Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

18. apríl 2009 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Mikilvægar breytingar á barnaverndarlögum

Mörgum var brugðið þegar karlmaður sem ítrekað hafði beitt tvo drengi líkamlegum refsingum var sýknaður af ákæru vegna þess, fyrst fyrir héraðsdómi og síðar í Hæstarétti.

Í stuttu máli komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að í barnaverndarlögum væri ekki fortakslaust bann við þessu athæfi þar sem refsinæmi slíkrar háttsemi væri háð því að hún væri til þess fallin að skaða barnið andlega eða líkamlega. Þá töldu dómarar að 217. gr. almennra hegningarlaga ætti ekki við í þessu tilviki þar sem maðurinn hafði refsað drengjunum með samþykki foreldris.

Margir hafa undrast mjög niðurstöðu dómstólanna í þessu máli og véfengt þá lagatúlkun sem þar kemur fram með réttu eða röngu. Það gildir sem endranær að maður deilir ekki við dómarann en óneitanlega vakti niðurstaða þessa máls fjölmargar spurningar um það hvort börn nytu ónógrar verndar gegn andlegu og líkamlegu ofbeldi samkvæmt lögum.

Börn njóti mannréttinda

Sem betur fer eru lög ekki höggvin í stein. Lögum má breyta og lagabreytingar gegna mikilvægu hlutverki í því að færa samfélag okkar fram á við til samræmis við breytt gildismat, nýjar venjur og bætta siði. Fyrir nokkrum áratugum blöskraði fáum þótt börn væru beitt líkamlegum hirtingum. Nú eru viðhorf til þessa gjörbreytt sem betur fer, enda vitað að allt líkamlegt ofbeldi veldur börnum skaða. Mikilvægi þess að börn njóti mannréttinda, þeim sé ekki misboðið og að þau njóti verndar gegn hvers konar ofbeldi, misnotkun eða vanrækslu þarf varla að fjölyrða um.

Í framhaldi af dómi Hæstaréttar fól ég starfshópi á mínum vegum sem vinnur að því að meta reynsluna af barnaverndarlögum að gera tillögur um hvernig heppilegast væri að breyta ákvæðum þeirra og taka þannig af öll tvímæli um að refsivert sé að beita börn líkamlegum refsingum. Á þessum tíma lá fyrir Alþingi frumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur og fleiri þingmanna um breytingu á barnaverndarlögum sem hafði sama markmið. Ákveðnar breytingar voru gerðar á því frumvarpi í samræmi við tillögur starfshóps míns og hefur það nú verið samþykkt á Alþingi.

Fortakslaust bann við ofbeldi gegn börnum

Breytingin á barnaverndarlögum sem nú hefur verið gerð leggur fortakslaust bann við því að foreldrar eða aðrir sem bera ábyrgð á umönnum og uppeldi barns beiti það ofbeldi eða   annarri vanvirðandi háttsemi, þar með töldum andlegum og líkamlegum refsingum. Í barnalögum er jafnframt kveðið á um að foreldrum beri að vernda barn sitt gegn ofbeldi. Réttur barna er þar með algjörlega skýr hvað þetta varðar og skyldur foreldra og forráðamanna sömuleiðis. Gengið er út frá því að háttsemi sem felst í því að beita barn andlegum og líkamlegum refsingum, vanvirðandi háttsemi, hótunum og ógnunum sé skaðleg fyrir barn og varði því refsingu.

Önnur mikilvæg breyting á barnaverndarlögunum felur í sér ákvæði um að fulltrúi barnaverndarnefndar skuli eiga kost á að vera viðstaddur þegar skýrsla er tekin af barni sem sakborningi, brotaþola eða vitni, hvort sem skýrslutakan fer fram hjá lögreglu eða fyrir dómi. Í framkvæmd hefur þessi háttur verið hafður á við skýrslutökur en ástæða þótti til að styrkja grundvöll þess í lögum.

Lögfesting Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna

Nýlega var samþykkt á Alþingi þingsályktun um að hefja undirbúning að því að lögfesta samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins sem fullgiltur var hér á landi árið 1992. Frumvarp um lögfestinguna og aðlögun íslenskra laga að samningnum skal liggja fyrir eigi síðar en 20. nóvember næstkomandi en þá eru liðin 20 ár frá því að hann var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.  

Í félags- og tryggingamálaráðuneytinu verður áfram unnið að endurskoðun barnaverndarlaga, þar á meðal  með hliðsjón af þeim breytingum sem nauðsynlegar eru til þess að löggilda samning Sameinuðu þjóðanna. Ég tel hins vegar mikilvægt að fyrrnefndar breytingar á lögunum hafi þegar verið gerðar þar sem miklir hagsmunir voru í húfi og ekki hægt að sætta sig við að börn gjaldi fyrir að lög séu ekki nógu skýr eins og umtalaður dómur Hæstaréttar ber með sér.

Grein Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2009.



Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum