Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. nóvember 2003 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 22. - 28. nóvember

Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík – mat á árangri
Ríkisendurskoðun hefur sent frá sér skýrsluna "Sameining sjúkrahúsanna í Reykjavík. Mat á árangri" þar sem reynt er að meta árangur af sameiningu Ríkisspítala og Sjúkrahúss Reykjavíkur í Landspítala - háskólasjúkrahús. Fram kemur að erfitt sé að gefa afdráttarlaus svör um hvort sameiningin hafi skilað tilætluðum árangri, þar sem ekki hafi verið sett fram mælanleg markmið fyrir sameininguna. Engu að síður eru niðurstöður Ríkisendurskoðunar m.a. þær að kostnaðarlega hafi sameiningin ekki skilað ávinningi en faglega séð hafi hún styrkt sjúkrahúsið. Enn megi þó nýta betur möguleika sem nýja fyrirkomulagið veitir og bæta starfsemina á ýmsum sviðum. Þá segir í skýrslunni að stjórnvöld þurfi að leggja skýrari línur um hlutverk LSH í framtíðinni. Á heimasíðu Ríkisendurskoðunar má lesa fréttatilkynningu um úttektina og þar er einnig hægt að nálgast skýrsluna í heild sinni.
Nánar...

Vinnuhópi verður falið að skoða lög, reglugerðir og alþjóðasamninga sem snerta meðlagsgreiðslur Tryggingastofnunar
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur ákveðið að setja á fót vinnuhóp heilbrigði- og tryggingamálaráðuneytisins og Tryggingastofnunar ríkisins til að fara yfir lög, reglugerðir og alþjóðasamninga sem snerta meðlagsgreiðslur Tryggingastofnunar. Þetta er gert vegna nýrra barnalaga sem tóku gildi 1. nóvember 2003. Setning laganna breyttu ákvæðum er vörðuðu milligöngu Tryggingastofnunar ríkisins um meðlagsgreiðslur til foreldra íslenskra barna erlendis. Þetta kom fram í svari ráðherra við fyrirspurn um málið á Alþingi í vikunni. Fram kom í máli ráðherra að frumvarp til barnalaga var ekki sent heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu til umsagnar og því gafst ekki svigrúm til að kanna hvaða afleiðingar lagabreytingin hafði í för með sér fyrir foreldra íslenskra barna erlendis. Ráðherra sagði að þar sem breytingin væri orðin að lögum hefði hann ákveðið að skipa fyrrnefndan vinnuhóp og að hann vænti þess að hann myndi vinna hratt og skila tillögum sem fyrst.
Svar ráðherra

Svar ráðherra við fyrirspurnum á Alþingi um málefni geðsjúkra
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra svaraði í vikunni munnlegri fyrirspurn um málefni geðsjúkra. Í svari hans kom m.a. fram að innan skamms muni hefjast störf færanlegs teymis fagfólks til að sinna geðsjúkum. Mun teymið byggja á samstarfi Heilsugæslunnar í Reykjavík og geðdeilda, en því er einkum ætlað að sinna geðhjúkrun fólks sem dvalist hefur á geðdeild og styðja það þannig að það geti verið sem lengst utan þeirra. Ráðherra sagði einnig frá því að varðandi úrræði fyrir alvarlega geðsjúka einstaklinga lægi nú fyrir í fjárlagafrumvarpi tillaga um fjárveitingu til lokaðrar deildar, n.k. millistigs milli hefðbundinnar geðdeildar og réttargeðdeildarinnar á Sogni, í samræmi við tillögu nefndar sem fjallaði um málið og skilaði tillögum síðast liðið vor. Svör ráðherra við munnlegum fyrirspurnum á Alþingi eru aðgengileg á heimasíðu ráðuneytisins undir hlekknum þingstörf

Alþjóðlegur baráttudagur gegn alnæmi 1. desember
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) telur að um fimm milljónir manna hafi smitast af HIV-veirunni á þessu ári og að þrjár milljónir manna hafi látist úr sjókdómnum. Stofnunin hefur tekið saman nýja skýrslu um alnæmi í heiminum í tilefni af alþjóðalnæmisdeginum 1. desember næstkomandi. WHO telur að þessar tölur eigi eftir að hækka mikið á næstu árum, aðallega vegna yfirvofandi alnæmisfaraldurs í Austur-Evrópu og Mið-Asíu. WHO leggur á þessu ári áherslu á baráttuna gegn fordómum og útskúfun þeirra sem smitast hafa af HIV/alnæmi. Hér á landi beinir landlæknisembættið athygli landsmanna að því hvort fordómar ríki á íslenskum vinnumarkaði gagnvart þeimi sem smitast hafa af veirunni. Á heimasíðu embættisins er fjallað um þetta og þar segir m.a. "Það eru sjálfsögð mannréttindi HIV-jákvæðra að stunda vinnu og sjá sér farborða eins og annað fólk. Það er aftur á móti miður að þeir sem stunda vinnu, eins og langflestir smitaðra gera, glíma oft við óttann um útskúfun, einelti og jafnvel uppsögn ef þeir láta vitnast á vinnustað sínum að þeir eru smitaðir. Þessu þarf að sporna gegn með aukinni fræðslu og opinni umræðu."
Nánar...

Dómur Hæstaréttar varðandi gagnagrunn á heilbrigðissviði
Hæstiréttur hefur fellt úr gildi ákvörðun landlæknis um að hafna beiðni stúlku sem fór fram á að upplýsingar úr sjúkrasrkám látins föður hennar yrðu ekki fluttar í gagnagrunn á heilbrigðissviði. Héraðsdómur hafði áður staðfest ákvörðun landlæknis en Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að viðurkenna bæri rétt áfrýjanda til að leggja bann við því að þær upplýsingar verði fluttar í gagnagrunninn.
Dómurinn...

Tekjuáætlun - nýtt fyrirkomulag TR vegna útreiknings bóta árið 2004
Í dag og á morgun fá allir lífeyrisþegar senda tekjuáætlun frá Tryggingastofnun ríkisins vegna útreiknings bóta á árinu 2004. Tekjuáætlun er eyðublað þar sem Tryggingastofnun hefur forskráð áætlun um tekjur lífeyrisþega á næsta ári. Lífeyrisþegum er gefinn kostur á að leiðrétta áætlunina, hafi þeir vitneskju um að framtíðartekjur þeirra verði aðrar en hún gerir ráð fyrir. Markmið þessa fyrirkomulags er að tryggja að greiðslur séu réttar á hverjum tíma. Frá þessu er sagt á
heimasíðu Tryggingastofnunar....




Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
28. nóvember 2003

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum