Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. janúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Ný heilsugæslustöð – Heilsugæslan Glæsibæ

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, tók síðdegis formlega í notkun nýja heilsugæslustöð, Heilsugæsluna – Glæsibæ. Heilsugæslustöðin er á þriðju hæð verslunarmiðstöðvarinnar Glæsibæ og er þjónustusvæði stöðvarinnar Voga- og Heimasvæði. Hverfið markast af svæðum austan Dalbrautar norðan Laugardals og norðan Miklubrautar frá Grensássvegi að Elliðaárvogi. Um 9000 manns búa á 3400 heimilum á svæðinu.

Á Heilsugæslustöðinni Glæsibæ verður veitt almenn læknis- og hjúkrunarþjónusta, slysa- og bráðaþjónusta, símaráðgjöf  og þar verður einnig síðdegisvakt. Stöðin sér einnig um almenna heilsuvernd, mæðravernd, ung- og smábarnavernd, skólaheilsugæsla og heilsuvernd aldraðra ásamt því að bólusetja fólk. Við hönnun og skipulag starfseminnar í Glæsibæ var haft að leiðarljósi að þar yrði lögð áhersla á rafræn samskipti. Það felur meðal annars í sér að sjúkraskrár verða vistaðar nær rafrænu formi og söfnun heilsufarsupplýsinga á pappír verða hverfandi.

 

Í frétt frá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um hina nýju stöð segir m.a.: ”Íbúar á þessu svæði  hafa hingað til sótt heilsugæsluþjónustu á aðrar stöðvar á höfuðborgarsvæðinu þó einkum á Heilsugæsluna í Lágmúla. Þaðan flyst einn heilsugæslulæknir, Björn Gunnlaugsson og er þeim skjólstæðingum sem hann hefur þjónað ætlað að sækja til Heilsugæslunnar í Glæsibæ. Öðrum íbúum á þessu svæði er hér með boðið að skrá sig hjá þeim heilsugæslulæknum sem munu starfa við stöðina. Þrír heilsugæslulæknar hefja nú störf á stöðinni, en sex læknar verða á stöðinni þegar hún verður full mönnuð.

 

Yfirlæknir og hjúkrunarforstjóri heilsugæslunnar verða til viðtals varðandi skráningu á stöðina frá 23. – 27. janúar milli kl 15 og 17. Yfirlæknir Heilsugæslunnar Glæsibæ er Kristján G. Guðmundsson og hjúkrunarforstjóri er Sigrún K. Barkardóttir.

 

Um er að ræða um 800 fermetra húsnæði á þriðju hæð í vesturhluta verslunarmiðstöðvarinnar á hæðinni fyrir ofan Læknastöðina. Inngangur er um báða aðalinnganga verslunarmiðstöðvarinnar en stigagangur og lyfta er við vesturinngang.

 

Húsið er byggt árið 1970 en heilsugæslan er í nýrri hæð sem byggð var á árinu 2005. Húsið er teiknað af Helga Hjálmarssyni arkitekt, hjá Teiknistofunni Óðinstorgi. Húsnæðið er í eigu Íslenskra Aðalverktaka sem byggðu húsnæðið og hefur Heilbrigðis- og tryggingaráðuneytið hefur gert langtímaleigusamning við félagið fyrir hönd heilsugæslunnar.”



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum