálaráðuneytið hefur á hinn bóginn eftirlit með því að sveitarfélögin veiti lögboðna þjónustu. Rétt er einnig að geta mikilvægs hlutverks úrskurðarnefndar félagsþjónustu, en til hennar geta einstaklingar skotið einstökum ákvörðunum félagsmálanefnda.

Félagsmálaráðuneytið samdi á sínum tíma leiðbeiningar með reglum um fjárhagsaðstoð, sem það notaði þegar hin nýju lög um félagsþjónustu sveitarfélaga voru kynnt um allt land í kjölfar lagasetningarinnar árið 1991. Fjölmörg sveitarfélög höfðu þær til hliðsjónar við gerð reglna um fjárhagsaðstoð. Þessar reglur eru barn síns tíma og hafa fjölmörg sveitarfélög samið mun ítarlegri og nútímalegri reglur. Fulltrúar sveitarfélaga hafa margsinnis haft samband við félagsmálaráðuneytið og óskað eftir leiðbeiningum varðandi félagsþjónustu sveitarfélaga, einkum fjárhagsaðstoð. Ennfremur hafa verið gerðar athugasemdir við það að munur á aðstoð frá einu sveitarfélagi til annars sé mjög mikill. Af þessu tilefni ákvað ráðuneytið að bjóða Sambandi íslenskra sveitarfélaga og Samtökum félagsmálastjóra til samstarfs við að semja nýjar leiðbeiningar. Ráðuneytið hefur ekki lögbundar skyldur að til vinna slíkar leiðbeiningar, en það taldi rétt að kanna hvort áhugi væri á slíku samstarfi. Það er á hinn bóginn ljóst gerð reglna um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga er alfarið í höndum hvers og eins sveitarfélags, enda er sjálfákvörðunarréttur þeirra skýr hvað þetta varðar. Reglurnar skulu að sjálfsögðu vera í samræmi við skyldur þeirra samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga.

Það er mikilvægt að skoða leiðbeiningarnar í þessu ljósi. Þær eru hugsaðar sem hjálpartæki fyrir þær sveitarstjórnir og félagsmálanefndir sem kjósa að hafa þær til hliðsjónar við gerð reglnanna. Leitast er við að halda öllu til haga sem máli skiptir við ákvörðun á fjárþörf einstaklings eða fjölskyldu og athygli er vakin ákvæðum annarra laga eftir því sem við á.

Í starfshópnum eru eru Guðmundur Ingi Gunnlaugsson sveitarstjóri Rangárvallahrepps fulltrúi Samband íslenskra sveitarfélaga, Lára Björnsdóttir félagsmálastjóri Reykjavíkurborgar fulltrúi samtaka félagsmálastjóra og Ingibjörg Broddadóttir fulltrúi félagsmálaráðherra og formaður hópsins. Björg Kjartansdóttir hefur unnið með nefndinni og Hjördís Árnadóttir félagsmálastjóri í Reykjanesbæ varamaður Láru hefur tekið virkan þátt í starfinu.

Starfshópurinn leggur til að grunnfjárhæð til einstaklings miðist við að lágmarki 77 þúsund á mánuði sem er ámóta og atvinnuleysisbætur. Öryrki á fyllstu bótum hefur 95 þúsund á mánuði.

Á árunum 2001 og 2002 fengu sveitarfélögin og félagasamtök fyrirgreiðslu hjá Íbúðalánasjóði vegna 508 leiguíbúða ætlaðar tekjulágum.

Ég tel að við búum við gott húsnæðiskerfi og stofnun Íbúðalánasjóðs hafi verið happaspor. Ljóst er þó að það verður að standa vörð um þessa mikilvægustu lánastofnun landsins.

Nýlega settu samtök banka og verðbréfafyrirtækja fram hugmyndir um markaðsvæðingu húsnæðisfjármögnunar á Íslandi. Nú bannar engin bönkunum að lána til kaupa eða bygginga íbúðarhúsnæðis. Kjör þau sem bankarnir bjóða eru ekki sambærileg kjörum Íbúðalánasjóðs. Íbúðalánasjóður lánar á sömu kjörum og með sömu skilyrðum um land allt. Það gera bankarnir ekki.

Ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna ákveður í megindráttum vaxtakjör Íbúðalánasjóðs og sé það vilji verkalýðshreifingar að hafa húsnæðislðán á lágum vöxtum þá hafa lífeyrissjóðir það í hendi sinni.

Þegar rætt er um Íbúðalánasjóðs, þá er vert að hafa í huga að sjóðurinn er langstærsti sjóður í eigu íslenska ríkisins að ríkissjóði sjálfum slepptum. Sjóðurinn er um 50 milljarða króna virði, ef miðið er við V/H gildi sem viðgengst um verðmætamat á fjármálastofnunum í Kauphöll Íslands. Þessa eign virðast bankarnir vilja gleypa fyrir ekkert

Eignir Íbúðalánasjóðs voru ríflega 400 milljarðar króna í árslok 2002 og hafa vaxið um 60 % frá stofnun sjóðsins 1. janúar 1999. Viðskiptavinir sjóðsins voru um 80 þúsund talsins og lán voru um 160 þúsund. Til fróðleiks má geta að íbúðir á landinu öllu eru um 106.000 talsins.

Á meðan eigendur viðskiptabankanna gera þá kröfu að hagnaður þeirra sé sem mestur, þá er krafa eiganda Íbúðalánasjóðs, ríkisvaldsins fyrir hönd almennings, sú að hagnaður sjóðsins sé hóflegur og að viðskiptamenn hans, almenningur, njóti þess í sem lægstum vöxtum og vaxtamun.

Sem viðmiðum um þetta má nefna rekstur Íslandsbanka, sem er afar vel rekinn banki, eins og viðskiptabankarnir og sparisjóðirnir almennt eru. Hreinar vaxtatekjur Íslandsbanka nam á árinu rúmum 10 milljörðum króna. Vaxtatekjur annarra banka voru minni, enda eru þeir minni. Þótt Íbúðalánasjóður sé stærri en Íslandsbanki hvað eignir og útlán varðar, þá námu hreinar vaxtatekjur hans á árinu 2001 einungis um 10% af vaxtatekjum Íslandsbanka, eða rétt rúmum 1 milljarði króna.

Til skýringar á því hver munur er á árlegri greiðslubyrði lána Íbúðalánasjóðs og Landsbankans skulum við taka dæmi af 13 milljóna íbúð með viðbótarláni. Lánið er til 40 ára. Greiðslubyrði er tæp 700 þúsund árlega hjá Íbúðalánasjóði en 892 þúsund hjá Landsbankanum. Þarna munar 190 þúsundum á árlegri greiðslubyrði eða 27.8%. Kostnaðarauki heimilanna í landinu yrði varlega áætlaður 4-5 milljarðar árlega með því að bankar og verðbréfafyrirtæki yfirtækju Íbúðalánasjóð. Ég heiti á sveitarstjórnarmenn að standa gegn því.

Að endingu vil ég þakka sveitarstjórnarmönnum góð samskipti undanfarin átta ár.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum