Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

26. september 2008 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna fyrir starfsfólk Hjallastefnunnar

Góðir gestir, starfsmenn Hjallastefnunnar.

Það er ótrúlegt til þess að hugsa að Hjallastefnan skuli ekki vera eldri en raun ber vitni, fyrirtækið stofnað árið 2000 vegna reksturs eins leikskóla, Hjalla í Hafnarfirði, en starfsemi hans hófst tveimur árum áður. Átta árum síðar eru leikskólar stefnurnar orðnir átta og þrír skólar á grunnskólastigi. Sá fjöldi fólks sem hér er samankominn segir meira en mörg orð um það hve starfsemin hefur vaxið og dafnað.

Það er afar ánægjulegt og uppörvandi að slík gróska og kraftur sé til staðar í starfsemi sem lýtur að uppeldi og menntun barna og ekki gleður mig minna sú staðreynd að kröftug starfsemi Hjallastefnunnar er borin uppi og leidd af kröftugum konum, þó ekki eigi það að koma nokkrum á óvart að forysta kvenna sé til farsældar fallin.

Strax frá upphafi fannst mér áhugaverð hugmyndafræði Hjallastefnunnar sem frumkvöðull hennar, Margrét Pála, hefur verið óþreytandi að kynna á liðnum árum. Sýn hennar á skólastarf, áherslur og hugmyndafræðin að baki hafa hrifið fleiri en mig eins og dæmin sanna.

Það eru án efa áherslur á jafnréttisuppeldi Hjallastefnunnar sem vakið hafa hvað mesta athygli og það er sá þáttur sem mér er efst í huga. Engu að síður veit ég að margt annað í fyrirkomulagi skólastarfsins er óhefðbundið og stefnan í heild sinni hefur vakið mikla athygli, ekki síður erlendis en hér á landi.

Vinátta, virðing og ábyrgð eru meðal mikilvægra forsendna jafnréttis. Þá á ég ekki aðeins við kynbundið jafnrétti heldur jafnrétti í víðum skilningi. Þetta eru þættir sem ég veit að Hjallastefnan leggur mikla rækt við og beitir ákveðnum og markvissum aðferðum til að stuðla að, jafnt í orði og verki.

Aðferðir í leikskólauppeldi Hjallastefnunnar voru umdeildar til að byrja með og þá einkum kynjaskipting í skólastarfinu. Það er óþarfi að rekja í löngu máli deilurnar sem stóðu um tíma vegna þessa og rötuðu meira að segja fyrir jafnréttisráð. Hér sannaðist eins og oft áður að það getur reynst erfitt að vera spámaður í sínu föðurlandi. Þessi tími er að mestu að baki og nú veit ég að margir vildu Lilju kveðið hafa.

Ný lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla tóku gildi í vor. Þar er meðal annars kveðið á um að nemendur á öllum skólastigum skuli hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars sé lögð áhersla á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku á öllum sviðum samfélagsins.

Þróunarverkefni sem nýlega var hrint af stokkunum um jafnréttisfræðslu í leik- og grunnskólum er í anda laganna, en það nær til skóla og leikskóla í fimm stórum sveitarfélögum. Verkefnið á sér heimasíðu á slóðinni jafnrettiigrunnskolum.is sem ég hvet ykkur til að skoða.

Ég hvet ykkur jafnframt til að leggja verkefninu lið með beinum hætti, með því að miðla af mikilvægri reynslu ykkar og þekkingu. Verkefnið stendur öllum opið að þessu leyti og framlag ykkar myndi skipta miklu máli.

Ég hef margsinnis sagt það í umræðum um jafnréttismál að árangursríkasta leiðin að jafnrétti sé að vera börnum góð fyrirmynd og innræta þeim jafnrétti í orði og verki frá blautu barnsbeini. Það eru gömul sannindi og ný að það læra börnin sem fyrir þeim er haft og því veltur jafnrétti framtíðarinnar ekki síst á uppeldi þeirra sem eru börn í dag.

Á næsta ári fer Ísland með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni og verður jafnréttisfræðsla í skólum eitt af fimm meginþemum um jafnrétti það árið. Í kjölfarið verður haldin ráðstefna um jafnréttisfræðslu hér á landi þar sem fyrirmyndarverkefni Norðurlandanna verða kynnt haustið 2009.

Ég bind miklar vonir við þróunarverkefnið sem ég nefndi og tel að með markvissri fræðslu og umræðu frá upphafi skólagöngu færum við ungu fólki tækifæri til að taka ákvarðanir varðandi framtíð sína á eigin forsendum, óháð staðalmyndum kynjanna og hefðbundnu starfsvali. Það mun nýtast þessum einstaklingum auk þess sem hæfileikar þeirra munu gagnast samfélaginu í heild.

Margrét Pála, frumkvöðull Hjallastefnunnar, hefur séð það fyrr en margir aðrir hve miklu skiptir að börn fái notið jafnréttisuppeldis í skólum og jafnframt að jafnrétti verður aldrei kennt eins og námsgrein heldur þarf að iðka það í öllum orðum og athöfnum daglegs lífs.

Ég þakka Margréti Pálu og ykkur öllum, starfsmönnum Hjallastefnunnar, fyrir gott starf fyrr og síðar. Framlag ykkar til jafnréttismála er og hefur verið afar mikilvægt.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum