Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfisráðherra á ráðstefnu slökkviliðsstjóra 2007

Ágætu slökkviliðsstjórar og aðrir áheyrendur Það er mér mikil ánægja að fá að vera hér með ykkur í dag og ávarpa ykkur í upphafi þessarar árlegu ráðstefnu slökkviliðsstjóra á Íslandi.

Fyrir rúmu ári síðan ákváðu umhverfisráðuneytið og Brunamálastofnun að andvirði 100 milljóna króna skyldi varið til kaupa á ýmsum búnaði fyrir slökkvilið landsins og það er sérstaklega ánægjulegt að sjá að þetta verkefni er nú komið á fullt skrið. Á ráðstefnu slökkviliðsstjóra fyrir réttu ári síðan var rætt um hvernig þessu fé skyldi ráðstafað og mér skilst að þar hafi verið mikill einhugur meðal slökkviliðsstjóra. Og hér í dag munu slökkviliðsstjórar aftur mynda vinnuhópa sem síðan koma með tillögur að nánari ráðstöfun og samrekstri þess búnaðar sem nú hefur verið keyptur.

Í fyrsta lagi er um að ræða 18 kerrur með búnaði til viðbragðs við mengunarslysum og eiturefnaslysum. Í öðru lagi 10 kerrur með reykköfunartækjum og loftbanka. Fyrstu kerrurnar voru afhentar í gær og dagskrá ráðstefnunnar gerir ráð fyrir að ykkur gefist tækifæri til að skoða þær síðar í dag. Í þriðja lagi er um að ræða aukinn búnað vegna stærri mengunar- og eiturefnaslysa, en það er þyrlutækur búnaður sem vistaður er hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins og hjá Slökkviliði Akureyrar. Í fjórða lagi var fjárfest í æfingagámum fyrir slökkvilið og 7 slíkum gámum dreift víða um landið. Og í fimmta lagi var fjárfest í 20 fartölvum sem búnar eru sérstökum gagnagrunnum fyrir eldvarnaeftirlit, en þessum búnaði er ætlað að efla hið mjög svo mikilvæga forvarnastarf slökkviliðanna.

Ég held að það sé óhætt að fullyrða að hér sé á ferð stærsta einstaka átakið hér á landi til að efla eldvarnir og viðbúnað vegna mengunarslysa. Það er von mín að slökkviliðin muni styrkjast vegna þessa átaks og ég er fullviss um að almenningur muni njóta góðs af þegar fram líða stundir.

Ýmsar aðrar breytingar eru að verða í framkvæmd brunavarna hér á landi. Þann 1. mars var ég þess heiðurs aðnjótandi að fá að opna nýtt húsnæði Brunamálaskólans á Miðnesheiði. Þessi mikilvægi skóli hefur nú loks fengið fast aðsetur og þar með skapast auknir möguleikar til að styrkja og byggja upp aðstöðu til menntunar og þjálfunar slökkviliðsmanna. Í nágrenni skólans er fyrirtaks aðstaða til allskyns verklegrar kennslu, svo sem kennslu í neyðarakstri, reykköfun, björgun úr bílflökum, viðbragði við mengunarslysum og slökkvistarfi almennt. Ég sé í dagskrá ráðstefnunnar að þið fáið tækifæri til að heimsækja skólann á morgun. Eins munið þið heimsækja Slökkvilið Keflavíkurflugvallar, en nú er það skilgreint sem íslenskt slökkvilið, og kannski sérstök ástæða til að bjóða slökkviliðsstjóra þess liðs velkominn í þennan hóp.

Undanfarin ár hefur farið fram í umhverfisráðuneytinu mikil vinna við heildarendurskoðun skipulags- og byggingarlaga og var unnið frumvarp til laga um mannvirki sem ég lagði fram á Alþingi í lok síðasta mánaðar. Frumvarpið náð því miður ekki fram að ganga á þessu þingi, en mun hafa mikil áhrif á stjórnsýslu á sviði brunamála. Þar er lagt til að sett yrði á fót Byggingarstofnun, sem hafi yfirumsjón með stjórnsýslu mannvirkjamála, þar með talið þeim verkefnum sem Brunamálastofnun sinnir nú. Áfram er þó gert ráð fyrir að ábyrgð á beinu eftirliti með byggingu mannvirkja verði í höndum byggingarfulltrúa sveitarfélaganna en að eitt af meginverkefnum Byggingarstofnunar verði að tryggja samræmt byggingaeftirlit um allt land. Svipuðu hlutverki hefur Brunamálastofnun sinnt hvað brunamál snertir.

Í lok yfirstandi þings var samþykktar breytingar á lögum um brunavarnir sem umhverfisnefnd Alþingis lagði fram að beiðni umhverfisráðuneytisins. Frumvarpið var byggt á tillögum umhverfisráðherra og Brunamálastofnunar. Í frumvarpinu hefur verið skerpt á ákvæðum laga um brunavarnir varðandi heimildir slökkviliðs til aðgerða vegna ólögmætrar búsetu og um ábyrgð eiganda húsnæðis. Eigendur húsnæðis þar sem nú er ólögmæt búseta geta fengið frest til að koma sínum málum í löglegt horf. Slökkvilið um land allt mun kanna umfang slíkrar búsetu og gera kröfur um nauðsynlegar úrbætur. Fáist ekki leyfi til búsetu í húsnæðinu að því loknu er skylt að rýma það eigi síðar en 1. mars 2009. Í nóvember 2004 varð stórbruni á athafnasvæði fyrirtækisins Hringrásar í Reykjavík þegar eldur kviknaði í miklum hjólbarðabirgðum á lóð fyrirtækisins. Í kjölfar brunans óskaði umhverfisráðherra eftir úttekt Brunamálastofnunar á atburðinum og skilaði stofnunin skýrslu til ráðherra í janúar 2005. Gerði stofnunin ýmsar tillögur til úrbóta, meðal annars á lögum um brunavarnir, í því skyni að draga úr líkum á því að slík atvik endurtaki sig. Taldi stofnunin að skýra þyrfti heimildir eldvarnaeftirlits til að hafa eftirlit með og afskipti af brunavörnum á lóð og öðrum svæðum utan dyra þar sem eldhætta gæti skapast. Enn fremur taldi stofnunin að auka þyrfti upplýsingaflæði milli heilbrigðiseftirlits annars vegar og eldvarnaeftirlits hins vegar. Gerðar hafa verið breytingar á lögum um brunavarnir sem taldar var nauðsynlegar að gera vegna þessa.

Brunamálastofnun tók formlega til starfa þann 1. janúar árið 1970 og þetta er því 37. starfsár stofnunarinnar. Það ræðst af vilja þess Alþingis sem kjöri verður í vor hvort Byggingastofnun í einhverri mynd muni leysa Brunamálastofnun af hólmi eins og frumvarp það sem ég lagði fram gerir ráð fyrir. Með því skapaðist sterkari og stærri stofnun, og í mínum huga leikur ekki vafi á því að slík stofnun geti haft enn meiri burði til að standa vel að brunamálum í landinu og muni reynast slökkviliðsstjórum landsins enn sterkari bakhjarl en nú er.

Að lokum vona ég að ráðstefnudagarnir tveir muni reynast ykkur lærdómsríkir og vil óska ykkur farsældar í hinum mikilvægu störfum ykkar í þágu öryggis fólksins í landinu. Takk fyrir



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum