Hoppa yfir valmynd

Samkeppni um kórlag fyrir 80 ára afmæli lýðveldisins

Afmælisnefnd  í samvinnu við samtök íslenskra kóra og kórstjóra, efnir til samkeppni um nýtt kórlag sem flutt verður í tengslum við 80 ára afmæli lýðveldisins 17. júní 2024.

Lagið skal vera auðsungið með hæfilega víðu tónsviði og ekki mikil frávik milli erinda. Lagið skal henta bæði til kórsöngs og almenns söngs. Texti lagsins er úr Ávarpi fjallkonunnar 2015 eftir Þórarin Eldjárn. Textinn neðst á síðu.

Laginu skal skilað sem hljómsettri laglínu og einnig í einföldum raddsetningum fyrir kóra án undirleiks; SATB, SS(A)A, TTBB.

Veitt verða ein verðlaun 500.000 kr. fyrir sigurlagið.

Dómnefnd skipa fulltrúar frá Tónskáldafélagi Íslands, Félagi tónskálda og textahöfunda, Félagi íslenskra kórstjóra og fulltrúi afmælisnefndar sem er formaður dómnefndar.

Frestur til að skila inn tillögum er til kl. 16.00 mánudaginn 12. febrúar 2024.

Tillögum skal skilað til forsætisráðuneytisins, Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg, í lokuðu umslagi merkt „Samkeppni um kórlag fyrir lýðveldisafmæli 2024“. Tillagan skal merkt dulnefni en nafn tónskálds skal fylgja með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu. 

Samkeppnisreglur

  1. Miða skal við að lagið sé í heild 2 – 4 mínútur og ekki séu mikil frávik milli erinda.
  2. Lagið skal vera auðsungið með hæfilega víðu tónsviði, og henta bæði til kórsöngs og almenns söngs. Laginu skal skilað sem hljómsettri laglínu og einnig í einföldum raddsetningum fyrir kóra án undirleiks; SATB, SS(A)A, TTBB. Tónskáldi er frjálst að fá annan aðila til að raddsetja lagið.
  3. Texti lagsins er úr Ávarpi fjallkonunnar 2015 eftir Þórarin Eldjárn, sjá texta neðar.
  4. Afmælisnefndin áskilur sér rétt til þess að dreifa nótum af laginu án endurgjalds til þeirra kóra sem taka þátt í söng í tengslum við lýðveldisafmælið.
  5. Merkja skal tillöguna með dulnefni. Nafn tónskálds má ekki koma fram á tillögunni. Nafn tónskálds skal fylgja með í lokuðu umslagi merktu dulnefninu.
  6. Tillögunni skal skilað fyrir kl. 16.00, 12. febrúar 2024, merkt „Samkeppni um kórlag fyrir lýðveldisafmæli 2024“. Tillögur sem berast eftir tilskilinn tímafrest verða ekki teknar fyrir af dómnefnd.
  7. Fimm manna dómnefnd er skipuð fulltrúum Tónskáldafélags Íslands, Félags tónskálda og textahöfunda og Félags íslenskra kórstjóra auk fulltrúa afmælisnefndar sem er formaður dómnefndarinnar. Dómnefndin velur verkið sem ber sigur úr býtum. Ekki er hægt að áfrýja niðurstöðu dómnefndar.
  8. Úrslit dómnefndar verða kunngerð 29. febrúar 2024.

Ávarp fjallkonunnar 2015  

eftir Þórarin Eldjárn

1., 2. og 4. erindi með breytingu frá höfundi, til notkunar við samningu sönglags.

Um miðjan júnímánuð
myrkri er horfinn styrkur,
fánar blakta í blænum,
blöðrur svífa, lúðra-
hljómur upp til himins
hefur sig og vefur,
söngur veifar vængjum,
víbrar eins og tíbrá.

Fjallkonan af fjöllum
– faldskrýdd – kemur aldrei.
Saman sjá vill koma
sína þjóð og skína,
sundurleita sindra
sjálfstæða og frjálsa,
handvissa um að höndla
hamingju og gaman.

Heldur betur höldum
hátíð, okkur látum
dreyma - lifa drauma,
dvelja í núi og velja
jafnrétti og jöfnuð,
jákvæðni og ákefð,
leið sem liggur héðan,
ljósið alltaf kjósa.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum