Hoppa yfir valmynd
24. maí 2017 Matvælaráðuneytið

Ræða Þórdísar Kolbrúnar R. Gylfadóttur á ársfundi Nýsköpunarsjóðs atvinnulífsins 24. maí 2017

Ágætu fundarmenn 

Nýsköpunarsjóður stendur nú á vissum tímamótum, sem mótast af því að á nærri tuttugu ára starfstíma sjóðsins hefur umhverfi framtaksfárfestinga þróast miki. Með tilkomu nýrra fjárfestingafélaga og samlagssjóða er framboðið allt annað og meira en áður var.

Frá því að Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins tók til starfa í janúar 1998 hefur hann gegnt veigamiklu hlutverki í fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja. Hann hefur oft verið fyrstur fjárfesta til að kaupa hluti í ungum og efnilegum sprotafyrirtækjum og þannig brúað það bil sem oft hefur skapast frá því að stuðningi samkeppnissjóða lýkur og þar til almennir fjárfestar eru tilbúnir að koma að fjármögnun.

Þannig hefur sjóðurinn einatt reynt að bregðast við alvarlegum markaðsbresti í fjármögnun nýsköpunar, en verulegur skortur hefur lengst af verið á framboði fjármagns til fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Sjóðurinn hefur því gegnt lykilhlutverki við að umbreyta vísindalegum rannsóknum, hverskonar tæknilegum lausnum og annarri nýrri þekkingu í arðvænleg fyrirtæki. 

Þetta hlutverk sjóðsins er ein helsta forsenda tilvistar hans. Því hlutverki hefur auðvitað fylgt talsverð áhætta með eðlilegum afleiðingum á báða vegu. Þegar Nýsköpunarsjóður hóf göngu sína var til dæmis mikill uppgangur fyrirtækja í upplýsingatækni og því eðlilegt að veita þeim brautargengi með framtaksfé. Það var þó skammgóður vermir því þegar internet-bólan sprakk um mitt ár 2000 varð sjóðurinn fyrir þungum búsifjum eins og aðrir framtakssjóðir sem þá voru starfandi. Með viðbótarframlagi náðist þó að rétta sjóðinn við og hefur hann síðan verið viss kjölfesta í nýsköpunarstefnu stjórnvalda. Einna gleggst sýndi hann mikilvægi sitt á árunum í kjölfar hrunsins 2008, þegar hann var oft eini virki nýfjárfestirinn í sprotafyrirtækjum.

Nýsköpunarsjóður er hluti af stærri heild, en hann er veigamikill þáttur í stuðningskerfi atvinnulífsins. Hann er hluti af heildstæðri keðju sem einnig tengist til dæmis starfsemi Tækniþróunarsjóðs, skattaafslætti vegna rannsókna og þróunar, og starfsemi Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, svo að nokkur dæmi séu nefnd. Allir þessir hlekkir í keðjunni hafa tekið mið af heildstæðri stefnumótun ráðuneytisins, Vísinda- og tækniráðs og einnig áherslum atvinnulífsins um nýsköpun og atvinnuþróun. Grunnstefið hefur verið að samfella sé á milli Nýsköpunarsjóðs og annarra stuðnings- og fjármögnunaraðila. Þannig hefur Nýsköpunarsjóður reynt að tryggja samfellu við starfsemi Tækniþróunarsjóðs, sem veitir styrki til þróunar nýsköpunarverkefna, og unnið með öðrum framtaksfjárfestum, til dæmis um einstakar fjárfestingar og rekstur samlagssjóða.

Þátttaka lífeyrissjóða, aukinn áhugi einkafjárfesta og meiri gagnkvæm þekking frumkvöðla og fjárfesta hin síðari ár hefur gjörbreytt umhverfinu. Árangur kröftugra sprotafyrirtækja hefur aukist til samræmis. Þegar litið er um öxl sést glögglega að árangur Nýsköpunarsjóðs er mjög góður. Sjóðurinn hefur fjárfest í yfir 150 fyrirtækjum og eigið fé hans er yfir 5 milljarðar króna. Í eignasafninu eru 31 fyrirtæki og þrír sjóðir.

Ég nefndi hér að framan að Nýsköpunarsjóður stæði nú á vissum tímamótum. Frábær árangur leynir sér ekki en fram hjá því verður ekki litið að útganga – það er að segja: sala eigna sjóðsins – hefur gengið hægt. Þetta hefur leitt til þess að nýfjárfestingar hafa verið litlar og markmiðum með rekstri sjóðsins hefur ekki verið náð að öllu leyti á síðustu misserum.

Framtíðarfyrirkomulag Nýsköpunarsjóðs hefur því verið til athugunar frá síðastliðnu hausti í samvinnu við stjórn og starfsmenn sjóðsins. Aðdragandinn er þó lengri því frá árinu 2012 hefur stjórn og stjórnendum sjóðsins verið ljóst að breytinga væri þörf, þar sem fjármunir sjóðsins dygðu tæplega til að tryggja áframhaldandi fjárfestingar í nýsköpunarfyrirtækjum eins og þörf var fyrir. Þrátt fyrir að Nýsköpunarsjóður eigi að vera sívirkur eða sígrænn fjárfestingasjóður hefur sala á eignarhlutum sjóðsins ekki dugað til að tryggja áframhaldandi hringrás nýfjárfestinga.

Með aðkomu ráðuneytisins varð úr að ráðgjafafyrirtækið Strategía var fengið til að meta þá kosti sem helst kæmu til greina varðandi framtíðarfyrirkomulag sjóðsins. Í greinargerð Strategíu kemur fram að almennt eru þeir sem spurðir voru sammála um að viðhalda og efla umhverfi sem styður við frumstig nýsköpunar og getur tryggt áframhaldandi hagvöxt. Umhverfi nýsköpunar hefur þó breyst mikið frá stofnun sjóðsins eins og ég vék stuttlega að áðan. Breytingin felst einkum í því að samkeppnissjóðir, eins og Tækniþróunarsjóður og Rannsóknasjóður, sem veita styrki til rannsókna og nýsköpunar, hafa vaxið, og einnig hafa nýir framtaksfjárfestar komið til sögunnar, sem í sjálfu sér gefur tækifæri til breytinga.

Lagaumhverfi sjóðsins er það rúmt að innan þess má innleiða ýmsar breytingar. Sjóðnum er til dæmis heimilt að taka þátt í samlagssjóðum og samlagshlutafélögum sem stunda fjárfestingar í sprota- og nýsköpunar-fyrirtækjum, enda sé sá eignarhlutur minni en 50%.

Þótt einhverjar breytingar yrðu á vörslu og rekstri eignasafns Nýsköpunarsjóðs er í mínum huga ljóst að standa þarf vörð um upprunalegt og núverandi hlutverk hans, þar sem áherslan er á frumstig fjárfestinga í sprotafyrirtækjum. Tilvist Nýsköpunarsjóðs hverfist um þessa grunnástæðu, vegna þess að almennir fjárfestar hafa fram til þessa verið tregir til að leggja fjármagn í ný sprotafyrirtæki sem ekki hafa náð traustri rekstrarlegri fótfestu með sölu afurða á alþjóðlegum markaði. Segja má að þarna fremst í virðiskeðjunni hafi verið gjá sem stjórnvöld urðu að brúa. Það verður þó að segjast eins og er að svo virðist sem skilningur og áhugi fjárfesta á þessu frumstigi nýsköpunar sé að vaxa, sem er mikið gleðiefni sem léttir vissri pressu af stjórnvöldum.

Í viðræðum um framtíð Nýsköpunarsjóðs hafa forsvarsmenn hans m.a. bent á að hagkvæmt gæti verið að leita samstarfs við einkaaðila um rekstur samlagssjóðs eða annað rekstrarform sem skili jákvæðum árangri. Hefur þá verið vísað til vel heppnaðra erlendra fyrirmynda á Norðurlöndum. Af slíku samstarfi gæti skapast gagnkvæmur ávinningur sem gæti aukið fjármagn til fjárfestinga, aukið verðmæti núverandi eignasafns og lækkað rekstrarkostnað.

Þessa kosti og fleiri vill ráðuneytið skoða betur. Í þeim tilgangi hef ég ákveðið að skipa fjögurra manna starfshóp til að fara yfir og greina núverandi stöðu og koma með beinar og vel rökstuddar tillögur til mín um framtíðarfyrirkomulag Nýsköpunarsjóðs og ráðstöfun eignasafns hans. Starfshópinn munu skipa fulltrúar úr ráðuneyti mínu, fjármálaráðuneyti, Samtökum atvinnulífsins og óháður aðili með staðgóða þekkingu af framtaksfjárfestingum og rekstri frumkvöðlafyrirtækja.

Ég vil að lokum þakka stjórn og starfsfólki sjóðsins fyrir vel unnin störf og ég hlakka til samstarf við ykkur um næstu skref.

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum