Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. apríl 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á málþingi um svifryk í Reykjavík

Ráðherra við opnun málþings um svifryks
Opnun málþings um svifryk.

Ágætu áheyrendur

Ísland er þekkt fyrir hreint og heilnæmt andrúmsloft og ýmislegt bendir til að andrúmsloftið á Íslandi hafi almennt farið batnandi á síðustu árum, eins og meðal annars má lesa um í ritinu Tölulegum vísbendingum sem umhverfisráðuneytið gaf út síðast liðið haust. Þrátt fyrir þetta þurfum við að taka á einstökum þáttum og það málefni sem hér er til umræðu í dag, þ.e. svifryksmengun í þéttbýli, er þar ofarlega á blaði. Almenningur lætur sig þessi mál skipta, enda hefur svifryksmengun bein áhrif á heilsufar og vellíðan fólks og snertir þar með alla landsmenn, sérstaklega þá sem búa í þéttbýli.

Svifryksmengun hér á landi hefur mest verið rannsökuð á höfuðborgarsvæðinu og hafa gatnamálastjóri og Umhverfissvið Reykjavíkurborgar sýnt verulegan metnað á þessu sviði. Á grundvelli gagna sem unnið hefur verið úr á sl. 4-5 árum höfum við í dag nokkuð haldgóða mynd af efnasamsetningu svifryks í Reykjavík. Ennfremur kemur fram mjög athyglisvert samspil svifryksmengunar og veðurfars, einkum úrkomu, í nýlegri skýrslu Umhverfisstofnunar og Umhverfissviðs Reykjavíkur sem unnin var fyrir nefnd Umhverfisráðuneytisins um rykmengun á höfuðborgarsvæðinu og kynnt verður hér á eftir. Í skýrslunni má greinilega sjá að með aukinni úrkomu dregur úr svifryksmengun.

Mikið er í húfi að svifryksmengun sé sem minnst. Þeir einstaklingar sem glíma við lungna- og astmasjúkdóma geta orðið fyrir miklum óþægindum þá daga sem svifryksmengun er í hámarki og langtímaáhrifin á heilsufar annarra geta einnig verið alvarleg.Gestir á málþingi um svifryk í Norræna húsinu 24. apríl.

Samkvæmt rannsókn á samsetningu svifryks í Reykjavík er ríflega helmingur þess malbiksagnir og fjórðungur jarðvegsagnir. Á höfuðborgarsvæðinu hverfa þúsundir tonna af malbiki upp í loftið árlega og þetta kallar á háar fjárhæðir í viðhald og endurbætur á slitlagi gatnakerfisins. Það er því ljóst að svifryksmengun snertir bæði heilsu, vellíðan og fjármál alls almennings.

Íslendingar stefna að því að draga umtalsvert úr svifryksmengun á næstu árum. Tilskipunin Evrópusambandsins um loftgæði, sem er í gildi hér á landi, kveður á um að leyfileg efri mörk svifryksmengunar verði umtalsvert minni árið 2010 en þau eru nú. Áfram þarf að vinna skipulega á þessu sviði til að ná markmiðinu og það þarf meðal annars að halda áfram rannsóknum á svifryki. Þó að þekking okkar á þessu viðfangsefni hafi aukist mjög á allra síðustu misserum og árum skortir engu að síður nokkuð á að við getum fullyrt um áhrif tiltekinna aðgerða sem hugmyndir kunna að vera uppi um að grípa til.

Nagladekkin eru áhyggjuefni í þessu efni og ljóst að þau slíta malbikinu hraðar en venjuleg dekk. Æskilegt væri þess vegna að fólk drægi úr notkun þeirra og full ástæða að hvetja til þess. Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að raunhæft geti verið að banna notkun nagladekkja eins og stundum hefur verið rætt enda eru nagladekkin nauðsynlegt öryggistæki þegar ekið er um landið að vetrarlagi.

Meðal aðgerða sem ég tel að gætu verið raunhæfur kostur til að draga úr svifryksmengun í þéttbýli eru hreinsun gatna og stýring umferðar. Lítið hefur verið gert af því að þvo götur hér á landi, en ástæða er til að ætla að með því að bæta úr þessu og hreinsa reglulega helstu umferðaræðar megi draga talsvert úr svifryksmengun.

Ég tel að með raunhæfu átaki gegn svifryksmengun samhliða frekari rannsóknum á þessu sviði eigi að vera hægt að stórbæta loftgæði í þéttbýli hér á landi og tryggja með því að landið verði áfram þekkt fyrir hreint og heilnæmt andrúmsloft. Ég bind vonir við að þetta málþing skili okkur nokkuð fram á veginn í þessu efni.

Að svo mæltu set ég málþing um svifryksmengun.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum