Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. september 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 20. - 26. september 2003

Heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu - átta aðilar bjóða húsnæði til leigu undir nýja heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi
Ríkiskaupum hafa borist upplýsingar frá átta aðilum sem vilja leigja ríkinu húsnæði undir nýja heilsugæslustöð í Voga- og Heimahverfi. Auglýst var eftir fullinnréttuðu húsnæði til langtímaleigu, staðsett á svæðinu milli Dalbrautar, Kleppsvegs-Sæbrautar, Suðurlandsbrautar að Grensásvegi og að Laugardal austan og norðanverðum. Í auglýsingu kom fram að stærð húsnæðisins skyldi vera á bilinu 800 - 900 fermetrar. Á næstunni verður farið yfir upplýsingarnar sem bárust, s.s. um leiguverð, stærð húsnæðis, ástand þess, aðgengi o. fl. Stefnt er að því að taka nýja heilsugæslustöð í Voga- og heimahverfi í notkun seinni hluta næsta árs. Innrétting húsnæðis undir nýja heilsugæslustöð í Salahverfi er á áætlun og verður húsnæðið tilbúið í byrjun nóvember. Rekstur þessarar stöðvar verður með nokkuð öðrum hætti en tíðkast hefur þar sem hann var boðinn út og samið við einkafyrirtæki um reksturinn. Reiknað er með að heilsugæslustöð Salahverfis taki til starfa í byrjun janúar. Á næstu mánuðum er fyrirhugað að auglýsa eftir húsnæði fyrir nýja heilsugæslustöð í Hafnarfirði, til viðbótar þeirri sem er rekin er á Sólvangi.

Ísland skuldbindur sig til að veita 15 milljónir króna í alþjóðlegan sjóð til baráttu gegn alnæmi
Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ávarpaði í vikunni sérstaka ráðstefnu um alnæmi (HIV/AIDS) sem haldin var í New York í vikunni í tengslum við 58. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna. Á ráðstefnunni var fjallað um skuldbindingar og markmið Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn þessari vá. Ráðherra rakti m.a. tölulegar upplýsingar um sjúkdóminn og áhrif hans á heimsvísu. Fram kom að hann hefur kostað yfir tuttugu milljónir manna lífið, yfir fjörutíu milljónir manna: karlar, konur og börn eru ýmis sýkt af HIV-veirunni eða hafa fengið alnæmi og yfir tíu milljónir barna eru munaðarlaus vegna þessa faraldurs. Á síðasta ári smituðust fimm milljónir manna af HIV-veirunni, þar af 800.000 börn og meira en þrjár milljónir manna létust. Ráðherra greindi frá því í ræðu sinni hvernig Ísland hyggst leggja sitt af mörkum til að vinna að markmiðum Sameinuðu þjóðanna í baráttunni gegn HIV/AIDS. Meðal annars sagði hann frá því að Íslendingar hafa skuldbundið sig til að veita fimmtán milljónir króna í alþjóðlegan sjóð: the Global Fund on HIV/AIDS, tuberculosis, and malaria. Sjóðurinn var stofnaður í byrjun síðasta árs og er markmiðið með honum að fjármagna og styrkja áætlanir í þessari baráttu til hjálpar þeim sem mest þurfa á aðstoð að halda.
RÆÐA RÁÐHERRA...

Samstarf Norðurlandaþjóða og Eystrasaltsríkja - upphaf að efldri baráttu gegn fíkniefnaneyslu, smygli og dreifingu fíkniefna
Glæpir sem tengjast sölu og dreifingu fíkniefna verða æ alþjóðlegri. Fíkniefnavandi er vaxandi í Eystrasaltsríkjunum, straumur fíkniefna til annarra landa fer í auknum mæli um Eystrasaltslöndin, ekki síst til Norðurlandanna. Þetta er meðal þess sem fram kom á fundi fimm norrænna ráðherra og starfsbræðra þeirra frá Eystrasaltsríkjunum þremur á Lundi í vikunni. Ráðherrarnir voru sammála um að barátta gegn fíkniefnaneyslu yrði að byggjast á þremur megin þáttum: forvörnum, hertu löggæslu- og tollaeftirliti og meðferð og jafnframt að með auknu samstarfi þjóðanna opnaðist möguleiki á enn öflugri baráttu gegn glæpum sem byggjast á sölu og dreifingu eiturlyfja. Niðurstaða fundarins var sameiginleg viljayfirlýsing ráðherranna átta um samstarf þjóðanna í baráttunni gegn fíkniefnum og sameiginlega stefnumótun þeirra á þessu sviði.
NÁNAR...

Stórátak í tóbaksvörnum - óvenjulegt samstarf álframleiðenda á Norðurlöndunum
Landlæknisembættið, Lýðheilsustöð og Tóbaksvarnarráð veittu í vikunni Aluminiumindustriens Miljøsekretariat (AMS) sem er samstarfsvettvangur álframleiðenda á Norðurlöndum, viðurkenningu fyrir stórátak í tóbaksvörnum meðal starfsmanna sinna. AMS var komið á laggirnar árið 1977. Þessi samstarfsvettvangur er um margt sérstaktur, því þar vinna keppinautar saman að bættum árangri í vinnuumhverfis-, öryggis- og umhverfismálum. Í sumar lauk formlega sameiginlegu átaksverkefni um tóbaksvarnir hjá AMS. Starfsfólki var boðið upp á námskeið til að hætta að reykja og greiddu fyrirtækin allan kostnað við námskeiðin. Mökum var einnig boðin þátttaka í verkefninu. Námskeiðunum fylgdi markviss eftirfylgni og fengu þátttakendur á námskeiðunum stuðning hjúkrunarfræðings í nokkurn tíma á eftir. Starfsfólk Alcan í Straumsvík náði bestum árangri við að hætta að reykja. 12 mánuðum eftir að námskeiðum lauk reyndust 30% þátttakenda reyklausir. Viðurkenning var annars vegar veitt AMS fyrir að standa sameiginlega að slíku átaksverkefni en jafnframt hlaut Alcan í Straumsvík viðurkenningu fyrir sérstaklega góðan árangur þar.

Tuttugu ára starfsafmæli Landssamtaka hjartasjúklinga
Landssamtök hjartasjúklinga eiga 20 ára starfsafmæli 8. október næstkomandi. Í tilefni þess var í dag opnuð sýning í Perlunni sem samtökin standa fyrir þar sem leiðandi aðilar á heilbrigðissviði sýna tæki til hjartalækninga og endurhæfingar. Á fjórða tug fyrirtækja halda kynningar á sýningunni sem kölluð er Hjartaheill. Sýningin stendur í þrjá daga og verða ýmsir viðburðir henni tengdir meðan á opnun stendur. Á sunnudaginn verður hjartagangan sem Sigurður Guðmundsson landlæknir ræsir kl. 14:00. Klukkan 16:00 hefst lokaathöfnin í Perlunni með því að formaður Landssamtaka hjartasjúklinga afhendir Landspítalanum tvær góðar gjafir: hjarta- og lungnadælu af fullkomnustu gerð og Hjartabókina sem ætluð er hjartasjúklingum. Sýningunni og afmælisfagnaðinum lýkur í Perlunni kl. 18:00 á sunnudaginn. Sæunn Stefánsdóttir, aðstoðarmaður heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra flutti ávarp fyrir hönd ráðherra við opnun sýningarinnar í dag og ræddi m.a. um gildi Landssamtaka hjartasjúklinga: "...þau vekja athygli á brýnum hagsmunamálum, opna augu heilbrigðisyfirvalda fyrir því sem betur má fara og knýja félagsmennina til að horfast í augu við allt það sem einstaklingurinn sjálfur getur gert fyrir heilsuna."
ÁVARPIÐ...

Stjórnunarupplýsingar Landspítala - háskólasjúkrahúss, janúar til júlí 2003
Landspítali - háskólasjúkrahúss hefur birt stjórnunarupplýsingar sínar fyrir janúar til júlí 2003. Að þessu sinni er m.a. fjallað um þróun biðlista, greint frá samanburði við þrjú sænsk sjúkrahús hvað varðar meðallegutíma í ákveðnum sjúkdómaflokkum samkvæmt niðurstöðum kostnaðargreiningar, sagt frá starfsemistölum á sjúkrahúsinu og greint frá rekstrarniðurstöðum samkvæmt bráðabirgðauppgjöri fyrir tímabilið janúar til ágúst.
NÁNAR...



Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
26. september 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum