Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. maí 2005 Heilbrigðisráðuneytið

Samþykkt frumvörp heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra

Tvö frumvörp Jón Kristjánssonar, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, urðu að lögum á síðustu dögum þess þings sem frestað var 11. maí s.l. Annars vegar varð frumvarp til breytinga á lögum nr. 117/1993, um almannatryggingar, með síðari breytingum, eða tannlækningafrumvarp að lögum. Hins vegar varð að lögum frumvarp til breytinga á lyfjalögum og lögum um heilbrigðisþjónustu að lögum. Fyrrnefnda frumvarpið sem nú er orðið að lögum var lagt fram á Alþingi í tengslum við heilbrigðisáætlun til ársins 2010. Meðal forgangsverkefna í áætluninni er bætt tannheilsa landsmanna. Skýr markmið voru sett fyrir ungmenni og eldri borgara. Þau voru annars vegar að lækka tíðni tannskemmda (DFMT) 12 ára barna í 1,0 eða minna og hins vegar að meira en helmingur fólks 65 ára og eldra hafi a.m.k. 20 tennur í biti. Ákvæði í 37. gr. núgildandi almannatryggingalaga þóttu ekki samræmast settum markmiðum heilbrigðisáætlunar þar sem Tryggingastofnun ríkisins var aðeins heimilt að endurgreiða tannlæknakostnað við laus tanngervi en ekki föst. Þessu hefur nú verið breytt með nýju lögunum og verður TR heimilt skv. reglugerð að taka þátt í kostnaði elli- og örorkulífeyrisþega vegna fastra tanngerva framan við tólf ára jaxla. Síðarnefnda frumvarpið sem varð að lögum fól í sér að Lyfjastofnun er nú falið það hlutverk að hafa eftirlit með starfsemi blóðbanka, þ.e. eftirlit með meðferð, geymslu og meðhöndlun blóðs og blóðafurða. Landlækni er jafnframt falið að fara með eftirlit með starfseminni samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum