Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. mars 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Hærri styrkir eftir níu ára bið

Á fundi mínum með fulltrúum Öryrkjabandalags Íslands og Landssamtakanna Þroskahjálpar í síðustu viku ræddum við nýjar reglur um styrki og uppbætur til hreyfihamlaðra einstaklinga vegna bifreiða. Í þeim eru ýmis nýmæli.

Fjárhæðir styrkja og uppbóta vegna bifreiðakaupa hreyfihamlaðra einstaklinga hækka um 20%.. Hækkunin er löngu tímabær því þessar fjárhæðir höfðu ekki hækkað í níu ár. Þannig nemur fjárhæð uppbótar til bifreiðakaupa nú 300.000 kr. og ef um er að ræða fyrstu bifreið er fjárhæðin 600.000 kr. Fjárhæðir styrkja til bifreiðakaupa til þeirra sem eru verulega hreyfihamlaðir hækka úr 1.000.000 kr. í 1.200.000 kr. Það er afleitt að góðæri liðinna ára hafi ekki verið nýtt til svo sjálfsagðra úrbóta fyrir fatlaða. Vissulega hefði verið æskilegt að hækka bætur og styrki meira, en eins og aðstæður eru nú í samfélaginu var það ekki mögulegt.

Rýmri skilyrði og styttri biðtími

Annað mikilvægt skref er að ýmis skilyrði fyrir uppbótum og styrkjum eru rýmkuð. Áður var það skilyrði fyrir veitingu 50-60% styrks af heildarkaupverði sérútbúinna og dýrra bifreiða að hinn hreyfihamlaði stundaði launaða vinnu eða skóla. Þetta skilyrði er nú afnumið á þeim forsendum að bifreiðin eigi að nýtast fólki í daglegu lífi. Jafnframt er fellt út eldra skilyrði um að hinn hreyfihamlaði aki sjálfur og í staðinn heimilað að annar heimilismaður aki bifreiðinni. Auk þessa er sá tími sem líða skal að lágmarki milli styrkveitinga til bifreiðakaupa sérútbúinna bifreiða styttur úr sex árum í fimm. Hámarksstyrkur til bifreiðakaupa er nú 5.000.000 króna.

Í nýrri reglugerð er hugtakið hreyfihömlun skilgreint í fyrsta sinn. Jafnframt hefur verið gerð sú breyting að Tryggingastofnun ríkisins er nú gert að greiða út uppbætur og styrki vegna bifreiðakaupa mánaðarlega á sama hátt og tíðkast með aðrar bætur í stað þess að greiða þá út ársfjórðungslega. Þetta mun gera það að verkum að bið eftir greiðslum styttist til muna.

Með þessum breytingum er stigið mikilvægt skref í þá átt að efla stuðning við ferðamöguleika hreyfihamlaðra þó margt megi enn bæta. Ég tel nauðsynlegt að huga að frekari endurskoðun ferðareglnanna svo fleiri hreyfihamlaðir geti notið þess frelsis sem fæst með því að geta ferðast óhindrað á milli staða, hvort sem það er í eigin bifreið eða á annan hátt. Í slíkri vinnu mun ég leggja mikla áherslu á að eiga gott samstarf við hagsmunasamtök öryrkja, fatlaða og þá aðra sem hlut eiga að máli.

Höfundur er félags- og tryggingarmálaráðherra

(Greinin birtist í Fréttablaðinu 18. mars 2009)



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum