Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. mars 2005 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Dómar uppkveðnir árið 2004

Á árinu 2004 hafa verið kveðnir upp a.m.k. 20 dómar sem varða starfsmannamál hjá ríkinu. Mál þessi eru af ýmsum toga en í flestum þeirra var deilt um það hvort laun hefðu verið vangreidd eða ekki en í því sambandi reynir oftast á túlkun kjarasamninga. Þá var í nokkrum málum deilt um rétt til skaðabóta eða biðlauna vegna starfsloka en í því sambandi reynir á túlkun ákvæða laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins (stml.).

Dómarnir skiptust þannig:

  • Tíu dómar frá Hæstarétti (Hrd.), þar af fimm sambærilegir um viðurkenningu á hærri röðun í launaflokk í tengslum við vörpun yfir í nýtt launakerfi.
  • Níu héraðsdómar, þar af nokkrir sambærilegir. Annars vegar tveir sambærilegir sýknudómar vegna kröfu um slysabætur og hins vegar tveir sambærilegir dómar um greiðslu vangreiddra launa vegna rangrar röðunar í launaflokk. Dómarnir eru allir nema einn kveðnir upp hjá Héraðsdómi Reykjavíkur.

  • Nánari upplýsingar um dómana 20:

Dómur Félagsdóms í máli nr. F-2/2004. Viðurkennd var samningsaðild Starfsmannafélags ríkisstofnana (SFR) fyrir rúmlega 40 nýja félagsmenn vegna starfa þeirra hjá Landspítala-háskólasjúkrahúsi en þeir höfðu verið ráðnir til starfa á kjörum samkvæmt kjarasamningi ríkisins og Eflingar-stéttarfélags. Jafnframt var viðurkennt að kjarsamningur SFR skuli gilda um laun og kjör sömu einstaklinga frá og með 1. janúar 2004, þ.e. degi eftir að síðasta samningstímabil kjarasamnings ríkisins við Eflingu-stéttarfélag rann út.

Hrd. í máli nr. 390/2004. Háskóli Íslands var sýknaður af kröfum háskólakennara þess efnis að samþykktir háskólaráðs um að hverfa frá eldri reglum um lækkun kennsluskyldu skyldi ekki hafa áhrif á kennsluskyldu hans sem hafði áður verið minnkuð skv. eldri reglum. Ekki var talið að með breytingum þessum hefðu réttindi kennarans verið skert í merkingu 19. gr. stml.

Hrd. í máli nr. 371/2003. Áminning veitt lögreglumanni fyrir fyrir ölvun í starfi felld úr gildi vegna ófullnægjandi sönnunar um ölvunarástand hans og honum dæmdar 100 þ.kr. í miskabætur.

Fimm Hrd. í málum nr. 349, 350, 351,352 og 353 frá 2003. Viðurkenndur var réttur lögreglumanna til hærri röðunar/vörpunar í launflokk í nýju launakerfi samkvæmt kjarasamningi, þ.e. vegna starfsreynslu við önnur störf hjá ríki og sveitarfélögum en lögreglustörf.

Hrd. í máli nr. 366/2003. Viðurkennt var að bakfærsla launa framkvæmdastjóra ríkisstofnunar var ólögmæt en bakfærslan og þar með launafrádrátturinn höfðu verið gerð í því skyni að leiðrétta ofgreidd laun. Í því sambandi reyndi á túlkun samnings um starfslok viðkomandi en sönnunarbyrðin í því efni var lögð á íslenska ríkið.

Hrd. í máli nr. 341/2003. Málinu var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar af hálfu stefnanda/kennara við Tækniháskóla Íslands en hann krafðist greiðslu vangoldinna launa þar sem vinnumati á tilteknum áfanga hafði verið breytt.

Hrd. í máli nr. 4/2004. Málinu var vísað frá héraðsdómi vegna vanreifunar af hálfu stefnanda/ríkisstarfsmanns. Starfsmaðurinn hafði lent í alvarlegu umferðarslysi á leið heim úr vinnu sem leiddi til varanlegrar örorku. Hann taldi sig eiga rétt á hærri slysatryggingabótum skv. ákvæðum kjarsamnings (reglna nr. 30/1990) heldur en honum höfðu verið greiddar þar sem leggja bæri, í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993, fjárhagslega örorku hans til grundvallar.

Héraðsd. Rvk. í máli nr. E-45/2004. Íslenska ríkið var sýknað af kröfu fyrrum útvarpsmanns um biðlaun samkvæmt bráðabirgðaákvæði stml. Hann hafði starfað um nokkurt árabil hjá ríkinu í tíð eldri stml. og hóf aftur störf mánuði eftir gildistöku núgildandi stml.

Héraðsd. Rvk. í máli nr. 3471/2004. Skaða- og miskabætur upp á eina milljón króna dæmdar fyrrum tollverði vegna ólögmætrar frávikningar úr embætti í kjölfar lausnar um stundarsakir og álits nefndar skv. 27. gr. stml. Tollvörðurinn var grunaður um refsiverða háttsemi í starfi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. alm. hegningarlaga en var sýknaður í sakamáli sem höfðað var á hendur honum vegna þessa. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Héraðsd. Rvk. í máli nr. 14915/2003. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum lögreglumanns á Keflavíkurflugvelli um viðurkenningu á rétti hans samkvæmt kjarasamningi til greiðslu 30 mínútna ferðatíma við mætingar á aukavaktir utan varðskrár.

Héraðsd. Rvk. í máli nr. E-14885/2003: Skaðabótaábyrgð íslenska ríkisins á tjóni hjúkrunarfræðings viðurkennd vegna þess atviks er geðfatlaður maður réðst á hana í sumarferð dagdeildar og dagvistunardeildar Landspítala-háskólasjúkrahúss, Kleppsspítala.

Héraðsd. Rvk. í málum nr. E-7516/2003 og E-7517/2003. Íslenska ríkið var sýknað af kröfum lögreglumanna um greiðslu bóta skv. ákvæðum kjarasamnings sem svöruðu til slysabóta frá Tryggingastofnun ríkisins (TR) vegna varanlegrar læknisfræðilegrar örorku þeirra sem stafaði af meiðslum sem þeir urðu fyrir í kappleikjum tengdum störfum sínum. Áður hafði TR hafnað umsóknum þeirra um slysabætur og Hæstiréttur staðfest þá afgreiðslu (mál nr. 421/2002), enda taka slysatryggingar almannatrygginga ekki til slysa við íþróttaæfingar, íþróttasýningu eða íþróttakeppni nema þær séu á vegum viðurkennds íþróttafélags og undir stjórn þjálfara. Dómunum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Héraðsd. Rvk í málunum nr. E-2938/2004 og E-2939/2004. Íslenska ríkinu var gert að greiða tveimur lögreglumönnum í afleysingastörfum vangreidd laun. Vangreiðslan stafaði af því að þeim hafði verið raðað í lægri launaflokk (starfaflokk) heldur en ákvæði kjarsamnings og stofnanasamnings kváðu á um. Hæstiréttur Íslands hafnaði beiðni íslenska ríkisins um áfrýjunarleyfi.

Héraðsd. Austurlands í máli nr. E-8/2004. Heilbrigðisstofnun Austurlands var gert að greiða fyrrum starfsmanni (rafeindavirkja) rúmlega 840 þ.kr. í skaðabætur vegna ólögmætrar uppsagnar. Honum var sagt upp á reynslutíma en dómurinn sagði að af orðalagi uppsagnarbréfsins væri ljóst að uppsögnin ætti rætur að rekja til ástæðna sem greindar eru í 21. gr. stml. Því hafi borið að veita starfsmanninum áminningu áður en til uppsagnar kom og gefa honum kost á að bæta ráð sitt í samræmi við ákvæði 41. gr. stml. Dóminum var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum