Hoppa yfir valmynd

Frétt

13. apríl 2019 UtanríkisráðuneytiðUtanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra ávarpaði þróunarnefndina

Guðlaugur Þór á fundi þróunarnefndarinnar í dag - myndUtanríkisráðuneytið

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra lagði áherslu á fjölþjóðlegt samstarf, þar á meðal alþjóðaviðskipti, loftslagsmál, mannauð, mannréttinda- og jafnréttismál, í ávarpi sínu í þróunarnefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðins fyrr í dag. Þá ræddi hann um mikilvægi fjármögnunar þróunar, meðal annars með betri skattheimtu, og að koma í veg fyrir ólöglegt fjármagnsflæði og skattaundanskot. 

„Í þessu sambandi er líka nauðsynlegt að beina sjónum að skuldastöðu þróunarríkjanna og aðgerðum til að bregðast við henni. Þá er ég sannfærður um að einkageirinn geti gegnt mikilvægu hlutverki við fjármögnun þróunar,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson.

Ísland á sæti í þróunarnefndinni á árinu 2019 og hélt utanríkisráðherra ávarpið fyrir hönd kjördæmis Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna. Utanríkisráðherra óskaði nýjum forseta bankans, David Malpass, til hamingju með embættið. Malpass lagði í opnunarávarpi sínu áherslu á að öflugu starfi bankans í baráttunni gegn fátækt, fyrir sjálfbærum hagvexti og auknum jöfnuði verði haldið áfram.

Þróunarnefndin er sameiginleg ráðherranefnd Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og sinnir pólitískri stefnumörkun í alþjóðlegri þróunarsamvinnu gagnvart stofnununum tveimur. Nefndin er skipuð 25 ráðherrum frá aðildarríkjum stofnananna, þ.e. einum ráðherra frá hverju kjördæmi í stjórn, ásamt formanni sem er kosinn af þróunarnefndinni. Hún hittist tvisvar á ári í tengslum við vorfundi og ársfundi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Á fundi þróunarnefndarinnar að þessu sinni voru einkum til umræðu innleiðing hlutafjáraukningar Alþjóðabanka til enduruppbyggingar og framþróunar.(IBRD) og Alþjóðalánastofnunarinnar (IFC) og sú stefnumörkun sem fylgir henni. Þá var einnig rædd vinna bankans við að samþætta tæknimál í starfseminni og verkefni í þróunarlöndum. Utanríkisráðherra lýsti í ávarpi sínu ánægju yfir framgangi bankans í innleiðingu stefnumörkunarinnar og stuðningi kjördæmisins við starf bankans og áherslur í innleiðingu nýrrar tækni í þróunarmálum.

Utanríkisráðherra tók einnig þátt í fundi hóps smáríkja innan Alþjóðabankans (Small States Forum). Fimmtíu lönd eru í hópnum, þar á meðal Ísland. Meirihlutinn eru lítil eyríki í Kyrrahafinu og Karíbahafinu. Fundur smáríkjanna er sameiginlegur vettvangur landanna þar sem þeim gefst tækifæri til að vekja athygli alþjóðasamfélagsins á þeim sérstöku áskorunum sem smáríki standa frammi fyrir.

Í ár var þar lögð áhersla á þrjú málefni sem eru sérstaklega mikilvæg fyrir þróun smáríkja: aðlögun og viðnámsþrótt í tengslum við loftslagsbreytingar, sjálfbærni í efnahagslegu og fjárhagslegu tilliti, og bláa hagkerfið og mengun sjávar.

Ávarp utanríkisráðherra beindist sérstaklega að bláa hagkerfinu og lagði hann í ávarpi sínu áherslu á þau tækifæri fyrir smáeyríki sem felast í að nýta auðlindir hafsins á sjálfbæran hátt. Einnig þyrfti að taka alvarlega og vinna gegn þeirri ógn sem stafar af loftslagsbreytingum og mengun í hafi. Guðlaugur Þór áréttaði þar gildi heildrænnar nálgunar og hnattræns samstarfs allra aðila til að tryggja hagsæld landa byggða á bláa hagkerfinu.

Ísland leggur áherslu á málefni hafsins í víðu samhengi, þar með talið verndun sjávar og sjálfbæra nýtingu auðlinda hafsins, bæði innanlands, á alþjóðavettvangi og í verkefnum á sviði alþjóðlegrar þróunarsamvinnu. Þetta endurspeglast í samstarfi Íslands og Alþjóðabankans, en þar er nú lögð aukin áhersla á samvinnu á þessum sviðum með heildstæðri nálgun út frá bláa hagkerfinu.

Niðurstöðuskjal þróunarnefndarinnar

Yfirlýsing frá kjördæmi Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna á fundi þróunarnefndar apríl 2019
 
  • Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi hóps smáríkja innan Alþjóðabankans
  • Guðlaugur Þór Þórðarson á fundi hóps smáríkja innan Alþjóðabankans

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn


Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira