Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. febrúar 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Hvernig ökum við í átt að vistvænni framtíð

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra
Á Grand Hótel

Ágætu ráðstefnugestir !

Ég vil þakka Metan hf og Sorpu bs fyrir það tækifæri að fá að ávarpa þessa ráðstefnu hér í dag í tilefni 10 ára afmælis gassöfnunar í Álfsnesi.

Sjálf átti ég þess kost að sjá með eigin augum í Álfsnesi skömmu fyrir jól hvernig nýtanlegt metangas er virkjað úr sorphaugunum. Þeir Björn Halldórsson, Ögmundur Einarsson ásamt Ingu Jónu stjórnarformanni leiddu mig heim um allan sannleik þessarar nýtingar.

Metangas er ein gróðurhúsalofttegundanna svonefndu sem valda loftslagsbreytingum og hefur metan á síðustu 100 árum verið rúmlega 20 sinnum virkari lofttegund en koltvísýringur þegar kemur að gróðurhúsaáhrifunum, þegar horft til sömu eininga þessara gastegunda. Metan verður til eins og kunnugt er við lífrænt niðurbrot, það er eldfimt og því má slá tvær flugur í einu höggi með nýtingu þess, þ.a. að koma í veg fyrir að það sleppi óhindrað út í andrúmsloftið og hins vegar nýting þess sem orkugjafa. Aðrir munu lýsa hér á eftir margvíslegum nýtingarmöguleikum metnagass, en ég ætla þess í stað að snúa mér að loftslagsmálum almennt.

Niðurstöður 4. skýrslu Vísindanefndar Sameinuðu þjóðanna (IPCC), sem kynnt var fyrir stuttu, marka ákveðin tímamót í loftslagsumræðunni, á þann hátt að aldrei hafa vísindamenn talað jafn afdráttarlaust um að loftslagsbreytingar eigi sér stað, hlýnun andrúmsloftsins mun halda áfram og það eru athafnir mannsins sem eru stærsti orsakavaldurinn þar að baki.

Ef einhver er eftir sem hefur viljað nota efa vísindamanna um eðli og umfang loftslagsbreytinga sem afsökun til að ýta þeim málum til hliðar, þá byggir slíkur málflutningur ekki á sterkum grunni í ljósi hinnar nýju skýrslu IPCC. Engar aðrar og betri niðurstöður eru fáanlegar í dag.

Spurningin sem vaknar við skýrsluna er svo auðvitað: Hvað getum við gert til að draga úr loftslagsbreytingum og hvað ætlum við að gera? Hlýnun andrúmsloftsins er hnattrænt vandamál og kallar á sameiginlegt átak ríkja heims. Hvað Ísland varðar, þá liggur það skýrt fyrir að við erum virk í alþjóðlegri baráttu gegn loftslagsbreytingum, við erum aðilar að Kýótó-bókuninni og munum standa við skuldbindingar okkar þar.

Við skulum hafa það í huga að loftslagsvandinn er fyrst og fremst orkuvandi heimsins. Til þess að uppfylla orkuþörf jarðarbúa er daglega brennt gríðarlegu magni eldsneytis, olíu, jarðgass, kola og jarðargróðurs. Um 70% orkuöflunar kemur frá endurnýjanlegum og hreinum orkugjöfum en einungis 30% orku okkar Íslendinga kemur frá innfluttu eldsneyti.

Ísland hefur því um margt sérstöðu hvað varðar baráttuna gegn loftslagsbreytingum. Þar er helst að nefna gnótt endurnýjanlegra orkulinda, en ekkert ríki stendur jafn vel hvað þennan þátt varðar. Nýting þessara orkulinda til innanlandsnotkunar eða útflutningsiðnaðar er jákvæð út frá loftslagssjónarmiðum, á því er enginn vafi, þótt nýtingin stangist á við náttúruverndarsjónarmið. Útflutningur á hugviti, tækni og þekkingu á sviði endurnýjanlegra orkulinda er líklega þyngsta lóðið sem Íslendingar geta lagt á vogaskálar baráttunnar gegn loftslagsbreytingum.

Miklir möguleikar felast í vísindarannsóknum tengdum loftslagsbreytingum á Íslandi, hvort sem um er að ræða vöktun á náttúrufari, s.s. á jöklafari og hafstraumum, eða innleiðingu nýrrar loftslagsvænnar tækni, s.s. á sviði vetnis og annars loftslagsvæns eldsneytis, jarðvarmanýtingar og bindingu kolefnis í jarðvegi eða jafnvel í berglögum.

Besta lausnin á heimsvísu frá flestra sjónarhóli er að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi með aukinni notkun endurnýjanlegra orkugjafa, en einnig skiptir miklu máli að nýta eldsneyti betur og minnka orkusóun. Engin ein leið, eins konar patent lausn er til. Enginn einstaklingur, ekkert eitt ríki eða einn einstakur þáttur samfélagsgerðarinnar getur leyst loftslagsvandann. Þar dugir ekkert annað en samstaða og samstarf okkar allra og allra ríkja heimsins og aðgerðir munu snerta alla kima efnahagsstarfsemi heimsins. Lofthjúpur jarðar og ástand hans er á sameiginlegu forræði og ábyrgð okkar allra.

Ég mun á næstunni kynna nýja stefnu í loftslagsmálum, sem byggir á þeirri stefnu sem nú er unnið eftir frá árinu 2002. Sú nýja sem unnin er í góðu samstarfi 8 ráðuneyta horfir lengra fram á veginn.

Við eigum að taka þetta viðfangsefni okkar alvarlega og föstum tökum. Framtak Sorpu bs. og Metan hf. er einn liður á þeirri vegferð og ráðstefnan hér í dag, sem Olíufélagið ehf. stendur einnig að, er líkleg til að verða uppspretta hugmynda og möguleika á tæknilausnum og nýjungum sem allar vinna að því að unnt verði að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda án þess að það þurfi að bitna á lífsgæðum.

Ég hefði einnig viljað nefna hér loftgæði og leiðir í samgöngum til að draga úr svifryki og eins áhuga minn á því að gera almenningssamgöngur að raunhæfum valkosti í samstarfi sveitarfélaga og ríkis, en það bíður seinni tíma ávarpið á að vera stutt svo ég nem hér staðar og óska ykkur öllum velgengni í störfum ráðstefnunnar



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum