Hoppa yfir valmynd

Frétt

2. apríl 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttapistill vikunnar 27. mars - 2. apríl

Ráðuneytið kynnir aðgerðir til að spara lyfjaútgjöld hins opinbera

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra kynnti í vikunni fyrirhugaðar aðgerðir til að draga úr lyfjaútgjöldum ríkisins. Í fjárlögum er gert ráð fyrir að útgjöld hins opinbera vegna lyfja dragist saman um 450 milljónir króna á árinu og miðast aðgerðirnar við það. Lyfjaverðsnefnd mun á næstunni kynna breytingar á álagningu og verðlækkun einstakra lyfja. Þá verður um næstu mánaðamót tekið upp nýtt viðmiðunarverð sambærilegra lyfja í dýrustu lyfjaflokkunum sem á að hvetja til aukinnar notkunar ódýrari lyfja þegar þau geta komið í stað lyfja sem eru dýrari. Þann fyrsta maí tekur gildi reglugerð um greiðsluþátttöku almannatrygginga í lyfjakostnaði.
Ávarp ráðherra á blaðamannafundi? (pdf.skjal)
Aðgerðir ráðuneytisins – samantekt? (pdf.skjal)

Íslendingar nota 120% meira af bólgueyðandi- og gigtarlyfjum en grannþjóðirnar

Gífurleg aukning hefur orðið á kostnaði s.k. coxíb-lyfja hér á landi á tiltölulega fáum árum. Lyfin sem um ræðir eru bólgueyðandi lyf og gigtarlyf. Árið 1992 var söluverðmæti þessara lyfja 194 milljónir króna en var komið í 570 milljónir króna árið 2003. Íslendingar nota nú yfir 18 skilgreinda dagsskammta (DDD) á hverja 1000 íbúa á dag af coxíb-lyfjum. Sami mælikvarði yfir notkun hinna Norðurlandaþjóðanna á þessum lyfjum nemur 7 – 8 dagskömmtum, þannig að notkun Íslendinga er um 120% meiri.
Nánar... (pdf.skjal)

 

Skýrsla ráðherra um 56. alþjóðaheilbrigðisþingið í Genf

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur lagt fram á alþingi skýrslu um 56. alþjóðaheilbrigðisþingið í Genf 19.–28. maí 2003, fund framkvæmdastjórnar WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar) í Genf 29. maí 2003, fund svæðisnefndar WHO í Evrópu í Vín 8.–11. september 2003 og alþjóðaheilbrigðisdaginn 7. apríl 2003. Alþjóðaheilbrigðisþingið er haldið einu sinni á ári. Það er sá vettvangur sem tekur helstu ákvarðanir um starsfemi stofnunarinnar og markar stefnuna. Meginmarkmið Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er ,,að stuðla að sem bestu heilsufari allra jarðarbúa. Heilbrigði er skilgreint í stofnskrá WHO sem svo að það feli í sér fullkomna líkamlega, andlega og félagslega velferð, ekki einungis að menn séu lausir við sjúkdóma og önnur vanheilindi.” eins og segir í skýrslu ráðherra.
Skýrslan...

 

LSH: Fjölgun skurðaðgerða – fækkun á nær öllum biðlistum

Biðlistar eftir þjónustu Landspítala – háskólasjúkrahúss eru birtir í nýjasta hefti stjórnunarupplýsinga sjúkrahússins fyrir janúar – febrúar og þróun þeirra síðasta árið. Þar kemur fram að fækkað hefur á nánast öllum biðlistum. Á skurðsviði er fækkunin mest. Í mars í fyrra biðu 3.663 eftir skurðaðgerð en nú bíða 2.400 manns eftir aðgerð. Fækkunin nemur um 35%. Skurðaðgerðum fjölgaði í janúar og febrúar um 5,7% frá fyrra ári. Aðgerðum fjölgaði í almennum skurðlækningum, dagdeildaraðgerðum augnlækninga, barnaskurðlækningum, brjóstholsskurðlækningum, bæklunarlækningum, þvagfæraskurðlækningum og æðaskurðlækningum. Um þetta og fleira má lesa í stjórnunarupplýsingum sjúkrahússin sem birtar eru á heimasíðu þess.
Nánar...

 

 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
2. apríl 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum