Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. nóvember 2006 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Aðgerðir Íslands til að draga úr loftslagsbreytingum

JoninaBj0104
Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra

Nú stendur yfir í Nairobi í Kenía tólfti fundur aðildarríkja loftslagssamnings Sameinuðu þjóðanna. Fundurinn er jafnframt annar aðildarríkjafundur Kýótó-bókunarinnar. Á fundunum eru saman komnir fulltrúar 189 ríkja sem munu reyna að ná saman um hvað taki við baráttunni við að draga úr áhrifum mannkyns á loftslagið þegar fyrsta tímabili Kýótó-bókunarinnar lýkur árið 2012.

Stuðningur við þróunarríki

Vonast er til að þingfulltrúar nái saman um aðgerðir til að aðstoða þróunarríki við að laga sig að breyttum veðurskilyrðum auk þess sem sjónir manna beinast að uppbyggingu á sviði tækni og þekkingar í þróunarríkjum og að sameiginlegum verkefnum iðnríkja og þróunarríkja við bindingu gróðurhúsalofttegunda. Einnig verður farið yfir árangur aðildarríkja Kýótó-bókunarinnar við að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.

Íslensk stjórnvöld lögðu fram sín sjónarmið í upphafi þessara samningaviðræðna. Þar kemur m.a. fram að Ísland telur alþjóðlega samvinnu nauðsynlega til að takast á við loftslagsvandann og að þróuð ríki eigi áfram að vera leiðandi í þeirri baráttu, en þó hljóti einnig að þurfa að skoða leiðir til að beina efnahagsþróun ört vaxandi þróunarríkja inn á loftslagsvænni brautir. Einnig eigi að leita leiða til þess að auka ábyrgð fyrirtækja og atvinnulífsins til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda; slíkt sé nauðsynlegt í heimi hnattvæðingar.

Árangur á heimavelli

Flestir þættir stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar frá 2002 um ráðstafanir til að standa við skuldbindingar Loftslagssamningsins og Kýótó-bókunarinnar hafa komið til framkvæmda með einhverjum hætti. Þar má m.a. nefna nýtt olíugjaldskerfi sem kom til framkvæmda á liðnu ári og á að leiða til þess að hlutur lítilla díselbifreiða í bílaflotanum muni aukast og þannig draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í umferðinni. Vörugjöld hafa verið felld niður af loftslagsvænum ökutækjum, s.s. rafbílum og vetnisbílum og lækkuð af svokölluðum tvíorkubifreiðum. Þessi afsláttur átti að gilda til áramóta en ríkisstjórnin hefur nýlega ákveðið að framlengja hann. Þá tókst átak stjórnvalda um aukna bindingu kolefnis með landgræðslu og skógrækt vel og aðrar aðgerðir eins og söfnun og notkun metangass á vegum Sorpu og rannsóknarverkefni á sviði vetnistækni og bættrar orkunýtingar í skipum hafa notið stuðnings stjórnvalda. Þess má geta að alþjóðlegu samtökin The Climate Group hafa séð ástæðu til þess að veita Íslandi viðurkenningu fyrir árangur í loftslagsmálum.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá iðnaði hefur hlutfallslega mikil áhrif á heildarlosun hér á landi. Þess vegna voru sett mjög ströng viðmiðunarmörk um losun flúorkolefna frá álverum í loftslagsstefnu ríkisstjórnarinnar. Bæði álverin sem nú starfa á Íslandi hafa náð þessum viðmiðunarmörkum. Ef litið er til þess að orkuframleiðsla hér á landi leiðir ekki til losunar gróðurhúsalofttegunda þá er óhætt að fullyrða að losun gróðurhúsalofttegunda á tonn af framleiddu áli á Íslandi er með því allægsta sem þekkist í heimi, ef ekki sú lægsta.

Lausn byggist á samstarfi

En þótt vel hafi tekist til fram að þessu þá er full ástæða til að gera betur. Nú er að störfum samráðsnefnd ráðuneyta um loftslagsmál, sem í eiga sæti fulltrúar sjö ráðuneyta auk umhverfisráðuneytisins. Nefndin vinnur nú að endurskoðun stefnumörkunar ríkisstjórnarinnar frá árinu 2002 og sú vinna er langt komin. Von á að niðurstaða hennar verði kynnt innan skamms.

 

Mikið hefur farið fyrir umræðu um loftslagsmál á vettvangi umhverfisráðherra Norðurlandanna og þar hef ég tekið undir þá skoðun að aðgerðir til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda séu komnar of skammt á veg og að veðurfarsbreytingar séu nú þegar staðreynd. Þess vegna hef ég meðal annars lagt til að Norðurlöndin komi á fót samnorrænu loftslagslíkani sem gerir vísindamönnum betur kleift að spá í og rannsaka breytingar á loftslagi norðurslóða. Norrænu umhverfisráðherrarnir samþykktu að fela Íslandi og Noregi að skoða þessa hugmynd í sameiningu og taka málið aftur upp á þessum vettvangi.

 

Loftslagsmálin eru alheimsmál og þýðingarmiklum aðgerðum til að stemma stigu við losun gróðurhúsalofttegunda verður ekki komið á nema í samstarfi þjóða heims. Nairóbífundurinn er mikilvægur áfangi í átt til frekara samkomulags.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum