Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnunni Hreinn ávinningur

Ráðstefnustjóri

Ágætu ráðstefnugestir

Það er mér mikil ánægja að ávarpa ykkur hér í dag. Fagnaðarefni er að Samtök Atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Alþýðusamband Íslands og Umhverfisfræðsluráð hafi ákveðið vinna saman að því að skipuleggja þessa ráðstefnu um umhverfisstarf í fyrirtækjum. Í fámenninu í okkar ágæta þjóðfélagi er nauðsynlegt að aðilar vinni saman – ekki síst á sviði umhverfismála sem snerta okkur öll á svo marga vegu.

Það var markmið ráðstefnuhaldara hér í dag að varpa ljósi á mismunandi áherslur fyrirtækja í umhverfisstarfi sínu og jafnframt að kynna þau umhverfisstjórnunarkerfi sem þau vinna eftir. Í ráðstefnugögnum er samantekt um helstu umhverfisstjórnunarkerfi sem fyrirtæki vinna eftir hér á landi auk þess sem vísað er til ítarefnis um hvert kerfi fyrir sig. Vonandi fer þeim fyrirtækjum fjölgandi sem taka upp slíkt kerfi sjálfum sér og umhverfinu til heilla.

Á degi Umhverfisins þann 25. apríl sl. veitti ég umhverfisviðurkenningu umhverfisráðuneytisins, Kuðunginn, og var það í tíunda sinn sem sú viðurkenning var veitt. Að þessu sinni hlaut Orkuveita Reykjavíkur Kuðunginn en jafnframt voru Málningu, prentsmiðjunni Hjá GuðjónÓ og Prentsmiðjunni Odda veittar sérstakar viðurkenningar fyrir framúrskarandi starf sitt að umhverfismálum á undanförnum árum. Við ákvörðun um veitingu Kuðungsins hafði talsverða þýðingu að Orkuveitan hafði lokið við að innleiða umhverfisstjórnunarstaðalinn ISO 14001.

Vægi umhverfismála er vaxandi í þjóðmálaumræðu á Íslandi. Augljóst er að þau eiga eftir að fá enn meiri athygli á næstu árum. Menn gera sér æ betur grein fyrir því hve samofin umhverfismál og velferðarmál eru. Velgengni fyrirtækja og samkeppnisstaða ræðst í auknum mæli af því hversu vel þau hugsa um umhverfisáhrif starfseminnar.

Þegar staða okkar Íslendinga í umhverfismálum er borin saman við stöðu margra annarra vestrænna þjóða blasir við að við erum um margt í öfundsverðri stöðu. Hér er hlutfall endurnýjanlegrar orku í orkubúskap landsins það hæsta sem þekkist, mengun er tiltölulega lítil og í landinu er að finna einstaka náttúru og víðerni fjarri byggð sem nútímamaðurinn sækir í vaxandi mæli til afþreyingar. Þessa stöðu ber okkur að nýta bæði til að styrkja samkeppnisstöðu landsins í framtíðinni en um leið til að sýna öðrum þjóðum fordæmi í umhverfisvernd og framkvæmd sjálfbærrar þróunar.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 2003 kemur fram að meðal helstu markmiða hennar er að Ísland verði áfram forystuþjóð í umhverfismálum. Þar segir einnig að unnið verði að því að auka ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja í umhverfismálum. Einn liður í því að ná þessum markmiðum er að ríkið sýni frumkvæði í vistvænum innkaupum og hvetji aðra til að fylgja því fordæmi. Þannig eru seljendur hvattir til að bjóða umhverfisvænar vörur og kaupendur hvattir til að kaupa slíkar vörur.

Í þessu sambandi er rétt að hafa í huga að hið opinbera er verulega stór neytandi eða kaupandi vöru, með um fimmtung allra innkaupa í þjóðfélaginu. Það er því ljóst að eftir nokkru er að slægjast fyrir framleiðendur og innflytjendur að bjóða vörur sem falla að vistvænni innkaupastefnu ríkisins. Stefna ríkisins að þessu leyti er skýr og í innkaupastefnu frá 2002 segir að við innkaup skuli tekið tillit til umhverfissjónarmiða jafnt sem kostnaðar og gæða. Séu vörur sambærilegar að öðru leyti beri að velja þá tegund sem teljist síður skaðleg umhverfinu.

Á undanförnum árum hefur einnig verið unnið að samvinnuverkefni um vistvæn innkaup á milli ríkisins og nokkurra stærstu sveitafélaga landsins. Megináhersla er lögð á að vistvæn innkaup eigi að fela í sér hagsýni og ráðdeild. Samvinnuverkefni þetta er á því stigi að vinna við gerð umhverfisskilyrða sem vörur verða að uppfylla er hafin og niðurstaða komin í þremur vöruflokkum. Verkefnið er því komið af hugmyndastigi og þess sjást þegar merki í útboðum bæði hjá ríki og sveitarfélögum.

Sú hugsun sem lögð er til grundavallar vistvænum innkaupum er byggð á sjálfbærri þróun og umgengni manna við auðlindir. Í vistvænum innkaupum felst sú grundvallar skoðun að skynsamleg nýting auðlinda skili sér í samkeppnishæfu verði vöru og þjónustu. Vistvænar vörur eru í samkeppni á forsendum líftímakostnaðar og gæða en ekki einvörðungu á forsendum lægsta listaverðs. Með aðgerðum sínum í þessum efnum væntir ríkið þess að ná því markmiði sínu að auka hlutfallslega notkun umhverfisvænna vara án þess að grípa til reglusetningar eða annarra íþyngjandi aðgerða. Ég bind raunar vonir við að aðrir muni einnig í auknum mæli stunda vistvæn innkaup.

Ágætu áheyrendur

Ég vil að lokum minna á að hér á eftir verður borinn fram hádegisverður þar sem okkur gefst tækifæri til þess að spjalla um efni erindanna sem hafa verið flutt hér á ráðstefnunni Að lokum vil ég þakka ráðstefnustjóra, ræðumönnum, skipuleggjendum og starfsmönnum þessarar ráðstefnu fyrir framlag þeirra.

Ég segi ráðstefnunni Hreinn ávinningur slitið.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum