Hoppa yfir valmynd

Þingmálaskrá 146. löggjafarþings 2016–2017

Samkvæmt 1. mgr. 47. gr. laga um þingsköp Alþingis, nr. 55/1991, með síðari breytingum, skal fylgja eftirriti stefnuræðu forsætisráðherra við upphaf þings yfirlit um þau mál sem ríkisstjórn hyggst leggja fram á þinginu ásamt áætlun um hvenær þeim verður útbýtt. Yfirlit fyrir 146. löggjafarþing fer hér á eftir. Fram kemur hvenær ætlunin er að leggja mál fram. Flutt kunna að verða fleiri mál en getið er og atvik geta hindrað flutning einstakra mála.

Forsætisráðherra

 1. Tillaga til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands.
  Með tillögunni, sem lögð verður fram í samræmi við 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands, verður leitað eftir stuðningi Alþingis við fyrirhugaðar breytingar á heiti og fjölda ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands. (Janúar)
 2. Skýrsla forsætisráðherra um málefni þjóðlendna.
  Árleg skýrsla. (Mars)
 3. Skýrsla forsætisráðherra um framkvæmd upplýsingalaga.
  Regluleg skýrsla. (Apríl)

 

Dómsmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á vopnalögum (innleiðing).
  Markmið frumvarpsins er að innleiða reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 98/2013 um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269 frá 12. desember 2014. Lengi hefur verið vitað að tiltekin efni sem notuð eru í iðnaði og landbúnaði er hægt að misnota til ólöglegrar framleiðslu sprengiefna og hefur heimsbyggðin ekki farið varhluta af því. Markmið með ofangreindri tilskipun er að auka eftirlit með ákveðnum efnum sem hægt er að nota sem forefni sprengiefna og takmarka aðgang að efnunum í ákveðnum styrkleikum. Innleiðing. (Febrúar)
 2.  Frumvarp til laga um breytingu á lögum um dómstóla, nr. 50/2016.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar er varða heimild nefndar sem metur hæfni dómaraefna til að taka til meðferðar umsóknir um embætti dómara við Landsrétt þegar skipað er í réttinn í fyrsta sinn og varðandi tímasetningar sem leiðir af vinnu við val á dómurum við Landsrétt. Jafnframt er lagt til að heimilt verði tímabundið að aðsetur Landsréttar verði utan Reykjavíkur. Er þetta lagt til þar sem erfitt hefur reynst að finna húsnæði sem hæfir réttinum í Reykjavík. Til skoðunar er að byggja fyrir réttinn framtíðarhúsnæði í Reykjavík. Þar til slíkt húsnæði er tilbúið verður að finna réttinum húsnæði til bráðabirgða. Lagt er til að það húsnæði verði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ eða Seltjarnarnesi. (Febrúar)
 3.  Frumvarp til laga um breytingu á lögum um meðferð einkamála (gjafsókn).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á meðferð gjafsóknarmála. Í fyrsta lagi er lagt til að ákvörðun um gjafsókn verði færð frá innanríkisráðherra til sýslumanns þannig að sýslumaður taki við umsókn um gjafsókn í stað ráðuneytisins nú og taki ákvörðun um hvort veita eigi gjafsókn í máli eða ekki. Synjun sýslumanns um gjafsókn verði unnt að kæra til gjafsóknarnefndar sem taki endanlega ákvörðun á stjórnsýslustigi. Í öðru lagi eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir gjafsókn. Lagt er til að gjafsókn verði eingöngu veitt einstaklingum sem ekki hafa fjárhagslegt bolmagn til að standa sjálfir straum af kostnaði við málarekstur sinn en ekki lögaðilum. Í þriðja lagi er lagt til að dómstólar taki ákvörðun um þóknun og kostnað lögmanns gjafsóknarhafa af rekstri málsins. Í dag taka dómstólar eingöngu ákvörðun um lögmannsþóknun í þessum málum. Endurflutt. (Mars)
 4.  Frumvarp til laga um rafræna undirritun sakbornings á lögregluskýrslu.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á almennum hegningarlögum sem heimila rafræna undirritun sakbornings á lögregluskýrslu þegar um er að ræða mál sem ljúka má með lögreglusátt. (Mars)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001.
  Frumvarp til breytinga á lögum um skráningu og mat fasteigna, nr. 6/2001, lýtur að því að tryggja rétta framkvæmd við ákvörðun matsverðs fasteigna. Með frumvarpinu er bætt við ítarlegri skil­greiningu á heimildum Þjóðskrár Íslands til aðgangs að gögnum við ákvörðun matsverðs fasteigna Endurflutt. (Febrúar)
 6.  Frumvarp til laga um þjóðbundna mannréttindastofnun (sjálfstætt eftirlit með mann­réttindaskuldbindingum).
  Ætlunin er að koma á skipulagi sem tryggir óháð mannréttindaeftirlit. Horft yrði til þess að uppfylla Parísarviðmiðin um þjóðbundna mannréttindastofnun, koma á skipulagi sem tryggir innleiðingu sáttmála SÞ um réttindi fatlaðs fólks og fleiri mannréttindaskuldbindinga. (Febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, (full­gilding alþjóðasamninga).
  Markmiðið er að breyta lögum um íslenskan ríkisborgararétt, nr. 100/1952, vegna fullgildingar á tveimur samningum Sameinuðu þjóðanna, annars vegar samningi um réttarstöðu ríkisfangslausra einstaklinga frá 1954 og hins vegar samningi um að draga úr ríkisfangsleysi frá 1961. (Mars)
 8.  Frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016 (frestun réttaráhrifa).
  Lagfæra þarf 35. gr. laganna í samræmi við ákvæði til bráðabirgða, sbr. lög nr. 124/2016, svo skýrt sé að kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið fresti ekki réttaráhrifum í þeim tilvikum þegar Útlendingastofnun hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki. (Febrúar)
 9. Tillaga til þingsályktunar um réttaröryggisáætlun.
  Greining á samspili réttarvörslukerfisins, sem nær yfir rannsóknir lögreglu, saksókn, dómskerfið og framkvæmd fullnustu refsinga, sem verði grundvöllur fyrir árangursstjórnun og stefnumótun í málaflokknum. Jafnframt verði framtíðarskipan skipulögð og langtímaáætlanir mótaðar fyrir stofnanir kerfisins svo úr verði ein réttaröryggisáætlun í formi þingsályktunar. (Mars)
 10. Tillaga til þingsályktunar um löggæsluáætlun fyrir árin 2016–2028.
  Unnið hefur verið að gerð löggæsluáætlunarinnar í samræmi við ályktun Alþingis frá árinu 2012 um grundvallarskilgreiningar löggæslu á Íslandi og gerð löggæsluáætlunar fyrir Ísland. Öryggis- og þjónustustig eru skilgreind út frá samsettum mælikvörðum sem mæla hvort lögregla hafi getu til að sinna hlutverki sínu á hverjum tíma. Við skilgreiningu á öryggis- og þjónustustigi er lögð áhersla á trausta löggæslu sem er eins sambærileg og hægt er hvar sem er á landinu. Lögreglan gæti almannaöryggis, haldi uppi lögum og reglu, vinni að uppljóstran brota, stöðvi ólögmæta háttsemi og fylgi málum eftir í samræmi við það sem mælt er fyrir um í lögum um meðferð sakamála eða öðrum lögum. (Febrúar/mars)

 

Félags- og jafnréttismálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 10/2008, með síðari breytingum (jafnlaunavottun). 
  Með frumvarpinu er lagt til að kveðið verði á um skyldu fyrirtækja og stofnana, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli, að undirgangast jafnlaunavottun samkvæmt reglugerð nr. 929/2014 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana á grundvelli staðalsins ÍST 85:2012. (Mars)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breyt­ingum (hlutverk Íbúðalánasjóðs, stefnumörkun og áætlanagerð). 
  Í frumvarpinu er að finna breytingar á hlutverki sjóðsins í samræmi við ný lög um almennar íbúðir, nr. 52/2016. Lögð eru til nýmæli um stefnumótun í húsnæðismálum og skyldur sveitar­félaga í húsnæðismálum skýrðar. Þá eru lagðar til breytingar á útlánaheimildum sjóðsins. Endur­flutt að hluta. (Mars)
 3. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna (heildarlög).
  Frumvarpið kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem félagslega vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB (um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna) sem varðar ekki vinnumarkaðinn. Markmiðið með frumvarpinu er að tryggja jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði óháð kynþætti og þjóðernisuppruna. Frumvarpinu er ætlað að hafa þau áhrif að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna sem og að koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga vegna fyrrnefndra þátta. Þá er frum­varpinu jafnframt ætlað að vera liður í því að koma í veg fyrir að skoðanir um mismunandi gildi kynþátta festi hér rætur. Innleiðing. (Mars)
 4. Frumvarp til laga um þjónustu við fatlað fólk með miklar þjónustuþarfir (heildarlög).
  Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á núgildandi lögum um málefni fatlaðs fólks, nr. 59/1992, m.a. með það að markmiði að innleiða ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna og lögfesta notendastýrða persónulega aðstoð. (Apríl)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, með síðari breytingum (innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, stjórnsýsla og húsnæðismál).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögunum vegna innleiðingar samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, ítarlegri ákvæði um stjórnsýslu og eftirlit og ákvæði um skyldur í húsnæðismálum. (Apríl)
 6. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði.
  Í því skyni að tryggja að starfsfólk hljóti jafna meðferð innan sama vinnustaðar án tillits til kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta nema málefnaleg rök sem helgast af lögmætu markmiði standi til annars er mikilvægt að frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði verði lagt fram á Alþingi. Ákvæði frumvarpsins munu taka mið af efni tilskipunar ráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífi sem og þeim hluta tilskipunar ráðsins 2000/43/EB um framkvæmd meginreglunnar um jafna meðferð manna án tillits til kynþáttar eða þjóðernisuppruna, sem varðar vinnumarkaðinn. (Febrúar).
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 45/2007, um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra, og fleiri lögum.
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja sem senda starfsmenn tímabundið til Íslands og starfskjör starfsmanna þeirra og er breytingunum meðal annars ætlað að innleiða tilskipun 2014/67/ESB um framfylgd eldri tilskipunar um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu. Þá er gert ráð fyrir að samhliða verði í frumvarpinu lagðar til breytingar á ýmsum öðrum lögum sem gilda á innlendum vinnumarkaði, meðal annars í því skyni að bregðast við tilteknum aðstæðum sem upp hafa komið við framkvæmd viðkomandi laga, meðal annars í tengslum við eftirlit á vinnumarkaði. (Mars).
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 99/2007, um félagslega aðstoð.
  Frumvarpið, sem er liður í heildarendurskoðun laga um almannatryggingar og laga um félagslega aðstoð, kveður á um breytingar sem lúta að starfsendurhæfingu og hvernig megi stuðla að aukinni atvinnuþátttöku þeirra sem búa við skerta starfsgetu. Einnig er lagt til að tekið verði upp starfsgetumat þar sem metin verði starfsgeta fólks í stað læknisfræðilegs örorkumats. Samhliða því er gert ráð fyrir að tekið verði upp nýtt og einfaldara greiðslukerfi vegna endurhæfingarbóta og örorkulífeyris þar sem bótaflokkar verða sameinaðir og allar tekjur hafa sama vægi við útreikning bóta. Þá verður samspil almannatryggingakerfisins og lífeyrissjóðakerfisins bætt og stuðningur aukinn við þann hóp öryrkja sem hefur mjög lágar eða engar tekjur sér til framfærslu aðrar en bætur almannatrygginga. Einnig mun í frumvarpinu verða kveðið á um hækkun lífeyristökualdurs í áföngum úr 67 árum í 70 ár og hækkun frítekjumarks vegna atvinnutekna ellilífeyrisþega. (Mars)
 9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof.
  Frumvarp þetta er liður í að koma í framkvæmd þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að hækka hámarksfjárhæðir fæðingarorlofsins í öruggum skrefum á næstu fjórum árum. Þykir mikilvægt að það sé gert í einu lagi í frumvarpi þannig að fyrirsjáanlegt verði hvernig þær hækkanir eru áætlaðar í áföngum. (Mars)
 10. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu.
  Í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2020 er lögð áhersla á börn og barnafjölskyldur. Byggt er m.a. á alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði fjölskyldu- og mannréttinda. Endurflutt að hluta. (Mars)
 11. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðs fólks 2017–2021.
  Við mótun tillögunnar er m.a. horft til markmiða þeirrar stefnu í málefnum fatlaðs fólks sem kemur fram í samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks. Lögð er áhersla á algilda hönnun og lausnir sem mikilvæga forsendu þess að skapa öllum einstaklingum aðstæður til að njóta sömu tækifæra. (Mars)
 12. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun um barnavernd.
  Samkvæmt 5. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, skal ráðherra leggja fram tillögu til þings­ályktunar um framkvæmdaáætlun í barnavernd til fjögurra ára í senn. Markmið tillögunnar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega og árangursríka aðstoð. (Mars)
 13. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun gegn ofbeldi í íslensku samfélagi.
  Í tillögu til þingsályktunar um aðgerðaáætlun til fjögurra ára gegn ofbeldi í íslensku samfélagi er lögð áhersla á að auka fræðslu og forvarnastarf um ofbeldi, bæta samvinnu og verklag við að draga úr ofbeldi og styrkja samstarf við rannsókn ofbeldismála. Byggt er á samstarfsyfirlýsingu fjögurra ráðherra um samvinnu gegn ofbeldi og niðurbrjótandi áhrifum þess. (Mars)

 

Fjármála- og efnahagsráðherra

 1. Frumvarp til lokafjárlaga fyrir árið 2015.
  Endurflutt. (Janúar)
 2. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 12/1999, um Lífeyrissjóð bænda.
  Í frumvarpinu er lagt til að lög um Lífeyrissjóð bænda falli brott og frá þeim tímapunkti starfi sjóðurinn á grundvelli laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyris­sjóða. Endurflutt. (Janúar)
 3. Frumvarp til laga um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið (evrópskar eftirlitsstofnanir).
  Frumvarpið er til innleiðingar á nýju samevrópsku eftirlitskerfi á fjármálamarkaði í íslenskan rétt. Með frumvarpinu verður efnisákvæðum reglugerða (ESB) nr. 1093/2010, um Evrópsku banka­eftirlitsstofnunina (EBA), nr. 1094/2010, um Evrópsku vátrygginga- og lífeyrissjóðaeftirlits­stofn­unina (EIOPA), og nr. 1095/2010, um Evrópsku verðbréfamarkaðseftirlitsstofnunina (ESMA), veitt lagagildi hér á landi. Með frumvarpinu er mælt fyrir um að Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) annist opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi hér á landi samkvæmt ákvæðum laganna og samn­ingnum um Evrópska efnahagssvæðið. Innleiðing. (Janúar)
 4. Frumvarp til laga um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum.
  Frumvarpið byggist á tilskipunum 2002/87/EB og 2011/89/ESB um viðbótareftirlit með fjármálasamsteypum. Með frumvarpinu munu reglur Fjár­mála­eftirlitsins nr. 165/2014 verða leiddar í lög. Fjármálasamsteypa kallast það þegar fyrirtæki á sviði fjármála og vátrygginga eru innan sömu samstæðu. Engar fjármálasamsteypur eru starfandi á Íslandi eins og stendur. Innleiðing. (Janúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki og lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi (tilkynningar um brot á fjármálamarkaði).
  Með framlagningu frumvarpsins er haldið áfram með innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB (CRD IV). Markmið frumvarpsins er að auðvelda starfsmönnum fjármála­fyrirtækja að tilkynna um brot fyrirtækjanna samkvæmt fyrirframákveðnum ferlum sem fjármála­fyrirtæki skulu hafa til staðar. Þá mælir það fyrir um vernd starfsmanna sem tilkynna um brot. Samkvæmt frumvarpinu geta starfsmenn fjármálafyrirtækja og annarra eftirlitsskyldra aðila einnig tilkynnt um brot til Fjármálaeftirlitsins. Innleiðing. (Janúar)
 6. Frumvarp til laga um skortsölu.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 236/2012 um skortsölu. Það hefur að geyma nýjar kröfur um tilkynningarskyldu vegna skortstöðu sem fer yfir ákveðin stærðarmörk. Þá er kveðið á um takmarkanir á óvarinni skortsölu og eftirlitsaðilum veitt heimild til að banna tímabundið skortsölu eða birta opinberlega skortstöðu tiltekins aðila kalli aðstæður á slíkt. Í dag eru engar almennar reglur til um skortsölu fjármálagerninga hér á landi. Ákvæði lagafrum­varpsins munu því fela í sér nýmæli að íslenskum rétti. Innleiðing. (Febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, lögum nr. 36/2001, um Seðlabanka Íslands, og lögum nr. 33/2013, um neytendalán (erlend lán, varúðar­reglur).
  Frumvarpið byggist að hluta á tillögum nefndar sem falið var að endurskoða bann íslenskra laga við gengistryggingu, m.a. með hliðsjón af rökstuddu áliti Eftirlitsstofnunar EFTA frá 22. maí 2013, og fjalla um innleiðingu varúðarreglna vegna hættu sem fjármálakerfinu stafar af erlendum lánum. Áþekk frumvörp voru lögð fram á 144. og 145. löggjafarþingi. Endurflutt. (Febrúar)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (skuldajöfnun, o.fl.).
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, sem byggj­ast á tilskipun 2001/24/EB um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Frumvarpið er lagt fram vegna ábendinga frá Eftirlitsstofnun EFTA (ESA). Í frumvarpinu er að finna ákvæði sem ætlað er að skýra atriði sem upp hafa komið vegna dóms EFTA-dómstólsins í máli E-28/13. Til­gangur frumvarpsins er að skýra nánar ákvæði laganna um skuldajöfnun og greiðslujöfnunar­samn­inga við fjárhagslega endurskipulagningu og slit fjármálafyrirtækja sem og lagavalsreglur í kjölfar ógildingar og riftunar löggerninga. (Febrúar)
 9. Frumvarp til laga um afleiðuviðskipti.
  Frumvarpið felur í sér innleiðingu á reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 648/2012 um afleiðuviðskipti (EMIR). Því er ætlað að auka gagnsæi viðskipta með svokallaðar OTC-afleiður og draga úr mótaðila- og rekstraráhættu vegna samninga með þær auk þess að auka virkni afleiðu­markaða með skilvirkari ferlum. Frumvarpið hefur að geyma eftirfarandi fjögur meginatriði: kröfu um greiðslujöfnun allra staðlaðra OTC-afleiðusamninga í gegnum miðlægan mótaðila, tilkynna skal öll afleiðuviðskipti til afleiðuviðskiptaskráningar (OTC og aðrar afleiður), víðtækar kröfur um áhættustýringu vegna afleiðna sem ekki eru greiðslujafnaðar í gegnum miðlægan mótaðila og umgjörð um starfsemi miðlægra mótaðila og afleiðuviðskiptaskráningar. Innleiðing. (Mars)
 10. Frumvarp til laga um lánshæfismatsfyrirtæki.
  Frumvarpið byggist á reglugerðum Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 1060/2009, nr. 513/2011 og nr. 462/2013 um lánshæfismatsfyrirtæki (CRA). Efnisreglur gerðanna eiga að tryggja að öll lánshæfismöt sem gefin eru út af matsfyrirtækjum og skráð eru innan Evrópusambandsins séu af sambærilegum gæðum og unnin með samræmdum hætti. Sú framkvæmd stuðlar að aukinni fjár­festa­vernd og stöðugleika fjármálamarkaða. Eftirlit með lánshæfismatsfyrirtækjum verður í megin­atriðum hjá Eftirlitsstofnun EFTA samkvæmt nýrri lausn sem komið var á vegna upptöku reglu­gerða um eftirlitsstjórnvöld á fjármálamarkaði. Innleiðing. (Mars)
 11. Frumvarp til laga um rekstraraðila sérhæfðra sjóða.
  Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2011/61/ESB um rekstraraðila sérhæfðra sjóða (Alternative Investment Fund Managers, AIFMD). Með lögunum verður í fyrsta sinn sett heildarumgjörð um rekstraraðila sérhæfðra sjóða og starfsemi þeirra. Tilskipunin var tekin upp í EES-samninginn haustið 2016. Innleiðing (Mars).
 12. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki (útibú).
  Frumvarpið byggist á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/36/ESB (CRD IV). Með frum­varp­inu verða annars vegar gerðar breytingar á lagareglum um starfsemi útibúa og þjónustu­starf­semi fjármálafyrirtækja á EES-svæðinu og hins vegar stofnun og starfsemi útibúa fjármála­fyrirtækja utan EES-svæðisins hér á landi. Innleiðing. (Mars)
 13. Frumvarp til laga um vátryggingasamstæður.
  Lög nr. 100/2016, um vátryggingastarfsemi, byggjast á tilskipun 2009/138/EB en kaflanum um vátryggingasamstæður var sleppt, m.a. vegna fjölda ákvæða í kaflanum um evrópsku eftirlits­stofn­anirnar. Frumvarp til laga um vátryggingasamstæður mun byggjast á ákvæðum tilskipunar 2009/138/EB og tilskipunar 2014/51/ESB um vátryggingasamstæður. Innleiðing. (Mars)
 14. Frumvarp til laga um brottfall laga nr. 2/1997, um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga (sam­eining).
  Í frumvarpinu er lagt til að Lífeyrissjóður hjúkrunarfræðinga og B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins renni saman í einn sjóð. (Mars)
 15. Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum um skatta og gjöld.
  Ýmsar breytingar. (Mars)
 16. Tillaga til þingsályktunar um fjármálastefnu.
  (Janúar)
 17. Tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun.
  (Mars)

 

Ferða-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra 

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
  Frumvarpið er lagt fram til samræmis við áherslur um einföldun regluverks. Endurflutt. (Febrúar)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 2/1995, um hlutafélög, og lögum nr. 138/1994, um einkahlutafélög.
  Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um hlutafélög og lögum um einkahlutafélög vegna undirbúnings rafrænnar fyrirtækjaskrár og vegna breytinga sem gerðar voru á lögum nr. 3/2006, um ársreikninga, í júní 2016. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/2008, um endurskoðendur.
  Eftirlitsgjald o.fl. (Febrúar)
 4. Frumvarp til laga um sölu notaðra ökutækja.
  Markmið frumvarpsins er að auka gæði milligöngu við sölu notaðra bifreiða og tryggja virkt eftirlit með auknum kröfum til bifreiðasala og upplýsingagjöf til neytenda. (Febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 24/2006, um faggildingu o.fl.
  Með frumvarpinu er ráðist í heildarendurskoðun á gildandi löggjöf um faggildingu. (Mars)
 6. Frumvarp til laga um Flugþróunarsjóð.
  Með frumvarpinu verður lagt til að starfræktur verði Flugþróunarsjóður til að styðja við reglulegt millilandaflug til Akureyrar og Egilsstaða. (Mars)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 73/2005, um skipan ferðamála.
  Með frumvarpinu verður ráðist í heildarendurskoðun á gildandi lögum um skipan ferðamála. (Mars)
 8. Frumvarp til laga um Ferðamálastofu.
  Með frumvarpinu verður sett umgjörð um starfsemi Ferðamálastofu. (Mars)
 9. Tillaga til þingsályktunar um aðgerðaáætlun um orkuskipti.
  Tillagan felur í sér heildstæða aðgerðaáætlun og markmiðasetningu um orkuskipti fram til ársins 2030, jafnt í lofti, á láði sem legi. Endurflutt. (Febrúar)

 

Heilbrigðisráðherra

 1. Frumvarp til lyfjalaga.
  Núgildandi lyfjalög tóku gildi 1. júlí 1994 og hefur þeim verið breytt alls 43 sinnum. Þau hafa hins vegar aldrei sætt heildarendurskoðun frá gildistöku þeirra. Frumvarpið felur í sér heildarendur­skoðun núgildandi laga með tilliti til stefnumörkunar og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópu­löggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Frumvarpið var lagt fram á 145. lög­gjafarþingi en náði ekki fram að ganga og verður endurskoðað frumvarp lagt fram á 146. lög­gjafarþingi. (Mars)
 2. Frumvarp til laga um misnotkun vefjaaukandi efna og stera.
  Um ný lög er að ræða en nauðsynlegt er að leggja fram frumvarp sem spornar við misnotkun á vefjaaukandi efnum og sterum. Engin lög eru í gildi sem taka á misnotkun vefjaaukandi efna og stera, en óskað hefur verið eftir af ýmsum aðilum að lögfestar verði reglur á þessu sviði. Höfð verður hliðsjón af sambærilegri danskri löggjöf. Regluverkinu er m.a. ætlað að taka með skýrum hætti á hvers kyns misnotkun, framleiðslu, innflutningi og dreifingu á þessum efnum. (Mars)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir (rafsígarettur, EES-reglur).
  Með lagabreytingunni verður settur heildstæður rammi um sölu, neyslu og annað tengt raf­sígarettum. Þá verður lagabreytingin til þess að innleiða að hluta (sem snýr að rafsígarettum) til­skipun Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslu­fyrir­mælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. (Mars)
 4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúklingatryggingu, nr. 111/2000.
  Í frumvarpinu er aðallega lagt til að sjúkratryggingastofnunin hafi lokið afgreiðslu bótamála áður en slík mál eru borin undir dómstóla, að heimildir sjúkratryggingastofnunarinnar við gagnaöflun verði auknar og ákvæði um mat stofnunarinnar á umfangi líkamstjóns gert skýrara. (Mars)
 5. Þingsályktunartillaga – Lyfjastefna til ársins 2021.
  Þingsályktunartillaga um lyfjastefnu, sem byggist á lyfjastefnu til ársins 2020, var lögð fram á 145. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Stefnan byggist á grundvelli eldri stefnu í mála­flokknum, áherslum heilbrigðisyfirvalda í lyfjamálum, stefnu grannþjóða á þessu sviði og þróun lyfjamála á liðnum árum. Endurskoðuð tillaga verður lögð fram á 146. löggjafarþingi. (Mars)

 

Mennta- og menningarmálaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um Lánasjóð íslenskra námsmanna, nr. 21/1992, með áorðnum breytingum (lánshæfi aðfaranáms).
  Með frumvarpinu er leitast við að skjóta lagastoð undir áralanga framkvæmd Lánasjóðs íslenskra námsmanna um lánveitingar til frumgreinanáms. Með því er brugðist við athugasemdum sem komu fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar, LÍN – Lánshæfi náms og þróun útlána, útg. maí 2011, um að lagastoð skorti fyrir þessum lánveitingum. (Febrúar)
 2. Frumvarp til sviðslistalaga.
  Frumvarp til nýrra heildarlaga um sviðslistastarfsemi, þar með talið starfsemi Þjóðleikhússins og Íslenska dansflokksins, sviðslistaráð, sviðslistasjóð og reglubundna óperustarfsemi. Frumvarpið var áður til meðferðar á 140. og 141. löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um viðurkenningu á menntun og hæfi til starfa hér á landi, nr. 26/2010 (innleiðing tilskipunar 2013/55/ESB).
  Frumvarpinu er ætlað að lögfesta tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins nr. 2013/55/ESB frá 20. nóvember 2013, sem breytir tilskipun 2005/36/EB um viðurkenningu á faglegri menntun og hæfi. Meðal helstu breytinga er að tekið verður upp evrópskt fagskírteini til þess að stunda starf sitt í öðru EES-ríki, heimilað er að veita takmarkaða viðurkenningu til starfa hér á landi, heimilað verður að taka upp sameiginlegar menntunarkröfur og sameiginlegt lokapróf starfsstétta, sett ákvæði um vinnustaðaþjálfun í öðru EES-ríki, kveðið á um tenglanet þjónustutilskipunar og mælt fyrir um rýni lögverndaðra starfsgreina. (Janúar/febrúar)

 

Samgöngu- og sveitastjórnarráðherra

 1. Frumvarp til laga um gjaldtöku fyrir framlengingu gildistíma tíðniheimilda.
  PFS hefur samþykkt að framlengja gildistíma tveggja tíðniheimilda. Til þess að halda samræmi í gjaldtöku fyrir afnot tíðnanna þarf að útbúa heimild í bráðabirgðaákvæði til þess að heimila gjaldtökuna. (Febrúar)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).
  Frumvarpið felur í sér að tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna álagningar sérstaks gjalds á banka­starfsemi verði deilt út til sveitarfélaga í hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari til að vega á móti áhrifum laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu hús­næðis­lána og húsnæðissparnaðar, á tekjur sveitarfélaganna. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995 með síðari breytingum (sérstakt framlag úr Jöfnunarsjóði).
  Frumvarpið felur í sér að tekjuauka Jöfnunarsjóðs vegna álagningar sérstaks gjalds á banka­starf­semi verði deilt út til sveitarfélaga í hlutfalli við hlutdeild þeirra í álögðu heildarútsvari til að vega á móti áhrifum laga nr. 40/2014, um séreignarsparnað og ráðstöfun hans til greiðslu hús­næðislána og húsnæðissparnaðar, á tekjur sveitarfélaganna. (Febrúar)
 4. Frumvarp til laga um nethlutleysi (innleiðing á TSM-reglugerð).
  Innleiða þarf reglugerð (ESB) nr. 2015/2120 með breytingu á fjarskiptalögum, nr. 81/2003. Um er að ræða nýmæli varðandi nethlutleysi. Nethlutleysi felst í því að notendur internetsins skuli geta nálgast og miðlað efni eða þjónustu á internetinu, óháð hug- og tæknibúnaði, notkunar­eigin­leikum, upprunavistfangi eða móttökuvistfangi. Í reglunni felst viðurkenning á því hversu mikil­vægur netaðgangur er fyrir hinn almenna borgara í frjálsu og tæknivæddu samfélagi.
  Reglur um nethlutleysi fela í sér að öll umferð um internetið skuli meðhöndluð á jafnræðis­grund­velli, þ.e. að net- og umferðarstýringar eru að jafnaði óheimilar, en slíkar stýringar eru stundum nefndar netmismunun. Nethlutleysi á að stuðla að því að internetið sé áfram vettvangur óheftra boðskipta, nýsköpunar og viðskipta eftir bestu getu. Kjarni nethlutleysis er í raun neytendavernd sem tekur til samskipta fjarskiptafyrirtækja við viðskiptavini þeirra, t.d. varðandi upplýsingagjöf í viðskiptasamningum, en einnig til aðgerða fjarskiptafyrirtækja sín á milli varðandi tækni- og kerfislega þætti sem hafa áhrif á stýringu fjarskiptaumferðar. (Mars)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á siglingalögum, lögum um loftferðir, lögum um áhafnir íslenskra farþegaskipa og flutningaskipa, lögum um vaktstöð siglinga og lögum um rann­sókn samgönguslysa vegna innleiðingar EES-gerða og IMO-gerða.
  Með frumvarpinu eru lagðar til nauðsynlegar breytingar vegna alþjóðlegra skuldbindinga íslenska ríkisins skv. EES-samningnum og alþjóðasamningi um takmörkun ábyrgðar á sjóréttarkröfum. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
  Siglingalög: Hækkaðar verði fjárhæðir sem útgerð getur takmarkað ábyrgð sína við vegna skaða­bóta­krafna farþega vegna lífs- og líkamstjóna.
  Loftferðir: Búin verði til lagastoð fyrir innleiðingu reglugerðar (ESB) um tilkynningarskyldu atvika í almenningsflugi. Aldurshámark flugumferðarstjóra verði fellt brott.
  Mælt verði fyrir um hlutverk trúnaðarmanns Samgöngustofu varðandi flugverndarmál fyrirtækja.
  Áhafnalög: Ákvæði laganna verði betur samræmd STCW-samþykktinni, eins og hún hefur verið tekin upp í EES-samninginn, ásamt því að mælt verði fyrir um viðurkenningu lækna vegna útgáfu skírteina.
  Vaktstöð siglinga: Búin verði til lagastoð fyrir innleiðingu tilskipunar um einföldun upplýsinga­gjafar skipa sem sigla hingað til lands.
  Rannsókn samgönguslysa: Gerðar verði nauðsynlegar breytingar vegna athugasemda Siglinga­öryggisstofnunar Evrópu um innleiðingu tilskipunar um rannsókn sjóslysa. (Febrúar)
 6. Frumvarp til laga um farþegaflutninga og farmflutninga á landi.
  Frumvarpinu er ætlað að tryggja og/eða styrkja lagastoð fyrir innleiðingu fimm Evrópugerða á sviði flutninga á landi. Þrjár þessara gerða innihalda samevrópskar reglur um leyfisveitingar til farþega- og farmflutninga og eftirlit með slíkum flutningum. Þá fjallar ein gerðin um réttindi farþega í farþegaflutningum með hópbifreiðum, m.a. rétt fatlaðra einstaklinga til aðstoðar, bótarétt vegna óhappa eða slysa, réttinn til endurgreiðslu þegar ferð er aflýst o.s.fv. Fimmta og síðasta gerðin hefur þegar verið innleidd í íslenskan rétt en það er mat ráðuneytisins að skerpa þurfi á tilteknum ákvæðum hennar í lögum. Fjallar sú gerð um gerð samninga um opinbera þjónustu við skipulag almenningssamgangna. Allar þessar gerðir eru EES-reglugerðir sem teknar verða beint upp á grundvelli þeirra lagaheimilda sem frumvarpið veitir. Efnisákvæði reglugerðanna eru með frumvarpinu tekin upp í lög að svo miklu leyti sem þau fela í sér aukin skilyrði eða íþyngjandi reglur. Markmið frumvarpsins er þannig að stuðla að því að íslenska ríkið uppfylli skyldur sínar samkvæmt EES-samningnum og taki þannig virkan þátt í að greiða fyrir farm- og farþega­flutn­ingum innan innri markaðarins. Uppistaðan í frumvarpinu eru ákvæði núgildandi laga nr. 73/2001, um fólksflutninga og farmflutninga á landi, með þeim breytingum og viðbótum sem nauðsynlegar eru til að ná þessu markmiði frumvarpsins. (Janúar/febrúar)
 7. Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum, nr. 50/1987, með síðari breytingum.
  Frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum er þríþætt. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að sveitarstjórnum sé heimilt að setja reglur um notkun bílastæða utan þéttbýlis ólíkt því sem umferðarlögin heimila nú. Ákvæðið heimilar innheimtu gjalds vegna notkunar á bílastæðum og þjónustu tengdri þeim. Í öðru lagi er gert ráð fyrir nýrri 3. mgr. 83. gr. umferðarlaga. Ákvæðið kveður á um að ráðherra geti ákveðið gjald fyrir notkun bílastæða og þjónustu tengda þeim. Reglu­gerðar­heimild er í ákvæðinu. Í þriðja lagi er lögð til breyting á 108. gr. umferðarlaga með það að markmiði að ákvæði um stöðubrotsgjöld taki til nýrrar 3. mgr. 83. gr. umferðarlaga, þ.e. ef gjald er ekki greitt er heimild til að sekta viðkomandi ökutæki. (Febrúar)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011 (fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn).
  Markmið frumvarpsins er m.a. að breyta 11. gr. sveitarstjórnarlaga á þá leið að fjöldi fulltrúa í sveitarstjórn þar sem íbúar eru 100.000 eða fleiri haldist 15–23 aðalmenn. Með því er skylda Reykja­víkurborgar til að fjölga borgarfulltrúum eftir næstu sveitarstjórnarkosningar afnumin. (Mars)
 9. Frumvarp til laga um lögleiðingu Höfðaborgarsamningsins.
  Með frumvarpinu eru lögfest ákvæði svokallaðs Höfðaborgarsamnings um veð í loftförum og íhlutum í loftför. Gera þarf jafnframt breytingar á ákvæðum aðfararlaga vegna samningsins. (Mars)

 

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á búvörulögum, nr. 99/1993, og búnaðarlögum, nr. 70/1998 (undanþágur frá samkeppnislögum og tollkvótar).
  Endurskoðuð ákvæði 13. og 71. gr. búvörulaga sem fela í sér undanþágur frá ákvæðum samkeppnis­laga. Endurskoðaðar leiðir vegna úthlutunar tollkvóta fyrir landbúnaðarvörur. Einnig verður kveðið á um tæknilegar lagfæringar vegna framkvæmda við búvörusamninga. (Mars)
 2. Frumvarp til laga um Matvælastofnun (heildarlög).
  Frumvarpinu er ætlað að samþætta margvísleg hlutverk Matvælastofnunar sem er að finna í mörgum lagabálkum og samhliða að skýra hlutverk stofnunarinnar í einni heildarlöggjöf. (Mars)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar (vigtun sjávarafla, afladagbók).
  Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á aðferðum við vigtun sjávarafla. Hugað verði að heimild til álagningar stjórnsýslusekta við brotum. Ákvæði um afla­dagbækur gerð markvissari. (Mars)
 4. Frumvarp til laga um Fiskistofu (stjórnsýsla Fiskistofu).
  Með frumvarpinu verði lögð til skýrari efnisákvæði um stjórnsýslu og starfsemi stofnunarinnar. (Mars)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 79/1997, um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands (vinnsla þangs og þara).
  Endurflutt með breytingum með hliðsjón af tillögum sem unnar voru af atvinnuveganefnd á 145. þingi. Endurflutt. (Mars)
 6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 61/2006, um lax- og silungsveiði (stjórn álaveiða).
  Með frumvarpinu verði lögfest heimild fyrir ráðherra til að takmarka álaveiðar samkvæmt ráðgjöf um stofnstærð og veiðiálag. (Mars)
 7. Tillaga til þingsályktunar um áætlun til sex ára um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla (5,3% aflaheimilda til sérstakra ráðstafana á sviði byggða- og atvinnu­mála).
  Á síðasta þingi var samsvarandi þingsályktun samþykkt, en gert er ráð fyrir endurskoðun hennar á grundvelli sérstakrar úttektar sem hefur farið fram. (Mars)

 

Umhverfis- og auðlindaráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs, og lögum nr. 52/1989, um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjar­vörur (EES-reglur, innleiðing, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Innleiðing á tilskipun 2012/19/ESB um raf- og rafeindatækjaúrgang sem gerir m.a. kröfu um að bannað verði að farga ómeðhöndluðum raf- og rafeindatækjaúrgangi, reglugerð (ESB) nr. 1257/2013 um endurvinnslu skipa, sem fjallar m.a. um skilgreiningu á endurvinnslu skipa og útgáfu starfsleyfa vegna þessarar starfsemi, og reglugerð nr. 660/2014, um flutning úrgangs, sem hefur það að aðalmarkmiði að efla eftirlit með flutningi úrgangs. Lagt er til að Umhverfisstofnun hafi heimildir til að leggja á stjórnvaldssektir. Aðrar minni háttar breytingar á lögum um með­höndl­un úrgangs. Innleiðing. Endurflutt. (Febrúar)
 2. Frumvarp til laga um Umhverfisstofnun (heildarlög).
  Í núgildandi lögum um Umhverfisstofnun er ekki að finna efnis­lega umfjöllun um hlutverk stofnunarinnar og eru verkefni hennar þar ekki tilgreind sérstaklega heldur eingöngu vísað til þeirra laga sem stofnunin starfar eftir. Eitt af meginmarkmiðum með frumvarpinu er að á einum stað verði kveðið á um meginhlutverk, helstu verkefni og ábyrgð Um­hverfis­stofnunar með skýrum hætti. Gert er ráð fyrir að frumvarpið komi í stað gildandi laga. Endurflutt, að mestu óbreytt. (Febrúar)
 3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda, og breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (EES-reglur, innleiðing).
  Innleiðing tilskipana 2008/99/EB um verndun umhverfisins með beitingu refsiákvæða og 2009/123 um mengun frá skipum og refsingu fyrir brot gegn ákvæðum hennar. Innleiðing. (Febrúar)
 4. Frumvarp til laga nr. 70/2012, um breytingu á lögum um loftslagsmál (EES-reglur, inn­leiðing).
  Í frumvarpinu verður sett lagastoð vegna innleiðingar reglugerðar (ESB) nr. 2015/757 um vöktun, skýrslugjöf og vottun losunar á koldíoxíði frá sjóflutningum. Þá er gert ráð fyrir nýjum kafla í lofts­lagslög um vöktun og skýrslugjöf frá sjóflutningum þar sem kveðið verður á um meginatriði gerðarinnar og sett reglugerðarheimild svo innleiða megi reglugerð 2015/757 með tilvísunar­aðferð. Innleiðing. (Febrúar)
 5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 103/2006, um landmælingar og grunnkortagerð (landupplýsingagrunnur og gjaldfrelsi landupplýsinga).
  Tilefni frumvarpsins er tækniþróun undanfarinna ára í öflun, notkun og miðlun staf­rænna land­upp­lýsinga og veruleg aukning í notkun slíkra gagna. Um er að ræða breytingar hvað varðar hlutverk Landmælinga Íslands um gerð, viðhald og miðlun stafrænna þekja og land­upp­lýsinga­grunna til að tryggja samræmi milli þeirra og laga nr. 44/2011, um grunngerð fyrir staf­rænar landupplýsingar. Lagt er til að tekin verði út afmörkun á nákvæmni gagna í land­upplýsinga­grunni Landmælinga Íslands til að hann geti verið í þeirri nákvæmni sem þörf er á hverju sinni og tækni leyfir. Frumvarpið var lagt fram á 144. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga. Endurflutt. (Febrúar)
 6. Frumvarp til laga um skógrækt (heildarlög).
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um skógrækt, en gildandi lög eru lög nr. 3/1955, um skóg­rækt, og lög nr. 95/2006, um skógrækt á lögbýlum. Frumvarpið byggist m.a. á greinargerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endur­skoðun á málaflokknum. (Mars)
 7. Frumvarp til laga um landgræðslu (heildarlög).
  Um er að ræða frumvarp til nýrra heildarlaga um landgræðslu, en gildandi lög eru lög nr. 17/1965, um landgræðslu, og lög nr. 91/2002, um varnir gegn landbroti. Frumvarpið byggist m.a. á greinar­gerð starfshóps sem skilað var 2012 og víðtækri endurskoðun á málaflokknum. (Mars)
 8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 7/1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir (losun frá iðnaði o.fl.).
  Frumvarpinu er ætlað að innleiða tilskipun 2010/75/ESB um losun mengunarefna frá iðnaði. Til­skipunin sameinar sjö eldri EES-gerðir um samþættar mengunarvarnir og felur í sér endur­útgáfu þeirra þar sem tilgangurinn er að auka skýrleika reglnanna. Markmið tilskipunarinnar er að koma í veg fyrir og takmarka mengun frá tiltekinni starfsemi, svo sem með því að setja losunar­mörk varð­andi tiltekin efni. Auk þess verður málsmeðferð vegna leyfisveitinga einfölduð. Innleiðing. (Mars)
 9. Frumvarp til laga um skipulag hafs og stranda (heildarlög).
  Í frumvarpinu verður fjallað um stjórnun og skipulag á haf- og strandsvæðum, þar á meðal með hvaða hætti stjórnsýslu skuli háttað, landfræðilega afmörkun og helstu stjórntæki við skipulags­gerð o.fl. (Mars)
 10. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum (EES- reglur, stjórnvaldssektir o.fl.).
  Um er að ræða innleiðingu á tilskipun 2014/52/ESB sem breytir tilskipun 2011/92/ESB um mat á umhverfisáhrifum. Þau nýmæli sem er að finna í tilskipuninni og kalla á breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum eru m.a. eftirfarandi: eftirfylgni með ákvæðum í framkvæmdaleyfum um mótvægisaðgerðir og vöktun, umhverfismat framkvæmdar þarf að vera í fullu gildi við útgáfu fram­kvæmda­leyfis, ákvæði um upplýsingaskyldu til almennings, kröfur um sérfræðiþekkingu við gerð og yfirferð matsskýrslu, refsiákvæði og ákvæði er varða hagsmunaárekstra þegar sami aðili er leyfis­veitandi og framkvæmdaaðili. Innleiðing. (Mars)
 11. Tillaga til þingsályktunar um tólf ára stefnumótandi landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  Í 3. gr. laga nr. 20/2016 er kveðið á um gerð tillögu að stefnumarkandi landsáætlun til tólf ára um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum. Áætlunin tekur til verndar­aðgerða, öryggismála, uppbyggingar, eftirlits, undirbúnings, viðhalds og reksturs ferða­manna­staða, ferðamannaleiða og ferðamannasvæða. (Mars)
 12. Tillaga til þingsályktunar um vernd og orkunýtingu landsvæða.
  Lögð fram í samræmi við lög nr. 48/2011, um verndar- og orkunýtingaráætlun. Endurflutt tillaga frá 145. löggjafarþingi sem byggist á tillögum verkefnisstjórnar verndar- og orkunýtingaráætlunar sem skilað var til ráðherra í september 2016. Endurflutt. (Febrúar)
 13. Skýrsla umhverfis- og auðlindaráðherra um stöðu og stefnu í loftslagsmálum.
  Skýrsla ráðherra til Alþingis sem gerir grein fyrir nýjustu upplýsingum um stöðu Íslands í lofts­lags­málum í ljósi þeirra skuldbindinga sem stjórnvöld hafa gengist undir. Í skýrslunni verður jafnframt fjallað um sýn ráðherra á þá vinnu sem fram undan er og með hvaða hætti sé best að vinna að því að standa við markmið og skuldbindingar Íslands. (Febrúar)

 

Utanríkisráðherra

 1. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 38/2010, um Íslandsstofu.
  Endurskoðun á ákvæðum gildandi laga um Íslandsstofu að því er varðar stjórnsýslulega stöðu hennar. (Mars)
 2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.
  Stofnun aðlægs beltis á grundvelli hafréttarsamnings Sameinuðu þjóðanna sem felur í sér vissar valdheimildir Íslands á svæði utan landhelgi að 24 sjómílum frá grunnlínum landhelginnar. (Mars)
 3. Tillaga til þingsályktunar um stefnu um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2017–2021.
  Stefna ríkisstjórnarinnar um alþjóðlega þróunarsamvinnu árin 20172021. Framhald af gildandi stefnumótun sem felst í þingsályktun um áætlun um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands 2013-2016. (Mars)
 4. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 39/2016 um breytingu á XXII. viðauka (félagaréttur) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/95/ESB um breytingu á tilskipun 2013/34/ESB að því er varðar birtingu tiltekinna stórra fyrirtækja og samstæðna á ófjárhagslegum upplýsingum og upp­lýs­ingum um fjölbreytileika. (Janúar)
 5. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 46/2016 um breytingu á II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/30/ESB um samhæfingu laga aðildarríkjanna varðandi rafsegulsviðssamhæfi.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/34/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna varðandi búnað og verndarkerfi sem eru ætluð til notkunar í hugsanlega sprengifimu lofti.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/35/ESB um samræmingu laga aðildarríkjanna um að bjóða rafföng fram á markaði sem notuð eru innan ákveðinna spennumarka. (Janúar)
 6. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 92/2016 um breytingu á XI. viðauka (fjarskiptaþjónusta) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/2120 um ráðstafanir varðandi opinn netaðgang og um breytingu á tilskipun 2002/22/EB um alþjónustu og réttindi notenda að því er varðar rafræn fjarskiptanet og -þjónustu og reglugerð (ESB) 531/2012 um reiki á almennum farsímanetum innan Sambandsins.
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2352 frá 16. desember 2015 um vegið meðaltal hæsta verðs fyrir lúkningu símtala í farsíma í Sambandinu. (Janúar)
 7. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 100/2016 um breytingu á XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn.
  Framkvæmdarákvörðun framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/2119 um að fastsetja niðurstöður um bestu, fáanlegu tækni (BAT), samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2010/75/ESB, vegna framleiðslu á þiljum að meginhluta úr viði. (Janúar)
 8. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 121/2016 um breytingu II. viðauka (tæknilegar reglugerðir, staðlar, prófanir og vottun) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2014/60/ESB um skil á menningarminjum sem hafa verið fluttar ólöglega frá yfirráðasvæði aðildarríkis og breytingu á reglugerð (ESB) nr. 1024/2012 (endurútgefin). (Janúar)
 9. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 194/2016 um breytingu XIX. viðauka (neytendavernd) við EES-samninginn.
  Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2013/11/ESB frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda utan dómstóla og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 frá 21. maí 2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu og um breytingu á reglugerð (EB) nr. 2006/2004 og tilskipun 2009/22/EB (reglugerð um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á Netinu (ODR)).
  Framkvæmdarreglugerð framkvæmdastjórnarinnar (ESB) 2015/1051 frá 1. júlí 2015 um fyrir­komu­lag framkvæmdar á starfsemi rafræns vettvangs til lausnar deilumálum á Netinu, fyrirkomu­lag rafræna kvörtunareyðublaðsins og fyrirkomulag samstarfs milli tengiliða sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 524/2013 um lausn deilumála neytenda með rafrænni málsmeðferð á netinu. (Febrúar)
 10. Tillaga til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 215/2016 um breytingu XX. viðauka (umhverfismál) við EES-samninginn.
  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) 2015/757 frá 29. apríl 2015 um vöktun, skýrslugjöf og sannprófun á losun koltvísýrings frá flutningum á sjó og um breytingu á tilskipun 2009/16/EB. (Febrúar)
 11. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Georgíu. (Janúar)
 12. Tillaga til þingsályktunar um fullgildingu fríverslunarsamnings milli EFTA-ríkjanna og Filippseyja. (Janúar)


Eldri Þingmálaskrár ríkisstjórna er að finna á vef Alþingis

Síðast uppfært: 24.01.2017
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Yfirlit

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira