Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. nóvember 2005 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ársfundi Umhverfisstofnunar og náttúruverndarnefnda sveitarfélaga

Góðir fundarmenn,

Það er ánægjulegt að vera með ykkur hér í dag til þess að ræða það sem efst er á baugi í náttúruverndarmálum og sérstaklega málefni sem lúta að starfssviði náttúruverndarnefnda sveitarfélaga. Náttúruverndarefndir eru að mínu mati afar nauðsynlegur hlekkur í framkvæmd náttúruverndar hér á landi, þær eru ráðgjafar- og eftirlitsaðilar fyrir sveitarstjórnir og samstarfsaðilar Umhverfisstofnunar og umhverfisráðuneytisins í náttúruverndarmálum. Því er afar gagnlegt að hafa þessa árlegu fundi með ykkur og þeir undirstrika mikilvægi nefndanna.

Við í umhverfisráðuneytinu álítum þetta kjörinn vettvang til þess að fara yfir og veita upplýsingar um það sem er að gerast á vettvangi náttúruverndar á hverjum tíma. Þá er ekki síður áríðandi fyrir okkur að fá hugmynd um það sem er að gerast víðs vegar um landið hjá ykkur á þessu sviði.

Á yfirstandandi þingi er fjallað um nokkur frumvörp sem snerta náttúruvernd og starfsemi náttúruverndarnefnda. Ég mun ekki fara nákvæmlega yfir þau öll hér en vil þó nefna að ég hef þegar mælt fyrir frumvarpi sem nú er til umfjöllunar á Alþingi um breytingu á lögum um náttúruvernd. Frumvarpið felur í sér breytingu á framkvæmd laganna um efnistöku og frágang eldri náma og um það með hvaða hætti binda megi leyfi um töku efna úr gömlum námum. Tilgangurinn með frumvarpinu er ekki að koma í veg fyrir efnistökuna heldur fyrst og fremst að tryggja virkt eftirlit af hálfu náttúruverndaryfirvalda og vönduð vinnubrögð, svo að efnistakan fari fram, eins og kostur er, í sátt við umhverfið og einnig að frágangur náma við lok efnistöku verði með samræmdum hætti, hvort sem um er að ræða gamlar eða nýjar námur.

Ég hef einnig mælt fyrir frumvarpi um upplýsingarétt um umhverfismál, en þetta frumvarp er m.a. tilkomið vegna tilskipunar frá Evrópusambandinu. Það byggir auk þess að hluta til á ákvæðum Árósasamningsins um upplýsingar um umhverfimál. Markmið frumvarpsins er að tryggja almenningi aðgang að upplýsingum um umhverfismál, sem stjórnvöld hafa yfir að ráða eða geymdar eru fyrir þeirra hönd, til að stuðla að sterkari vitund um málefni á umhverfissviði, frjálsum skoðanaskiptum og aukinni þátttöku almennings í töku ákvarðana um umhverfismál.

Auk þess bíður umræðu á Alþingi frumvarp um framlengingu á stuðningi ríkisins við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, frumvarp um umhverfismat áætlana verður lagt fram á Alþingi í dag og frumvarp til breytingar á skipulags- og byggingarmálum verður lagt fram eftir áramót svo nokkuð sé nefnt.

Undanfarið hefur umræðan um akstur utan vega, sérstaklega torfæruhjóla, og náttúruspjöll af þeirra völdum verið til umræðu í fjölmiðlum. Í tilefni af því vil ég nefna að í vor var breytt reglugerð um umgengni við náttúruna til þess að hnykkja á ákvæðum um umferð vélknúinna ökutækja í náttúru landsins. Umferð vélknúinna ökutækja utan vega er skýrt bönnuð, nema á snævi þakinni jörð og jöklum svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum. Akstur á torfærutækjum er eingöngu heimill á svæðum sem samþykkt hafa verið fyrir akstursíþróttir.

Ráðuneytið hefur leitað til sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um að þau stuðli að því að komið verði upp svæðum fyrir torfærutæki. Það er áríðandi að sveitarfélögin og samtök akstursíþróttamanna vinni saman að því að finna lausn á þessu máli. Ég tel mikilvægt að náttúruverndarnefndir láti þessi mál til sín taka enda er um að ræða brýnt náttúruverndarmál. Sveitarfélagið Ölfus hefur þegar brugðist við óskum torfærumanna með svæði í Jósepsdal og er það lofsvert framtak. Þetta fullnægir þó ekki nema broti af þörfinni hér á höfuðborgarsvæðinu og því er mikilvægt að fleiri sveitarfélög fari að huga að möguleikum á skipulagningu slíkra svæða.

Umferð á hálendinu og akstur utan vega í óbyggðum hefur jafnframt verið til umræðu. Nefnd sem skipuð var til þess að gera tillögur um vegi og slóða í óbyggðum skilaði tillögum sínum nú í vor og ég tel brýnt að það liggi fyrir hvaða leiðir á hálendinu heimilt er að aka og hvar menn teljast vera utan vega. Mikilvægt er að þetta verkefni gangi hratt fyrir sig og er að því stefnt.

Náttúruverndaráætlun 2004-2008 var samþykkt á Alþingi vorið 2004 er nú unnið að því að kynna tillögurnar ítarlega fyrir íbúum þeirra sveitarfélaga sem 14 svæði áætlunarinnar ná yfir. Þetta er liður í undirbúningi að viðræðum við landeigendur og sveitarfélögin um friðlýsingu og lögum samkvæmt fer Umhverfisstofnun með framkvæmdina. Áætluninni hefur almennt verið vel tekið og nú lítur út fyrir að fyrsta svæðið, Guðlaugstungur norðan Langjökuls og Hofsjökuls, verði friðlýst á næstunni og jafnvel þegar á þessu ári. Á næstu 3 árum er svo stefnt að því að ljúka friðlýsingu hinna 13 svæðanna, en sum þeirra eru víðáttumikil. Í nokkrum tilvikum eru svæði háð eignarhaldi fjölmargra aðila sem flækir samningaviðræður og getur leitt til þess að langan tíma taki að ná samkomulagi um friðlýsinguna, enda fer hún ekki fram nema með samkomulagi við eigendur. Samhliða framkvæmd fyrstu náttúruverndaráætlunarinnar verður síðan farið að huga að undirbúningi næstu áætlunar fyrir tímabilið 2009-2013 í samvinnu við Umhverfisstofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í umhverfisráðuneytinu er nú unnið að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Ætlunin er að þjóðgarðurinn nái á milli stranda í suðri og norðri. Fyrir ári var stigið fyrsta skrefið í þessa átt þegar Skaftafellsþjóðgarður var þrefaldaður að stærð og þessa dagana er verið að kalla eftir tilnefningum frá sveitarfélögum og umhverfissamtökum að fulltrúum í nefnd sem verður ráðuneytinu til ráðgjafar í þessu efni. Grundvöllur þessa starfs verður skýrsla nefndar um stofnun þjóðgarðs eða verndarsvæðis norðan Vatnajökuls frá því í fyrra. Í vetur og fram á næsta haust verður unnið af kappi að þessu brýna náttúruverndarmáli, en þá hyggst ég leggja fram frumvarp um þjóðgarðinn.

Að lokum vil ég minnast á Umhverfisþing sem fram fer á morgun og á laugardag. Umhverfisþing er haldið á tveggja ára fresti og er í annað hvort skipti fjallað um málefni náttúruverndar en þess á milli um sjálfbæra þróun, sem að þessu sinni er meginviðfangsefni þingsins. Fjallað verður um endurnýjun og endurskoðun á stefnumörkun um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi, Velferð til framtíðar. Ég vonast til að sjá sem flest ykkar á Umhverfisþinginu.

Ég sé á dagskrá þessa ársfundar að hér munu fara fram áhugaverðar umræður. Von mín er að þær verði gagnlegar fyrir mikilvægt starf náttúruverndarnefnda sveitarfélaganna að náttúruverndarmálum.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum