Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

02. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp ráðherra á stofnfundi Félags leigumiðlara

Ágætu fundarmenn.

Þakka ykkur fyrir að bjóða mér á stofnfund Félags leigumiðlara. Ég tel skynsamlegt og æskilegt að starfandi leigumiðlarar hafi með sér félagsskap og vinni saman og fagna því þessu framtaki.

Leigumarkaður íbúðarhúsnæðis hefur lengst af verið lítill hér á landi og hefur þjóðin haft í þessu nokkra sérstöðu sé litið til nágrannaþjóða. Til marks um það sýndi könnun á umfangi leigumarkaðar árið 2007 að um 78% landsmanna á aldrinum 18–80 ára bjuggu í eigin húsnæði, tæp 10% hjá ættingjum eða vinum en rúm 11% í leiguhúsnæði.

Það er nokkuð ljóst að umfang leigumarkaðar með íbúðarhúsnæði á eftir að vaxa á næstunni vegna efnahagsþrenginganna og erfiðrar stöðu á fasteignamarkaði. Það er því sérstaklega brýnt að réttarstaða samningsaðila sé vel tryggð, jafnt leigjendanna og leigusalanna. Þetta er hlutverk leigumiðlara og það skiptir miklu að þeir ræki það vel.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fólki þurfi að standa til boða fjölbreyttir valkostir í húsnæðismálum og jafnframt að hér á landi hafi allt of mikil áhersla verið lögð á eignaríbúðir á kostnað annarra möguleika. Kaup á húsnæði hefur alltaf verið ein stærsta fjárfestingin sem einstaklingar ráðast í og hjá flestum felur slík fjárfesting í sér miklar fjárhagslegar skuldbindingar til áratuga. Aðstæður hér hafa í raun knúið alla til að fjárfesta í eigin íbúðarhúsnæði, líka tekjulitla einstaklinga og fjölskyldur sem í raun hafa tæpast eða ekki haft bolmagn til þess. Ástandið í efnahagsmálum þjóðarinnar núna sýnir í hnotskurn hve gríðarlegar skuldbindingar hvíla á fólki vegna húsnæðiskaupa og nú er fyrirsjáanlegt að fjöldi fólks geti tæpast staðið undir þeim við þær óeðlilegu aðstæður sem upp eru komnar.

Fólk sem ekki vill eða getur eignast íbúðarhúsnæði þarf fleiri valkosti og ýmsar leiðir eru færar, hvort sem um er að ræða húsnæðissamvinnufélög, almennan leigumarkað eða félagslegt íbúðarhúsnæði eftir atvikum. Forsenda fyrir virkum leigumarkaði er hæfilegt jafnvægi í framboð og eftirspurn húsnæðis og skýrar leikreglur þar sem réttindi leigusala og leigjenda eru tryggð. Í þessu sambandi er mikilvægt að leigumiðlarar starfi faglega og ræki vel hlutverk sitt samkvæmt lögum.

Í 15. kafla húsaleigulaga frá árinu 1994 kemur fram að þeim einum sem hlotið hafa til þess sérstakt leyfi félags- og tryggingamálaráðherra sé heimilt að reka miðlun með leiguhúsnæði í því skyni að koma á leigusamningi eða annast framleigu eða skipti á leiguhúsnæði. Í lögunum segir einnig að starfsheiti þess sem rækir leigumiðlun sé leigumiðlari og jafnframt er skilgreint hvað í heitinu felst.

Félags- og tryggingamálaráðherra gefur út leyfisbréf til leigumiðlara og gildir leyfið til fimm ára í senn. Meðal skilyrða fyrir slíku leyfi er að umsækjandi sæki námskeið og standist próf sem sýni að hann hafi góða þekkingu á húsaleigulöggjöf og annarri löggjöf sem máli skiptir og hafi jafnframt nauðsynlega kunnáttu í bókhaldi. Einnig þarf hann að leggja fram staðfestingu um gilda tryggingu fyrir greiðslu kostnaðar og tjóns sem aðilar leigusamnings kunna að verða fyrir af hans völdum. Lögfræðingar eru undanskildir kröfu um námskeið og próftöku en þurfa að uppfylla önnur skilyrði fyrir leyfisbréfi.

Hlutverk leigumiðlara er afar mikilvægt en leigumiðlari ber ábyrgð á að leigusamningur sé gerður í samræmi við húsaleigulögin. Leigumiðlara ber skylda til að upplýsa aðila um réttindi þau og skyldur sem þeir taka á sig með undirritun leigusamningsins svo og um réttaráhrif samningsins.
Tekið er fram í lögunum að leigumiðlari skuli ætíð vanda til gerðar leigusamnings og gæta þess að þar komi fram allar þær upplýsingar sem máli skipta.

Nú eru tæplega 60 manns með leyfi félags- og tryggingamálaráðuneytisins til að reka leigumiðlanir, langflestir þeirra, tæplega 50, á höfuðborgarsvæðinu. Stór hluti leyfishafa hefur aflað sér leyfis á síðastliðnum fjórum árum. Ég tel þessa aukningu jákvæða og tel hana jafnframt renna stoðum undir mikilvægi þess að leigumiðlarar stofni með sér samtök.

Ég veit að helsta baráttumál félags leigumiðlara verður að koma í veg fyrir að á leigumarkaði starfi aðilar sem gefa sig út fyrir að vera leigumiðlarar án þess að uppfylla kröfur félags- og tryggingamálaráðuneytisins til slíkrar starfsemi. Ég styð alla viðleitni til þess að efla og bæta fagleg vinnubrögð leigumiðlara í þágu leigjenda og leigusala og sé fyrir mér að Félag leigumiðlara og félags- og tryggingamálaráðuneytið geti unnið saman að þessu verkefni. Vera má að sú vinna muni kalla á breytingu á húsaleigulögum þannig að sett verði viðurlög við því að starfa sem leigumiðlari án tilskilinna réttinda.

Í lokin vil ég leggja áherslu á að von mín er sú að Félag leigumiðlara verði sterkur og fjölmennur málsvari leigumiðlara sem standi vörð um fagleg vinnubrögð og hagsmuni umbjóðenda sinna.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum