Hoppa yfir valmynd
21. mars 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Ný Framsókn um allt land

Fátt er stjórnmálunum óviðkomandi þegar kemur að því að skapa hagfelld skilyrði fyrir fólk til þess að lifa góðu lífi. Hringinn í kringum landið tekur fólk úr ýmsum áttum þátt í stjórnmálum til þess að bæta samfélagið sitt og stuðla að auknum lífsgæðum.

Um liðna helgi fór fram 36. flokksþing Framsóknar undir yfirskriftinni Ný Framsókn um allt land, en sá vettvangur fer með æðsta vald í málefnum flokksins. Þar var saman kominn öflugur hópur fólks sem brennur fyrir því að bæta samfélagið með samvinnuna að leiðarljósi. Virkilega ánægjulegt var að sjá þá miklu breidd og þau fjölmörgu nýju andlit sem hafa gengið til liðs við flokkinn og taka þátt af fullum krafti í málefnastarfi hans. Það endurspeglar þann mikla meðbyr sem Framsókn nýtur um allt land sem er jákvæður upptaktur fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar þann 14. maí.

Undanfarin sex ár hafa verið ágætisprófraun fyrir Framsókn. Á þessum tíma hefur gengið á ýmsu, meðal annars þrjár alþingiskosningar, klofningur og fleira. Andspænis slíkum áskorunum hefur framsóknarfólk hringinn í kringum landið risið upp og tekið slaginn fyrir hugsjónum sínum, rúmlega aldrar gamla flokkinn sinn og sótt fram til sigurs. Flokkurinn kemur vel nestaður og fullur orku til leiks í komandi sveitarstjórnarkosningar eftir vel heppnaðar alþingiskosningar í september síðastliðnum.

Ljóst er að fjölmargir kjósendur samsama sig vel með því sem Framsókn stendur fyrir, því sem flokkurinn iðkar og áorkar fyrir samfélagið. Rótgróin aðferðafræði samvinnu er ekki sjálfgefin – en hana höfum við í Framsókn stuðst við í allri okkar vinnu, hvort sem um er að ræða í ríkis- eða sveitarstjórnum.

Undanfarið hafa framboðslistar Framsóknar fyrir komandi kosningar verið kynntir. Þeir eru skipaðir úrvalssveitum fólks með fjölbreyttan bakgrunn, reynslu og þekkingu. Það skiptir miklu máli hvernig haldið er utan um stjórnartaumana í sveitarfélögum enda bera þau ábyrgð á mikilvægri nærþjónustu við íbúana.

Ég tel að fólk sé ekki að kalla eftir einstrengingslegri vinstri- eða hægristefnu – heldur miðjustefnu líkt og Framsóknar, stefnu sem virkar og eykur raunverulega lífsgæði íbúanna. Þetta á sérstaklega við í Reykjarvíkurborg þar sem öndverðir pólar hafa tekist hart á undanfarin ár. Þétting eða dreifing byggðar, bíll eða hjól eru dæmi um orðræðu sem hafa hertekið borgarpólitíkina á sama tíma og þjónustu borgarinnar hrakar. Í þessu kristallast þörfin fyrir sterka rödd Framsóknar á miðjunni. Hið augljósa er að tala um þéttingu og dreifingu byggðar, bíl og hjól. Þannig eigum við að nálgast viðfangsefni samfélagsins, út frá þörfum fólks sem vill einfaldlega að hlutirnir virki. Á það mun Framsókn leggja áherslu á í komandi sveitarstjórnarkosningum um allt land, brúa bilið milli ólíkra sjónarmiða og stuðla að jákvæðri umbótum fyrir samfélagið allt.

Höfundur er menningar- og viðskiptaráðherra og varaformaður Framsóknar.
Greinin birtist í Morgunblaðinu 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum