Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. mars 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á níundu landsráðstefnu Staðardagskrár 21

Ágætu ráðstefnugestir,

Á næsta ári verða liðin 10 ár frá því að hornsteinn var lagður að farsælu starfi íslenskra sveitarfélaga að Staðardagskrá 21 á stórri ráðstefnu á Egilsstöðum í júní 1997. Í kjölfar þess mikla áhuga sem þar kom fram hófu umhverfisráðuneytið og Samband íslenskra sveitarfélaga samstarf um að aðstoða íslensk sveitarfélög við að móta stefnu í anda Staðardagskrár 21 í samræmi við samþykktir Heimráðstefnunnar í Ríó árið 1992.

Fyrsti samningurinn um samstarfið var undirritaður í mars 1998. Allar götur síðan hefur fjöldi sveitarfélaga unnið af krafti við að flétta hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar inn í stefnu sína og starfsemi.

Óhætt er að fullyrða að mikill árangur hefur náðst á þessum árum. Rúmlega 60 sveitarfélög hafa tekið þátt í starfi að Staðardagskrá 21 og 25 sveitarstjórnir hafa sett sér framkvæmdaáætlun í anda Staðardagskrár 21.

Síðustu mánuðina hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með starfi að Staðardagskrá 21 í nokkrum af fámennustu sveitarfélögum landsins. Það starf nýtur fjárstuðnings af Byggðaáætlun og standa vonir til að framhald geti orðið á því þegar ný byggðaáætlun öðlast gildi. Tillaga til þingsályktunar um nýja byggðaáætlun er nú til umfjöllunar á Alþingi.

Í byrjun desember á nýliðnu ári var undirritaður nýr samningur um samstarf umhverfisráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um starf að Staðardagskrá 21 á landsvísu.

Samstarf sveitarfélaganna og umhverfisráðuneytisins um Staðardagskrá 21 hefur að mínu mati verið til fyrirmyndar og má margt af því læra um gildi samstarfs milli þessara tveggja meginstoða í íslenskri stjórnsýslu.

Ég tel augljóst að starfið að Staðardagskrá 21 hér á landi hefur skilað miklum árangri. Sá árangur verður ekki einungis mældur í fjölda samþykktra Staðardagskrárskjala eða undirritun Ólafsvíkuryfirlýsingarinnar.

Árangur starfsins endurspeglast ekki síður í umræðunni í samfélaginu, bæði meðal fólksins í landinu, í atvinnulífinu og hjá stjórnvöldum.

Að mati ráðuneytisins er brýnt að halda samstarfinu um Staðardagskrá 21 áfram. Í stefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga er sú skoðun einnig ríkjandi. Þar kemur meðal annars fram markmið um að Staðardagskrá 21 eigi að verða „grunntónn í starfi sveitarfélaganna".

Til að tryggja að starfið nýtist sveitarfélögunum og fólkinu í landinu sem best hlýtur skipulag þess þó að vera í stöugri endurskoðun.

Aukin áhersla á heildarsýn, þverfaglega hugsun og langtímasjónarmið bera glöggt vitni um hvernig hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar er smátt og smátt að síast inn í daglegt líf okkar, orð og gjörðir.

Við Íslendingar getum verið stoltir af starfi okkar að sjálfbærri þróun, ekki síst því starfi sem sprottið hefur upp úr Staðardagskrá 21. Árangur okkar og þrautseigja hefur vakið athygli út fyrir landsteinana.

Í haust verður efnt til stórrar norrænnar ráðstefnu um Staðardagskrá 21 á Norðurlöndum. Athygli vekur hversu stóru hlutverki Íslendingar gegna við undirbúning hennar. Á liðnu hausti vann sérstakur hópur að því að móta áherslur og tillögur Íslands um dagskrá ráðstefnunnar. Í framhaldi af þeim tillögum var Íslandi falið að stýra þeim hluta ráðstefnunnar sem fjallar um sjálfbæra þróun í fámennum byggðarlögum.

Það er jafnframt mjög ánægjulegt að forstöðumaður Agenda 21 stovunnar í Færeyjum er kominn alla leið hingað í Reykholt til að fylgjast með umræðunni og ræða við þá sem vinna að málefnum sjálfbærrar þróunar í íslenskum sveitarfélögum. Færeyingar og Íslendingar búa að ýmsu leyti við svipuð skilyrði og þessar tvær þjóðir hafa mörgu að miðla hvor annarri.

Eitt aðalumfjöllunarefni þessarar ráðstefnu eru áherslur stjórnmálaflokkanna á Staðardagskrá 21 í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga.

Það verður áhugavert að fylgjast með umræðu um þau mál hér á eftir. Ég tel mjög mikilvægt að sjálfbær þróun skipi traustan sess í stefnuskrám allra stjórnmálaflokka.

Ljóst er að markmiðum sjálfbærrar þróunar verður þó ekki náð eingöngu með stefnu stjórnvalda á hverjum tíma.

Dagskrá þessarar ráðstefnu ber því glöggt vitni að hugsunin um sjálfbæra þróun hefur skotið rótum í þjóðfélaginu og bæði atvinnulífið, margar stofnanir og félagasamtök hafa mótað sér stefnu í anda sjálfbærrar þróunar.

Þau erindi sem hér verða flutt koma úr ólíkum áttum og verður fróðlegt að hlýða á hvernig unnið er að sjálfbærri þróun í viðskiptalífinu, í kirkjunni og í neytendasamtökum svo dæmi séu nefnd.

Góðir ráðstefnugestir,

Um þessar mundir fer fram endurskoðun á stefnu ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun. Drög að henni voru kynnt á umhverfisþinginu í nóvember sl. Verið er að vinna úr umsögnum sem bárust eftir þingið og verður haft samráð við fulltrúa sveitarfélaganna áður en stefnan fer til umfjöllunar og afgreiðslu í ríkisstjórn.

Mótun framtíðarsýnar í anda sjálfbærrar þróunar er krefjandi en jafnframt heillandi verkefni. Því verða ekki gerð skil í stefnumörkun stjórnvalda í eitt skipti fyrir öll heldur er það lifandi verkefni sem stöðugt verður að taka mið af breyttum aðstæðum og viðhorfum.

Kjarninn í sjálfbærri þróun er sá að samfélagið allt skynji ábyrgð sína og leggi sitt af mörkum til tryggja möguleika komandi kynslóða til að búa við sambærileg eða betri lífsgæði og við gerum nú.

Þið sem starfið að Staðardagskrá 21 gegnið lykilhlutverki við að styrkja vitund fólks í ykkar heimabyggðum um mikilvægi sjálfbærrar þróunar. Það er von mín að umræður hér á ráðstefnunni verði ykkur gott veganesti í því starfi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum