Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. október 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ræða Jónínu Bjartmarz umhverfisráðherra í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á Alþingi

Frú forseti. Góðir landsmenn. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi þingsályktunartillögu um náttúruvernd sem nær til ársins 2008. Með náttúruverndaráætlun er lagður grundvöllur að markvissri verndun náttúru Íslands. Hún markar fyrsta skrefið í þá átt að koma á fót skipulögðu neti verndarsvæða hér á landi sem byggist annars vegar á rannsóknum og vísindalegri þekkingu á náttúru landsins og hins vegar á faglegu mati á verndargildi svæða. Síðustu tvö árin hefur verið unnið að framgangi friðlýsingar 14 svæða. Einnig hafa Guðlaugstungur og Álfgeirstungur norðan Hofsjökuls verið friðaðar sem þýðingarmikið votlendis- og rústasvæði á hálendi landsins.

Við skulum hafa það hugfast að náttúruvernd er eitt form landnýtingar. Það er mikil einföldun að ætla að við stjórnmálamenn getum nánast í hálfkæringi teiknað inn ný friðlönd og þjóðgarða á kort og tilkynnt síðan að þetta eða hitt svæðið skuli friðað, ekki ósvipað og valdamenn heimsins drógu hugsunarlítið ný landamæri inn á heimskortið í lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. Hvers kyns aðkoma ríkisvaldsins að landnýtingu kallar á samráð við hagsmunaaðila, viðkomandi sveitarfélög, landeigendur, íbúa og aðra þá sem kunna að hafa bein not eða ánægju af landinu og náttúru þess. Það krefst víðtæks samráðs að ná niðurstöðu sem sátt ríkir um.

Eitt þeirra svæða á náttúruverndaráætlun sem ég hyggst beita mér fyrir að verði að veruleika er friðlýsing Skerjafjarðar í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Í fjörum og grunnsævi þessa þéttbýlasta og fjölmennasta svæðis landsins er að finna fjölbreytt fuglalíf árið um kring. Hér í fordyri höfuðborgarinnar, ef svo má segja, er afar mikilvægur viðkomustaður farfugla svo sem margæsar og rauðbrystings og fleiri tegunda sem hafa alþjóðlegt verndargildi.

Vatnajökulsþjóðgarður sem oft hefur verið nefndur í þessari umræðu er jú stærsta verkefnið sem unnið er að í náttúruvernd. Undirbúningur hefur tekið langan tíma og forverar mínir í umhverfisráðuneytinu, síðast Sigríður Anna Þórðardóttir, hafa unnið ötullega að þessu máli. Náið samráð hefur verið haft við marga, ekki síst viðkomandi sveitarstjórnir og landeigendur þess lands sem er í einkaeign og áhugi er á að verði hluti þjóðgarðsins. Gert er ráð fyrir að Jökulsá á Fjöllum og áhrifasvæði eldsumbrota norðan og sunnan jökuls verði hluti þjóðgarðsins og myndi órofa landslagsheild.

Fyrir utan það meginmarkmið að leggja grunn að verndun einstakrar náttúru Vatnajökuls og umhverfis hans skapast um leið nýir möguleikar í ferðaþjónustu og byggð við þjóðgarðinn. Í samantekt Rögnvaldar Guðmundssonar ferðamálafræðings kemur fram að þjóðgarður af þessari stærðargráðu með mikið aðdráttarafl gæti skapað 4 milljarða í auknar gjaldeyristekjur. Ég hyggst nú á haustþingi mæla fyrir frumvarpi hér á hinu háa Alþingi um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs.

Vatnsafl og jarðvarmi eru ekki einu auðlindir okkar heldur jafnframt ósnortin náttúra og víðerni landsins. Hluti hennar er til þess fallinn að afla okkur verulegra tekna en aðrir hlutar, einstakir og viðkvæmir, eru nær einungis til þess að eiga og njóta og um þessa skiptingu þarf að nást víðtæk sátt. Það má ekki stilla þjóðinni upp í fylkingar með eða á móti. Hatrömm innbyrðis átök um náttúruvernd og auðlindanýtingu skaða okkur öll og það skaðar þjóðarsálina. Við eigum að hagnýta auðlindir okkar af fullri virðingu við umhverfi okkar og náttúru og við verðum að læra bæði að nýta og njóta.

Eitt þeirra svæða sem ágreiningur hefur ríkt um er friðlandið í Þjórsárverum og Norðlingaölduveita. Ég lét þess getið fljótlega eftir að ég tók við embætti umhverfisráðherra að nú væri svo komið í orkuöflunarmálum þjóðarinnar og viðhorfum almennings að réttast væri að láta af öllum frekari orkunýtingaráformum sem snerta þetta svæði og stækka friðlandið þannig að það nái til alls votlendis við Þjórsá og Þjórsárkvíslar. Því hef ég í samráði við sveitarfélögin Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Ásahrepp ákveðið að skipa undirbúningshóp um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum og að hópurinn komi jafnframt með tillögur að nýjum friðlýsingarskilmálum fyrir þetta viðkvæma svæði. Við þurfum að vanda til stefnumótunar og áætlanagerðar um landnýtingu, samræma áætlanir á ýmsum sviðum með tilliti til skipulagsvalds og skipulagsákvarðana sveitarfélaga og útfæra stefnu stjórnvalda um sjálfbæra þróun í skipulagi sem nær til landsins alls. Vönduð stefnumótun og skýr framtíðarsýn á að vera leiðarljós okkar inn í framtíðina. Við í Framsóknarflokknum viljum taka þátt í og hvetja landsmenn til samvinnu um þessi mál þar sem markmiðið er að horfa fram á veginn, bæta mannlíf og búsetuskilyrði í okkar einstaka landi.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum