Hoppa yfir valmynd
25. apríl 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 25. apríl 2025

Heil og sæl.

Við hefjum yfirferðina á málefnum tengdum Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur utanríkisráðherra. Hún fordæmdi hryllilegar árásir Rússa á úkraínskar borgir í vikunni og hryðjuverkaárás í Jammu og Kasmír.

Þá minntist hún einnig Frans páfa í færslu á X en hann lést um páskana. Þá kallaði hún eftir því að deiluaðilar í Súdan láti af átökum sínum, sem geisað hafa í tvö ár, og að alþjóðalög séu virt.

Sendiráðahlaup utanríkisráðuneytisins fór fram í vikunni, á síðasta degi vetrar. Hlaupið var á milli erlendra sendiskrifstofa í Reykjavík, samtals um 10 kílómetra leið en hlaupið hófst í húsakynnum utanríkisráðuneytisins við Austurhöfn. Sendiskrifstofurnar tóku höfðinglega á móti hlaupurunum á leiðinni og buðu upp á létta hressingu. Þá tók utanríkisráðherra á móti hópnum við lok hlaups. Alls tóku í kringum 50 manns þátt í hlaupinu að þessu sinni en þetta var í þriðja sinn sem það fór fram.

  

Fjallað var um þátttöku Daða Más Kristóferssonar fjármála- og efnahagsráðherra á fundum Alþjóðabankans sem fram fóru í Washington D.C. nýverið. Þar hitti hann meðal annars kollega frá Norðurlöndum og Eystrasaltsríkjum.

Í vikunni var undirritaður nýr samstarfssamningur milli Íslands, Noregs og Liechtenstein annars vegar og Póllands hins vegar um Uppbyggingarsjóð EES fyrir tímabilið 2021–2028. Undirritunin fór fram í Varsjá og markar mikilvægt skref í áframhaldandi samstarfi Íslands og Póllands undir merkjum EES-samningsins. Pólland er stærsta styrkþegaland Uppbyggingarsjóðs EES og nemur heildarframlag Íslands, Noregs og Liechtenstein til Póllands á tímabilinu 924,9 milljónum evra og skiptist niður á átta áherslusvið. Samstarfið mun meðal annars grundvallast í verkefnum sem snúa að grænum umskiptum, rannsóknum og nýsköpun, réttarfari og menningu. Þá verður áfram lögð rík áhersla á að styðja við borgaraleg réttindi og mannréttindi. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir Íslands hönd.

 

Framkvæmdastjórnarfundi Mennta-, vísinda- og menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNESCO, lauk á dögunum. Hann stóð yfir dagana 2. til 17. apríl en reglulegir fundir framkvæmdastjórnar fara fram tvisvar á ári, að vori og að hausti. Dagskráin á fundinum var yfirgripsmikil að vanda og leiddi Ísland þar meðal annars hóp aðildarríkja sem lagði fram breytingatillögur um jafnréttismál sem hlutu brautargengi. Ísland greiddi atkvæði með ályktunum um verkefni stofnunarinnar um menntamál, vernd menningarminja, sálrænan stuðning við börn og stuðning við fjölmiðla í Úkraínu, Palestínu, Súdan og Sýrlandi. Þá tók ungmennafulltrúi Íslands á sviði menntunar, vísinda og menningar, Arna Dís Heiðarsdóttir, þátt í hliðarviðburði sem ungmennafulltrúar Norðurlanda stóðu að.

  

Varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins stendur fyrir reglubundnum námskeiðum um öryggis- og varnarmál, í samstarfi við skrifstofu almanna- og réttaröryggis í dómsmálaráðuneytinu, tvisvar á ári. Fyrra námskeiði ársins lauk fyrr í mánuðinum. Tilgangur námskeiðsins er að efla þekkingu á málaflokknum meðal starfsfólks ráðuneyta, stofnana, háskóla, fyrirtækja og samtaka sem tengjast öryggis- og varnarmálum með einum eða öðrum hætti.

  

Yfirmenn herafla Norðurlandanna samþykktu á fundi í Norfolk í Bandaríkjunum fyrr í mánuðinum að halda áfram að efla varnarsamvinnu norrænu ríkjanna í því skyni að styðja við fælingar- og varnarstefnu Atlantshafsbandalagsins. Þeir lögðu einkum áherslu á aukna hergagnaframleiðslu, greiðar aðfangaleiðir og nána samvinnu um öryggi og frið á Evró-Atlantshafssvæðinu. Yfirmennirnir heimsóttu breytingaherstjórn Atlantshafsbandalagsins (e. NATO Allied Command Transformation) og svæðisherstjórn Atlantshafsbandalagsins fyrir Norður-Atlantshaf og norðurslóðir (e. NATO Joint Force Command Norfolk) í Bandaríkjunum.

  

Samsýning sextán íslenskra listamanna sem búa og starfa í Belgíu stendur nú yfir í hjarta Watermael-Boisfort að rue du Relais 42. Listamennirnir sem taka þátt í sýningunni eru Árni Jónsson, Baldvin Einarsson, Davíð Samúelsson, Erla Franklínsdóttir, Geirþrúður Finnbogadóttir Hjörvar, Guðný Rósa Ingimarsdóttir, Hallveig Ágústsdóttir, Helena Jónsdóttir (& Thorvaldur Thorsteinsson), Hrefna Hörn, Ívar Glói, Jóhanna Kristbjörg Sigurðardóttir, Rúnar Örn Jóhönnu Marínósson, Sigurrós Björnsdóttir, Silja Hubert, Valgerður Sigurðardóttir og Fritz Hendrik IV. Sýningin er haldin að frumkvæði Kristjáns Andra Stefánssonar sendiherra og er samstarfsverkefni sendiráðsins og Íslandsstofu auk eigenda sýningarhúsnæðisins, Francois Huet og Odile Repolt, og Gauthier Hubert listamanns og prófessors við listaakademíuna í Brussel, sem annaðist sýningarstjórn ásamt sendiherra.

  

Kristján Andri Stefánsson, sendiherra í Brussel, tók þátt í óformlegum fundi ráðherra á sviði félags- og atvinnumála sem fram fór í Varsjá um miðjan mánuð. Á fundinum var meðal annars rætt um gervigreind á vinnumarkaði, inngildingu á vinnumarkaði og mögulegan þátt vinnuveitenda þar og að lokum var rætt um jafnrétti á vinnumarkaði og jöfnun umönnunarbyrði.

  

Sendiráðið í Lilongwe greindi frá breytingum á þremur stórum verkefnum sem Nkhotakota-hérað hefur falið framkvæmdaraðilum í Lupachi að annast.

  

Sendiráðið í Nýju Delí fjallaði um Akhil Neelam, fyrrverandi nemanda Jafnréttisskóla GRÓ, og hvernig hann hefur nýtt sér þá þekkingu sem hann aflaði sér í náminu við skólann.

  

Tinna Sveinsdóttir, varamaður sendiherra í Nýju Delí, tók á móti verðlaunum á dögunum þar sem Ísland hlaut verðlaun sem besti áfangastaðurinn fyrir ferðalög á vegum úti.

  

Hlynur Guðjónsson, sendiherra í Ottawa, og Garðar Forberg varnarmálafulltrúi gagnvart Kanada og Bandaríkjunum, sóttu nýverið viðburð hjá kanadíska hernum.

  

Sendiráðið í Osló gerði upp glæsilega ríkisheimsókn Höllu Tómasdóttur, forseta Íslands, sem átti sér stað fyrr í mánuðinum.

  

Opnunarhátíð Expo 2025 heimsýningarinnar í Osaka fór fram 12. apríl síðastliðinn. Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands í Tókýó, og Ragnar Þorvarðarson, forsvarsmaður Íslands gagnvart heimssýningunni (e. Commissioner General of Iceland), sóttu opnunina. Japanskeisari ávarpaði gesti og boðið var upp á fjölbreytta tónlistardagskrá.

Daginn eftir tók Ragnar, ásamt sendiherra Noregs í Tókýó, á móti varnarmálaráðherra Japans við opnun norræna skálans í Osaka. Norðurlöndin eru með sameiginlegan sýningarskála, en verkefnið er unnið í samstarfi Íslandsstofu, utanríkisráðuneytisins og sendiráðsins í Tókýó. Þjóðardagur Íslands á sýningunni verður haldinn 29. maí næstkomandi, en þann dag verður forseti Íslands heiðursgestur á Expo.

  

Í framhaldi af þjóðardeginum stendur Íslandsstofa, í góðu samstarfi við sendiráðið, fyrir Taste of Iceland Tokyo hátíð þar sem íslensk tónlist, myndlist og matargerð verða í forgrunni.

  

Daglega koma á bilinu sex til átta þúsund gestir í norræna skálann og var japanska þingkonan Kimii Onoda meðal þeirra sem gerði sér ferð í skálann. Hún fékk kynningu á Norðurlöndunum og samstarfi þeirra á sýningunni.

  

Rut Einarsdóttir, starfsmaður sendiráðsins í Tókýó, sótti á dögunum opnunarviðburð í tengslum við friðarverðlaun Nóbels í Yokohama. Þar voru handhafar verðlauna síðasta árs, samtökin Nihon Hidonkyo, heiðruð en þau beita sér í nafni og minningu fórnarlamba atómsprengjanna (Hibakusha) sem sleppt var á borgirnar Hiroshima og Nagasaki undir lok seinni heimsstyrjaldar.

  

Aðalræðisskrifstofan í Winnipeg óskaði skipuleggjendum Íslendingadagsins, sem haldinn er í Manitoba árlega, til hamingju með verðlaun sem þeir hlutu á dögunum.

  

Íslenskir menningarviðburðir halda áfram að vera tíðir hjá sendiráðinu í Berlín en í kvöld verður heimildarmyndin „The homegame“ sýnd í stóru kvikmyndahúsi í Austur-Berlín en Smári Gunnarsson leikstjóri myndarinnar kom í kaffi í sendiráðið í dag.

  

Hátíð Jóns Sigurðssonar fór fram í Jónshúsi á sumardaginn fyrsta. Frá árinu 2008 hafa verðlaun Jóns Sigurðssonar verið veitt af þessu tilefni og í ár féllu þau í skaut Íslenska safnaðarins í Danmörku fyrir starf sitt í þágu Íslendingasamfélagsins í Danmörku. Forseti Alþingis, Þórunn Sveinbjarnardóttir afhenti Bryndísi Evu Erlingsdóttur formanni sóknarnefndarinnar verðlaunin og Ágúst Ólafur Gústafsson heimilislæknir og meðlimur Hafnarbræðra flutti hátíðarræðu. Karlakórinn Hafnarbræður flutti nokkur ættjarðarlög fyrir gesti undir stjórn Sólu Aradóttur.

  

Pétur Ásgeirsson, sendiherra í Kaupmannahöfn, tók á móti forseta og forsætisnefnd Alþingis í sendiráðinu. Fengu þau kynningu á starfseminni og heimsóttu svo Jónshús.

  

Hópur nemenda af K2 tækni- og vísindabraut Tækniskólans er um þessar mundir í námsferð í París. Starfsmenn sendiráðsins tóku á móti hópnum í höfuðstöðvum UNESCO og í sendiráðinu þar sem nemendurnir fengu kynningu á áherslumálum Íslands á alþjóðavettvangi og starfsemi sendiráðsins í París og fastanefnda gagnvart alþjóðastofnununum OECD og UNESCO.

  

Fjallað var um verkefnið Lite Salone Renewable Energy Access sem sendiráðið í Freetown styður en það stuðlar að endurnýjanlegri orku fyrir heimili í Síerra Leóne.

Þá tók starfsfólk sendiráðsins í Freetown þátt í þjálfun þar sem jafnréttismál voru í forgrunni. Hendrik Daði Jónsson, lögfræðingur á laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins, tók þátt í fundum í tengslum við samning Sameinuðu þjóðanna um verndun og sjálfbæra nýtingu líffræðilegrar fjölbreytni utan lögsögu ríkja (BBNJ) í New York. Ungmennafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum á sviði barna og ungmenna ávarpaði fund á ungmennaráðstefnu í New York á dögunum. Tinna Sveinsdóttir, varamaður sendiherra í Nýju Delí, tók þátt í viðburði landsnefndar UN Women á Indlandi og sendiráði Noregs á dögunum um jafnréttismál og kvenréttindi. Helga Hauksdóttir, sendiherra í Vín, afhenti á dögunum trúnaðarbréf í höfuðborginni Ljublana í Slóveníu. Þórir Ibsen, sendiherra í Peking, og Charlotte Zhao, framkvæmdastjóri Arctic Green Energy í Kína, ræddu samskipti Íslands og Kína, einkum viðskipti, grænu umbreytinguna og jafnrétti, við fyrrverandi nemendur Harvard-háskóla í Peking. Sjávarréttir og skyr voru í aðalhlutverki landkynningar sendiráðsins í Peking fyrr í mánuðinum. Eftir vel lukkaða vestnorræna ferðaþjónustukynningu, sjá hér, var sendiráðið gestgjafi fyrir matvælakynningu ICELANDIC Seafood. Þar reiddi Friðrik bryti fram 16 sjávarrétti úr fjórum fisktegundum fyrir 70 viðskiptavini fyrirtækisins, sjá nánar. Og ekki var látið þar við liggja, því Friðrik bryti fór svo á vegum sendiráðsins til Sjanghaí þar sem hann eldaði sjávarrétti fyrir rúmlega 100 viðskiptavini IS Seafood, sjá.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta