Hoppa yfir valmynd

Ræða eða grein fyrrum ráðherra

30. janúar 2017 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ávarp félags- og jafnréttismálaráðherra við komu flóttafólks frá Sýrlandi 31.01. 2017

Ávarp Þorsteins Víglundssonar, félags- og jafnréttismálaráðherra

Herra forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, góðir gestir.

Það er með mikilli gleði í hjarta sem ég býð ykkur velkomin - kæru nýju landar mínir. – Þið eruð komin hingað um langan veg í kjölfar stríðsátaka í heimalandinu og skelfinga sem enginn ætti að þurfa að upplifa. Ég býð ykkur velkomin heim til Íslands og þegar ég segi heim, þá er það vegna þess að ég vona svo innilega að hér munið þið finna ykkur heimili þar sem ykkur líður vel, - heimili sem þið kallið ykkar.

Við Íslendingar leggjum áherslu á að sinna skyldu okkar í samfélagi þjóðanna með því að aðstoða fólk í neyð. Við viljum gera skyldu okkar gagnvart því fólki sem vegna stríðsátaka eða ofsókna þarf að flýja heimaland sitt. Við viljum leggja samfélagi þjóðanna lið og eiga þátt í því að skapa fólki sem er landflótta nýtt heimili og bjóða því mannsæmandi líf.

Við tökum á móti ykkur með gleði og opnum faðmi og sýnum með því í verki andúð okkar á þeim sem leggja steina í götu þeirra sem síst skyldi og loka fyrir því fólki landamærum sínum.

Skilaboð íslenskra stjórnvalda eru skýr. Í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar kemur fram að vilji okkar stendur til þess að gera enn betur og fjölga því flóttafólki sem við bjóðum velkomið hingað til lands. Mér finnst þetta skipta miklu máli og það er með gleði og sérstakri ánægju sem ég færi þessi skilaboð.

Ísland er friðsælt land. Hér ríkir lýðræði og hér getið þið verið viss um að mannréttindi ykkar séu varin og virt.

Kæru vinir.

Ég veit að þið eruð þreytt eftir langa ferð og ætla því ekki að tala lengi, enda þráið þið örugglega að komast í gott rúm undir hlýja sæng á nýju heimilunum ykkar, á Akureyri og í Reykjavík.

Þið verðið eflaust hissa á ýmsu sem er allt öðruvísi hér en þið eigið að venjast á ykkar heimaslóðum. Allt mun þetta venjast – það er ég viss um líka veðrið þótt eflaust þyki ykkur svolítið kalt til að byrja með. En brátt fer að vora og þá tekur allt á sig annan lit og bjartir dagar fara í hönd. Svo er sérstaklega ánægjulegt til þess að vita að sum ykkar munuð hitta hér fyrir ættingja og sameinast ástvinum sem þegar voru komnir til Íslands.

Ég vil að lokum þakka öllu þeim sem koma að móttöku ykkar og munu verða ykkur til aðstoðar framundan. Reykjavíkurborg og Akureyrarbær taka vel á móti ykkur og veita aðstoð og stuðning eftir þörfum í samvinnu við Rauða krossinn á Íslandi.

Enn og aftur velkomin heim.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum