Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. febrúar 2006 Heilbrigðisráðuneytið

Endurskoðun heilbrigðisþjónustulaga – drög að frumvarpi

Nú liggja fyrir drög að frumvarpi um breytingar á lögum um heilbrigðisþjónustu og hefur frumvarpið verið sent út af hálfu endurskoðunarnefndarinnar. Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, skipaði í október 2003 nefnd til að endurskoða lög nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu, en brýnt þótti að taka lögin til endurskoðunar í ljósi breytinga sem orðið hafa í heilbrigðisþjónustunni. Við skipan nefndarinnar var haft að leiðarljósi að freista þess að ná sem víðtækastri sátt um breytingarnar og því voru skipaðir í endurskoðunarnefndina m.a. fulltrúar stjórnmálaflokka, aðila vinnumarkaðarins, stéttarfélaga og hagsmunasamtaka. Formaður nefndarinnar er Guðríður Þorsteinsdóttir, skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Nefndin hefur unnið mikið starf og haldið fjölda funda og liggja nú fyrir drög að frumvarpi til laga um heilbrigðisþjónustu, sem nefndin hefur nýverið sent út til umsagnar. Frestur til að veita umsögn er til 24. febrúar 2006.  Nefndin mun síðan endurskoða frumvarpsdrögin með hliðsjón af umsögnum og skila loks tillögum sínum til ráðherra. Hægt er að senda umsagnir um frumvarpið til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins að Vegmúla 3, 150 Reykjavík, eða í tölvupósti á eftirfarandi netfang: [email protected].

 

Sjá nánar: www.heilbrigdisraduneyti.is/log-og-reglugerdir/nr/2113/

 

 



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum