Hoppa yfir valmynd
11. júlí 2025 Utanríkisráðuneytið

Föstudagspóstur 11. júlí 2025

Heil og sæl.

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra heimsótti í vikunni bandaríska kafbátinn USS Newport News, í höfninni á Grundartanga. Um var að ræða reglulega þjónustuheimsókn kjarnorkuknúinna bandarískra kafbáta á Íslandi, en þá fyrstu sem fram fer í höfn. Áhöfn USS Newport News telur um 140 einstaklinga, en báturinn er Los Angeles-gerðar og ber ekki kjarnavopn.

 

Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna afgreiddi 26 ályktanir á sumarlotu ráðsins sem lauk í Genf í vikunni. Um var að ræða aðra fundarlotuna sem Ísland tekur þátt í sem aðildarríki mannréttindaráðsins tímabilið 2025-2027. Sumarlota mannréttindaráðsins er gjarnan kölluð „jafnréttislotan“, enda setja jafnréttismál og ályktanir í þeim efnum jafnan svip á starf ráðsins. Ísland leggur áherslu á virka þátttöku í umræðum um jafnréttismál og stuðning við ályktanir sem eru í anda stefnu og gilda Íslands í jafnréttismálum.

  

Greint var frá flutningum forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni sem nú standa fyrir dyrum. Um er að ræða reglubundna flutninga sem jafnan eru ákveðnir að hausti en tilkynntir þegar samþykki gistiríkja liggja fyrir.

  

EFTA-ríkin, það er Ísland, Liechtenstein, Noregur og Sviss, hafa komist að samkomulagi við Singapúr um samning um stafrænt hagkerfi (e. Digital Economy Agreement). Þetta er í fyrsta sinn sem bæði Ísland og EFTA-ríkin í sameiningu ljúka við gerð samnings um stafrænt hagkerfi. Singapúr hefur hinsvegar verið frumkvöðull á þessu sviði og er þegar aðili að fjölmörgum slíkum samningnum.

  

Fundur sameiginlegu EES-nefndarinnar markaði fyrsta fundinn undir formennsku Íslands í bæði fastanefnd EFTA (e. EFTA Standing Committee) og í sameiginlegu EES-nefndinni (e. EEA Joint Committee) næstu sex mánuði. Af 55 gerðum sem teknar voru upp í EES-samninginn á fundinum voru 20 á sviði orkumála.

  

Okkar fólk í fastanefndinni/sendiráðinu í Genf tók þátt í stemningunni á Evrópumóti kvenna í knattspyrnu sem fram fer í Sviss. Þó svo að hlutirnir hafi ekki farið alveg eins og til stóð hjá stelpunum okkar þá skemmtu aðdáendur liðsins sér, bæði á vellinum og í svokölluðu FanZone þar sem Ólafur Björn Sverrisson, starfsnemi fastanefndarinnar, brá sér í hlutverk plötusnúðs.

  

  

Ósk Sturludóttir, sérfræðingur á þróunarsamvinnuskrifstofu utanríkisráðuneytisins, og starfsfólk sendiráðs Íslands í Lilongwe, kynntu sér hin ýmsu verkefni í héruðum á borð við Chikwawa og Mangochi í vikunni.

  

  

  

Þá var haldið upp á þjóðhátíðardag Malaví í vikunni.

  

Starfsfólk sendiráðs Íslands í London, ásamt starfsfólki í sendiráðum Norðurlandanna, tók þátt í Pride-göngunni um síðustu helgi, líkt og undanfarin ár.

  

Athygli var vakin á því að samsýning listakvennanna Kristínar Jónsdóttur frá Munkaþverá, Guðrúnar Kristjánsdóttur og Guðbjargar Lind Jónsdóttur, sem haldin er í embættisbústað sendiherra Íslands í París, lýkur senn. Sýningin ber heitið „Trois artistes : un élément“ eða „Þrír listamenn: eitt frumefni“ en helsta viðfangsefni hennar er frumefnið vatn í íslenskri náttúru. Myndlistarkonurnar þrjár tjá hugmyndina um vatn í ýmsum birtingaformum í verkunum.

  

Fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York vakti athygli á yfirlýsingu sem Ísland tekur undir þar sem stuðningi er lýst við Rómarsamþykktina og Alþjóðlega sakamáladómstólinn (ICC).

Þórir Ibsen, sendiherra í Peking, hitti fyrrverandi nemendur við Sjávarútvegsskóla GRÓ og fékk að kynnast hversu jákvæð áhrif námið hafði á þá.

Fleira var það ekki þessa vikuna — góða helgi!

Kveðja,

Upplýsingadeild.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta