Hoppa yfir valmynd

Sögulegt yfirlit

Íslendingar fengu forræði utanríkismála sinna 1918. Þau heyrðu í upphafi undir forsætisráðherra, sem þá var Jón Magnússon. Frá árinu 1929 var starfrækt sérstök utanríkismáladeild við forsætisráðuneytið. Árið 1940 tóku Íslendingar alfarið meðferð utanríkismála í sínar hendur og var utanríkismáladeildinni breytt í ráðuneyti. Lög voru sett um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis strax á árinu 1941. Ný lög um Utanríkisþjónustu Íslands voru sett árið 1971.

Þættir í sögu íslenskra utanríkismála:

I. Tímabilið 1918-1940

1. desember 1918
Ísland verður fullvalda ríki. Íslendingar öðlast forræði utanríkismála sinna. Stefnan í utanríkismálum er ákveðin af ríkisstjórninni, en framkvæmd af dönsku utanríkisþjónustunni í umboði Íslendinga. Utanríkismálin heyra undir forsætisráðuneyti. Lýst er yfir ævarandi hlutleysi Íslands.

1918-1940
Samkvæmt sambandslögunum skyldi Danmörk sjá um framkvæmd íslenskra utanríkismála gagnvart öðrum ríkjum. Við hlið danska fánans og danska skjaldarmerkisins á dönskum sendiráðum voru íslenski fáninn og íslenska skjaldarmerkið. Danir gerðu hins vegar ekkert í íslenskum utanríkismálum nema Íslendingar hefðu samþykkt. Auk þess störfuðu nokkrir íslenskir viðskiptaerindrekar erlendis milli heimsstyrjalda. Á þessu tímabili gera Íslendingar samninga við fjölmörg önnur ríki, einkum viðskiptasamninga.  

4. ágúst 1919
Danir skipuðu fyrsta erlenda sendiherrann á Íslandi, J.E. Bøggild, sem var af íslenskum ættum.

16. ágúst 1920
Fyrsta sendiráð Íslands var opnað í Kaupmannahöfn. Sveinn Björnsson, síðar forseti, var skipaður fyrsti sendiherra Íslands.

1921
Lárus Jóhannesson, lögfræðingur, var ráðinn til starfa hjá forsætisráðherra í tvær klukkustundir á dag til þess að annast utanríkismál. Hann var fyrsti starfsmaður Stjórnarráðs Íslands sem annast þau sérstaklega.

1924 - 1926
Staða sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn var lögð niður af sparnaðarástæðum og endurvakin á ný. Sveinn Björnsson fór til Íslands tímabundið en Jón Krabbe var forstöðumaður á meðan.

1. febrúar 1925
Stefán Þorvarðsson, lögfræðingur, síðar fyrsti skrifstofustjóri utanríkisráðuneytisins, gerist starfsmaður í dönsku utanríkisþjónustunni. Fleiri Íslendingar fylgja í kjölfarið, Pétur Benediktsson 1930, Svanhildur Ólafsdóttir 1933, Vilhjálmur Finsen 1934, Agnar Kl. Jónsson 1934, Helgi P. Briem 1935, Gunnlaugur Pétursson 1939 og Henrik Sv. Björnsson 1939.

1927
Jón Þorláksson, forsætisráðherra, áskilur Íslendingum réttindi á Jan Mayen til jafns við aðrar þjóðir.

1928
Utanríkismálanefnd Alþingis stofnuð. Fyrstu nefndarmennirnir voru Benedikt Sveinsson, formaður, Jón Þorláksson, Ásgeir Ásgeirsson, Sigurður Eggerz, Bjarni Ásgeirsson, Ólafur Thors og Héðinn Valdimarsson.

1930
Alþingishátíð vegna 1000 ára afmælis þingsins. Fjöldi erlendra gesta kemur til Íslands.

30. janúar 1934
Vilhjálmur Finsen, ritstjóri, er skipaður "attaché" við danska sendiráðið í Osló, fyrsti fulltrúi Íslands við danskt sendiráð.

20. mars 1938
Stofnuð er utanríkismáladeild í Stjórnarráðinu, fyrsta starfseining þess sem fjallar um utanríkismál og heyrir hún undir forsætisráðherra. Stefán Þorvarðsson verður fyrsti yfirmaður hennar.

1939-1940
Ísland tekur þátt í heimssýningu í fyrsta sinn. Hún er haldin í New York.

9. apríl 1940
Þjóðverjar ráðast inn í Danmörku sem hefur þær afleiðingar að Danir geta ekki lengur annast utanríkismálin í umboði Íslendinga.

II. Fyrstu ár utanríkisþjónustu Íslands: 1940-1946

10. apríl 1940
Ísland tekur meðferð utanríkismála í eigin hendur. Utanríkismáladeild Stjórnarráðsins er gerð að utanríkisráðuneyti. Þetta er upphaf íslensku utanríkisþjónustunnar.

23. apríl 1940
Aðalræðisskrifstofa Íslands er opnuð í New York. Hún er fyrsta sendiskrifstofan sem opnuð er eftir að utanríkisþjónustan verður til. Vilhjálmur Þór er skipaður aðalræðismaður, fyrsti ræðismaður Íslands. Hann verður síðar utanríkisráðherra.

10. maí 1940
Bretar hernema Ísland og fyrsti sendiherra Breta afhenti trúnaðarbréf sitt sem sendiherra á Íslandi.

1940-1944
Ísland opnar fjögur ný sendiráð fyrir stofnun lýðveldis á Íslandi. Í London og Stokkhólmi árið 1940, í Washington 1941 og í Moskvu 1944.

8. júlí 1940
Bráðabirgðalög sett um utanríkisþjónustu erlendis. Stefán Jóh. Stefánsson verður fyrsti utanríkisráðherra Íslands.

1940
Á fyrsta starfsári utanríkisþjónustunnar er staðan þessi: Sendiráð: 3. Ræðisskrifstofa: 1. Starfsmenn í ráðuneytinu: 5. Launaðir starfsmenn erlendis: 15. Starfsmenn samtals: 20.

15. febrúar 1941
Lög sett um utanríkisráðuneyti Íslands og fulltrúa þess erlendis.

17. júní 1941
Sveinn Björnsson, sendiherra, kjörinn ríkisstjóri Íslands.

1. júlí 1941
Samningur er gerður við Bandaríkin, m.a. um varnir landsins, viðurkenningu á frelsi og fullveldi þess, að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum á stríðstímanum og að tryggja siglingar að og frá landinu.

16. ágúst 1941
Churchill, forsætisráðherra Breta, kemur til Íslands eftir að hafa undirritað Atlantshafssáttmálann með Roosevelt, Bandaríkjaforseta. Sáttmálinn markaði upphafið að stofnun Sameinuðu þjóðanna 1945.

17. janúar 1942
Ólafur Thors verður utanríkisráðherra í fyrra skiptið.

1942
Fyrsta kjörræðisskrifstofa Íslands er stofnuð í Winnipeg. Grettir Leó Jóhannsson verður fyrsti kjörræðismaður Íslands. Í utanríkisráðuneytinu er stofnuð upplýsingadeild undir stjórn Agnars Kl. Jónssonar. Hann verður jafnframt fyrsti deildarstjóri ráðuneytisins.

16. desember 1942
Vilhjálmur Þór verður utanríkisráðherra.

17. júní 1944
Íslenska lýðveldið er stofnað á Þingvöllum. Sveinn Björnsson, ríkisstjóri, er kjörinn forseti.

23. ág. - 2. sept. 1944
Sveinn Björnsson, forseti, heimsækir Bandaríkin í boði Roosevelts forseta. Þetta er fyrsta opinbera heimsóka forseta Íslands.

21. október 1944
Ólafur Thors verður utanríkisráðherra í seinna skiptið.

27. janúar 1945
Loftferðasamningur gerður við Bandaríkin.

8. maí 1945
Síðari heimsstyrjöld lýkur.

19. nóvember 1946
Ísland verður aðili að Sameinuðu þjóðunum.

III. Varnar- og öryggismál 1940-2002

10. maí 1940
Bretar hernema Ísland.

12. júlí 1940
Íslendingar spyrja bandarísk stjórnvöld óformlega hvort þau muni verja Ísland samkvæmt Monroe-kenningunni.

1. júlí 1941
Herverndarsamningur er gerður við Bandaríkin. Þau taka að sér hervarnir Íslands viku síðar, fimm mánuðum áður en Bandaríkin verða aðilar að heimsstyrjöldinni. Landganga bandarískra hermanna 7. júlí markar upphaf langrar varnarsamvinnu ríkjanna.

27. apríl 1942
Bandaríkin taka við yfirherstjórn á Íslandi af Bretum.

5. október 1946
Keflavíkursamningurinn samþykktur á Alþingi. Ákveðið er að bandarískt herlið yfirgefi landið, en Bandaríkjamenn hafi áfram afnot af Keflavíkurflugvelli.

8. apríl 1947
Síðustu bandarísku hermennirnir yfirgefa Ísland.

4. apríl 1949
Bjarni Benediktsson, utanríkisráðherra, undirritar stofnsáttmála Atlantshafsbandalagsins. Gunnlaugur Pétursson verður síðar fyrsti fastafulltrúi Íslands.

5. maí 1951
Undirritun varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna. Samningurinn var lögfestur 24. maí s.á.

10. nóvember 1953
Varnarmáladeild utanríkisráðuneytisins stofnuð. Tómas Árnason er yfirmaður hennar.

5. maí 1955
Þýska Sambandslýðveldið fær aðild að NATO. Ísland valið í nefnd sem áður kannar möguleika á endursameiningu landsins. Kristján Albertsson er formaður þegar nefndin heimsækir Þýskaland.

5. ágúst 1963
Samningurinn um bann gegn tilraunum með kjarnavopn í gufuhvolfinu er gerður.

1. júlí 1968
Samningurinn um að dreifa ekki kjarnavopnum er gerður.

24.-25. júní 1968
Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsráðsins haldinn í Reykjavík.

27. febrúar 1969
Lög sett um framkvæmd fyrirmæla Öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna.

1972
Ráðstefnan um öryggi og samvinnu í Evrópu (RÖSE), CSCE, hefst í Helsinki. Helsinki lokasamþykktin er gerð 1. ágúst 1975.

Maí 1984
Ísland eykur þátttöku í störfum hermálanefndar NATO.

1987
Ratsjárstofnun tekur til starfa eftir að íslensk stjórnvöld gerðu samning um yfirtöku Íslendinga á rekstri ratsjárstöðva varnarliðsins á Íslandi.

11. júní 1987
Utanríkisráðherrafundur Atlantshafsráðsins haldinn í Reykjavík.

1992
Ísland gerist aukaaðili að Vestur-Evrópusambandinu.

13. janúar 1993
Efnavopnasamningurinn er gerður. Hann öðlast gildi gagnvart Íslandi 29. apríl 1997.

4. janúar 1994
Samkomulag Íslands og Bandaríkjanna um fyrirkomulag varnarsamstarfs ríkjanna á grundvelli varnarsamningsins frá 1951. Það er endurnýjað 1996 til fimm ára.

5. maí 2001
Hátíðardagskrá í tilefni af varnarsamstarfi Íslands og Bandaríkjanna í fimmtíu ár.

IV. Landhelgis- og hafréttarmál 1940-2002

1947
Hans G. Andersen, þjóðréttarfræðingur utanríkisráðuneytisins, lætur ríkisstjórninni í té ítarlega greinargerð um landhelgismál.

5. apríl 1948
Lög sett um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins.

1949
Ísland fær samþykkta tillögu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna um að alþjóðalaganefndinni verði falin heildarkönnun á reglum hafréttar, bæði landhelginnar og úthafsins. Lokaskýrsla nefndarinnar frá 1956 lagði grunninn að fyrstu hafréttarráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Genf 1958.

22. apríl 1950
Landhelgin færð út í 4 mílur fyrir Norðurlandi frá grunnlínum sem eru dregnar þvert fyrir mynni flóa og fjarða.

15. maí 1952
Fiskveiðilandhelgin færð út í 4 mílur. Þorskastríð við Breta stendur til 1956.

1952-1956
Löndunarbann á íslenskum fiski í Bretlandi.

Febrúar - apríl 1958
Fyrsta hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Genf.

1. september 1958
Fiskveiðilandhelgin færð út í 12 mílur. Þorskastríð við Breta stendur til 1961.

Mars - apríl 1960
Önnur hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Genf.

11. mars 1961
Guðmundur Í. Guðmundsson, utanríkisráðherra, undirritar samning við Bretland um lausn landhelgisdeilunnar.

1969
Ályktunartillaga Íslands um varnir gegn mengun hafsins samþykkt einróma á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

15. febrúar 1972
Fiskveiðilandhelgin færð út í 50 mílur. Bretar senda herskip á Íslandsmið. Þorskastríðið stendur til nóvember 1973.

7. september 1972
Einar Ágústsson, utanríkisráðherra, gerir samning við Belgíu sem viðurkennir 50 mílna fiskveiðilögsöguna gegn takmörkuðum fiskveiðiheimildum innan hennar.

1973 - 1982
Þriðja hafréttarráðstefna Sameinuðu þjóðanna.

13. nóvember 1973
Bráðabirgðasamningur er gerður við Bretland varðandi landhelgisdeiluna.

15. október 1975
Fiskveiðilandhelgin færð út í 200 mílur. Þorskastríð hefst á ný. Bretar senda aftur herskip á Íslandsmið. Stjórnmálasambandi er slitið við Bretland 19. febrúar 1976. Þjóðverjar virða ekki útfærslu landhelginnar.

28. nóvember 1975
Samkomulag næst við Þjóðverja í landhelgisdeilunni.

16. desember 1975
Ingvi S. Ingvarsson, sendiherra, ber upp kæru Íslands gegn Bretlandi í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna vegna ásiglingar bresks skips á varðskipið Þór í landhelgisdeilunni. Þetta er í eina skipti sem fulltrúi Íslands hefur borið upp erindi í Öryggisráðinu.

1. júní 1976
Einar Ágústsson, utanríkisráðherra, undirritar ásamt Anthony Crossland, utanríkisráðherra Bretlands, samning um lausn landhelgisdeilunnar.

1. júní 1979
Lög sett um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

1980/1981
Ólafur Jóhannesson, utanríkisráðherra, gerir tvo samninga við Noreg um fiskveiðiréttindi og landgrunnið milli Íslands og Jan Mayen.

10. desember 1982
Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna er samþykktur.

9. maí 1985
Geir Hallgrímsson, utanríkisráðherra, undirritar reglugerð um afmörkun landgrunns Íslands til vesturs, suðurs og austurs.

21. júní 1985
Ísland fullgildir hafréttarsamning Sameinuðu þjóðanna. Hann öðlast gildi 16. nóvember 1994.

30. maí 1994
Ísland gerist aðili að Versalasamningnum um Svalbarða frá 9. febrúar 1920.

4. ágúst 1995
Úthafsveiðisamningur Sameinuðu þjóðanna er samþykktur.

11. nóvember 1997
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, undirritar samning um afmörkun hafsvæðis milli Íslands og Grænlands (Kolbeinseyjarmálið).

15. maí 1999
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, undirritar samning um lausn Smugudeilunnar við Noreg og Rússland. Endir er bundinn á deilu um þorskveiðar Íslendinga í Barentshafi sem staðið hafði frá 1993.

25. september 2002
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, og Anfinn Kallsberg, lögmaður Færeyja, undirrita samning um afmörkun hafsvæðisins milli Íslands og Færeyja.

V. Efnahags- og viðskiptamál 1940-2006

1. júlí 1941
Samningur er gerður við Bandaríkin, m.a. um að sjá landinu fyrir nægum nauðsynjavörum vegna seinni heimsstyrjaldarinnar og að tryggja siglingar til og frá landinu.

5. ágúst 1941
Viðskiptasamningur gerður við Breta um kaup á íslenskum afurðum fyrir kr. 100 milljónir. Þetta var stærsti sölusamningur Íslands til þess tíma.

4. nóvember 1944
Vilhjálmur Finsen, sendiherra Íslands í Stokkhólmi, undirritar samning um smíði 45 fiskibáta, stærsta kaupsamning Íslands til þess tíma.

1945
Samið við Breta um kaup á 30 togurum. Tveir bættust við árið eftir og 10 til viðbótar árið 1948.

16. apríl 1948
Ísland gerist stofnaðili að Efnahagssamvinnustofnun Evrópu, OEEC. Henni er breytt í Efnahagssamvinnu- og framfarastofnunina, OECD, 1960. Pétur Benediktsson verður fyrsti fulltrúi Íslands.

1948-1953
Ísland fær Marshall-aðstoð frá Bandaríkjunum.

1. ágúst 1953
Viðskiptasamningar undirritaðir við Sovétríkin í kjölfar löndunarbannsins á Bretlandi. Útflutningur til Sovétríkjanna vex úr engu í 12,6% af útflutningi landsins það ár og 15,2% árið á eftir.

1953-1960
Meðferð utanríkisviðskiptamála flyst frá utanríkisráðuneytinu til viðskiptaráðuneytisins.

1963
Ísland skipar sendiherra gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu í fyrsta sinn, Pétur J. Thorsteinsson, með aðsetur í París.

5. mars 1964
Ísland fær bráðabirgðaaðild að Hinu almenna samkomulagi um tolla og viðskipti, GATT. Einar Benediktsson er fyrsti fulltrúi Íslands gagnvart samtökunum.

1. mars 1970
Ísland verður aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu, EFTA. Gylfi Þ. Gíslason, viðskiptaráðherra, flytur málið á Alþingi fyrir hönd ríkisstjórnarinnar. Fastanefnd er komið á fót í Genf. Einar Benediktsson er fyrsti fastafulltrúi Íslands.

22. júlí 1972
Einar Ágústsson undirritar fríverslunarsamning Íslands við Efnahagsbandalag Evrópu. Hann tekur gildi 1973 en kemur ekki að fullu til framkvæmda fyrr en 1976, eftir lausn síðustu fiskveiðideilunnar við Breta.

8. júlí 1987
Útflutningsmál eru færð frá viðskiptaráðuneyti til utanríkisráðuneytis. Viðskiptaskrifstofa er stofnuð í utanríkisráðuneytinu.

2. maí 1992
Jón Baldvin Hannibalsson, utanríkisráðherra, undirritar samninginn um Evrópska efnahagssvæðið í Oportó, Portúgal.

1. janúar 1994
Samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) tekur gildi.

1. janúar 1995
Samningurinn um Alþjóðaviðskiptastofnunina, WTO, tekur gildi.

1. september 1997
Viðskiptaþjónusta utanríkisráðuneytisins tekur til starfa.

25. mars 2001
Ísland verður hluti af Schengen svæðinu.

1. júní 2002
Endurskoðaður stofnsamningur EFTA, sem undirritaður var í Vaduz, tekur gildi.

1. maí 2004
Stækkun Evrópska efnahagssvæðisins um tíu ríki í suður og austur Evrópu.

VI. Þættir í sögu utanríkisþjónustunnar 1947-2002

4. febrúar 1947
Bjarni Benediktsson verður utanríkisráðherra.

1947
Ísland er valið í nefnd þriggja ríkja á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna til að gera tillögur um skiptingu Palestínu. Thor Thors er framsögumaður.

10. desember 1948
Mannréttindayfirlýsing Sameinuðu þjóðanna er samþykkt.

4. nóvember 1950
Mannréttindasáttmáli Evrópuráðsins er gerður. Hann öðlaðist gildi á Íslandi 3. september 1953.

1951-1953
Sendiráði Íslands í Moskvu er lokað af sparnaðarástæðum 1951 og opnað aftur 1953.

11. september 1953
Kristinn Guðmundsson verður utanríkisráðherra.

1954
Thor Thors kjörinn formaður sérstöku stjórnmálanefndar allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.

24. júlí 1956
Guðmundur Í. Guðmundsson verður utanríkisráðherra.

1. júlí 1962
Samstarfssamningur Norðurlanda öðlast gildi á Íslandi.

1963
Utanríkisráðuneytið gefur út safnritið "Samningar Íslands við erlend ríki", tvö bindi tekin saman af Helga P. Briem, sendiherra.

31. ágúst 1965
Emil Jónsson verður utanríkisráðherra.

1967
Ísland tekur þátt í heimssýningu í annað sinn. Hún er haldin í Montreal í Kanada.

16. apríl 1971
Ný lög sett um utanríkisþjónustu Íslands.

21. apríl 1971
Handritin koma heim frá Danmörku. Handritamálið kom til kasta fjögurra sendiherra Íslands í Kaupmannahöfn, Sigurðar Nordals 1956-57, Stefán Jóhanns Stefánssonar 1957-65, Gunnars Thoroddsens 1965-70 og Sigurðar Bjarnasonar 1970-71.

17. júní 1971
Vínarsamningurinn um stjórnmálasamband frá 1961 öðlast lagagildi á Íslandi.

14. júlí 1971
Einar Ágústsson verður utanríkisráðherra.

25. ágúst 1971
Fyrsta ráðstefna kjörræðismanna Íslands hefst í Reykjavík.

1972
Utanríkisráðuneytið flyst úr Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg að Hverfisgötu 115.

1973 - 1974
Ísland á sæti í ráði Umhverfisstofnunar SÞ, UNEP.

30. maí 1973
Leiðtogafundur Nixons, forseta Bandaríkjanna, og Pompidous, forseta Frakklands, hefst í Reykjavík.

28. júlí 1974
Haldið er upp á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar. Utanríkisráðuneytið sér um yfir 110 erlenda gesti.

1974 - 1979
Ísland á sæti í ráði Alþjóðapóstsambandsins, UPU.

22. mars 1976
Ákveðið er með forsetaúrskurði að skipa sendiherra í fjarlægum löndum með búsetu í Reykjavík.

21. ágúst 1977
Önnur ráðstefna kjörræðismanna Íslands hefst í Reykjavík.

1. júlí 1978
Vínarsamningur um ræðissamband frá 1963 öðlast lagagildi á Íslandi.

1. september 1978
Benedikt Gröndal verður utanríkisráðherra.

1979
Jarðhitaskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, UNU, tekur til starfa.

8. febrúar 1980
Ólafur Jóhannesson verður utanríkisráðherra.

Júní 1980
Kvennaráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn.

22. nóvember 1980
Mannréttindasamningar Sameinuðu þjóðanna frá 1966 öðlast gildi á Íslandi.

1981 - 1983
Ísland situr í ráði Umhverfisstofnunar SÞ, UNEP.

26. maí 1981
Lög samþykkt um Þróunarsamvinnustofnun Íslands, ÞSSÍ.

1983-1986
Ísland á sæti í ráði Alþjóðaheilbrigðisstofnunar SÞ, WHO.

1983-1987
Ísland á sæti í ráði Menningarmálastofnunar SÞ, UNESCO.

26. maí 1983
Geir Hallgrímsson verður utanríkisráðherra.

1986 - 1988
Ísland á sæti í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, ECOSOC.

24. janúar 1986
Matthías Á. Mathiesen verður utanríkisráðherra.

31. ágúst 1986
Þriðja ráðstefna kjörræðismanna Íslands hefst í Reykjavík.

11.-12. október 1986
Leiðtogafundur Reagans Bandaríkjaforseta og Gorbatsjovs aðalritara kommúnistaflokks Sovétríkjanna í Reykjavík.

8. júlí 1987
Steingrímur Hermannsson verður utanríkisráðherra.

9. desember 1987
Skrifstofa Norðurlandamála stofnuð í utanríkisráðuneytinu. Hún var síðar flutt til forsætisráðuneytisins.

28. september 1988
Jón Baldvin Hannibalsson verður utanríkisráðherra.

26. ágúst 1991
Jón Baldvin Hannibalsson utanríkisráðherra og utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna undirrita skjöl um viðurkenningu á endurreistu sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna og um gagnkvæm upptök stjórnmálasambands. Íslendingar urðu þar með fyrstir þjóða til að viðurkenna endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsþjóða.

1992
Yfirlýsing ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun er samþykkt í Ríó de Janeiro. Samþykktur er rammasamningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar.

1992
Ritið "Utanríkisþjónusta Íslands og utanríkismál - Sögulegt yfirlit", 3 bindi, eftir Pétur J. Thorsteinsson kemur út.

1992-1995
Ísland á sæti í ráði Alþjóðaflugmálastofnunarinnar, ICAO.

1994
Sjómannaskóli er stofnaður í Walvis Bay í Namibíu. Íslendingar hafa frá upphafi lagt til um helming kennara sem hluta af þróunaraðstoð sinni.

17. júní 1994
Haldið er upp á 50 ára afmæli lýðveldisins. Erlendir þjóðhöfðingjar, utanríkisráðherrar og sendiherrar koma til landsins.

1995
Utanríkisráðuneytið flytur frá Hverfisgötu 115 að Rauðarárstíg 25.

23. apríl 1995
Halldór Ásgrímsson verður utanríkisráðherra.

Október 1995
Fjórða ráðstefna kjörræðismanna Íslands haldin í Reykjavík.

1997 - 1999
Ísland á sæti í Efnahags- og félagsmálaráði Sameinuðu þjóðanna, ECOSOC.

1997 - 1998
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, situr í Þróunarnefnd Alþjóðabankans.

17. október 1997
Ríkisstjórnin ákveður að hækka verulega framlög til Þróunarsamvinnustofnunar Íslands. Þau urðu tæpar 300 m.kr. árið 2000 og var ákveðið að þau verði 400-500 m.kr. árið 2003.

1998
Ísland tekur þátt í heimssýningu í þriðja sinn. Hún er haldin í Lissabon í Portúgal.

28. ágúst 1998
Sjávarútvegsskóli Háskóla Sameinuðu þjóðanna, UNU, stofnaður á Íslandi.

7. maí 1999
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, gegnir formennsku í ráðherraráði Evrópuráðsins.

10. apríl 2000
Sextíu ára afmæli utanríkisþjónustunnar. Sendiskrifstofur: 17 í 14 löndum. Kjörræðisskrifstofur: 188 í 61 land1. Starfsmenn í ráðuneytinu: 80. Launaðir starfsmenn erlendis: 105. Kjörræðismenn: 225.

2000
Ísland tekur þátt í heimssýningunni EXPO 2000 í Hannover.

Landafunda norrænna manna í Norður-Ameríku minnst með víðtækri dagskrá á vegum íslenskra stjórnvalda í Bandaríkjunum og Kanada.

Reykjavík, menningarborg Evrópu.

25. mars 2001
Ísland tekur þátt í Schengen samstarfinu sem tryggir frjálsa för einstaklinga um innri landamæri fimmtán samstarfsríkja.

25. ágúst 2001
Afmælisdagskrá í tilefni af tíu ára afmæli formlegra stjórnmálasamskipta Íslands og Eystrasaltsríkjanna.

2. - 5. september 2001
Fimmta ráðstefna kjörræðismanna Íslands haldin í Reykjavík.

10. september 2001
Íslenska friðargæslan stofnsett og áform kynnt um friðargæslu á vegum utanríkisráðuneytisins.

14. - 15. maí 2002
Vorfundur utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins og samstarfsríkja þess haldinn í Reykjavík.

VII. Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur 1918-2002

Röðun sendiskrifstofa að neðan miðast við þær sem hafa starfað samfleytt.

16. ágúst 1920
Fyrsta sendiráð Íslands er opnað í Kaupmannahöfn. Sveinn Björnsson, síðar forseti, er skipaður fyrsti sendiherra Íslands.

23. apríl 1940
Aðalræðisskrifstofa Íslands er opnuð í New York. Hún er fyrsta sendiskrifstofan sem opnuð er eftir að utanríkisþjónustan er stofnuð. Vilhjálmur Þór er skipaður aðalræðismaður, fyrsti ræðismaður Íslands. Aðalræðisskrifstofan er gerð að kjörræðisskrifstofu árið 1950 (þ.e. án útsends starfsmanns), en endurreist sem sendiræðisskrifstofa 1965, þegar fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum sest þar að.

27. apríl 1940
Sendiráð Íslands í London er opnað (annað sendiráð Íslands).

27. júlí 1940
Sendiráð Íslands í Stokkhólmi er opnað (þriðja sendiráð Íslands).

23. október 1941
Sendiráð Íslands í Washington er opnað (fjórða sendiráð Íslands).

1942
Fyrsta kjörræðisskrifstofa Íslands er stofnuð í Winnipeg. Grettir Leó Jóhannsson er fyrsti kjörræðismaður Íslands. Árið 2000 eru kjörræðisskrifstofur orðnar 188 í 61 landi.

10. maí 1944
Sendiráð Íslands í Moskvu er opnað (fimmta sendiráð Íslands).

10. janúar 1946
Sendiráð Íslands í París er opnað (sjötta sendiráð Íslands).

19. júní 1947
Sendiráð Íslands í Osló er opnað (sjöunda sendiráð Íslands).

28. febrúar 1949
Aðalræðisskrifstofu Íslands í Hamborg er opnað. Hún er gerð að sendiráði 1952 (áttunda sendiráð Íslands). Það er flutt til Bonn 1955 og loks til Berlínar 1999.

1950-1953
Sendiskrifstofa Íslands er starfrækt í Prag. Dr. Magnús Z. Sigurðsson er þar viðskiptafulltrúi.

1952
Stofnuð er fastanefnd Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu, NATO, í París.

1955
Sendiráð Íslands í Hamborg er flutt til Bonn.

1957-1960
Sendiræðisskrifstofa Íslands er starfrækt í Prag. Árni Finnbjörnsson er ræðismaður.

17. maí 1965
Stofnuð er fastanefnd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og sendiræðisskrifstofa í New York (níunda sendiskrifstofa Íslands).

1966-1973
Sendiskrifstofa Íslands er starfrækt í Buenos Aires í Argentínu. Ingimundur Guðmundsson er viðskiptafulltrúi.

1967
Fastanefnd Íslands hjá NATO er flutt frá París til Brussel og verður jafnframt sendiráð þar gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu og Belgíu (tíunda sendiskrifstofa Íslands).

1. mars 1970
Ísland verður aðili að Fríverslunarsamtökum Evrópu (EFTA). Fastanefnd er sett á fót í Genf (ellefta sendiskrifstofa Íslands).

10. desember 1986
Sendiskrifstofunni í Brussel er skipt í tvennt. Ísland stofnar sérstakt sendiráð gagnvart Efnahagsbandalagi Evrópu (EBE - síðar Evrópusambandið) og Belgíu (tólfta sendiskrifstofa Íslands).

1. ágúst 1991
Sendiskrifstofa Íslands er opnuð í Berlín, útibú frá sendiráðinu í Bonn.

1992 - 1993
Fastanefnd Íslands gagnvart RÖSE er stofnuð í Vín 1992. Henni er lokað af sparnaðarástæðum í árslok 1993.

21. janúar 1995
Sendiráð Íslands í Peking er opnað (þrettánda sendiskrifstofa Íslands).

29. apríl 1997
Fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu í Strassborg er stofnuð (fjórtánda sendiskrifstofa Íslands).

25. ágúst 1997
Sendiráð Íslands í Helsinki er opnað (fimmtánda sendiskrifstofa Íslands).

2. mars 1999
Fastanefnd Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu (ÖSE/OSCE) í Vín er stofnuð á ný (sextánda sendiskrifstofa Íslands).

4. júní 1999
Ísland opnar aðalræðisskrifstofu í Winnipeg (sautjánda sendiskrifstofa Íslands).

20. október 1999
Sendiráð Íslands í Bonn er flutt til Berlínar. Það er fyrsta sendiráðið sem er byggt með hinum norrænu ríkjunum.

1. maí 2001
Sendiráð Íslands í Ottawa er opnað (átjánda sendiskrifstofa Íslands).

7. maí 2001
Sendiráð Íslands í Austurríki hefur starfsemi á sama stað og fastanefnd Íslands gagnvart ÖSE í Vínarborg.

4. júlí 2001
Sendiráð Íslands í Mapútó í Mósambík er opnað (nítjánda sendiskrifstofa Íslands).

25. október 2001
Sendiráð Íslands í Tókýó er opnað (tuttugasta sendiskrifstofa Íslands).

VIII. Utanríkisráðherratal 1918-

Sjá:: Fyrri ráðherrar

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira