Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

29. september 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Staða íslenska velferðarsamfélagsins - framtíðarsýn

,,Öllu er afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma...

Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma....”

(Gamla testamentið, Predikarinn, 3. kafli)

Fundarstjóri og góðir áheyrendur !

Það kann að hljóma einkennilega í eyrum að hefja mál sitt hér undir fyrirsögninni “staða velferðarsamfélagsins og framtíðarsýn” á því að vitna í Gamla testamentið sem er nokkur þúsund ára gamalt rit. En yfirskrift þessa málþings “velferð frá vöggu til grafar” snýst einmitt um þetta – að öllu sé afmörkuð stund og sérhver hlutur undir himninum hefir sinn tíma frá vöggu til grafar.  Að samfélagið búi þannig um hnútana að velferðarþjónustan sé heildstæð og samfelld og reki sig áfram frá einni  kynslóð til annarrar.

Ég mun hér í dag fjalla örstutt um þróun íslenska velferðarsamfélagsins í gegnum aldirnar.  En fyrst og fremst skoðum við stöðuna í dag og hvað er framundan.  Ég mun þar líta til flestra þátta velferðarsamfélagsins og fjalla um verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga.

Saga og þróun íslenskra sveitarstjórnamála er samtvinnuð þróun velferðarþjónustunnar hér á landi.  Margir telja að fátækraframfærslan hafi öðru fremur verið ein mikilvægasta orsök hreppamyndunar við upphaf byggðar hér á landi.  Þó að ólíku sé saman að jafna, Ómagabálki Grágásar frá 12. öld og velferðarþjónustu nútímans, er munurinn minni en ætla má við fyrstu sýn.  Allt frá því Ísland byggðist hafa hrepparnir axlað ábyrgð á þeim sem ekki hafa átt í sig eða á og ættingjar hafa ekki getað annast.  Fjöldi hreppa á þjóðveldisöld er óþekktur, en í hreppi skyldu vera a.m.k. 20 þingfararkaupsbændur hið fæsta. Í manntalinu árið 1702 töldust hrepparnir 165, þeim fjölgaði um tíma við myndum þorpa og bæja og hefur í raun fækkað merkilega lítið síðan, þrátt fyrir bættar samgöngur og aukið þéttbýli. 

Löggjöf um framfærslu, sem var velferðarþjónusta fyrri tíma, tók litlum breytingum í gegnum aldirnar allt til þess að fátækrareglugerðin tók gildi árið 1834. Hér er ekki ætlunin að rekja sögu og þróun íslenskrar velferðarþjónustu, en segja má að á eftir fátækralögggjöfinni, sem fól í sér úrræði til að hjálpar fátæklingum, m.a. með því að brjóta upp fjölskyldur og setja niður á fleiri en einn bæ, hafi tekið við ýmsar félagslegar tryggingar, því næst uppbygging almannatryggingakerfisins og svo víðtækt velferðarríki samtímans.

Hugmyndafræðin og væntingarnar sem menn báru í brjósti við stofnun “Almannatrygginganna íslensku” fyrir miðja síðustu öld bera bæði vott um heildarsýn og mikinn metnað.  Þarna á glærunni má sjá “velferð frá vöggu til grafar” í hnotskurn. Myndin er úr bók  Jóns Blöndal og Jóhanns Sæmundssonar um Almannatryggingar á Íslandi, sem gefin var út af félagsmálaráðuneytinu árið  1945.

Þessi þróun hélst í hendur við þróun Íslands úr landbúnaðarþjóðfélagi til þjónustuþjóðfélags og er vel lýst í bók  feðganna Stefáns Ólafssonar og Kolbeins Stefánssonar.  Myndin nær yfir árabilið 1890 til 2000 og sýnir umbreytingaskeið íslensks atvinnulífs og mikinn vöxt þjónustunnar.

Samfélag manna vex og minnkar í senn.  Það vex með auknum og fjölbreyttari viðfangsefnum fólks en heimurinn dregst samtímis saman með þróun upplýsingartækninnar og síauknum samgöngum heimshluta á milli.  Við getum fylgst með því sem gerist í órafjarlægð og aflað okkur fróðleiks um allt milli himins og jarðar. Þessi þróun hefur líklega meiri áhrif á velferðarríkin heldur en þau sem skemmra eru á veg komin.   Íslendingar hafa alla burði til að nýta sér þessa þekkingu til að efla velferðina í landinu – þar með talið að efla og styrkja fjölþætta þjónustu í dreifbýli og þéttbýli.

Íslenska þjóðin er enn ung miðað við nágrannaþjóðirnar, en spáð er að hún muni eldast á nýrri öld.  Í dag eru 30 % þjóðarinnar 19 ára og yngri.  Hagstofan gerir  ráð fyrir að þessi hópur verði 26% þjóðarinnar eftir 20 ár,  og að öldruðum hafi þá fjölgað úr 10.% í 14% af heildarfjölda þjóðarinnar.  Breytingin felur í sér að börnum fækkar og öldruðum fjölgar. Þessi framtíðarsýn skiptir verulegu máli þegar hugað er að velferð aldraðra, sem samhliða því að gera kröfu um bætta þjónustu vilja að sjálfsögðu halda áfram að vera virkir þátttakendur í samfélaginu, enda flestir við góða heilsu.  Framtíð velferðar á Íslandi ræðst m.a. af því hvernig okkur tekst að tryggja hinn ört vaxandi eldri kynslóð góð lífskjör.

Á seinnihluta síðustu aldar dró verulega úr frjósemi kvenna og er augljós fylgni á milli fækkunar barna á hverja konu og notkunar p-pillunnar, sem kom á almennan markað í kringum 1965. En íslenskar konur eru þrátt fyrir það meðal frjósömustu kvenna Evrópu og vekur það athygli ekki síst í ljósi mikillar þátttöku þeirra á vinnumarkaði.   Á hinn bóginn  hefur meðalaldur kvenna við fæðingu fyrsta barns hækkað umtalsvert á undanförnum áratugum úr rúmlega 21 ári í rúmlega 26 ár, sem er veruleg breyting og lýsir vel hvernig unga kynslóðin í dag lýkur fyrst námi og eignast jafnvel þak yfir höfuðið áður en barneignir hefjast. Fróðlegt verður að fylgjast með þessari þróun. 

Undirstöður íslenska velferðarríkisins eru margþættar og þjóðin er vel í stakk búin til að mæta framtíðarútgjöldum til velferðarmála. Íslendingar hafa lengst af búið við lítið atvinnuleysi, atvinnuþátttaka er með því hæsta sem gerist meðal OECD-ríkjanna, ekki síst þátttaka kvenna, og starfsaldur er almennt lengri en gengur og gerist í öðrum löndum. Allt byggir þetta grunn velferðarkerfisins okkar. Markviss uppbygging lífeyrissjóða, sem í dag eiga samanlagt yfir eitt þúsund milljarða króna, gerir það að verkum að breytt aldurssamsetning þjóðarinnar mun ekki reynast eins stór biti fyrir útgjöld hins opinbera hér á landi eins og hjá öðrum vestrænum þjóðum. Þetta eru athyglisverðar staðreyndir.

Á hinn bóginn birtast undirstöður  velferðarkerfisins í margþættri, nauðsynlegri og sjálfsagðri þjónustu og aðstoð sem tryggir börnum leikskóla og grunnskóla. Þær birtast í heildstæðum almannatryggingum, öflugri heilsugæslu og sjúkrahúsum,  húsnæðiskerfi sem gerir langflestum kleift að eignast þak yfir höfuðið og víðast hvar vandaðri félagsþjónustu sveitarfélaga.  Og hér gegna sveitarfélögin sífellt umfangsmeira hlutverki.  Á árum áður sáu þau næstum  einvörðungu um félagsþjónustuna, sem byggð var á fornum meið fátækralöggjafarinnar. Í dag sjá þau einnig um menntun barna og ungmenna, bjóða upp á fjölþætta félagsþjónustu, bera ábyrgð á barnavernd og  hafa víða  tekið að sér þjónustu við fatlaða og aldraða.

Félagsþjónustunni hefur vaxið fiskur um hrygg, en fámenn sveitarfélög eru óneitanlega enn illa í stakk búin til að veita þá altæku og umfangsmiklu þjónustu og aðstoð sem skylt er lögum samkvæmt.  Framundan er ítarleg könnun á framkvæmd félagsþjónustunnar sem félagsmálaráðuneytið er nú að undirbúa þannig að meta megi hvernig staðið er að þjónustunni um land allt. Lögin um félagsþjónustu sveitarfélaga eru 14 ára gömul og það tók sveitarfélögin mörg hver langan tíma að byggja upp lágmarksþjónustu á ýmsum sviðum sem kveðið er á um.  Má þar nefna vandaða félagslega ráðgjöf og reglubundið, viðunandi eftirlit með þjónustu dagmæðra svo ég leyfi mér að taka dæmi.

Félagsleg heimaþjónusta er veitt um allt land og hefur aldrei staðið á sveitarfélögunum að viðurkenna þá þörf, hvorki fámennum né fjölmennum. Það má hins vegar gera mun betur hvað varðar eftirlit með heimaþjónustunni, bæði í þéttbýli og dreifbýli, og gert er ráð fyrir að könnunin sem framundan er nái að draga bæði fram það sem vel er gert á þessu sviði og það sem betur má fara.  Í ljósi þess að öldruðum íbúum fjölgar stöðugt er brýnt að efla og útfæra betur en nú er gert félagslega heimaþjónustu svo koma megi í veg fyrir að eldri borgarar þurfi að yfirgefa heimili sín og fara á dvalarheimili eða stofnanir.  Á sama tíma er rétt að halda augunum opnum fyrir nýjum búsetuúrræðum fyrir aldrað fólk, en úrræðagóð heimaþjónusta er ein af forsendum þess að útfæra megi ný búsetuúrræði.

Fyrir tveimur árum samdi félagsmálaráðuneytið, í samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og samtök félagsmálastjóra, nýjar leiðbeiningar sem sveitarfélögin geta haft til hliðsjónar við smíði  reglna sinna um fjárhagsaðstoð.   Mörg sveitarfélög hafa notfært sér þessar fyrirmyndir, sem leiðir til aukins samræmis milli sveitarfélaga og er það vel.   Þrátt fyrir það er enn verulegur munur á fjárhæðum fjárhagsaðstoðar með tilliti til stærðar sveitarfélaganna. Reykjavík sker sig úr með hæstu fjárhæð á heimili eins og hér sést,  en meðalfjárhæð í  fámennustu sveitarfélögunum árið 2002 er ekki mælanleg og er súlan á glærunni einungis til málamynda. Það er óneitanlega umhugsunarvert að ekki mælist greiðsla fjárhagsaðstoðar hjá því 61 sveitarfélagi, sem voru með færri en 250 íbúa árið 2002, en íbúafjöldi samtals í þessum sveitarfélögum var reyndar einungis 1.6% af heildarfjölda þjóðarinnar.  Enda þótt meðalfjárhæð fjárhagsaðstoðar á heimili sé ef til vill ekki besti mælikvarðinn á þetta, er munurinn svo mikill að álykta má að á þessu sviði standi fjölmennari sveitarfélögin sig betur en hin fámennari.

Þjónusta við fatlaða er eitt af þeim verkefnum sem lagt hefur verið til að sveitarfélögin taki að sér. Víða um land hafa sveitarfélögin tekið að sér rekstur þessa málaflokks, fyrst sem reynslusveitarfélög og síðar í gegnum þjónustusamninga við félagsmálaráðuneytið. Ljóst er að góð reynsla er af því að sveitarfélögin annist þennan málaflokk, verkefnin eiga samleið með mörgum viðfangsefnum sveitarfélaga á sviði félagsþjónustu og ákveðin samþætting skilar hagræði, bæði í rekstri og veitingu þjónustu, án þess að þjónustustig minnki.

Flutningur á málefnum fatlaðra til sveitarfélaga var nokkurn veginn frágenginn vorið 2001, þegar ákveðið var að hverfa frá málinu. Ráðuneytið hefur notað þann tíma sem síðan er liðinn til að þróa þjónustu í málaflokknum mjög vel, unnið að stefnumótun fyrir málaflokkinn með aðkomu fjölmargra aðila og minnkað biðlista eftir þjónustu. Að mínu mati verða sveitarfélögin að gefa skýr skilaboð um að þau séu tilbúin til að hefja undirbúning að yfirtöku málefna fatlaðra og jafnframt að þeim sé full alvara í því að taka við þessu verkefni. Hér sem endranær eru stærri og sterkari einingar nauðsynlegar og sameiningar því grundvallaratriði.

Málefni geðfatlaðra hafa verið til allnokkurrar umfjöllunar á undanförnum misserum og það er vel.

Geðfatlaðir og aðstandendur þeirra hafa vakið athygli á því að þeim sé í mörgum tilvikum ekki búin sómasamleg aðstaða, hvorki hvað varðar búsetu né ýmisskonar þjónustu. Við þeim ábendingum þarf að bregðast og það hefur ríkisstjórnin nú ákveðið að gera. Með því að verja milljarði af söluandvirði Símans og hálfum milljarði að auki úr Framkvæmdasjóði fatlaðra næstu 5 ár, til uppbyggingar þjónustu fyrir geðfatlaða, hefur verið brotið blað á þessu sviði. Þessi ákvörðun er mér afskaplega mikils virði og ég trúi því að hún muni hafa varanleg áhrif á samfélag okkar um langa framtíð.

Veruleg umbylting hefur orðið á stöðu kvenna á vinnumarkaði,  en ég skal fúslega viðurkenna að ég vildi að við hefðum náð lengra og á ég þar ekki síst við jafnlaunamálin.   Vel hefur tekist til að því er varðar kröftuga menntasókn kvenna og  atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er líklega sú mesta í heiminum. Niðurstöður skýrslu um efnahagsleg völd kvenna [1] benda hins vegar  til þess að vinnumarkaðurinn sé mjög kynskiptur; að hann endurspegli að einhverju leyti þá staðreynd að námsval sé kynbundið.  Konur eru í meirihluta þeirra sem ljúka námi frá háskólum, en karlar sækja einkum í iðn- og tæknigreinar. Þörfin fyrir samþættingu starfsferils og fjölskyldulífs er sívaxandi.  Velferðarríkin takast hér á við stórt verkefni og leika sveitarfélögin þar stórt hlutverk.  Nauðsynlegt er að búa fjölskyldunum skilyrði til að ala börnin upp á farsælan hátt, en jafnframt að viðhalda mikilli virkri þátttöku á vinnumarkaði, sem er grundvöllur framleiðni.  Öflugt samspil heilsugæslu, félagsþjónustu og skóla er forsenda þess að börnin fái notið menntunar og fjölbreyttra tækifæra þeim og samfélaginu öllu til hagsbóta.  Taka verður tillit til þessa, ekki einungis við mótun velferðarstefnu ríkis og sveitarfélaga, heldur og ekki síður við mótun efnahagsstefnunnar. Við eigum að fjárfesta í börnum, forða þeim frá fátækt og leggja með því góðan grunn að menntun þeirra og þátttöku í samfélaginu í nútíð og framtíð.  Þannig eflum við best mannauðinn og í því felst farsæl velferðarstefna. 

Atvinnulíf og atvinnuþátttaka breytist með breyttum tímum. Aðstæður launafólks breytast þessu samfara.  Harðari samkeppni og auknar kröfur um arðsemi leiða til þess að gerðar eru ríkari kröfur um hagræðingu og arðsemi fjárfestinga.  Þetta getur leitt til fækkunar starfsfólks og rannsóknir í nágrannaríkjum hafa á síðustu tveimur árum sýnt nokkrar breytingar á vinnumarkaði.  Þar má til dæmis nefna : [2]

·        Auknar ráðningar fólks í hlutastörf og er það algengara meðal kvenna

·        Auknar ráðningar í tímabundin störf oft án réttinda og kjara sem fólk í venjulegri ráðningu nýtur

·        Aukna notkun starfsmannaleiga, m.a. með nýtingu erlends vinnuafls

·        Aukna notkun fjarvinnslu, sem losar atvinnurekendur frá svæðisbundnum vinnumarkaði

·        Aukin áhersla á sveigjanleika vinnumarkaða og í starfsliði einstakra fyrirtækja

 

Við höfum ekki farið varhluta af þessari þróun hér á landi og augljóst er að við verðum að standa vörð um réttindi fólks á vinnumarkaði í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins.  Ég hef ekki hugsað mér að fjalla nánar um þessi mál en ég vil þó geta þess hér að ég lét Rannsóknarstofnun í vinnurétti og jafnréttismálum á Bifröst vinna fyrir mig ítarlega greinargerð um starfsmannaleigur og þá möguleika sem stjórnvöld kunna að hafa til þess að taka með einhverjum hætti á starfsemi erlendra starfsmannaleiga hér á landi. Greinargerðin lýtur einkum að því að kanna möguleika á lagasetningu í þessu skyni og sérstök nefnd sem ég skipaði til þess að fara yfir þessi mál hefur greinargerðina nú til skoðunar. Þessi mál þarfnast ítarlegrar og vandaðar skoðunar og sú vinna á sér nú stað í ráðuneytinu.    Þróun á vinnumarkaði getur haft veruleg áhrif á velferðarsamfélagið í heild sinni og þar á meðal á möguleika fjölskyldna til að samþætta atvinnulíf og starf. Það leiðir enn og aftur hugann að skyldum ríkis og sveitarfélaga við fjölskyldurnar í landinu.  Skýr fjölskyldu- og jafnréttisstefna stjórnvalda og fyrirtækja og öflug, heildstæð  velferðarþjónusta getur haft jákvæð áhrif á þróun og uppbyggingu á vinnumarkaðnum.  

Innflytjendum hefur fjölgað verulega  hér á land á undanförnum áratug eða úr tæpum 2% í 3.8% á sl. áratug.  Þetta fólk er á besta aldri og virkir þátttakendur í atvinnulífinu.  Sambúð innfæddra og innflytjenda er farsæl og við höfum ekki orðið vitni að átökum milli kynþátta hér á landi.  En slíkar fréttir berast okkur því miður reglulega utan úr heimi.  Íslenskt atvinnulíf nýtur þess að útlendingar sækja í störf hér á landi.   Hámark var í útgáfu atvinnuleyfa árið 1999 en í fyrra voru gefin út um það bil 3.600  leyfi. Nú er svo komið að erlent vinnuafl, sem hlutfall af heildarvinnuafli hér á landi, er 4.5% og einungis Svíar af Norðurlandaþjóðunum hafa hærra hlutfall, en munurinn er lítill. 

Víða um land á atvinnulífið mikið undir erlendu vinnuafli og er mikilvægt að þeir sem hyggjast setjast að hér á landi  nái sem fyrst fótfestu í íslensku samfélagi. Glæran sýnir hlutfall erlendra íbúa í 15 fjölmennstu sveitarfélögunum og sker Ísafjarðarbær sig úr.  En þegar litið er til allra sveitarfélaganna með tilliti til erlendra ríkisborgara, kemur í ljós að víða eru erlendu ríkisborgararnir verulegur hluti mannfjöldans.

Niðurstöður skoðanakönnunar Gallup sem Alþjóðahúsið lét framkvæma á sl. hausti skutu okkur skelk í bringu. Þar birtust viðhorf Íslendinga til útlendinga, til framandi menningar og flóttamanna. Bornar voru saman niðurstöður tveggja   kannana, frá 1999 og frá árinu 2004.  Það sem var mest sláandi var hversu þeim hafði fækkað sem voru jákvæðir gagnvart því að leyfa fleiri útlendingum að vinna hérlendis. Samkvæmt könnuninni hafði þeim fækkað um 14 prósentustig. Einnig hafði þeim þeim fækkað verulega sem voru jákvæðir gagnvart mótttöku flóttamanna. Árið 1999 voru þeir sem voru jákvæðir 45% svarenda en á sl. hausti voru þeir aðeins 27,5% svarenda.

Það er verulegt umhugsunarefni hvað hafi valdið þessari viðhorfsbreytingu á einungis fimm árum. Íslendingar hafa allar forsendur til að vera jákvæðari gagnvart útlendingum og innflytjendum en margar aðrar þjóðir.

Ísland er á hraðri leið með að verða fjölmenningarlegt samfélag.  Framundan er skipun Innflytjendaráðs sem mun hafa aðsetur í félagsmálaráðuneyti.  Fulltrúar í Innflytjendaráði koma frá 4 ráðuneytum, Sambandi íslenskra sveitarfélaga og innflytjendum sjálfum. Það verkefni snýst  ekki síst um samstarf við önnur ráðuneyti, sveitarfélögin og hagsmunaaðila og að leita eftir breiðri samstöðu um málaflokkinn. Gert er ráð fyrir því að innflytjendaráðið byggi öðrum þræði starfsemi sína á því þróttmikla starfi sem þegar er unnið víða um land. Innflytjendaráðinu er samhliða ætlað veigamikið hlutverk innan stjórnsýslunnar, annars vegar að gera tillögur til stjórnvalda um stefnu í málefnum innflytjenda og hafa umsjón með framkvæmd hennar og á hinn bóginn að sjá um gerð þjónustusamninga um ýmis nauðsynleg verkefni.  Þjónustusamningar geta snúist um upplýsingamiðlun til innflytjenda, um utanumhald tölfræðilegra upplýsinga, túlkaþjónustu, þjónustu  við sveitarfélög og þróunarvinnu og rannsóknir. Samhliða verður stofnuð nefnd um flóttafólk og hælisleitendur, sem tekur m.a. við verkefnum flóttamannaráðs.

Ágætu málþingsgestir.

Í dag blasir margþætt  þjónusta velferðarríkisins við okkur, opnari umræða um þjónustuna og fjölbreyttari faghópar sem sinna henni, samhliða aukinni þekkingu á því hvað fólki nýtist best í þjónustu og ráðgjöf. Áhrif hagsmunasamtaka verða sífellt meiri og faglegri.  Hagsmunasamtökin horfa ekki á hin aðskildu viðfangsefni ráðuneytanna eða hvort þjónustan er veitt af ríki eða sveitarfélagi heldur fyrst og fremst á það hvort þjónustan sé viðunandi. Neytandinn þarfnast þjónustunnar hvort sem hún er veitt af ríki eða sveitarfélagi. 

Þetta allt leiðir til þess að þær gjár sem verið hafa á milli faghópa innan velferðarþjónustunnar hverfa smám saman eða að minnsta kosti eru komnar brýr yfir þær sumar.  Af þessu leiðir að fagstéttir og hin mismunandi svið velferðarþjónustunnar, sem hingað til hafa unnið hver á sínum aðskilda vettvangi, vinna meira saman.  Dæmi um þetta er samstarf um félagslega heimaþjónustu og heimahjúkrun í Reykjavík.  Ég sé einnig fyrir mér aukið samstarf á milli ungbarnaeftirlits og mæðraskoðunar annars vegar og félagslegrar ráðgjafar hins vegar.  Í dag er annað verkefnið á hendi ríkis og hitt á hendi sveitarfélaga. 

Öflug  sveitarfélög gætu veitt þessa alhliða velferðarþjónustu og rekið saman heilsugæslu og félagsþjónustu undir merkjum velferðar og  samþætt þar með þjónustu við leik- og grunnskóla.  Við þetta mætti bæta barnaverndinni, sem reyndar er mun sérhæfðara viðfangsefni. Og í þessu sambandi vil ég undirstrika að ég tel að við stæðum jafnframt betur að vígi með eitt velferðarrráðuneyti innan stjórnarráðsins en eins og ykkur er kunnugt er nú hafin endurskoðun á skipulagi stjórnarráðsins og verkaskiptingu á milli ráðuneyta.

Við getum spurt okkur “til hvers eru sveitarfélögin?”  Er ekki í lagi að sleppa þessu stjórnsýslustigi?  Getur ekki ríkið séð um þetta?  Fyrir svo fámenna þjóð? 

Ríkið sér um ýmsa þætti stjórnsýslunnar nú þegar, svo sem rekstur heilsugæslu, sjúkrahúsa og löggæslu.  Á hinn bóginn er ég þeirrar skoðunar að við eigum einmitt að hlúa að sveitarfélögunum efla þau og styrkja, það er jafnnauðsynlegt fámennri þjóð sem fjölmennri og hinar dreifðu byggðir landsins kalla á öflugt sveitarstjórnastig. Sveitarfélögin sinna í fyrsta lagi staðbundinni stjórnsýslu í öðru lagi veita þau  nærþjónustu og í þriðja lagi sinna þau hagsmunagæslu fyrir nærsamfélagið.  Efling sveitarstjórnastigsins miðast að því að að efla þessa þætti, með nýjum nærþjónustuverkefnum, endurskoðun tekjustofna og styrkingu sveitarstjórnarstigsins með sameiningu sveitarfélaga.

Eins og mönnum er kunnugt hefur mikil vinna verið lögð í að kanna og komast að farsælli niðurstöðu um flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga.  Í október 2003 skipaði heilbrigðisráðherra nefnd um flutning á verkefnum á sviði heilbrigðismála og þjónustu við aldraða frá ríki til sveitarfélaga.  Þá þegar var komin góð reynsla á að tvinna saman heilsugæslu, heimahjúkrun og félagsþjónustu eins og gert er í mismiklum mæli í nokkrum sveitarfélögum sem tekið hafa að sér þessi verkefni.  Þessi nefnd hefur hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að forsendur ákvörðunar  um flutning verkefna í því umfangi sem hún fékk til umfjöllunar, m.a. hvort flytja mætti heislugæslustöðvar og heilbrigðisstofnanir til sveitarfélaganna, sé sameining sveitarfélaga og önnur efling sveitarstjórnastigsins, skýr flutningur tekjustofna og sátt meðal fulltrúa samningsaðila og helstu hagsmunaaðila um meginatriði verkefnaflutningsins. Það liggur því fyrir hér sem annars staðar að forsenda fyrir yfirflutningi stórra málaflokka frá ríki til sveitarfélaga er að sveitarfélögin eflist með sameiningum. Það liggur alveg ljóst fyrir.

Verkefnisstjórn um eflingu sveitarstjórnarstigsins, sem ég skipaði í árslok 2003 óskaði eftir álitsgerð um mat á kostum þess og annmörkum að flytja ákveðin verkefni frá ríki til sveitarfélaga. Þessi verkefni voru: Málefni fatlaðra, heilsugæsla, minni sjúkrahús, málefni aldraðra, umboð Tryggingarstofnunar ríkisins og vinnumiðlun og ráðgjöf.  Óskað var eftir margþættu mati sem fólst m.a. í því að kanna hver yrðu áhrif á skiptingu opinberra útgjalda milli ríkis og sveitarfélaga, hvort málaflokkarnir myndu falla að núverandi verkefnum sveitarfélaganna og hvernig mætti koma fyrir heildstæðri félagsþjónustu á einum stað til hægðarauka fyrir neytendur.  Einnig  var óskað eftir könnun á því hvort verkefnin væru til þess fallin að uppfylla þau markmið sem verkefnisstjórnin hafði sett sér en þau eru:

 

Að treysta og efla sveitarstjórnarstigið með aukinni valddreifingu hins opinbera

Að sveitarfélögin annist flesta nærþjónustu við íbúa

Að sveitarfélögin ráðstafi auknum hlut í opinberum útgjöldum og fái til þess eðlilegan hluta tekna hins opinbera

Að sveitarfélögin myndi heilstæð atvinnu- og þjónustusvæði

Að efla sjálfsforræði byggðalaga

 

Niðurstaða þessarar úttektar var að innan allra málaflokkanna sex sem kannaðir voru kæmi vel til greina að flytja verkefni til sveitarfélaganna það,  gæti bæði aukið skilvirkni og bætt þjónustu við almenning. Í framhaldinu lagði verkefnisstjórnin til tillögur um verkefnaflutning frá ríki til sveitarfélaga og hins vegar verkefnaflutning frá sveitarfélögum til ríkis. Allar tillögurnar miða að því að gera verkaskiptingu hins opinbera skýrari, auk þess sem tillögur um verkefnaflutning til sveitarfélaga miða að því að efla nærþjónustu við íbúa.

Eftirfarandi verkefni setur verkefnisstjórnin í forgang og telur mikilvægt að vinna við flutning þeirra milli stjórnsýslustiga hefjist nú þegar.


Velferðar- og heilbrigðisþjónusta

Lagt er til að að nú þegar verði hafist handa við flutning eftirfarandi verkefna frá ríki til sveitarfélaga með það að markmiði að málaflokkarnir verði alfarið verkefni sveitarstjórnarstigsins.

  • Málefni fatlaðra frá félagsmálaráðuneyti
  • Heilsugæsla, heimahjúkrun, öldrunarþjónusta og minni sjúkrahús frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti.
  • Svæðisvinnumiðlun og atvinnuráðgjöf frá Vinnumálastofnun.

Opinber eftirlitsverkefni

Lagt er til að nú þegar verði hafinn undirbúningur að flutningi ákveðinna opinberra eftirlitsverkefna frá ríki til sveitarfélaga með það að markmiði að heildarstefnumótun og samræming sé á hendi ríkisins, en dagleg framkvæmd sé sem mest á hendi sveitarfélaga.


  • Eftirlit með mengandi starfsemi og dýravernd gæludýra frá Umhverfisstofnun
  • Verkefni héraðsdýralækna, þ.m.t. eftirlit með sláturhúsum og dýravernd frá embætti yfirdýralæknis
  • Eftirlit með matvælaframleiðslu og útgáfa vinnsluleyfa frá Fiskistofu
  • Eftirlit með aðbúnaði starfsfólks á vinnustöðum og öryggi vinnuvéla frá Vinnueftirliti ríkisins
  • Annað sérhæft eftirlit, s.s. með geislamælingum og tækjabúnaði á heilbrigðissviði.

Auk þessara verkefna leggur verkefnisstjórnin til að verkaskipting milli ríkis og sveitarfélaga í menntamálum verði skýrð, og að flutningur ýmissa annarra verkefna til sveitarfélaga verði kannaður, s.s. á sviði á samgöngumála.

Það er augljós kostur að flytja málefni fatlaðra til sveitarfélaganna þjónusta við fatlaða fellur einstaklega vel að annarri félagsþjónustu sem nú þegar er á hendi sveitarfélaganna og góð reynsla þar sem það hefur verið reynt. 

Í öldrunarþjónustu kemur vel til greina að skoða stjórnsýslu málaflokksins nánar og jafnvel skipuleggja þjónustuna upp á nýtt.  Meðal annars í þeim tilgangi  að greina heilbrigðisþjónustuna frá hinni félagslegu þjónustu sem öldruðum er nú veitt samkvæmt lögum sem heyra undir heilbrigðisráðuneytið, svo sem húsnæðismál aldraðra og stefna að því að sveitarfélögin beri ábyrgð á allri félagslegri aðstoð við aldraða þar með talin dag- og stoðþjónusta og búsetuúrræði.

Það er vert að huga að því í fullri alvöru að fela sveitarfélögunum umsjón og rekstur heilsugæslunnar.  Þessi þjónusta er sannarlega nærþjónusta og góður kostur að hún sé veitt í góðum tengslum við félagsþjónustu þar með talda þjónustu við aldraða og fatlaða. 

Frekari viðræður um flutning verkefna til sveitarfélaga bíða fram yfir sameiningarkosningarnar þann 8. október nk. Ríkið hefur lýst yfir mjög ákveðnum vilja til að færa sveitarfélögunum aukin verkefni en það mun líka reyna á vilja sveitarfélaganna í þeim efnum. Það er ekkert sérstakt kappsmál af minni hálfu, sveitarfélögin þurfa að vilja taka við verkefnunum. Það hef ég ítrekað sagt á fundum mínum með íbúum og sveitarstjórnarmönnum um land allt en það breytir því ekki að ég er sannfærður um að þjónustunni er best fyrir komi sem næst þeim sem eiga að njóta hennar.  Mikilvægt er að sem flestir komu að mótun og þróun þeirrar grundvallarþjónustu sem við erum sammála um að samfélagið veiti.

Ágætu málþingsgestir.

Nútímaleg félagsþjónusta sveitarfélaganna gæti því litið svona út ef vel tekst til í náinni framtíð, þar sem allir þessir málaflokkar væru á einni hendi öflugs sveitarfélags.

Ég vil að lokum óska Sambandi íslenskra sveitarfélaga til hamingju með árin 60.

Um leið og ég þakka áheyrnina óska ég ykkur góðs vinnudags hér í Salnum en dagskrá málþingsins veit á gott.

 

 



[1] Efnahagsleg völd kvenna forsætisráðuneyti, 2004

[2] Úr bók Stefáns Ólafssonar og Kolbeins Stefánssonar: Hnattvæðing og þekkingarþjóðfélag 2005, bls. 177

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum