Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. mars 2007 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tilraun verður gerð til að draga Wilson Muuga af strandstað

Jónína Bjartmarz umhverfisráðherra kynnir samkomulagið fyrir fjölmiðlum.
Við Hvalsnes á Reykjanesi

Tekist hefur samkomulag milli íslenska ríkisins og eigenda Wilson Muuga um að gerð verði tilraun til að ná skipinu af strandstað.

Umhverfisstofnun hefur unnið fram til þessa í samræmi við ákvæði laga um varnir gegn mengun hafs og stranda til þess að koma í veg fyrir tjón af völdum brennsluolíu skipsins. Þeim árangursríku aðgerðum er nú lokið. Áfallinn kostnaður vegna þessara aðgerða er um 69 milljónir króna.

Í kjölfarið hafa eigendur skipsins lagt fram aðgerðar- og kostnaðaráætlun um að fjarlægja skipsflakið af strandstað og hefur Umhverfisstofnun fallist á þá áætlun fyrir sitt leyti. Stofnunin og eigendur skipsins telja verulegar líkur á því að hægt sé að draga skipið af strandstað að undangengnum nauðsynlegum undirbúningsaðgerðum. Áætlaður kostnaður, um 40 milljónir króna, mun verða greiddur af eigendum skipsins og íslenska ríkinu. Hlutur ríkissjóðs í kostnaðinum verður 15 milljónir. Andvirði skipsflaksins verður skipt á milli eigenda skipsins og ríkissjóðs að frádregnum kostnaði við flutning þess og sölu í réttu hlutfalli við framlag hvors um sig til verksins.

Eigendur skipsins munu stjórna aðgerðum við strandstað og fulltrúi Umhverfisstofnunar hefur eftirlit með verkinu. Á næstu vikum verður unnið að því að þétta skipið og undirbúa það fyrir flutning af strandstað. Stefnt er að því að skipið verði dregið út á stórstraumsflóði 16. til 18. maí. Komi veður eða aðrar ytri aðstæður í veg fyrir að það sé unnt skal reyna aðgerðir aftur við fyrsta hentuga tækifæri.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum