Hoppa yfir valmynd
26. apríl 2024 Utanríkisráðuneytið

Ísland undirritar nýjan rammasamning við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna

Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, ásamt Filippo Grandi, framkvæmdastjóra UNHCR, eftir undirritun rammasamningsins í Genf í gær. - mynd

Nýr rammasamningur um áframhaldandi stuðning íslenskra stjórnvalda við Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) til næstu fimm ára var undirritaður í Genf í gær. Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri utanríkisráðuneytisins, undirritaði samninginn fyrir hönd Íslands ásamt Filippo Grandi, framkvæmdastjóra UNHCR. 

„Meira en 114 milljónir manna eru nú vegalausar á heimsvísu, og þar af er þriðjungur flóttafólk utan heimalands. Það blasir við að við þessari stöðu verður að bregðast og leggja meira af mörkum til þessa mikilvæga málaflokks. Framlög Íslands nýtast Flóttamannastofnuninni í að styðja við viðkvæmustu samfélagshópana á hverjum stað og veita þeim skjól, lífsafkomu og grunnþjónustu,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra. 

Samkvæmt samningnum nemur kjarnaframlag íslenskra stjórnvalda til stofnunarinnar að minnsta kosti 200 milljónum króna árlega á tímabilinu 2024-2028. Með samningnum meira en tvöfaldast samningsbundin framlög Íslands til UNHCR. Um svokölluð sveigjanleg framlög er að ræða, en þannig getur Flóttamannastofnunin ráðstafað fjármagninu þar sem neyðin er mest hverju sinni. Samstarfssamningur um ungliðastöður hjá UNHCR er þegar fyrir hendi. 

UNHCR stendur vörð um réttindi og velferð flóttafólks, fólks á vergangi í heimalandi sínu, ríkisfangslausra, hælisleitenda og fólks sem snúið hefur aftur til síns heimalands. UNHCR er áherslustofnun í mannúðarstarfi Íslands.  

„Ég þakka Íslandi fyrir langvarandi og öflugan stuðning við Flóttamannastofnunina. Framlögin munu hjálpa okkur að bregðast betur við langvarandi og stundum gleymdum krísum“ segir Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR. „Fyrirsjáanleg og sveigjanleg framlög sem þessi eru nauðsynleg fyrir fólkið sem við þjónum. Þau gera Flóttamannastofnuninni kleift að bregðast strax við neyð og veita þeim sem mest þurfa á að halda betri vernd og aðstoð.“ 

Greint var frá því á þriðjudag að samningur við Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (WFP) hafi verið undirritaður í Róm. 

Endurnýjun rammasamninga við samstarfsstofnanir í mannúðarmálum hefur haldist í hendur við samþykkt nýrrar þróunarsamvinnustefnu fyrir tímabilið 2024-2028. Auk samninganna tveggja sem undirritaðir voru í vikunni hefur þegar verið gengið frá samningum af þessu tagi við samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum (OCHA), neyðarsjóð Sameinuðu þjóðanna (CERF) og Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA), auk Alþjóðaráðs Rauða krossins (ICRC). 

  • Martin Eyjólfsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, og Filippo Grandi, framkvæmdastjóri UNHCR, við undirritun samningsins. - mynd

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum