Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Loftslagsráðstefna SÞ hafin í Nairobi

Við setningu tólfta fundar aðildarríkja loftslagssamnings Sþ í Nairobi í gær.
Í Nairobi

Tólfti fundur aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna hófst í Nairobi í Kenía í gær og stendur í tvær vikur. Fundurinn er jafnframt annar aðildarríkjafundur Kýótó-bókunarinnar. Á fundunum verður rætt um hvað taki við í loftslagsmálum þegar fyrsta tímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012 og endurskoðun bókunarinnar undirbúin.

Kivutha Kibwana, umhverfisráðherra Kenía og forseti fundarins vakti sérstaka athygli á þeirri hættu sem ríki Afríku stafaði af þurrkum og uppskerubrestum í kjölfar loftslagsbreytinga. Umhverfisráðherrann hvatti þingfulltrúa til að ná saman um aðgerðir til að aðstoða þróunarríki við að laga sig að breyttum veðurskilyrðum. Búist er við því að á fundinum verði ákveðið hvernig úthlutunum úr aðlögunarsjóði loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna verður háttað. Þá er þess vænst að á fundinum beinist sjónir manna sérstaklega að uppbyggingu á sviði tækni og þekkingar í þróunarríkjum og að sameiginlegum verkefnum iðnríkja og þróunarríkja við bindingu gróðurhúsalofttegunda. Einnig verður farið yfir árangur aðildarríkja Kýótó-bókunarinnar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Fulltrúar 189 ríkja sitja fundinn í Nairobi, eða um 5.000 manns. Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra er formaður íslensku sendinefndarinnar og situr ráðherrafund loftslagssamningsins 15. – 17. nóvember. Hugi Ólafsson skrifstofustjóri og Óttar Freyr Gíslason sérfræðingur sitja fundinn fyrir Íslands hönd af hálfu umhverfisráðuneytisins.

Frekari upplýsingar um fundina má nálgast á heimasíðu loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum