Hoppa yfir valmynd
14. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Efnahagsleg loftbrú sem virkar

Þær áskoranir sem heimurinn hefur þurft að takast á við vegna heimsfaraldursins eru fordæmalausar. Íslenskt samfélag, ekki síður en önnur samfélög, hefur þurft að leggja sig allt fram við að takast á við þann veruleika sem veiran hefur fært okkur til að tryggja áframhaldandi hagsæld til framtíðar. Strax í upphafi faraldurs ákvað ríkisstjórnin að beita ríkisfjármálunum af krafti til þess að tryggja öfluga viðspyrnu samfélagsins – sem er meðal annars í anda breska hagfræðingsins Johns M. Keynes. Keynes hafði legið undir feldi við rannsóknir á kreppunni miklu, þar sem neikvæður spírall dró kraftinn úr hagkerfum um allan heim.

Niðursveifla og markaðsbrestur snarfækkaði störfum, minnkaði kaupmátt og í leiðinni tekjur hins opinbera, sem hélt að sér höndum til að eyða ekki um efni fram. Keynes hélt því fram að þannig hefðu stjórnvöld dýpkað kreppuna og valdið óbætanlegu tjóni. Þvert á móti hefði hið opinbera átt að örva hagkerfið með öllum tiltækum ráðum, ráðast í opinberar framkvæmdir og eyða tímabundið um efni fram. Þannig væru ákveðin umsvif í hagkerfinu tryggð, þar til kerfið yrði sjálfbært að nýju.

Með þetta meðal annars í huga hefur ríkisstjórnin varið milljörðum króna síðan 2020 til að tryggja kröftuga viðspyrnu á sviði menningarmála. Með fjármagninu hefur tekist að brúa bilið fyrir listafólkið okkar þar til hjól samfélags og atvinnulífs fara að snúast á nýjan leik. Afrakstur þessarar fjárfestingar er óumdeildur. Menning og listir eru auðlind sem skilar efnahagslegum gæðum til samfélagsins í formi atvinnu, framleiðslu á vöru og þjónustu til neyslu innanlands og útflutnings. Við þurfum ekki annað en að horfa til þeirra landa sem fremst eru, þar sem rannsóknir sýna að skapandi atvinnugreinar leggja sífellt meira til hagvaxtar.

Sömu sögu má segja af viðspyrnuaðgerðum stjórnvalda fyrir ferðaþjónustuna en samtals var 31 milljarði króna varið til þeirra árin 2020 og 2021. Nýverið var kynnt greining KPMG á áætlaðri stöðu íslenskrar ferðaþjónustu í árslok 2021. Aðgerðir stjórnvalda hafa skipt sköpum í að styðja við aðlögunarhæfni ferðaþjónustufyrirtækja á tímum covid og gera greinina betur í stakk búna til þess að þjónusta fleiri ferðamenn þegar fólksflutningar aukast að ráði milli landa á ný. Ferðaþjónustan verður lykillinn að hröðum efnahagsbata þjóðarbúsins en greinin getur á skömmum tíma skapað gríðarlegar gjaldeyristekjur fyrir landið.

Þrátt fyrir að við séum stödd á krefjandi tímapunkti í faraldrinum er ég bjartsýn á framtíðina. Ég trúi því að ljósið við enda ganganna sé ekki svo ýkja langt í burtu en þangað til munu stjórnvöld halda áfram að styðja við menninguna, ferðaþjónustuna og fleira eins og þurfa þykir, með efnahagslegri loftbrú sem virkar.

Höfundur er viðskipta-, menningar- og ferðamálaráðherra.
Greinin birtist í Morgunblaðinu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum