Hoppa yfir valmynd

Frétt

6. apríl 2005 Forsætisráðuneytið

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði
Sjafnargötu 6, 101 Reykjavík
Netfang: [email protected]


Yfirlýsing

Þjóðarhreyfingin – með lýðræði er þverpólitísk og óflokksbundin grasrótarhreyfing, sem vinnur að virkara lýðræði á Íslandi. Hreyfingin freistar þess meðal annars að koma á framfæri viðhorfum almennings til stjórnarskrármálefna, sem mikill samhugur er um meðal þjóðarinnar, en eiga ekki alltaf upp á pallborðið hjá ósveigjanlegu ríkisvaldi. Á liðnu ári barðist Þjóðarhreyfingin gegn meingölluðu fjölmiðlafrumvarpi og gegn ólýðræðislegum stuðningi íslenskra stjórnvalda við ólöglega hernaðarinnrás í Írak.

Þjóðarhreyfingin hyggst halda áfram baráttu sinni fyrir útbreiddum viðhorfum almennings í tengslum við þá stjórnarskrárvinnu, sem nú er hafin af hálfu Alþingis. Hreyfingin telur það hlutverk sitt að fylgjast náið með framvindu málsins og veita nauðsynlegt aðhald af fremsta megni. Í fyrstu leggur hreyfingin áherslu á framhald baráttunnar undanfarna mánuði. Það mun hún gera með því að:

  • Berjast fyrir rétti þjóðarinnar til þess að njóta áfram þess málskotsréttar, sem þjóðkjörinn forseti fer með samkvæmt 26. gr. stjórnarskrárinnar. Jafnframt að sá réttur verði betur tryggður en nú er með því að bæta við ákvæðið nýrri málsgrein um, að allir kosningarbærir menn í alþingiskosningum eigi atkvæðisrétt í þjóðaratkvæðagreiðslu, er fram fari innan 2 mánaða frá synjun forseta. Enn fremur að einfaldur meirihluti þeirra, sem þátt taka í atkvæðagreiðslunni, ráði úrslitum um samþykkt eða synjun frumvarpsins.
  • Berjast fyrir lögfestingu nýs ákvæðis í stjórnarskrá þess efnis, að íslenskur her verði aldrei settur á stofn og að Ísland fari ekki með stríð á hendur neinu öðru ríki eða þjóð. Enn fremur að ríkisstjórn Íslands verði með slíku ákvæði bannað að styðja í orði eða verki hernaðaríhlutun erlends ríkis eða ríkjasamtaka gegn öðrum ríkjum, nema Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi veitt ótvíræða heimild til hennar og Alþingi Íslendinga styðji þá ákvörðun.

Auk þessara grundvallaratriða mun hreyfingin vinna að fleiri málum í tengslum við endurskoðun stjórnarskrárinnar. Skulu hér einungis nefnd tvö mál: (1) Mikilvægt er að undirbúa löggjöf um þjóðaratkvæðagreiðslur til þess að efla beint lýðræði. (2) Brýnt er að tryggja sem best skipun æðstu embættismanna og dómara án óeðlilegra pólitískra afskipta til þess að auka traust almennings á hornsteinum lýðræðis í landinu.

Breytingar á stjórnarskránni skal bera undir kjósendur í sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu, þar sem eingöngu stjórnarskrármálið er á dagskrá.

Reykjavík, 17. mars 2005

f.h. Þjóðarhreyfingarinnar

Hans Kristján Árnason, framkvæmdastjóri

Ólafur Hannibalsson, talsmaður


Til Stjórnarskrárnefndar
b.t. Páls Þórhallssonar, ritara
Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
150 Reykjavík
Netfang: [email protected]



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum