Hoppa yfir valmynd
15. febrúar 2018

HM 2018 - Spurt & svarað

Spurt og svarað um HM 2018

Síðast uppfært: 15. febrúar 2018

 

Hvar og hvenær fer HM í fótbolta 2018 fram?

Heimsmeistaramót FIFA í knattspyrnu hefst í Rússlandi 14. júní 2018 og lýkur með úrslitaleik á Luzhniki leikvanginum í Moskvu 15. júlí.

Keppt verður á tólf leikvöngum í ellefu rússneskum borgum (tveir leikvangar eru í Moskvu) víðsvegar í Evrópuhluta Rússlands. Leiknir verða samtals 64 leikir á mótinu, í riðla- og úrslitakeppni.

 

Hvar mun Ísland spila?

Dregið var í riðla 1. desember síðastliðinn. Ísland er í D-riðli ásamt Argentínu, Króatíu og Nígeríu.

Riðlakeppnin fer fram 14.-28. júní. Fjögur lið eru í hverjum riðli, sem keppa í þremur umferðum. Hvert lið leikur því þrjá leiki í riðlakeppninni, hvern leik í sinni borginni.

Leikir Íslands í riðlakeppninni eru sem hér segir:

  1. Gegn Argentínu í Moskvu (Spartak leikvanginum) 16. júní kl. 16:00 að staðartíma (13:00 að íslenskum tíma).
  2. Gegn Nígeríu í Volgograd 22. júní kl. 18:00 að staðartíma (15:00 að íslenskum tíma).
  3. Gegn Króatíu í Rostov við Dón 26. júní kl. 21:00 að staðartíma (18:00 að íslenskum tíma).

 

 

Allir sem ætla að sækja leiki í Rússlandi verða að skrá sig á heimasíðunni www.fan-id.ru og stuðningsfólk á leið til Rússlands ætti að skoða vefsíðuna mjög vandlega.

 

 

Þarf ég vegabréfsáritun til Rússlands og hvar sæki ég um? Er nóg að hafa Fan ID? Hvaða önnur skilyrði þarf að uppfylla?

Ath: Sendiráð Íslands í Moskvu hvorki afgreiðir né hefur milligöngu um Fan ID fyrir Íslendinga eða vegabréfsáritanir til Rússlands. Eftirfarandi upplýsingar eru ekki tæmandi og er mikilvægt að kynna sér bæði skilyrði og reglur um FAN ID mjög vandlega.

  • Fan ID gerir þér kleyft að ferðast til Rússlands án þess að þurfa að sækja um vegabréfsáritun. Þetta á aðeins við um tímabilið 5. júní–25. júlí 2018 (fyrir og eftir þennan tíma þurfa Íslendingar áritun).
  • Vegabréfið þitt verður að vera gilt í að lágmarki 6 mánuði eftir að þú kemur aftur heim frá Rússlandi (m.ö.o. út janúar 2019).
  • Mikilvægt er að allar upplýsingar (þ.m.t. ljósmyndin) á Fan ID séu réttar.
  • Einstaklingar með tvöfalt ríkisfang verða að nota sama vegabréfið fyrir allt ferlið og ferðalagið.
  • Við komuna til Rússlands þarftu að undirrita útprentun í tvíriti hjá landamæraeftirlitinu, sem heldur eftir öðru eintakinu. Þú heldur eftir hinu eintakinu og þarft að afhenda við vegabréfaeftirlit á flugvellinum þegar þú yfirgefur landið.
  • Við komu til Rússlands þurfa áhorfendur að skrá gististað sinn innan 24 klst. Þeir sem gista á hótelum ættu að geta gert þetta með aðstoð starfsfólks í móttöku og fyrir heimagistingu ætti fólk að biðja leigusala um aðstoð við þetta en skila þarf upplýsingum á næstu lögreglustöð eða pósthús.

Stuðningsfólk sem er búið að kaupa miða á leiki á HM þarf að skrá sig til að fá sérstakt stuðningsmannaskírteini, svokallað „Fan ID“, sem er gefið út af rússneskum stjórnvöldum. Fan ID skírteinið heimilar viðkomandi stuðningsmanni að ferðast til Rússlands (að uppfylltum ákveðnum skilyrðum, þ.m.t. að hafa gilt vegabréf), að sækja leiki og nota ókeypis almenningssamgöngur (sjá nánar hér að neðan).

Samkvæmt rússneskum lögum er Fan ID ákveðin gerð persónuskilríkis sérstaklega útgefið fyrir stuðningsmenn á HM til að auðvelda aðgengi þeirra inn í landið og inn á leikvanga á leikdegi, ásamt því að tryggja betur öryggi í kringum mótið. Sjá nánar hvernig þú sækir um Fan ID hér fyrir neðan.

 

Hvað með almenn ferðalög til Rússlands á þessu tímabili? Eða ef ég er ekki með miða á leik, get ég samt sótt um Fan ID?

  • Nei, ef þú ert ekki með miða á leik geturðu ekki sótt um Fan ID.
  • Ef þú ert ekki með Fan ID eða vegabréfsáritun geturðu ekki ferðast til Rússlands á íslensku vegabréfi.

Almennt séð þurfa allir íslenskir ríkisborgarar sem ætla að ferðast til Rússlands vegabréfsáritun til landsins. Sendiráð Rússlands í Reykjavík afgreiðir vegabréfsáritanir til Íslendinga. Íslendingar með lögheimili utan Íslands ættu að leita upplýsinga hjá næsta sendiráði eða ræðisskrifstofu Rússlands.

Hægt að sækja um vegabréfsáritun til sendiráðs Rússlands í Reykjavík til almennra ferðalaga að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í samræmi við rússnesk lög. Sjá nánar  á vef sendiráðsins: http://reykjavik.kdmid.ru/en.aspx?lst=en&it=/Visas.aspx

 

Hvers vegna þarf ég Fan ID og hvernig sæki ég um það? Kemst ég á völlinn án þess að hafa Fan ID? Hvað þarf ég að hafa í huga?

  • Fyrir utan að auðvelda ferðalög til og innan Rússlands er Fan ID persónulegt skilríki sem hver og einn áhorfandi verður að hafa í fórum sínum (ásamt miða og vegabréfi) til að geta komist á leikina á HM í Rússlandi. Án Fan ID er ekki hægt að komast á leikinn þótt þú sért með miða.
  • Ekki er nóg að hafa fengið staðfestingu á því að þú hafir fengið Fan ID, þú þarft að hafa skilríkið sjálft í fórum þínum þegar þú ferðast og ferð á völlinn. Upplýsingar um hvert skuli snúa sér ef Fan ID týnist verða birtar þegar nær dregur.
  • Nauðsynlegt er að sækja tímanlega um Fan ID m.a. vegna þess að það mun taka tíma að fá skilríkið sent með pósti til Íslands. Ráðlagt er að sækja um strax þegar miðakaupin eru frágengin.
  • Nauðsynlegt er að vegabréfsnúmerið sem þú fyllir út í umsókn um Fan ID sé það sama og þú sért með á þér við komuna til Rússlands. Því ættu þeir sem þurfa að endurnýja vegabréf sín að gera það eins fljótt og auðið er og bíða með að sækja um Fan ID þangað til.
  • Fan ID er útgefið og sent þér að kostnaðarlausu.
  • Öll önnur skilyrði og reglur er hægt að finna á www.fan-id.ru.

Öryggismálin verða áberandi á meðan á HM stendur. Allt kapp verður lagt á að mótið verði stóráfallalaust. Því má búast við gríðarlega mikilli öryggisgæslu. Áhorfendur ættu að búa sig undir það að sækja leiki og komast inn á leikvangana verði líkast því að fara um alþjóðlega flugvelli, með mikilli öryggisgæslu, vopnaleit, skilríkjaeftirliti og áberandi vopnaðri gæslu allt í kring. Öryggisgæsla verður einnig mjög áberandi innan leikvanganna og meiri en Íslendingar eiga að venjast Nánari upplýsingum um öryggisgæslu og reglur í kringum leikvanga og leikina sjálfa verður bætt við þegar nær dregur. Hinsvegar má nálgast frekari upplýsingar á Welcome2018.com um m.a. hvað er bannað að koma með inn á leikvangana:

http://welcome2018.com/en/fan_guide/attending-matches/v-den-matcha/

http://welcome2018.com/en/fan_guide/attending-matches/prohibited-items/

 

Hvar kaupi ég miða á HM og getur sendiráðið aðstoðað mig við það?

Öll miðasala á keppnina fer fram í gegnum FIFA á www.fifa.com.

Að gefnu tilefni skal það einnig tekið fram að sendiráð Íslands hefur hvorki milligöngu um né veitir aðstoð við miðakaup. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um miðakaup hjá FIFA:

http://www.fifa.com/worldcup/organisation/ticketing/index.html

http://www.fifa.com/worldcup/organisation/ticketing/apply-for-tickets.html

 

Upplýsingar um skil, afpöntun eða breytingar á keyptum miðum:

http://welcome2018.com/en/guide/302821/

http://welcome2018.com/en/guide/302817/

 

Hér er hægt að fá nánari upplýsingar og kaupa VIP miða og þjónustu:

http://hospitality.fifa.com/hospitality2018

 

Eru bein flug frá Íslandi til Rússlands?

Íslensk flugfélög og ferðaskrifstofur hafa skipulagt sérstakar ferðir vegna HM til Moskvu, Volgograd og Rostov. Auk þess mun rússneska flugfélagið S7 hefja beint áætlunarflug milli Moskvu og Keflavíkur alla laugardaga frá og með 9. júní n.k.

Fyrir þá sem ætla að ferðast sjálfstætt má benda á að Icelandair og Aeroflot eru í samstarfi um flug með sameiginleg flugnúmer (code share) og fjölmargir aðrir möguleikar eru með tengiflugi í gegnum Norður-Evrópu, þ.m.t. með lággjaldaflugfélögum og flugfélögum sem sum hver fljúga til Íslands (t.d. airBaltic, BA, Czech, Finnair, Lufthansa og Wizzair).

 

Hvernig kemst ég á milli staða í Rússlandi? Hvaða almenningssamgöngur eru í boði? Hvað með flug á milli staða í Rússlandi?

Fan ID veitir rétt til að ferðast ókeypis með sérstökum lestum á milli borga þar sem leikirnir fara fram og að ferðast frítt á leikdegi með almenningssamgöngum innan borganna þar leikirnir fara fram. Bóka þarf ferðir á milli borga fyrirfram. Sjá nánar  www.transport2018.com þar sem stuðningsfólk með Fan ID þarf að skrá sig til að geta nýtt sér þessar ókeypis ferðir milli borga.

Að sögn skipuleggjanda verður boðið upp á u.þ.b. 700 auka lestarferðir á meðan á keppninni stendur sem þýðir að u.þ.b. 450.000 sæti eru í boði í heildina. Fyrir lestarferðir á milli borga verður notast við nútímalegar lestir með loftkælingu og veitingasölu, sem eru að hámarki 5-6 ára gamlar.

Ath: Stuðningsfólk með Fan ID getur nýtt sér ókeypis lestarferðir milli borga og almenningssamgöngur á leikdegi en engin ókeypis flug verða í boði.

Flugtími á milli Moskvu og Volgograd (VOG) eða Rostov (ROV) er hvort um sig u.þ.b. 2 klst. Lestarferð frá Moskvu til Volgograd tekur í dag u.þ.b. 18 klst. og frá Moskvu til Rostov u.þ.b. 16 klst. með núverandi fyrirkomulagi. Þessar áætlanir kunna þó að breytast þar sem skv. upplýsingum frá skipuleggjendum verða sérstakar ókeypis lestaferðir skipulagðar fyrir stuðningsfólk íslenska landsliðsins sem vill ferðast á milli Moskvu og Volgograd. Að sama skapi verður hægt að ferðast með lest milli Volgograd og Rostov u.þ.b. 500 KM leið. Nánari upplýsingar um sérstakar lestarferðir munu liggja fyrir þegar nær dregur. Ekkert áætlunarflug er í boði í dag á milli Volgograd og Rostov en flugtíminn er áætlaður 45 mín.

Leikvangarnir í Volgograd og Rostov eru inni í miðri borg og það sama gildir um aðallestarstöðvar borgarinnar og „Fan zone“. Ferðatími frá flugvelli og inn í borg er 30-90 mín í Volgograd (VOG) og 1-2 klst. frá Platov-flugvelli í Rostov (ROV) inn í miðborg.

Hægt er að leigja bíla sem ferðamaður í Rússlandi. Mjög mikilvægt er að hafa öll leyfi og tryggingar í lagi og notast aðeins við alþjóðlega viðurkennda þjónustuaðila. Hinsvegar er ekki ráðlagt fyrir óvana ferðalanga að fara langferðir eftir rússnesku vegakerfi. Þegar komið er út fyrir úthverfi Moskvu og annarra stórborga geta vegirnir verið í misjöfnu ástandi. Víðast er ekki um hraðbrautir að ræða og umferð oft mjög þung enda liggur leið oft í gegnum smærri borgir og bæi sem oft skapar umferðartafir. Þá getur reynst erfitt að rata fyrir þá sem ekki lesa eða tala rússnesku, auk þess sem umferðaröryggi er með því versta í Evrópu (skv. tölum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar).

 

Við hverju má ég búast í Rússlandi? Hvað með praktísk atriði?

Rússland er bæði stærsta land í heimi (rúmlega 17 milljónir km2) og eitt það fjölbreyttasta, ásamt því að vera mjög blómlegt menningarlegt stórveldi.

HM næsta sumar fer fram í Evrópuhluta landsins, vestan Úralfjalla. Þrátt fyrir það eru borgirnar ellefu ólíkar í bæði sögulegu og menningarlegu tilliti. Þær eru jafnfjölbreyttar og þær eru margar. Því er við ýmsu að búast fyrir augu, eyru  og bragðlauka, ekki bara spennandi fótboltaleikjum.

Skipuleggjendur munu bjóða upp á ýmiskonar viðburði og dagskrá í kringum keppnina næsta sumar. Því mega áhorfendur búast við að kynnast áhugaverðri hlið á Rússlandi, hvert sem þeir ferðast – Moskvu, Volgograd, Rostov eða annarra borga.

Sinn er siður í landi hverju og mega áhorfendur búast við mikilli formfestu og ströngum reglum í kringum útgáfu og meðhöndlun skilríkja og annarra leyfa. Þetta ætti ekki að koma áhorfendum í koll en mikilvægt er að kynna sér reglur og fara eftir þeim.

Skipuleggjendur HM munu hafa 17 þúsund sjálfboðaliða, sem flestir eru rússneskir háskólanemar, staðsetta víðsvegar um miðborgir, við leikvanga, flugvelli, lestarstöðvar og víðar til að aðstoða gesti og stuðningsfólk. Sjálfboðaliðarnir, sem tala ensku og önnur erlend tungumál, eru merktir með greinilegum hætti og eiga að geta aðstoðað m.a. með að vísa til vegar.

Tungumál

Rússneska er skrifuð með kýrillísku stafrófi, sem er talsvert ólíkt latneska stafrófinu sem íslenska er skrifuð á. Almennt er tungumálakunnátta takmörkuð þótt margir hafi lært eða skilji ensku a.m.k. að einhverju leyti. Algengt er að t.d. afgreiðslufólk skilji talsvert meira en það treysti sér til að tala. Ekki er óalgengt að veitingastaðir hafi matseðla þýdda á ensku jafnvel þótt þjónustufólkið kunni lítið í tungumálinu og sakar ekki að spyrja þegar þeir liggja ekki frammi. Með kurteisi og þolinmæði má komast langt og þegar allt annað þrýtur má oft grípa til skriflegra netþýðinga með aðstoð Google Translate eða, líkt og Rússar gera frekar, Yandex Translate, sem báðar þýða nokkuð skiljanlega texta á milli ensku og rússnesku (og öfugt).

 

Hegðun

Stuðningsfólk ætti að hafa í huga líkt og allir ferðamenn að sýna almenna kurteisi og virðingu fyrir sögu og menningu lands og þjóðar.

Ósæmileg eða ógnandi hegðun eða drykkjulæti verða bönnuð í kringum og á leikvöngunum. Ölvuðum áhorfendum verður ekki hleypt inn á leikvanginn. Þetta er hluti af öryggisgæslunni og ekki frábrugðið því sem áhorfendur kynntust í kringum suma leiki á EM í Frakklandi 2016. Mögulega verða hömlur á áfengissölu hertar ef þurfa þykir af öryggisástæðum en heilt yfir litið verður heimilt að kaupa bjór ásamt annarri hressingu í þar til gerðum sjoppum innan „Fan Zone“ og leikvangsins.

 

Ferða- og sjúkratryggingar

Rússland er ekki hluti af evrópska heilbrigðistryggingakerfinu. Því er mjög mikilvægt að ganga úr skugga um að hafa sjúkra- og ferðatryggingar sem gilda fyrir ferðalög til Rússlands áður en lagt er af stað. Íslensku tryggingafélögin selja slíkar viðbótartryggingar. Ráðlagt er að hafa gildistíma tryggingarinnar 15 daga umfram áætlaðan ferðatíma.

 

Reiðufé og kort

Debet- og kreditkort er almennt hægt að nota við viðskipti í verslunum og á veitingahúsum í stærri borgum Rússlands í dag, sérstaklega í miðborg Moskvu. Þó þykir sjálfsögð kurteisi að borga með reiðufé þegar um smáar upphæðir er að ræða, t.d. kaffibolla eða vatnsflösku. Minni verslanir taka heldur ekki alltaf kort.

Hraðbankar eru mjög víða og flestir taka við kortum sem gefin eru út af íslenskum bönkum. Í Rússlandi – sem og alls staðar – er ráðlagt að hafa varann á og gæta sín þegar teknar eru út háar upphæðir og notast frekar við hraðbanka sem eru í innbyggðu rými við bankaútibú og veita meira öryggi.

Eini gjaldgengi gjaldmiðillinn í Rússlandi er rússnesk rúbla (RUB). Ekki er tekið við evrum eða dollurum og ætti stuðningsfólk almennt ekki að ferðast með mikið af þeim gjaldmiðli með sér til landsins eða ferðast yfirhöfuð með mikið reiðufé á sér.

 

Gisting

Stuðningsfólk er alfarið ábyrgt fyrir eigin gistingu. Á Íslandi hafa nokkrir aðilar haft milligöngu um bæði pakkaferðir með gistingu eða boðið íslensku stuðningsfólki að bóka gistingu. Þá eru ýmsar leitarvélar á netinu sem bjóða almenningi bókunarþjónustu. Á vefsíðu FIFA – hotels.fifa.com – er auk þess hægt að finna leitarvél fyrir hótel sem eru í samstarfi við sambandið.

Heimagisting (t.d. Airbnb) er annar möguleiki, sérstaklega fyrir hópa. Samkvæmt rússneskum reglum er það á ábyrgð þess sem leigir út slíka gistingu að ganga frá öllum skráningarmálum með lögmætum hætti.

ATH: Við komu til Rússlands þurfa handhafar Fan ID skilríkja að skrá gististað sinn innan 24 klst. Þeir sem gista á hótelum ættu að geta gert þetta með aðstoð starfsfólks í móttöku og fyrir heimagistingu ætti fólk að biðja leigusala um aðstoð við þetta en skila þarf upplýsingum á næstu lögreglustöð eða pósthús.

Nokkuð hefur borið á því að óprúttnir aðilar ætli sér að maka krókinn með því að margfalda

verð á gistirými í kringum leikina á HM. Stjórnvöld hafa vitnað í löggjöf frá 2016 (sjá hér í enskri þýðingu: http://government.ru/en/docs/21779/#) sem bannar hækkanir umfram viðmið yfirvalda um eðlilegar hækkanir. Margföldun í verði sé í trássi við reglur og við því verði brugðist, m.a. með því að sekta viðkomandi aðila. Alls óvíst er þó hver sé réttur kaupenda gistingarinnar í þessu samhengi. Því er rétt að árétta að við pöntun eða kaup á gistingu á netinu er nauðsynlegt að kynna sér skilmála samningsins og ganga alltaf úr skugga um að viðkomandi söluaðili (og bókunarsíða) séu viðurkenndir og lögmætir aðilar.

 

Neyðarvakt sendiráðsins í Moskvu

Íslendingar sem lenda í vandræðum geta leitað aðstoðar hjá sendiráði Íslands í Moskvu í síma +7 495 956 7604 eða allan sólarhringinn í gegnum neyðarsíma utanríkisráðuneytisins (+354) 545-9900.

Sendiráðið verður með starfsstöðvar í Volgograd og Rostov í nokkra daga í kringum leiki landsliðs Íslands þar, þangað sem Íslendingar geta leitað í neyð, þ.m.t. þeir sem hafa tapað vegabréfi. Nánari upplýsingar verða auglýstar þegar nær dregur.

 

Hvað með frekari upplýsingar um borgirnar þar sem leikirnir fara fram?

Borgirnar eru frá Kalíningrad við Eystrasalt í vestri, til Katrínarborgar (Ekaterinburg) við Úralfjöll í austri og spanna fjögur tímabelti. Þær eru eftirfarandi:

 

Nafn borgar

Tímamism. við Ísland

Íbúafjöldi

Stærð leikvangar

Áhugaverð staðreynd

Moskva

+3 klst.

12,2 milljónir auk 5 milljóna í nágrenni

Luzhniki: 81.000 og Spartak: 45.360

Í þessari stærstu borg Evrópu er bæði hæsta mannvirki (Ostankino turninn) og bygging (Mercury Tower) álfunnar

Skt. Pétursborg

+3 klst.

5,3 milljónir innan borgar

68.134

Hét Petrógrad 1914-1924 og Leníngrad 1924-1991

Kalíningrad

+2 klst.

450 þúsund

35.212

Hét áður Königsberg og var hluti Prússlands, síðar Þýskalands, fram til 1945

Katrínarborg (Ekaterinburg, Yekaterinburg)

+5 klst.

1,5 milljón

35.696

Er ekki nefnd eftir Katrínu miklu keisaraynju heldur eiginkonu Péturs mikla

Kazan

+3 klst.

1,2 milljón

45.379

Höfuðborg Tatarstans

Nizhny Novgorod

+3 klst.

1,2 milljón

44.899

Fæðingarborg rithöfundarins Maxíms Gorky og var nefnd eftir honum 1932-1990

Rostov-on-Don

+3 klst.

1,1 milljón

45.000

Ragnar Sigurðsson, Sverrir Ingi Ingason og Björn Bergmann Sigurðarson spila allir með FC Rostov

Samara

+4 klst.

1,2 milljón

44.918

Lödu verksmiðjurnar AvtoVAZ eru staðsettar í nágrannaborginni Tolyatti

Saransk

+3 klst.

300 þúsund

45.015

Höfuðborg Mordóvíu

Sochi

+3 klst.

350 þúsund

47.659

Orlofsdvalarstaður og vettvangur vetrar-ÓL 2014

Volgograd

+3 klst.

Rúml. 1 milljón

45.568

Hét Tsaritsyn fram til 1925 og Stalíngrad árin 1925-1961; vettvangur blóðugrar orrustu 1943

 

Sjá upplýsingar um dagskrá og borgirnar á heimasíðu FIFA:

  • http://welcome2018.com/en/matches/
  • http://www.fifa.com/worldcup/destination/index.html

 


Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum